Ég trúi varla að við höfum bara verið rúman sólarhring í Hamborg. Ég, Aggi (Húsvíkingur með meiru), Camilla (finnsk, eigandi glæsilegs Fiat Uno), Tiina (önnur finnsk vinkona okkar) og Mathieu (þýskur vinur okkar úr skólanum) lögðum af stað kl. þrjú á fimmtudaginn til Hamborgar og var planið að fara á tónleika með Bloc Party. Það er bresk hljómsveit sem ég uppgötvaði fyrr í vikunni, sótti diskinn þeirra og er búinn að spila hann mikið og fíla þá í tætlur. Við áttum ekki með miða á tónleikana og vissum að það var alveg kol-uppselt. Því fórum við beint niður að tónleikahúsi við komuna til Hamborgar, en þá var klukkutími þar til húsið átti að opna. Mathieu fór innfyrir eitthvað band og inní húsið fyrir okkur til að tjékka hvort hann gæti reddað miðum en það tókst því miður ekki.
Þegar við vorum búin að standa þarna úti í 40 mínútur og öll von virtist úti um að ná að redda miðum, þá kom gaur útúr húsinu og tók Mathieu og Agga með sér og ég og Camilla og Tiina vissum ekkert hvaðan á okkar stóð veðrið. Svo komu þeir fljótlega til baka og sögðu að gaurinn hefði bara haft tvo miða til sölu og viljað of mikinn pening fyrir þá! Það var mikið svekkelsi því það virtist vera sem gaurinn ætlaði að redda miðum fyrir okkur. Við vorum farin að hugsa um að beila bara á þessu og kíkja niðrí bæ, þegar Aggi dregur upp fjóra miða á tónleikana!!! Við trylltumst auðvitað úr einskærri gleði og hamingju! Þá hafði þessi gaur sem dró strákana í burtu unnið fullt af miðum á einhverri útvarpsstöð og seldi strákunum fjóra miða á góðu verði. Aggi og Mathieu stóðust auðvitað ekki mátið að stríða okkur svolítið og halda okkur í myrkrinu. Ótrúlegt hvað þeim tókst að halda andliti lengi. :)
Mathieu yfirgaf okkur svo því hann kom með til að heimsækja foreldra sína yfir helgina. Við hin fórum á stúfana og fundum farfuglaheimili til að gista í yfir nóttina en við urðum að vera komin inn klukkan tvö um nóttina og yfirgefa svo svæðið klukkan hálf tíu morguninn eftir, þannig að við hættum við að gista þar og fórum beint aftur á tónleikana. Það var nægur tími fram að Bloc Party þannig að við náðum alveg annari upphitunarhljómsveitinni og hún var mjög fín, breskt hressingar-rokk. Einn hljómsveitar meðlimur var alveg á rassgatinu og hélt áfram að sturta í sig! Það var mjög fyndið að sjá. En þá var komið að Bloc Party! Þegar þeir byrjuðu vorum við ekki lengi að koma okkur fremst, og í einu orði sagt voru tónleikarnir FRÁBÆRIR!!! Þvílík spilagleði og æðisleg tónlist, góð stemmning og frábær tónleikastaður! Með þessa samblöndu hvað getur klikkað spyr ég bara? Við vorum fremst allan tíman og slömmuðum með Þjóðverjunum í rokkuðu lögunum og dilluðum okkur við þau rólegri. Ég mæli með þessari hljómsveit ef þið eruð rokk-þyrst, og fyrir ykkur sem eruð á leiðinni á Hróarskeldu þá fáið þið að sjá þá spila þar!
Eftir tónleikana var haldið niður í bæ. Agga langaði að finna einhvern bar sem hafði verði í íslenskri bíómynd (sem enginn hafði þó séð) og því spurði hann mann sem var að segja okkur til vegar "Have you seen the Icelandic movie Fálkar?" Það var ekkert smá fyndið, en þess má geta að Þjóðverjinn hafði ekki séð myndina frekar en við Íslendingarnir. Við komumst þó niður í bæ á endanum og skemmtum okkur bara vel. Við römbuðum meira að segja inná einn bar með netum í loftinu, og viti menn! Við vorum búin að finna hinn eina sanna bar sem var í Fálkum! Það var mikið hlegið að því, en ekki stoppað lengi því stemmningin var lítil. Stuttu eftir þetta íslenska djók var komið að finnska djókinu. Við gengum fram hjá skyndibitastaðnum Hesburger sem er finnsk keðja. Við urðum að fara þar inn til að borða að sjálfsögðu enda tvær finnskar stúlkur með í för. Maturinn þar var alls ekki góður og Aggi blótaði honum mikið. Eina sem stelpurnar höfðu að segja var "We told you to get the chicken-burger!". Ég fékk mér Steak-burger sem ég kláraði með bestu lyst en það var aðallega útaf svengd en ekki bragðgæðum.
Þar sem við vorum hvergi með gistingu urðum við að sofa í Fiat Uno-inum sem gengur undir nafninu Prinsessan. Fyrir þá sem ekki vita er Fiat Uno langt frá því að vera rúmgóð bifreið en þó náðum við fjögur að sofa þar í nokkra tíma, sumir betur en aðrir. Þegar við vöknuðum stóð fullt af fólki fyrir framan bílinn og hlógu að okkur! Þau voru í reykingapásu þó held ég en komu ekki sér ferð til að hlægja að okkur. Við áttuðum okkur fljótlega á því að við vorum lögð kol-ólöglega! 'Bannað-að-leggja' skilti allt í kringum okkur, og við vorum rosalega heppin að hafa ekki fengið sekt. Eftir að hafa fært bílinn á löglegan stað röltum við um verslunargötur Hamborgar og ég sem ekkert ætlaði að kaupa missti mig aðeins í stórri H&M verslun. Það var líka besta mál enda mjög langt síðan ég keypti mér föt! Fyrir innan við tíu þúsund íslenskar krónur keypti ég mér sex flíkur. Þar á meðal var langþráður jakki, en ég er búinn að vera á leiðinni að kaupa mér nýjan jakka í átta mánuði! Geri aðrir betur. Svo var haldið heim á leið með stuttum stoppum í Kiel og svo í landamærabúðunum.
Þetta var frábær ferð og þakka ég ferðafélögum mínum vel fyrir. Það var skrítið að koma heim úr ferðalagi á föstudegi, en það er bara fínt, öll helgin eftir. Í gærkvöldi (föstudag) fór ég þó ekki útúr húsi vegna þreytu enda tók þessi sólarhringur í Þýskalandi frá manni alla orku. Það er þó allt að koma enda náði ég góðum 13 tíma svefni. Í svona ferð væri ég vanur að taka 200 myndir að eitthvað álíka, en í þetta sinn tók ég tvær. Þetta er munurinn á því að eiga stafræna myndavél eða Polaroid vél þar sem hver mynd kostar kringum 130 krónur íslenskar. Kannski rætist úr myndavéla-leysi mínu fljótlega, hver veit. Over and out.
Maggi.
Halló heimur!
Fyrir 2 árum