sunnudagur, júní 12, 2005

Þeytingur

Á Íslandinu góða var gaman og gott að vera í þessar tvær vikur sem var þar í þetta skiptið. Ég fékk vinnu fljótlega eftir að ég kom og náði að vinna átta heila daga og fæ vonandi ágætan pening útúr því. Síðustu helgi, einu heilu helgina sem ég var á klakanum þá fórum við í útilegu! Það var stefnt á Laugarvatn en þar var úrhellisrigning og því enduðum við á Þingvöllum á einhverju fjölskyldutjaldsvæði. Við vorum samt alveg útaf fyrir okkur og verðirnir voru ánægðir með frammistöðu okkar og gáfu okkur prik hvað eftir annað því við týndum alltaf prikunum sem þeir höfðu gefið okkur áður.

Við röltum meðfram Almannagjá og stoppuðum þar uppí brekku og vorum í góðri stemmningu með tvo gítara, kringum 20 manns það kvöldið á föstudeginum. Á laugardagskvöldinu var þó slatti farinn heim en nokkrir bættust við og það kvöld var öllu rólegra. Um daginn höfðum við spilað fótbolta og krokket og risa-mikadó og um kvöldið var spjallað og drukkið fram eftir nóttu og við fengum nokkrar stelpur úr Reykjavíkinni í heimsókn til okkar sem voru í tjaldi nálægt okkur. Sunnudagurinn fór svo í afslöppun í Reykjavík því þar var enn betra veður en á Þingvöllum. Fórum á KFC og í Laugardalslaugina og það var voða fínt.

Síðastliðna viku hef ég svo bara verið að vinna á fullu og fátt annað gert. Kíkti þó í bíó að sjá Mr. and Mrs. Smith með Brad Pitt og Angelinu Jolie og hún var ágæt. Síðasta föstudag kíkti ég svo út með strákunum til að kveðja þá í bili og við fórum á Karaoke staðinn í Keflavík sem ég man ekki hvað heitir. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri svona staður til í Keflavík, svona breytist nú margt á meðan maður er í burtu. Í gær (laugardag) flaug ég svo til Danmerkur og sit núna á sunnudagskvöldi inní stofu heima hjá mér í Kolding. Þeim fer nú að fækka ansi mikið stundunum mínum hér á Knud-Hansensvej því við eigum að skila íbúðinni eftir viku og það er stefnt á að tæma hana um miðja þessa viku.

Ég fer í eina prófið mitt núna á miðvikudaginn, hálftíma munnlegt próf um lokaverkefnið okkar. Ég hef litlar áhyggjur af því, vona bara að það gangi jafn vel og síðast. Svo tekur bara við bið eftir Hróarskeldu! Það stefnir allt í rosalega hátíð í ár. Ef veðrið verður til friðs þá er ekkert því til fyrirstöðu að þetta verði fullkomin hátíð því það er frábær dagskrá og fullt af vinum mínum að fara. Össs!
Maggi.
blog comments powered by Disqus