mánudagur, október 23, 2006

The Perfect Setup

Mér finnst eins og það séu svona þrír dagar síðan ég bloggaði síðast en þeir eru víst nær því að vera tuttugu og þrír. Það er nóg að gera hjá okkur og tíminn líður ótrúlega hratt! Þegar ég bloggaði síðast var kringum 20 stiga hiti alla daga en nú er hitinn kominn niður í 10-15 gráður. Lífið er komið í töluvert fastari skorður en þá, við erum búin að koma okkur vel fyrir og bara einstaka hlutir sem enn vantar í íbúðina. Við höfum bara ekki komið í verk að kaupa okkur gardýnur og skrifborð. Það er það helsta sem vantar inni hjá okkur og svo vantar eitthvað smotterí inní stofu líka. Skólinn gengur bara vel, nú tekur fyrirlestrunum að fækka og áherslan flyst meira yfir á lokaverkefnið fyrir önnina. Ég hef verið að vinna með color-tracking (hvað er það á íslensku?) og það gengur alveg ágætlega. Fljótlega þurfum við að gera viðameiri tilraunir til að sjá hversu vel okkur mun takast að framkvæma leikinn okkar. Aðrir hafa unnið hörðum höndum við að forrita leikinn og enn aðrir hafa unnið með þrívíddar-grafíkina og skýrsluskrif.

Frítíminn okkar þessa dagana fer að mestu leyti í að horfa á bíómyndir og þætti í aðstöðunni okkar á efstu hæðinni. Skjávarpinn er kominn upp og við náum 110 tommu stórri mynd á tjaldi sem við hengdum upp á einum veggnum. Það virkar meira að segja enn stærra í svona litlu rými. Svo tengdum við græjurnar mínar og hengdum hátalarna uppá vegg, tengdum DVD spilarann minn og keyptum okkur svokallað TV-box til að geta náð sjónvarpsútsendingum og sent í skjávarpann. Við gerum hinsvegar mest af því að tengja tölvurnar okkar beint við skjávarpann og spila það sem við höfum downlodað. Við erum nefnilega komin með 8 MB þráðlausa nettengingu og höfum verið dugleg við að nýta hana. Þannig að þurfið engar áhyggjur að hafa af því að okkur leiðist. :) Námið okkar er líka þannig upp sett að eftir hvern fyrirlestur hittast allir í hópunum sínum og vinna verkefni tengt því sem var kennt í tímanum. Þannig að maður er til dæmis alltaf búinn að reikna stærðfræðina í skólanum og þarf því ekki að gera það heima. Þetta er mjög þægilegt og hjálpar manni mikið með námið. Auðvitað þarf maður líka að vera duglegur heima og lesa í bókunum fyrir tímana. Annars mun seinni helmingur annarinnar verða mun tímafrekari þegar vinnan við lokaverkefnið er komin á fullt skrið.

Síðustu helgi héldum við afmælispartý fyrir Arndísi og innflutningspartý í leiðinni. Það var mjög skemmtilegt og flestir vinir okkar hér í Köben sáu sér fært að koma. Fengum meira að segja góða gesti frá Íslandi og Kolding. Nú um helgina verður stór hluti af fjölskyldunni minni í Kaupmannahöfn. Mamma og Ægir munu gista hjá okkur á föstudagskvöldið, og amma, afi og Gilli verða líka í bænum og við borðum með þeim öllum á sunnudagskvöldinu. Við ætlum að fara á uppáhalds veitingastaðinn minn í Kaupmannahöfn, Spiseloppen í Kristjaníu. Björk kynnti mig fyrir honum þegar Torgeirz og Jobu Kretz voru í heimsókn fyrir rúmum tveimur árum og síðan þá hef ég farið einu sinni eða tvisvar. Maturinn þarna er ekki mjög dýr og alveg svakalega góður.

Ég hef ekki verið nógu duglegur að taka myndir, en ég hef samt tekið eitthvað smá. Ef ég fyllist miklum eldmóð og dugnaði þá set ég kannski eitthvað af þeim á netið ef einhver hefur áhuga. Annars er aldrei sniðugt að lofa of mikið uppí ermina á sér. :)
Maggi.