Eins og einhverjir hafa sjálfsagt tekið eftir þá er linkurinn maggi.tk ekki virkur lengur. Í það minnsta sendir hann gestina ekki á bloggsíðuna mína eins og venjan hefur verið undanfarin... tjah... sex ár eða svo. Það er þýsk heimasíða fatafyrirtækisins Espirit sem birtist þegar maggi.tk er slegið inní vafrann. Því legg ég til sjö ára viðskiptabanni allra lesenda þessarar síðu við Espirit og öll möguleg dóttur- og móðurfyrirtæki.
Ástæðan fyrir því að þessi fjandsamlega yfirtaka á léninu mínu átti sér stað er að fyrir rétt rúmum þremur árum borgaði ég fyrir að losna við auglýsingar á síðunni minni. Ég borgaði tæpa 20 dollara fyrir að hafa síðuna án auglýsinga í þrjú ár. Þar sem ég stofnaði þennan aðgang fyrir fjöldamörgum árum síðan þá er hann á mjög gömlu netfangi og það er ástæðan fyrir því að ég fékk engin boð um að endurnýja áskriftina (get ég mér til um). Eitthvað fyrirtæki hefur séð sér leik á borði og stolið undan mér þessu ágæta léni og sankað að sér fleiri tugum gesta í viku hverri. Svona getur fólk verið óprúttið.
Fyrir utan þessa óheppilegu atburðarás, sem verður til þess að ég þarf að breyta nafninu á blogginu mínu, þá er allt gott að frétta. Við skiluðum lokaverkefninu síðasta miðvikudag og vorum bara mjög sátt með það! Því var svo fagnað með ýmsu móti, tónleikum, strandferðum, ferðalagi til Helsingör svo fátt eitt sé nefnt. Í byrjun vikunnar komu svo Halla, Biggi, Bragi Már og Jón Arnar í heimsókn til Köben og voru í tvo daga. Við fórum saman í Tívolí, oft í öll tækin (flestir þorðu í fallturninn), og svo út að borða um kvöldið. Rosalega gaman að fá þau í heimsókn. Takk kærlega fyrir heimsóknina! ;)
Nú á mánudaginn er lokapróf og nú snúast allir dagar um að undirbúa það. Við (ásamt einum öðrum) erum fyrsti hópurinn á önninni sem tekur prófið og það verður voða gott að klára. Við tekur svo að það þarf að mála íbúðina, flytja og þess á milli að vinna í nýju sumarvinnunni minni. Ég hef nefnilega ákveðið að vera "freelancer" í sumar! Er eitthvað annað orð til yfir það á íslensku en "verktaki"? Verktaki hljómar eins og ég sé að taka að mér að byggja tuttugu raðhús í Innri-Njarðvík. Það er ekki það sem ég ætla að gera, heldur mun ég búa til vefsíður, vinna í Flash, og sitt lítið af hverju. Það þýðir að ég get byrjað strax að vinna hér úti, og er reyndar nú þegar byrjaður. Það er tæplega hægt að segja að maður sitji auðum höndum.
maggi (ekki .tk)
Halló heimur!
Fyrir 2 árum