Heim
"Ééééeg hlakka svo til! Ég hlakka alltaf svo tiíiil!!"
Það eru að koma jól. Og ég skal snart til Íslands aftur. Sjáiði hvað ég er orðinn danskur! Ég er meira að segja farinn að sletta dönskunni upp um alla veggi. Á fimmtudaginn verð ég hinsvegar kominn aftur á Frónið og þá geta Íslendingar loksins komist í jólaskapið. Týndi sonurinn kominn heim. Að minnsta kosti í bili. Tíunda janúar fer ég aftur til Danaveldis og tek næstu önnina í þessum skóla í nefið.
Það stefnir allt í þrusugóða jólahátíð þetta árið. Ótrúlega mikið planað eitthvað, ég hef varla tíma til að anda. En hver þarf að anda þegar það eru jól! Þetta verður hrikalega gaman og ég hlakka til að sjá ykkur öllsömul aftur þið sem eruð heima.
Verkefnið er að klárast hægt og bítandi. Það er lengi hægt að finna eitthvað að bæði skýrslunni og síðunni sem þarf að snurfusa og laga til þannig að allt sé fullkomið þegar við skilum inn. Vonandi verður allt tilbúið á morgun (miðvikudag) því Lára og Elva eiga flug í hádeginu á fimmtudaginn og þótt ég sé með opinn miða þá langar mig að fljúga á fimmtudagskvöldið. Eyða jafnvel deginum á Strikinu og kaupa kerti og spil handa fjölskyldumeðlimum. Ég biðst afsökunar fyrirfram ef það verða bara tuttugu og sex spil í sumum spilastokkunum, ég er nefnilega í alvörunni fátækur námsmaður þetta árið, alveg í bullandi mínus. Það kemur ekki í veg fyrir að hátíðin renni í garð klukkan sex á aðfangadag, og þá fer ég í kirkju. Einu sinni á ári fer ég í kirkju og það er á aðfangadag með ömmu og afa. Það gerist ekki jólalegra. En verkefnið klárar sig ekki sjálft. Sjáumst fljótlega,
Magnús (Jóla)Sveinn.
Halló heimur!
Fyrir 2 árum