Kannastu við að ætla að skrifa bloggfærslu en nennir varla að byrja því það er of margt búið að gerast? Aha, þú giskaðir rétt, þetta er ein af þeim færslum. En ég ætla að láta mig hafa það. Ætli ég þurfi ekki að fara á hundavaði yfir sumt til að einhver nenni að lesa þetta. :)
Vikan mín á Íslandi var virkilega góð. Ég fór á snjóbretti í fyrsta skipti. Tókst ekki að drepa mig þrátt fyrir ítrekaðar (óviljandi) tilraunir en uppskar í staðinn nístandi harðsperrur eins og við var að búast. Annars eyddi ég mestöllum tíma mínum með betri helmingnum mínum og það var æði. Það var erfitt að fara burt. Mjög erfitt meira að segja. En þrátt fyrir að árlegum kveðjustundum hafi fjölgað með þessari heimsókn er ég mjög ánægður með að hafa komið heim.
Á sunnudaginn var fórum ég, Lárelva, Kolla, Birna, Rebekka og Gústi uppí flugvél sem skutlaði okkur til Stóra eplisins, höfuðborgar Empire fylkisins, Nýju Jórvíkur, New York, New York. Þar stoppuðum við Lárelva í tvær nætur og náðum við að sjá ansi mikið á þessum eina og hálfa sólarhring. Nánari útlistun á því má finna á bloggsíðum Láru og Elvu en hápunktarnir að mínu mati voru Empire State byggingin, og að rölta um götur borgarinnar í mannmergðinni.
Á þriðjudaginn (sem var víst í gær! ég trúi því varla að við höfum bara komið hingað í gær, fúff, margt búið að gerast) flugum við svo hingað til San Francisco. David tók á móti okkur á flugvellinum og skutlaði okkur í íbúðina okkar. Við erum mjög ánægð með hana, og hún er að flestu leyti mjög fín. Hún er riiisastór (150 m2), en hún er líka riiisa-skítug. Eldhúsið er virkilega ógeðslegt, en við erum að reyna að lappa uppá þetta. Það fylgdu engin húsgögn fyrir allt þetta rými, en við erum með skápa og bráðabirgða rúm. Dönsku strákunum sem eru hér í starfsnámi með okkur (Paw og Rasmus) vantaði húsnæði og þar sem við erum með nægt pláss þá ákváðum við að leyfa þeim að vera hérna með okkur! Þannig að núna erum við orðin sex saman í einni íbúð. Þetta var ákveðið núna rétt áðan og þeir eru fluttir inn. Núna þurfum við bara að finna okkur slatta af húsgögnum og þrífa allt vel og þá erum við í virkilega góðum málum. Íbúðin er í mjög fínu hverfi, ekki of mikið af heimilislausu fólki hér nálægt (sem er aðal plágan hér í SF, endalaust mikið af betlurum). Annars lýst mér mjög vel á borgina, hún er virkilega falleg og litrík og fólkið er mjög almennilegt.
En það gengur semsagt allt mjög vel, og ég er ánægður með hlutina hérna úti. Við byrjum að vinna fyrir alvöru á mánudaginn og það verður spennandi að sjá hvernig verkefni við munum takast á við. Næstu dagar fara í að koma sér betur fyrir í íbúðinni okkar og hjálpa David við að færa allan búnaðinn hans í nýja sjónvarps-stúdíóið sem hann er að byrja að leigja og setja allt upp. Ég skal reyna að vera duglegur að blogga en ég ætla samt ekki að lofa of mikið uppí ermina á mér! Ég er kominn með símanúmer hér úti og það er +1 415-439-3043. Hafið samt í huga að tímamismunurinn er átta klukkustundir! Þið eruð á undan mér (en ekki segja mér hvað gerist). Stelpurnar eru allar búnar að blogga betur um það sem á daga okkar hefur drifið og setja inn myndir þannig að kíkið endilega á bloggin þeirra, nenni ekki að setja inn linka. :)
Kveðja frá San Francsico,
Magnús Sveinn.
Halló heimur!
Fyrir 2 árum