sunnudagur, desember 03, 2006

Fyrsta árið

Á föstudaginn var ár liðið frá því að ég og Ósk byrjuðum saman. Það hefur ansi mikið vatn runnið til sjávar síðan þá og ætli stærstu breytingarnar séu ekki að núna búum við saman í Kaupmannahöfn og lærum bæði Medialogy í útibúi Álaborgarháskóla (eins og flestir ættu að vita). Til hamingju með daginn ástin mín. :)

Þegar ég bloggaði síðast vorum við á leiðinni í jólaföndur í skólanum. Það var ansi gaman og föndrið okkar heppnaðist svo vel að við vorum með flottasta skrautið og unnum keppnina! Við vissum reyndar ekki að það væri keppni en það breytti því ekki að við unnum tvo miða á jólahlaðborð sem var haldið í skólanum núna á föstudaginn! Þannig að við ákváðum að eyða afmælinu okkar í að njóta vinningsins og mættum á skólabarinn og gæddum okkur á dönskum jólamat. Hann stóð undir væntingum og var bara ekkert sérstaklega góður. En í heildina litið var föstudagurinn frábær og verður lengi í minnum hafður.

Umferðarljósa-partýið daginn eftir jólaföndrið var haldið á skemmtistað sem höfðaði ekki mikið til okkar og því fórum við snemma heim. Of mikill reykur og fáránleg tónlist spilaði þar stærstan part. En fyrrihluti kvöldsins var vel heppnaður og vorum við langt frá því að vera ósátt með kvöldið.

Nú eru bara tvær vikur þangað til við komum heim! Það er nú ekki mikið búið að plana jólin eins og er, en það verður gaman að koma heim og hitta fjölskyldu og vini. Ólíkt undanförnum árum þá mun ég þurfa að læra mikið fyrir lokaprófin í janúar því þetta nám er heldur erfiðara en það sem ég var í. Þannig að það verður nóg að gera þessar rúmu tvær vikur sem við verðum heima. Sjáumst fljótlega!
Maggi.

E.s: Gleðilega aðventu! :D
blog comments powered by Disqus