föstudagur, janúar 06, 2006

Tónleikaárið hefst...

Gleðilegt ár! Kannski heldur langt liðið á árið til að koma með þessa kveðju, en betra seint en aldrei. Það hefur verið nóg að gerast um hátíðirnar og ég hef greinilega ekki gefið mér tíma til að blogga. En nú styttist í að fríið verði búið og því er gott að koma sér í gírinn aftur. Ég ætla ekki að þreyta ykkur með upplistun á því hvað á daga mína hefur drifið síðan ég bloggaði síðast. Nægir að segja að jólin hafi verið góð, áramótin þrusu skemmtileg, og nýársTaður var haldinn í tilraunaskyni og fór sú tilraun upp og ofan. Held að jólaTaður sé frekar málið eins og árin tvö á undan.

En tónleikaárið 2006 er að bresta á með pompi og prakt! Í kvöld eru tónleikar í höllinni í boði Toyota þar sem Mínus, Bang Gang, Hjálmar, Brain Police, Hairdoctor og Beatmakin Troopa koma fram. Það voru gefnir miðar útum allar trissur og ég nældi mér í miða með því að hringja inná XFM.

Á morgun eru svo tónleikar gegn virkjunaframkvæmdum sem heita Ertu að verða náttúrulaus? Ég keypti miða í stúku eins og ég skrifaði hér á bloggið fyrr í mánuðinum, og ef við rifjum upp hverjir koma þar fram þá eru það Ham, Damien Rice, Lisa Hannigan, Magga Stína, Múm, Sigur Rós, Hjálmar, KK, Rass, Björk, Ghostigital, Damon Albarn, Egó auk óvæntra uppákoma. Það er aldeilis haldin góð kveðjuveisla fyrir mann ég segi ekki annað! Þetta verður svaka stuð. En það er verið að koma að sækja mig til að fara á fyrri tónleikana. Sjáumst!
Maggi.
blog comments powered by Disqus