ICHI og Skype
Í dag fengum við nýtt verkefni í skólanum. Það er á þá leið að við eigum að gera nýja heimasíðu fyrir ICHI fatamerkið. Þetta er í eigu B-Young sem er töluvert þekktara merki og er meira að segja héðan úr Kolding! ICHI er fyrir yngri markhóp heldur en B-Young, unglingsstelpur uppí rúmlega tvítugt. Kennararnir voru svo sniðugir að þeir kynjaskiptu hópunum þannig að allir strákarnir þurfa að hanna síðu með stelpur í huga (sem gæti reynst erfitt) og stelpurnar þurfa að spjara sig í að forrita síðuna en fæstar þeirra eru orðnar sleipar í því. Þetta verður því eitthvað áhugavert.
Ég er að vísu kominn með mjög góða hugmynd (að mínu mati) og búinn að bera hana undir Fjólu systur og fékk 'thumbs up' frá henni! Núna er bara að reyna að sannfæra strákana sem erum með mér í hóp um að það sé besta hugmyndin. Ég er í mjög fínum hóp, með tveimur Íslendingum sem heita Bjarni og Þolli og einum Kínverja (sem leggur að vísu lítið til málanna). En ég held að þetta verði fínt og það verður örugglega gaman að vinna að þessu verkefni.
Ég var að prófa Skype í fyrsta skipti áðan og mæli með því að fólk fái sér þetta ágæta forrit, sérstaklega ef það þekkir einhvern sem býr í útlöndum! Hint hint. Með því getur maður semsagt talað við fólk útum allan heim án þess að borga nokkuð fyrir það svo lengi sem fólkið er með internetið! Mjög sniðugt og er svosem búið að vera hægt lengi en fólk er eitthvað tregt til að nýta sér þetta. Um að gera að breyta því!
Magnús.
Halló heimur!
Fyrir 2 árum