laugardagur, mars 10, 2007

Myspace

Myspace.com er ekkert sérlega falleg heimasíða. Á Myspace eru kringum 100 milljón notendur og eiga þeir hver sína síðuna. Maður hefði haldið að Myspace myndi hjálpa notendum að búa til síður sem líta ágætlega út en því miður, þvert á móti, þá eru síðurnar hjá þessum 100 milljón notendum virkilega ljótar. Myspace gefur notendum lausan tauminn við það að hanna síðurnar sína og þar sem fæstir þeirra eru vefhönnuðir þá er útkoman sú að þessar 100 milljón síður eru hver annari ljótari. Þetta er gríðarleg afturför á netinu, og minnir mann helst á árabilið 1998-2001 þegar fólk var að uppgötva að það gæti búið til heimasíður og tróð þær fullar af GIF myndum og öðrum óþverra.



Jájá, Myspace er æðislegt, og þú getur sýnt öllum heiminum að þú eigir átta þúsund vini og þröngvað uppáhalds laginu þínu uppá alla þá sem heimsækja síðuna þína sama hvort þeir vilji það eða ekki. En ég fatta þetta bara alls ekki. Maður á kannski ekki að dæma bók eftir kápunni en ég geri það hiklaust í þessu tilfelli. Mér finnst Myspace síður pirrandi, virkilega ljótar og illa upp settar og ég fer sjaldnast inná þær. Hver einasta síða lítur út fyrir að vera hönnuð af 12 ára stelpu sem reyndi að troða eins miklu rusli og hún gat inná hana og hefur ekki hundsvit á vefhönnun. Ef þú, lesandi góður, átt Myspace síðu sem er með þungum bakgrunni sem scrollast ekki niður með textanum, textinn á síðunni er í mörgum litum og vart læsilegur útaf bakgrunninum, og það spilast sjálfkrafa lag þegar maður kemur inná síðuna, gerðu þá öllum greiða og lagaðu þessa hluti á síðunni, eða lokaðu henni með öllu.
Maggi.
blog comments powered by Disqus