fimmtudagur, júní 02, 2005

Vinna = Peningar

Sá sem fann upp þessa jöfnu var eitthvað á mis. Þetta hefði getað verið Leti = Peningar eða jafnvel Skemmtun = Peningar. En nei. Þetta þurfti endilega að vera Vinna. Þetta er ástæðan fyrir því að ég er kominn með vinnu. Ég var svo heppinn að fá vinnu á stað sem leyfir mér að vinna í þessar tvær vikur á meðan ég er heima í upplestrarfríinu, fara svo út í þrjár vikur til að taka próf og flytja og fara á Hróarskeldu, og vinna svo í fimm vikur aftur þar til skólinn byrjar í haust! Þetta kalla ég lúxus og ekkert annað. Og það sem betra er er að þetta er ekki vaktavinna sem þýðir að ég á frí allar helgar! Ef það stefndi í gott sumar fyrir stuttu þá held ég að það sé hérmeð gulltryggt! Gull-sumar á silfurfati. Bjútífúl segi ég og skrifa.

Aukaverkanir góð sumars eru samt því miður mikil þreyta. Ég er að vinna við hellulagnir hjá Nesprýði. Að stökkva inní svoleiðis vinnu tíu og hálfan tíma á dag eftir langt frí frá öllu erfiði þýðir að maður er lúinn í lok dags. Eftir fyrsta daginn minn fór ég að sofa klukkan hálf átta, beint eftir kvöldmat. Vonandi verður það ekki svoleiðis í allt sumar því þá gerði ég nú lítið annað en að sofa! Ekki að það sé neitt að því, eins og sést á litla spánnýja frænda mínum sem sefur 18 tíma á sólarhring. Hann er ekkert smá sætur! Fallegasta barn í heiminum að sjálfsögðu. Ég heimsæki hann reglulega enda er hann ástæðan fyrir því að ég kom fyrr heim, og hann er alltaf jafn sætur og sofandi.

Vonandi eigiði öll gott sumar.
Magnús.
blog comments powered by Disqus