Sófaborð
Við eigum sófaborð! Júhúúú! Þvílík hamingja. Þið vitið hvað matur er miklu betri ef maður eldar hann sjálfur? Ég og Rebekka vorum að komast að því að sófaborð eru miklu fallegri og betri ef maður streðar rosalega mikið við að koma þeim heim til sín. Þar sem við erum að fá fullt af fólki í heimsókn næstu helgi þá þótti okkur ómögulegt að vera ekki með almennilegt sófaborð og fórum því á stúfana eftir skóla í gær. Við fundum þetta líka glæsilega ódýra sófaborð í Biva, og ekki nóg með það því það smellpassaði líka við öll húsgögnin í stofunni okkar. Við tímdum samt ekki að borga 150 kr. fyrir að láta senda það heim heldur ákváðum að taka það bara með okkur í strætó og spara okkur peninginn þrátt fyrir að borðið væri rúmt tonn á þyngd.
Við bröltum með þetta út úr húsgagnaversluninni og út að næstu stoppistöð sem var við hliðina á versluninni. En auðvitað stoppaði fimman ekki þar sem gengur beint heim til okkar. Því þruftum við að bera þennan stóra ólögulega nýðþunga kassa (það átti auðvitað eftir að setja borðið saman) á milli okkar nokkur hundruð metra, yfir risa umferðargötu, og að stoppistöð þar sem fimman stoppaði. Við bárum okkur frekar illa eftir þessa áreynslu og ímynduðum okkur að allir íbúar Kolding væru hlægjandi að okkur í bílum sínum, en þökkuðum fyrir að vesenið væri búið. En nei nei, auðvitað vorum við of fljót að hrósa happi. Þegar strætó kom loksins bannaði bílstjórinn okkur að koma með! Þetta var einhver kellingarálft sem er búin að keyra strætó allt of lengi og það var ekki sjens að þræta við hana, það væri of hættulegt að fara með þetta inní strætóinn! Þannig að strætó keyrði öruggur í burtu og við stóðum eftir með sófaborðið stórhættulega.
Við ákváðum loks að hringja á leigubílastöðina og þeir voru svo vænir að senda okkur viðkunnanlega kellingu á langbak sem skutlaði okkur heim og tók fyrir það 125 kr. danskar. Þannig að við spöruðum okkur bara 25 kall á þessu ævintýri og vorum með harðsperrur í dag eftir þessa kraftagöngu. En við settum saman sófaborðið og það sómir sér alveg ótrúlega vel í stofunni okkar! :)
Magnús.
Halló heimur!
Fyrir 2 árum