Á fimmtudag og föstudag fórum við í IBA skólann hér í bæ (International Business Academy) og gerðum sameiginlegt verkefni með þeim. Það snerist um nýksköpun og virkaði þannig að það kom yfirmaður frá fyrirtækinu Kappa sem er staðsett hér í Kolding en það gerir pappakassa! Eins spennandi og það hljómar. Við áttum að finna ný not fyrir pappa og voru engin takmörk sett nema að uppistaðan í því sem við gerðum átti að vera pappi. Ég var í hóp með einum strák úr mínum skóla og fjórum krökkum úr IBA. Við hugsuðum lengi vel og komum með fullt af hugmyndum en enga sem okkur þótti vera alveg frábær og ætti skilið að vinna. Það var nefnilega 1000 kr. í verðlaun fyrir sigurhópinn.
Á endanum ákváðum við að framkvæma hugmyndina mína um disk fyrir pulsur og pulsubrauð. Hann er svipaður og málarapalletta, því það er gat fyrir þumalputtann svo það sé auðveldara að halda á disknum. Á öðrum endanum eru svo rifflur þannig að það er pláss fyrir pulsur og brauð og það rúllar ekki útaf disknum. Hinum megin eru svo göt þar sem maður getur komið fyrir litlum skálum með sósu. Danir vilja nefnilega hafa pulsurnar og brauðið sér og dýfa því svo í sósuna í stað þess að láta hana á pulsuna. Svo gerðum við eina útgáfu sem var líka með plássi fyrir glas. Eftir hádegi á föstudaginn var afraksturinn svo sýndur í stórum sal í IBA. Það voru yfir 30 hópar af nemendum, yfirleitt sex saman í hóp, og nokkrir hópar með fínar hugmyndir. Mjög algengt var að fólk gerði borð með götum fyrir drykki og voru nokkrar útgáfur af þeirri hugmynd. Við gerðum svaka flotta útstillingu með myndum af Hróarskeldu sem sýndu hvað var mikið vesen að borða pulsur án þess að hafa diskinn flotta, og redduðum svo pulsum og pulsubrauði til að sýna hvernig þetta virkar.
Svo voru tilkynnt úrslitin, og viti menn! Haldiði ekki að við höfum unnið þetta barasta. Þeim leist best á okkar hugmynd og gáfu okkur þúsund krónur danskar. Það er alltaf gaman að vinna. Verst var að þurfa að skipta niður verðlaunaféinu því ég átti allan heiðurinn að þessari uppfinningu. Það er gallinn við að vera í hópavinnu. :) Eftir að búið var að tilkynna sigurvegarana þá fórum við niður á barinn sem er í skólanum og fengum pulsur og bjór. Ég var lengi þar og spilaði póker við fólk úr IBA og það var mjög gaman. Ég nennti svo ekkert heim heldur fór niður í bæ og spilaði Hacky Sack á Munkegade og svo borðuðum við saman risapizzu. Ísakinn og Elva tvö voru í heimsókn á Munkegade um helgina og það gerði góða helgi enn betri.
Í gær hélt Munkegade liðið svo partý með James Bond þema og þar var mikil stemmning. Lára setti met og tók yfir 400 myndir á myndavélina sína. Ég tók þrjár myndir á Polaroid-vélina mína. Hehe. Planið var að vera í partýinu alla nóttina og fara ekkert út, en það náðist bara til klukkan þrjú. Þá var haldið út og ég og Elva komum við á Tavlen áður en við fórum á PitStop. Frábær helgi að vanda.
Maggi.
Halló heimur!
Fyrir 2 árum