Jólastúss og almennt annríki
Það er ekkert smá mikið búið að vera að gera hjá mér síðan ég kom heim. Núna er ég búinn að vera heima í akkúrat viku þegar þetta er skrifað og viljiði vita hvað ég er búnn að gera? Hmmm... látum okkur sjá. Ég er búinn að fara á eina tónleika, í tvö partý, á keflvískan skemmtistað, á keflvískt ball, tvo daga og tvö kvöld í sumarbústað, búa til nýja heimasíðu fyrir ættina mína, kaupa sex jólagjafir, fara á litlu jól, hitta gamla aðalinn minn og síðast en ekki síst fara í skötuveislu! Kannski er ég að gleyma einhverju. En ég hafði amk ekki tíma til að blogga.
Bæði tónleikarnir sem ég fór á síðasta fimmtudag og ballið síðasta laugardag voru með Hjálmum sem eru orðnir ein af mínum uppáhalds hljómsveitum. Er einmitt að hlusta á diskinn þeirra núna. Eintóm snilld. Og tónleikarnir, þar sem Hjálmar spiluðu með KK, voru alveg frábærir! Þeir tóku lög eftir KK í reggí stílnum sínum og lögin af disknum sínum, auk þess sem KK spilaði lög eftir sig og nokkur cover-lög líka. JólaTaðurinn var svo haldinn með miklum glæsibrag í sumarbústað ömmu og afa í Þrastarskógi á sunnudaginn og fram á þriðjudag. Alltaf gaman að skella sér í bústað og vonandi að JólaTaðurinn sé hefð sem nái að halda sér.
Það er nóg af hefðum og Litlu-Jól verkfræðinnar eru ein af þeim. Að vísu hafa næstum allir sem þau stunda hætt í verkfræði en Litlu-Jólin eru haldin árlega engu að síður. Þau voru í gær og það var mjög gaman. Í gær hitti ég líka útskriftarhópinn minn gamla sem fór til Ríó í byrjun árs 2002. Ég mætti seint og það var því heldur stutt í annan endann en samt gaman að sjá þetta frábæra fólk aftur.
Núna er allt stúss búið fyrir utan tvær gjafir sem ég ætla að kaupa á eftir og svo mega jólin koma. Á jólunum erum við oftast annað hvort hér heima eða hjá ömmu og afa en þetta árið verður mamma á Akranesi og allt með öðru sniði en vanalega. Ég og Fjóla verðum hjá Höllu systur og þangað kemur pabbi og fjölskylda að norðan og Jóda stjúpsystir líka með son sinn. Við verðum tíu manns við jólaborðið og þar af tveir litlir snáðar og jólagleðin verður því eflaust mikil þar á bæ. Ég man hvað það gat verið erfitt að bíða eftir því að fá að opna pakkana. En talandi um pakka, það er víst best að fara að pakka inn gjöfunum og klára að kaupa þær síðustu. Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla.
Magnús Sveinn.
Halló heimur!
Fyrir 2 árum