miðvikudagur, nóvember 18, 2009

1000

Þegar ég fer út að hlaupa þá er ég með símann minn í hönd og hlusta á tónlist. Mér finnst mjög skemmtilegt þegar ég er með hann stilltan þannig að ég hlusti á lög af handahófi og Chariots of Fire spilast. Þá líður mér eins og ég ég að klára síðustu 500 metrana í 100 kíómetra ofur-maraþoni og áhorfendur hvetji mig áfram. Sannleikurinn er því miður sá að ég silast áfram af því að ég er ekki í formi, en ekki af því að ég er búinn að hlaupa í tíu klukkutíma. Ég rétt næ að hlaupa fjóra eða fimm og þá er það komið gott. Ég hef farið allt of sjaldan út að hlaupa hér í Hagenberg. Það má telja skiptin á fingrum annarar handar... á manni sem er bara með tvo putta á hvorri hendi. Í bæði skiptin sem ég fór hljóp ég mjög skemmtilegar leiðir, það er svo margt flott að sjá hérna í kring. Það er synd að lang flesta daga sér maður bara “stóru” götuna sem við löbbum í skólann.

Um helgina sáum við reyndar aðeins meira af bænum þegar Nóra systir Óskar og Matti maðurinn hennar komu í heimsókn með dætur sínar þrjár, Nínu Dís, Emilíu Ósk og Önnu Sóleyju. Þá fórum við í göngutúr og fundum flottan leikvöll fyrir aftan grunnskólann í bænum. Það er gaman að systur Óskar búi svona nálægt, þá er dvöl okkar hér einhvernvegin ekki jafn fjarri heimahögunum og hún hefði annars verið.

Í dag þegar við vorum rétt ókomin heim úr skólanum sáum við flugvél á lofti. Það var þota sem skildi eftir sig rák á himninum. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema að við sáum aðra. Og svo aðra. Og aðra. Og aðra. Og aðra. Og aðra. Og aðra. Átta flugvélar á lofti sáum við á sama tíma! Allar skildu þær eftir sig rák þannig að þetta voru allt saman stórar vélar. Við sáum meira að segja eina rák í viðbót en við töldum hana ekki með því hún var gömul og við sáum ekki flugvélina sem bar ábyrgð á henni.

Í kvöld (þriðjudag) buðum við Hannesi og Helene í mat. Við bökuðum handa þeim pítsur og gerðum franska súkkulaðiköku í eftirrétt. Ekki leiðinlegt að koma í heimsókn til okkar! Við hittumst iðulega á þriðjudögum og horfum saman á nýjustu þættina af How I Met Your Mother. Í Ameríkunni eru ansi margir góðir þættir sýndir í sjónvarpinu á mánudagskvöldum sem þýðir að við sem nálgumst þá á netinu höfum nóg að gera á þriðjudögum. Við fylgjumst líka með House, Dexter og Desperate Housewives. Við fylgjumst líka með fleiri þáttum en þetta eru bara þeir sem eru á mánudögum!

Við horfum ansi mikið á þætti í tölvunni. Það kemur líka fyrir að við horfum á þýskt sjónvarp þrátt fyrir að við erum ekki með neitt sjónvarp! Hannes lánaði okkur nefnilega tæki sem heitir EyeTV. Það er pínulítið loftnet sem tengist við tæki sem er eins og USB lykill. Á loftnetinu er segull þannig að maður getur sett það á hvaða hlut sem er úr járni, t.d. ofn, og þá virkar það eins og risa loftnet. Mjög sniðugt. Útsendingin er stafræn og því mjög skýr! Það er verst að ég er ekki með nægan grunn í þýsku til að geta skilið hvað er í gangi. Ég hef þó verið að læra þýsku með því að nota forrit sem Hannes reddaði okkur (já, Hannes er reddarinn okkar því hann er með mjög hraða nettengingu!) sem heitir Rosetta Stone. Með því get ég talað við tölvuna og hún segir mér hvort ég sé að bera þýskuna rétt fram. Maður lærir líka orðaforða, málfræði og nokkurnvegin allt sem maður þarf til að kunna tungumál! Auðvitað gerist það ekki á einum degi, en einhversstaðar verður maður að byrja. Ég er líka í þýskutímum á hverjum miðvikudegi, sem er bara nokkuð skemmtilegt. Ósk prófaði að mæta með mér í fyrsta tímann en eins og við var að búast þá var námsefnið of auðvelt fyrir hana, hún hefur jú lært þýsku og búið í Þýskalandi.

Við söknum þess að búa í Kaupmannahöfn. Auðvitað söknum við Íslands og allra heima á klakanum, en það er alltaf þannig. Það er óvanalegt að við söknum þess að búa í Kaupmannahöfn, nú einfaldlega vegna þess að við erum vön að vera þar! Ætli við séum ekki að átta okkur á að við munum sakna þess að vera þar þegar við flytjum heim til Íslands. Það er margt gott við að búa þar, íbúðin okkar er frábær, við eigum góða vini, borgin er falleg og vingjarnleg (oftast), og veðráttan er voðalega passleg. Ekki of heitt á sumrin og ekki of kalt á veturna. Ef bangsamamma ætti að velja sér borg til að búa í þá myndi hún eflaust velja Köben og Gullbrá myndi pottþétt elta hana þangað.

Við erum mikið að vinna með After Effects þessa dagana, sem mér finnst ekki leiðinlegt! Að vísu erum við mest að stússast í að laga stop-motion myndbandið sem við gerðum, sem þýðir að það er mikil handavinna og ekki mjög skapandi, en það er samt skemmtilegt því After Effects er alveg frábært forrit. Það eru svo margir möguleikar í því til að vinna með hverskyns mynbönd. Mig langar að kunna miklu meira á það. Alltaf þegar ég læri eitthvað nýtt fæ ég á tilfinninguna að ég sé bara að klóra í yfirborðið af því sem er hægt. Nú þurfum við að fara að sinna stóra annarverkefninu okkar betur, sem þýðir að við verðum að vinna með Maya. Svo þurfum við fljótlega að fara að ákveða hvað við ætlum að vinna með í stóra lokaverkefninu okkar á næstu önn! Það styttist heldur betur í annan endann á þessu námi okkar. Bara sjö og hálfur mánuður eftir! Alveg magnað.

Jæja Fjóla, þá er þetta komið gott. Ég ætla ekki að biðja um aðra áskorun því ég held að enginn myndi lesa bloggið mitt ef ég myndi skrifa færslu sem væri tvöþúsund orð, en samt fjallaði ekki um neitt. ;)

Maggi.
blog comments powered by Disqus