föstudagur, júní 29, 2007

25. kafli

Þegar við skildum við Magnús síðast var hann í miðjum prófundirbúningi í hitabylgju í Kaupmannahöfn. Það er heldur betur búið að skipast veður í lofti síðan þá. Það er komin rigning. Við skyggnumst inní hugarheim hans...

Já við erum búin að standa í ströngu síðan ég bloggaði síðast. Prófin okkar gengu vel. Við vitum ekki enn hvað við fáum í forritunarprófinu en náum eflaust bæði, við náðum bæði stærðfræði (engin einkunn í því fagi, bara fallið eða náð), og fengum bæði flotta einkunn í stóra lokaprófinu.

Um leið og prófin kláruðust fór að rigna og hefur rignt síðan! Eða því sem næst. Við erum reyndar alveg sátt við það svo lengi sem rigningin teygir sig ekki yfir Hróarskeldu. Veðurspáin er búin að breytast fram og til baka undanfarna daga og við vitum eiginlega ekki við hverju við eigum að búast. En að öllum líkindum verður sitt lítið af hverju, smá rigning, smá sól. Eflaust smá drulla. En bara smá.

Undanfarin vika er búin að fara í að pakka, þrífa og flytja. Og í þessum skrifuðu orðum er allt sem við eigum pakkað, þrifið og flutt! Við erum búin að afhenda lyklana og fá "thumbs up" á þrifin okkar og ástand íbúðarinnar. Kolla, Birna og Camilla voru svo frábærar að geyma allt dótið okkar í sumar og það var flutningabíll frá Rent-A-Wreck sem hjálpaði okkur að flytja dótið til þeirra.

Næst á dagskrá er svo... Hróarskelda! Og við stefnum á að hún verði góð. Vonandi eruð þið heima ekki að drukkna í umferðinni, er búinn að heyra hryllingssögur af undanförnum ferðahelgum. :)

Maggi.
blog comments powered by Disqus