sunnudagur, mars 27, 2005

Gleðilega páska!

Nú er páskadagur og ég er fjarri heimahögum í fyrsta sinn (að mig minnir). Ekki að það sé neitt slæmt því páskarnir eru ekki mjög stór hátíð í mínum huga. Það er alveg hægt að chilla og borða páskaegg annarsstaðar en heima! Ég fékk sent Nóa Síríus páskaegg númer fimm í vikunni og það var meira að segja óbrotið! Ég gæddi mér á því áðan (náði samt ekki nærri því að klára) og málshátturinn var Iðnin eykur alla mennt. Ætli það þýði að ég sé ekki að leggja nógu hart að mér í skólanum? Naaahh...

Núna er ég staddur í Horsens hjá Jóa og Kristjönu og við erum að fara að borða páskamat! Þau voru ekki mjög sátt með málshættina sína, því þau fengu sama málsháttinn! Það eyðilagði næstum því páskana fyrir Jóa, og hann er að spá í að senda kvörtunarbréf til Nóa Síríus. Málshátturinn var Kenna má fyrr en klipið er til beins.

Á föstudaginn kom Hlynur í heimsókn til Kolding! Hann er búinn að vera í S-Ameríku í fjóra mánuði og er í Danmörku yfir helgina áður en hann fer heim. Það var rosa gaman að sjá kallinn og Jói og Kristjana kíktu líka til Kolding og eyddu deginum með okkur. Við röltum um bæinn og kíktum í bíó um kvöldið þar sem við sáum Ring 2. Hún er frekar spooky en svipuð og fyrri myndin. Meira af því sama. Svo kom ég hingað til Horsens í gær og kíkti út á lífið með Jóa og Kristjönu og íslenskum vinum þeirra. Það var mjög fínt þrátt fyrir frekar leiðinlegan endi á kvöldinu útaf ömurlegum dyravörðum með valdahroka. En það er búið að vera mjög gaman hjá okkur. Vonandi eigiði ánægjulega páskahátíð hvar sem þið eruð stödd í veröldinni!
Magnús.
blog comments powered by Disqus