miðvikudagur, mars 02, 2005

Jónas Lalli og Eurofunk!!!

WooHoooo!!! Við fórum á Pub Quiz í gær á Knuds Garage og það var aldeilis frábært. Ég, Kolla og Birna mynduðum liðið Eurofunk og öttum kappi við liðið Who Did You Have to Fuck to Get This Number, sem var skipað af Elvu, Láru, Rósu, Snorra og Ísaki. Eina markmið okkar í Eurofunk var að vinna þau og var nokk sama um hin liðin þrettán. Svo þegar við vorum búin að svara spurningunum af mikilli natni og Quiz-masterinn fór að lesa upp hvaða lið voru neðst og efst, þá fór það svo að liðin okkar voru saman í efsta sæti með 26 stig!! (af 32 spurningum.) Það er alltaf ein tie-brake spurning og sú spurning var "Hvað eru margir hundar í París?". Við svöruðum 700.000 hundar alveg útí loftið og Who Did You Have to Fuck to Get This Number sögðu 732.526 hundar. Ekkert samráð var á milli okkar og því algjör tilviljun að tölurnar hafi verið svona svipaðar.

Spennan var í algleymi þegar Jerry Quiz-master var í þann mund að tilkynna hver rétta talan hefði verið! Ég er ekki frá því að hárin á nokkrum þarna inni hafi tekið að rísa því loftið var svo rafmagnað! Rétta svarið var svo 300.000, þannig að Eurofunk var nær því og við unnum!!! Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út (hjá okkur þremur) og rosalegt svekkelsi hreiðraði um sig hjá hinu liðinu við borðið. Við vorum bara þrjú í Eurofunk en unnum okkur samt inn fjóra bjóra með því að vinna keppnina og runnu þeir ljúflega niður. Þau voru svo fúl í hinu liðinu að þau fóru að reyna að kasta pappírsboltum ofan í glösin okkar og í hausinn á okkur en ekkert gekk að bæla niður sæluvímuna sem við vorum í eftir að hafa unnið. Ég held meira að segja að það hafi verið enn meiri ánægja hjá okkur með að vinna þau heldur en að vinna Quizið sjálft.

Svo færðum við okkur fljótlega yfir götuna á Munkegade 6, þar sem beið mín enn önnur skemmtileg og óvænt uppákoma. Ég fékk pakka!! Nei ég átti ekki afmæli og það voru ekki jólin, en samt fékk ég pakka frá Elvu, Láru og Ísaki! Ég var að sjálfsögðu í sjöunda himni þegar ég tók utan af pakkanum, og í ljós kom þessi líka æðislega leikfangaskjaldbaka! Með langar lappir sem hægt er að beygja að vild og setja í ýmsar stellingar. Upphófst mikil leit að nafni og að lokum ákvað ég að skýra hana í höfuðið á stelpunum. Þannig að skjaldbakan heitir Jónas Lárus Magnússon, kölluð Jónas Lalli. Stundum einnig nefnd Jonni Kjuði. Frábær endir á vel heppnuðu kvöldi.

Í skólafréttum er það helst að við tókum smá könnun í gær og fengum úr henni í dag. Ég svaraði 23 spurningum rétt af 24 og var efstur í árganginum. Gaman að þessu. :) Svo erum við byrjuð í nýju hópverkefni og ég er í nýjum hópi með Starra, Hauki og Rúnari nágranna. Við erum með góðar hugmyndir og þetta verður eflaust skemmtilegt. Over and out.
Maggi.
blog comments powered by Disqus