mánudagur, júní 12, 2006

Sólarvörn

Á morgun flýg ég til Danmerkur. Í fríhöfninni á leiðinni út ætla ég að kaupa mér bestu sólarvörn sem ég veit um, og nota hana óspart á ferðalagi mínu. Meira að segja þótt það verði rigning.

Ferðalagið mitt er þrískipt. Fyrsta tæpa vikan verður í Kolding, heimabæ brennandi flugeldaverksmiðja. Þar tek ég eitt munnlegt próf, og útskrifast (ef guð lofar) á föstudaginn. Eftir það fer ég til Horsens, heimabæ allra helstu glæpamanna Danmerkur, og verð þar í viku hjá Jóa. Ég býst við að sá tími fari í að horfa á HM og sötra bjór, ásamt því að skipuleggja vikuna þar á eftir. Þriðju og síðustu vikunni minni í Danaveldi mun ég nefnilega eyða í Hróarskeldu, heimabæ bestu tónleika-útihátíðar í heimi!

Veðurspáin fyrir næstu vikuna er mjög góð, sem er bæði gott og vont. Auðvitað er alltaf fínt að hafa gott veður, en þeim mun meira gott veður sem er í Danmörku fyrir Hróarskeldu, þeim mun meiri líkur eru að það muni rigna á hátíðinni! Þetta er vísindalega sannað. En það þýðir ekkert annað en að maður mun undirbúa sig extra vel og kaupa sér stígvél og pollagalla og láta svo eins og gamla fólkið í Hoppípolla myndbandinu með SigurRós þegar maður mætir á svæðið.

Ég reyni að blogga amk einu sinni áður en ég fer á hátíðina, læt vita hvernig undirbúningurinn gengur og hvernig mér gekk á prófinu. Bless bless!
Maggi.
blog comments powered by Disqus