mánudagur, janúar 17, 2005

1/3... so far so good!

Jæja, fyrsta alvöru prófið mitt í skólanum var í dag. Þetta var próf úr bæði Business og Communication og var þetta lang mikilvægasta prófið og erfiðasta. Núna alla síðustu viku eftir að ég kom heim var ég að reyna að læra fyrir þetta blessaða próf. Það gekk nú mest lítið fyrr en núna um helgina þegar þetta small allt saman og mér tókst að koma mér inní það sem mér þótti mikilvægt og bjóst við að ég gæti talað um. Þetta var nefnilega munnlegt próf og ekki nóg með það, heldur var þetta fyrsta alvöru munnlega prófið mitt (ef undanskilið er eitt dönskupróf í fjölbraut).

Fyrst hélt ég kynningu í fimm mínútur um verkefnið sem við skiluðum núna í desember og svo spurðu tveir kennarar mig út úr í tíu mínútur, svona spjall um módel sem við notuðum eða notuðum ekki og þá hvers vegna og um fyrirtækið Bang & Olufsen sjálft. Þetta gekk bara mjög vel fyrir utan að mér fannst ég stama svolítið á enskunni enda mikið að segja á litlum tíma og ekki alltaf gott að koma orðum nákvæmlega að því sem maður meinar á þessu business-tungumáli sem maður þarf að tala. Einkuninn var gefin strax og var sambland af skýrslunni sem við gerðum og munnlega prófinu og ég fékk einkunina tíu. Tía í danska kerfinu er ekki það sama og tía heima á Íslandi því hérna getur maður líka fengið ellefu sem er hæsta venjulega einkunn sem er gefin. Ég segi venjulega því það er svo líka hægt að fá þrettán, en sú einkunn er sjaldan eða aldrei gefin! Frekar skrítið kerfi en svona vill Daninn gera þetta. Tíu er semsagt ekki hæst en samt mjög fín einkunn þannig að ég er sáttur.

Þetta er semsagt meginástæða þess af hverju ég hef verið latur bloggari undanfarið, nóg annað að hugsa um. Núna eru tvö próf eftir, eitt í Interaction, sem snýst aðallega um kóðun á heimasíðum, og eitt í Design, sem augljóslega snýst um hönnun. Þessi próf eru á morgun og miðvikudaginn og eru eins upp sett og prófið í dag, semsagt kortérs munnleg próf. En þau eru miklu mun léttari því efnið sem við höfum farið í í þessum fögum er mun minna auk þess sem ég var með fínan grunn í kóðun áður en ég byrjaði í þessum skóla og er varla farinn að læra eitthvað nýtt ennþá í því fagi. Þannig að erfiðasti hlutinn er búinn og núna er bara að mæta í hin prófin og standa sig í þeim.

Já það er aldeilis mismunandi hvað fólk kýs að taka með sér á eyðieyju enda mennirnir misjafnir eins og þeir eru margir. Ég hef aldrei skilið tilganginn með þessari spurningu, finnst þetta ekki veita neitt sálfræðilegt innsæi en kannski er það bara ég. Ég spurði nú bara af því að ég komst inní nýjan þátt þegar ég var heima á Íslandi sem heitir Lost og fjallar um fólk sem lendir í flugslysi og fimmtíu manns bjargast en týnast á eyðieyju. Að sjálfsögðu er þessi þáttur bara í Bandaríkjunum en ég sótti hann á netinu og hef haldið því áfram hér í DK. Mæli með honum fyrir þá sem eru með ágæta nettengingu. Nú eru komnir þrettán þættir og ágætis plott búið að myndast. Vonandi hafa það allir gott heima. Kveðja,
Magnús.
blog comments powered by Disqus