fimmtudagur, júlí 31, 2003

Eyjar eyjar eyjar eyjar eyjar EYJAR!!!!!


Ég er að fara til Eyja! Jibbí! Þið fáið eflaust einhverjar sögur úr Eyjum, en veit ekki hversu ítarlegan pistil ég nenni að skrifa. Þetta verður ekkert nema gaman held ég, spáð fínu veðri og svona. Vonandi kemst rellan þarna á milli, mér er sagt að það taki 6 mínútur að fljúga frá Bakka. Kannski 7 ef maður reiknar með öllum bjórnum. Vonandi verður flugstjórinn ekki kominn í Eyjafílinginn, það gæti endað illa. Skemmtið ykkur vel um helgina hvað sem þið eruð að fara að gera! Við heyrumst eftir helgi! :D
..:: magchen ::..

þriðjudagur, júlí 29, 2003

Zup?


Ég held að það hafi aldrei liðið jafn langur tími milli færsla (færslna!?) hjá mér nema ég hafi farið útúr bænum. Ég er búinn að vera að vinna og sofa. Lítið meira. Jæja, ég lýg því nú alveg, en það sem ég hef gert þar á milli er nú ekki frásögu færandi. Og því hef ég ekki fært ykkur frásögur af því. En nú styttist í eyjar og ég er farinn að hlakka verulega til. Held að þessi helgi verði ekkert nema snilld! Sama hvernig veðrið verður, þetta verður geggjað gaman. Ég er að fara með svo mikið af skemmtilegu fólki að þetta bara getur ekki klikkað! Og við ætlum að reyna að slá upp heljarinnar tjaldbúðum saman þannig að maður missi nú ekki af fólkinu, því ef allir eru á víð og dreif, þá er allt eins víst að maður hitti suma bara ekkert alla helgina. Það eru rosalega margir sem ég þekki að fara til eyja, en hvað ert þú að fara að gera? Allir sem lesa þetta verða að skrifa og segja hvað þeir ætla að gera um helgina! Algjört möst! :)
..:: magchen ::..

miðvikudagur, júlí 23, 2003

Learn to fly


Ég á miða á Fú Fæters. Við fórum fjórir saman á föstudagsmorguninn og biðum í ca tvo klukkutíma eftir miðum. Hugsunin var svona, æi ég hef ekkert betra að gera þannig að just in case... Og það var líka staðreyndin að það var uppselt á fjórum tímum. Helvíti vorum við sáttir við að hafa farið þegar við féttum það, en ekki jafn sáttir við að hafa ekki keypt fleiri miða. Ekki bara til að selja á okurverði þeim sem misstu af miðasöluni, heldur fyrir vini okkar sem voru ekki svo heppnir að ná að redda sér miða. Jæja, það skiptir nú ekki máli héðan af, kannski verða haldnir aukatónleikar, hver veit?

Ég sá flottasta bíl í heimi í gær. McLaren Benzinn (SLR McLaren) sem var verið að nota í að taka upp auglýsingu uppá jökli var að fara aftur út í gær með flugi. Ég var að vinna og við fengum að taka af honum silki ábreiðuna og opna bílinn og skoða hann hátt og lágt. Og vá hvað þessi bíll er fallegur! Maður slefaði alveg yfir þessu, ótrúlegt að bíll geti látið manni líða svona. Það bættist nottla við að það má enginn sjá hann og einhverjir ljósmyndarar voru búnir að liggja í leyni til að ná myndum af honum. Við fengum að sjá inní hann og skoða hann allan og snerta. Úff... mig langar í þennan bíl. Það komu tveir bílar til landsins, svartur og silfurgrár, og þetta var sá svarti sem ég sá. Það er smá munur á þeim fyrir utan litinn, og þessi svarti verður ekki einu sinni framleiddur. Það er bara svona concept car, sá einni í heiminum, handsmíðaður frá grunni. Hinn mun kosta svona 30 milljónir í Þýskalandi, sem væri svona 50 milljónir hingað til lands. Hann á að koma út einhverntíman í haust. Þessi silfurgrái fer út á föstudaginn. Sjúklega flottur bíll. Ég gat ekki hætt að snerta hann, hann var meira að segja ýkt flottur þegar ábreiðan var yfir honum! Það munaði litlu að afturendinn rækist í flugvélina þegar við vorum að setja hann inn, og ég stökk til og ýtti honum frá. Hann hefði eflaust ekki farið alla leið og rekist í, en samt, ég hefði verið til í að fórna mér bara fyrir þennan bíl. Pæliðíðí! Og ég er ekki einu sinni bíladellukall. Núna langar mig bara í þennan bíl. Það er slatti af fólki sem á eftir að gefa mér ammælisgjöf... ætli þau geti ekki bara slegið saman?
..:: max ::..

mánudagur, júlí 21, 2003

Bús-í-tað


Það hefur vart farið framhjá glöggum lesendum þessa forláta bloggs að oft er eftirvænting mikil á þessum bænum þegar styttist í skemmtilegan atburð. Slíkt ku minnka ánægjuna af téðum atburð sé mark tekið á nokkrum fjölda fólks sem heldur þessu statt og stöðugt fram og yppir því öxlum og vill ekki viðurkenna að litlu fiðrildin í maganum stafi af neinu nema vondum hægðum þegar tilhlökkun segir til sín. Þessar Gróusögur afsannaði ég endanlega, þó ekki væri nema fyrir undirrituðum, um þessa helgi.

Ég var búinn að hlakka mikið til þessarar bústaðarferðar enda er gaman að halda uppá afmælið sitt með bestu vinum sínum og bústaðarferðir hafa hingað til ekki verið neitt annað en mjög skemmtilegar. Ferðin stóð líka algjörlega undir þessum væntingum og vel það. Þetta var alveg æðislega gaman. Hreinasta snilld jafnvel. Ég, Kristinn og Biggi (nenni ekki að nota dulnefni í þessari færslu, veit ekki af hverju) lögðum af stað um miðjan föstudaginn og stöldruðum við nokkra stund í Reykjavík þar sem við löbbuðum Laugarveginn í æðislegu veðri og skoðuðum ljósmyndasýninguna niðrí bæ, sem er ekkert smá flott. Við náðum að vísu bara að skoða tæplega helminginn þannig að maður á eflaust eftir að kíkja þarna aftur. Síðan komum við okkur uppí bústað eftir að hafa þrætt hverja einustu búllu á Selfossi í leit að ísmolum, því þótt ég hafi lagt mér til munns ólgandi heitan Tuborg (og það tvo) í algjöru hallæri á Hróarskeldu, þá komst ég ekki upp á bragðið með það. Það hefði verið auðveldara að finna Íslending á Laugarveginum heldur en að finna svo mikið sem einn falan ísmola á Selfossi í þessu über góða veðri sem var á föstudaginn. Þannig að við létum okkur nægja ískalt kranavatn til að kæla bjórinn og tókst það ágætlega. Fólkið fór fljótlega að mæta á svæðið og við chilluðum í sólinni, sötrandi, maulandi og spjallandi. Dormandi.

Seinna á föstudagskvöldinu rölti sirka helmingurinn af gestunum (fimm eða sex strákar) niður að vatni til að busla smá. Vatnið var nottla skítkalt, en það var svo grunnt að við komumst útí mitt vatn (og það er ekkert lítið) og þó náði vatnið bara uppað hnjám! Auðvitað lentum við svo í slag og menn duttu í ískalt vatnið hvað eftir annað. Skemmtilegast var þó á leiðinni uppúr því ef maður hljóp eins hratt og maður gat uppúr var alveg eins og maður væri að hlaupa ofan á vatninu, bæði fyrir þann sem á horfði og þann sem hljóp! Það var ekkert smá gaman og fyndið og mikið var blótað að Pamela væri ekki með í för (Pamela er myndbandsupptökuvél fyrir þá sem ekki þekkja til). Svo var farið í pottinn í bústaðnum og bara djammað fram eftir nóttu. Mjög gaman allt saman.

Þegar við vöknuðum á laugardeginum var veðrið lítið síðra þótt ekki sæist til sólar alveg strax. Þrír sváfu uppi á þaki í góða veðrinu og lofuðu mjög þá reynslu því veðrið var svo rosalega gott. Ég sé eftir því að hafa ekki prófað það. Við fórum aftur niður á strönd, í þetta skiptið á annan og mun flottari stað hjá vatninu og við lékum okkur heillengi útí vatninu við það að kasta á milli okkar bolta og ærlsast bara. Það var miklu skemmtilegra en það hljómar, veðrið var geggjað og allt eitthvað svo skemmtilegt bara. Einn inniskór ákvað að leggja sjó undir skó (ekki land undir fót semsagt) og týndist útí vatni. Ég mæli ekki með því að ganga langar vegalengdir, berfættur á einum eða fleiri fótum á rauðamöl. Það er ekki gott, og sérstaklega af því að ég var kominn meira en hálfa leið þegar ég fattaði að láta einhvern lána mér sokk. Dagurinn var alveg frábær, mikið legið í sólbaði, aðallega uppá þaki, og segir eldrauður líkami minn allt sem segja þarf um gæði veðursins og heimsku eiganda líkamans, því sólaráburður var með í för en ekki nýttur sem skildi. Alltaf gott að vera gáfaður eftirá, og líka fyrirfram í þetta skiptið, en bara ekki meðan leikurinn stendur sem hæst.

Smá umskipti voru þetta kvöld. Gestir fóru og aðrir bættust við, en sumra var saknað sem ekki komust. Auðvitað var kíkt aftur í pottinn, mikið spjallað og hlustað á tónlist og spilað á gítar og sungið. Hráefni hafði verið keypti um daginn á Selfossi til að útbúa bongu sem var og gert, hlaut hún hið virðulega nafn Drullusokkur. Drullusokkur verður eflaust vel nýttur á komandi Þjóðhátið, en ekki var hann mikið notaður þarna, og í helming þeirra skipta sem hann fékk að spreyta sig fékk pallurinn bróðurpartinn af bjórnum en ekki eigandi hans sem horfði á eftir áfenginu renna niður um glufurnar. Ég er ekki frá því að potturinn (sem ekki hefur enn hlotið nafn að mér vitandi) hafi líka fengið einn bjór. Var það ekki gæðum Drullusokksins að kenna, því þau voru fín, heldur vankunnáttu þeirra sem léku um hann höndum. Úr þessu kunnáttuleysi verður bætt á komandi Þjóðhátið, því það er mjög skemmtilegt að verða kenndur án þess að þurfa að drekka, bara láta áfengið renna ljúflega niður í maga á örfáum sekúntum í hvert skipti. Þó bera að varast ofnotkun eins og heitan eldinn, bitur reynsla kennir manni það (vonandi).

Tónlist skipaði stóran sess í þessari ferð, bæði læv og úr hinu snilldar hljóðkerfi sem sett var upp á staðnum. Þar var efst á öllum vinsældarlistum lag úr þeirri frábæru mynd Donnie Darko (sem ef þú ert ekki búin/n að sjá ættir að gera það hið snarasta) og heitir lagið Mad World. Frábært lag og þú ættir að downloda því ólöglega af netinu um leið og þú ert búin/n að lesa þessa færslu (sem fera að styttast í annan endann).

Sunnudagurinn fór svo í afslöppun, pott, og mikla og langdregna tiltekt og þrif, sem stafaði af þreytu ferðalanganna. Það fylgir þó alltaf og þegar allir taka til hendinni er það ekki svo mikið verk. Helst að skilja allt eftir hreinna en það var þegar maður kom, bara svona til að þakka fyrir sig. American Style var svo heimsóttur af okkur þremur bílfélugunum sem ég minntist á í upphafi. Arnaldur Svakanaggi var svo skoðaður í Terminator III, og er sú mynd bara mjög góð. Betri en ég bjóst við og þó hafði ég miklar væntingar. Best að lýsa því þannig að hún er betri en Matrix 2 að mörgu leyti, en þó ekki öllu. Og hvað stelpan sem leikur vélmennið er flott! Úff, og hún er bara tuttugu og þriggja ára. Ætli maður eigi sjéns? Ég myndi líklegast vera of hræddur við hana, því að í tvo tíma í kvöld þá trúði litla hjartað mitt því að hún væri vélmenni. Ölluheldur vélkvendi. En nú tekur við vinna, en það er einungis ein og hálf vika í Eyjar 2003. Það verður gaman. Þetta sumar verður bara betra og betra. Vonandi höfðuð þið það gott í blíðunni. Góðar stundir.
..:: magchen, 21, and still going strong ::..

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Old


Jæja, þá er maður formlega orðinn hundgamall. Tuttugu og eins árs gamall ef við viljum fara útí smáatriði. Þetta er svosem ekkert merkilegt afmæli, það gerist ekkert nema maður getur ekki lengur sagt að maður sé tvítugur sem var frekar hentugt. Fínt að vera tvítugur. En Tuttugu OG EINS árs, þá er maður nú bara kominn með aðra löppina í gröfina sko. Nei ég segi svona, ég er nú ekki alveg svona svartsýnn. Ég fékk bara eina afmælisgjöf, og hún var frá frænda mínum. Hinir sem samkvæmt lögum er skylda að gefa mér gjöf segjast allir ætla að gera það seinna. Isss segi ég nú bara. En ég var ánægður með einu gjöfina sem ég fékk. Það var tjald! Lítið tveggja manna kúlutjald, fínt fyrir þjóðhátíð. Svolítið skot á mig að vísu, ég hef ekki verið heppinn með tjöld á þessu ári en það er önnur saga. Sú saga tengist bústaðnum sem ég er að fara í um helgina. Það er sko alvöru afmælisveislan mín, fullt af vinum mínum útí sveit í bústað á frábærum stað með heitum pott, heila helgi. Bara djammað og djúsað og slappað af þess á milli í góða veðrinu sem er búið að lofa mér að verði um helgina. Úff hvað það verður gaman.

Spurning hvort maður fari ekki á föstudaginn fyrir bústað og kaupi sér miða á Fú Fæters. Ég er nú ekkert mikill fan, en lögin þeirra sem hafa komist í einhverja spilun eru amk skemmtileg þannig að ég held maður verði ekkert svikinn af þessu. Vonandi þarf maður bara ekki að bíða allt of lengi í biðröð því það gæti orðið svolítið leiðigjarnt. Kemur allt í ljós. Ég ætla ekkert að lofa uppí ermina á mér hvenær ég pósta næst, ég veit að það hefur minnkað verulega hjá mér að blogga og kenni ég sumrinu um. Þá eru líka færri á netinu og þar af leiðandi minni umferð um síðuna mína. Þó eru alltaf einhverjir sem nenna að skoða og er það besta mál. Ég skrifa meir þegar eitthvað skemmtilegt gerist, í síðasta lagi eftir bústaðarhelgina. Og að lokum vill ég óska djammara.is krúinu til hamingju með nýju síðuna. Endilega tjékkið á því. Ég átti hugmyndina af því að það sé hægt að skrifa sjálfur texta undir hverja mynd og neita ég að nokkur annar hafi átt þar hlut að máli. Gaman að það sé tekið mark á manni endrum og eins. Meira síðar.
..:: max ::..

laugardagur, júlí 12, 2003

Ammæli


Ég er kominn á næturvaktir í vinnunni. Það þýðir að ég byrja að vinna klukkan hálf sex á daginn og vinn til hálf sex á morgnanna aðra hverja vinnutörn. Þetta er orðið svolítið flókið þannig að það er eiginlega ómögulegt fyrir aðra að vita hvort ég er í vinnunni eða ekki. Ég er samt búinn að redda öllu í sambandi við verslunarmannahelgi, það er allt klappað og klárt. Við fljúgum sex saman á fimmtudagskvöldinu til Eyja frá Bakka. Eina vandamálið er að koma sér á Bakka. Hmmm... jæja, það er seinni tíma vandamál.

Núna er vinnuhelgi hjá mér og það er næturvakt í ofanálag. En næsta helgi verður svakaleg. Ég á nebbla ammæli á miðvikudaginn (blóm vinsamlegast afþökkuð en stórir pakkar þáðir með þökkum) og næstu helgi verður haldið uppá það með pompi og prakt! Ég mun þó ekki halda partý þannig að það þýðir ekkert að mæta heim til mín og ætla að snýkja af mér bollu eða bjór. Nei nei nei, það virkar ekki svoleiðis í ár. Í ár verða bara örfáir sem fá að njóta góðmennsku minnar og gjafmildi. Hvað ætti ég að gefa mikið upp á þessari stundu... mmm... áfengi... sveit... heitur pottur... ég held að þetta sé nóg að sinni. Djöfull verður gaman. :)
..:: magchen, it's your birthday ::..

miðvikudagur, júlí 09, 2003

Love is in the air...


En ekki fyrir mig samt. Mér finnst ég samt alltaf verða var við ást útum allt og það getur verið svolítið pirrandi. En samt ekki. Gott að vita að það eru ekki allir jafn óheppnir og ég. Vá hvað ég hljóma eins og gamall bitur piparsveinn, en það er ekki tilgangur þessarar færslu. Mig langaði að tala um fólk sem ég sá á Hróarskeldu. Ekki bara fólk almennt, heldur tvær manneskjur sem ég sá þegar ég var að horfa á Massive Attack spila lög sín í Arena tjaldinu. Mér fannst þeir ekkert sérstakir og horfði því mikið á fólkið í kringum mig, og bara rétt fyrir framan mig var par. Hann var hvítur, með skegg, í stuttbuxum, kannski svona þrítugur. Hún var aðeins dekkri á hörund, leit út fyrir að vera frönsk eða eitthvað, aðeins eldri en hann en ekki mikið. Hún var voða lítil og hann virkaði stór miðað við hana þótt hann hafi bara verið svona meðalmaður.

Það skiptir svosem ekki máli hvernig þau litu út, ég var bara að segja frá því til að benda á hversu ólík þau voru. Þau litu út fyrir að vera frá sitthvoru landinu og sitthvorri menningunni. Þau gætu þess vegna bæði hafa verið dönsk, ég minnist ekki að hafa heyrt í þeim tala þannig að ég veit það ekki. Mest allan tímann stóð hún þétt uppað honum og snéri að honum og horfði upp á andlit hans og brosti. Ég hef aldrei séð jafn mikla ást skína úr augum og andliti einnar manneskju áður. Augun hennar tindruðu og hún brosti og var svo hamingjusöm í faðmi hans að ég bara gat ekki hætt að horfa á þau. Þau voru alein í heiminum, horfðu bara á hvort annað og kysstust stundum. Þau voru svo ástfangin að það var æðislegt.

Ég veit ekki hvort þau kynntust þarna um daginn eða höfðu þekkst allt sitt líf. Ég giska á eitthvað þar á milli, frekar nýlegt par sem fór saman á Hróarskeldu, en hefðu getað verið hvar sem er, bara ef þau væru saman þá væru þau jafn hamingjusöm. Myndin af andliti hennar er alveg gróin í huga mér. Kannski náði ég ekki að lýsa þessu alveg nógu vel, en mér fannst alveg frábært að sjá þau saman og langaði að reyna að deila því með ykkur. Mig langar í svona.

Þið getið alveg búist við fleiri sögum af Hróarskeldu fljótlega, so stay tuned! Og á morgun fæ ég myndirnar sem ég tók (og sem ég eyddi morð fjár í að framkalla) og það er aldrei að vita nema ég nenni að skanna eitthvað af þeim og setja á netið ef þær eru flottar, en þetta voru einnota myndavélar svo það gæti brugðið til beggja vona. Vonum það bezta.
..:: max ::..

þriðjudagur, júlí 08, 2003

Stelpumál á Hróarskeldu


Í fyrrinótt dreymdi mig að ég væri á Hróarskeldu 2004, semsagt það var liðið ár og ég var mættur aftur á svæðið. Það var eitthvað búið að breyta svæðinu og ég held ég hafi verið að leita að strákunum. En svo fór ég að hugsa, bíddu það er ekkert svo langt síðan ég var úti, það er ekki sjens að það sé liðið heilt ár! Mig bara hlýtur að vera að dreyma. En í stað þess að vakna þá ákvað ég að nýta tímann og læra inná nýja skipulagið fyrst ég var nú einu sinni mættur þarna og ætla að fara að ári. Svona getur maður verið skrítinn. Ég vissi að mig væri að dreyma en fattaði samt ekki að mig gat ekki mögulega verið að dreyma svæðið eins og það verður á næsta ári! Eða hvað...

Ég fékk símhringingu í dag. Það var æstur aðdáandi bloggsins míns sem heimtaði framhald af Hróarskeldusögunni (ok ég ýki smá, en símtalið átti sér stað). Ætli ég tali ekki bara um stelpumálin núna. Ef þú þekkir mig eitthvað þá býstu eflaust við því að þau hafi verið algjörlega misheppnuð. Og það er alveg laukrétt. Ég er farinn að halda að það vaki yfir mér illur andi sem lokar algjörlega á alla sigra í þeim málunum. Allavega. Áður en hátíðin sjálf byrjaði, ég held það hafi verið á miðvikudeginum, þá kynntumst ég og Stony nokkrum dönskum stelpum. Við röltum með þeim um svæðið og spjölluðum við þær og kíktum með þeim í eitthvað tjaldbúðapartý hjá dönsku fólki sem þær þekktu. Ég varð soldið skotinn í einni þeirra, köllum hana bara Louise, því hún heitir það. Louise var voða sæt og saklaus stelpa eitthvað en mjög skemmtileg og var alveg að fíla mig líka. Ég held amk að það hafi ekki verið bara í hausnum á mér (þótt ég hafi verið búinn með nokkra bjóra). En auðvitað um leið og ég var farinn að fíla hana þá segir hún (eða vinkona hennar) mér að hún eigi kærasta! Go figure! Auðvitað, hlaut að vera. Hann var ekki á svæðinu, og þrátt fyrir tilraunir mínar til að sannfæra hana um að hann væri ekki nógu góður fyrir hana (ekki mjög göfugmannslegt kannski, en bjórarnir áðurnefndu voru farnir að segja til sín) þá fékkst hún ekki einu sinni til að kyssa mig. Og ég hitti hina dönsku Louise ekki aftur.

Á laugardagskvöldinu þegar ég og Stony vorum búnir að hitta slatta af nýjum vinum frá Keflavík og sátum fyrir utan eitthvað tónleikatjald, þá sá ég þessa líka sætu stelpu sem hljóp um og safnaði glösum. Ég ætti kannski að minnast á að maður fékk 1 kr. danska fyrir hvert plastbjórglas sem maður skilaði inn (12 kr. ísl) þannig að maður var ekki lengi að komast upp í ágætis summu. Ég gerði þetta tildæmis eitt kvöldið og drakk frítt það kvöld en nennti þessu svo ekki lengur. En það voru margir sem gerðu þetta að ganni sínu og hún var ein af þeim. Við vorum með nokkur bjórglös þarna þannig að ég safnaði þeim saman og hljóp til hennar til að gefa henni. Rómantískt finnst ykkur ekki? Ég fór svo auðvitað að tala við hana og þá kom í ljós að hún var jafnaldri minn, lítil sæt norsk stelpa sem heitir Kamilla. Ég bauðst auðvitað til að hjálpa henni að safna fleiri glösum og við röltum saman um stórt svæði og spjölluðum saman þangað til að hún fann vini sína. Þau ætluðu svo að fara að sjá Blur og buðu mér að koma með sem ég þáði auðvitað. Ég hékk með þeim í svolítinn tíma, örugglega tæpa tvo klukkutíma og það var bara gaman. Ekki sáum við mikið af Blur en það var allt í lagi. Laugardagurinn var hvort sem er slakasti dagurinn tónleikalega séð. En þegar Kamilla var orðin of full (hún keypti sér líka bjór fyrir peningin af glösunum eins og ég hafði gert) fór hún og ældi. Þá var maður ekki alveg jafn spenntur en hélt að hún myndi kannski jafna sig og verða ekki jafn full eftir það. En þegar hún kom til baka varð allt eins og þegar konan stakk lyklinum í litla boxið í Mulholland Drive. Það varð allt stórfurðulegt og meikaði ekkert sens! Hún misskildi eitthvað sem ég sagði og vinkona hennar var ekkert að fíla mig og þær fóru bara að bulla eitthvað og ég var að reyna að útskýra sjálfan mig en hún henti húfunni minni burtu og var bara fúl! Og þegar ég fór að leita að húfunni dró vinkona hennar hana í burtu! Hún kallaði á mig að koma líka (sem ég skil ekki heldur) en ég ákvað að mig langaði meira að finna húfuna mína aftur því þetta var hvort eð er dauðadæmt eftir þetta kjaftæði. Og ég sá þau aldrei aftur. En húfuna fann ég eftir dúk og disk. Úff hvað ég er alltaf heppinn. Eeeeeða þannig.

Síðasta kvöldið var svo stelpa sem ég var alveg að fíla. Hún var líka frá Noregi og talaði ensku með breskum hreim. Með geggjað hár, eldrauða dreadlocks og var mjög skemmtileg og gáfuð stelpa. En það var einhver gaur að dandalast í kringum hana þannig að ég kom mér í burtu. Hún var samt alveg að fíla mig og ég veit það, en ég vissi að þetta yrði hvort sem er alveg jafn dauðadæmt og allt hitt. Djöfullinn að vera svona óheppinn alltaf. Og í hvert einasta skipti sem eitthvað svona kemur fyrir mig (og það er ekki sjaldan) þá fer ég að efast um sjálfan mig og það er verst af öllu. Maybe it's me. Maybe it's me...
..:: just me ::..

fimmtudagur, júlí 03, 2003

Hróarskelda 2003


Ahhh... Hróarskelda. Þótt maður sé kominn heim þá hlýjar tilhugsunin manni ennþá um hjartarætur. Hróarskelda var æðisleg. Frábær. Hreinasta snilld. Þetta var stutta útgáfan af því sem ég hef að segja. Hér á eftir kemur sú lengri.

Við flugum til Köben seinnipartinn á mánudegi, tíu strákar saman. Þar af þekkti ég bara tvo þannig að það voru sjö strákar sem ég þekkti nánast ekkert með í ferðinni, en ég kynntist þeim öllum ágætlega í þessari átta daga ferð. Enginn hafði farið á Hróarskeldu áður og allir orðnir verurlega spenntir. Sumir voru duglegir við að drekka á flugvellinum og í flugvélinni þannig að þeir voru orðnir skrautlegir þegar til Danmerkur var komið. Einhvernveginn tókst okkur þó að komast til Hróarskeldu með lest og með rútu á Festival-svæðið. Þá var komið myrkur, við með hellings farangur, fullir, það var mikil rigning, allt svæðið orðið að leðjusvaði og nánast ómögulegt að finna almennilegt tjaldsvæði því ótrúlegur fjöldi hafði mætt strax deginum áður þegar svæðið var opnað. Þó tókst okkur, á rúmum tveimur klukkutímum, að finna okkur tjaldsvæði (tróðum okkur inn á milli einhverra Svía) og kaupa okkur nokkra kassa af bjór. Svo var nottla dottið í það, en bara hóflega hjá mér þó. Klukkan var orðin það margt að allt var lokað og þeir sem ekki voru með tjald þurftu því að gista hjá þeim sem mættu með tjald. Semsagt, fyrstu nóttina sváfum við tíu strákar í tveimur tveggja manna tjöldum. Það þarf ekki mikinn stærðfræðing til að fatta að það var ótrúlega óþægilegt. Farangurinn mátti nottla ekki blotna og var því hafður inní tjöldunum og skapaði því enn meiri þrengsli. Fyrsta nóttin var ekki góð.

Daginn eftir hafði stytt upp og allt horfði betur við. Fínasta veður bara. Við ákváðum að skella okkur til Köben þar sem við röltum aðeins á Strikinu og fórum í Tívolí. Fyrsta skiptið mitt í tívolí, og það var bara helvíti gaman. Hefði þó samt mátt vera grófari rússíbanar, en sum tækin voru mjög fín, og fórum við oft í svona súlu sem lyftir manni upp í 65 metra hæð, og svo bíður maður með hjartað í buxunum í 5 sek. og blússar svo niður á svona 1.5 sekúntu. Um leið og maður var kominn niður langaði mann að fara aftur, en þegar maður var kominn efst þá skildi maður ekki af hverju í andskotanum mann langaði að gera þetta aftur. Svo langaði mann auðvitað strax aftur þegar maður var kominn niður og svona gekk þetta. Djamm í tjaldbúðunum um kvöldið.

Hátíðin byrjaði seinnipartinn á fimmtudeginum, og þangað til gerðum við lítið annað en að lifa á svæðinu, kynnast fólkinu og svæðinu, og djamma auvðitað. Við kíktum einu sinni inn í Hróarskeldubæinn og spókuðum okkur þar í nokkra tíma. Þá var komið líka þetta æðilslega veður sem átti eftir að haldast út næstum alla hátíðina. 25 stiga hiti og heiðskýrt, algjör geggjun. Stundum bara allt of heitt. Þarna var maður farinn að kynnast tjaldbúðunum og þjónustu svæðunum nokkuð vel, en ekki var búið að opna tónleikasvæðið, en það var annað eins svæði, risastórt og mjög skemmtilegt.

Innskot:
Bjórinn niðrá tjaldsvæðunum kostaði ekki nema 180 kr. danskar á kassann, sem voru 30 bjórar. Það gerir tæpar 2200 kr. ísl. á kassann, sem er 72 kr. bjórinn. Á tónleikasvæðinu mátti hinsvegar ekki hafa flöskur og var bjórinn seldur í plastglösum á 18 kr. danskar eða 216 kr. ísl. Svoldið mikill munur en maður varð að láta sig hafa það. Svo var hægt að fara á allskonar bari þarna og kaupa sér sterkara og kokteila og svona eins og hver vildi. Maturinn þarna var fínn, fullt af básum útum allt með allskonar mat, dönskum, mexíkóskum, kínverskum og allskonar venjulegum mat, pítsum, hamborgurum og frönskum. Ég kynntist næst síðasta daginn lang besta matsölustaðnum þarna sem hét Mongolian Barbeque. Þar fengust þeir bestu hamborgarar sem ég hef nokkurntíman smakkað! Vá hvað þeir voru góðir! Ég fæ bara vatn í munninn við að hugsa um þá. Það verður sko það eina sem ég ét þarna á næsta ári, ójá, ég verð þarna á næsta ári. Þarna var svo allt til alls, sturtur, hraðbankar, fínasta hreinlætisaðstaða, bíó, fullt af básum sem seldu allt milli himins og jarðar (þar af fullt af mjög flottum fötum), þannig að það var mjög auðvelt að búa þarna inná svæðinu í þetta langan tíma.

Á miðvikudeginum sáum við Ske spila á Camp stage og voru þeir bara fínir. Það voru tónleikar á þessu sviði alla dagana áður en hátíðin sjálf hófst. Rétt hjá voru líka allskonar hlutir til dægrastyttingar, t.d. völlur sem á var spilaður körfubolti og bandý, sandhóll þar sem spilað var strandblak, einhverstaðar var víst trampólín þótt ég hafi aldrei séð það, svo svar svona kassaklifurskeppni í gangi í tvo daga, og alltaf fullt af fólki í þessu öllu. Á kvöldin breyttist svo Camp stage í útibíó þar sem voru sýndar myndir öll kvöld þar til hátíðin byrjaði.

Á fimmtudeginum hófst svo hátíðin. Við sáum Electric Six (sem spila Danger, High Voltage, og GayBar), Interpol (sem voru bara mjög góðir, ég fór of snemma) og Stone Sour (sem er víst með meðlimum úr Slipknot). Allir þessir tónleikar voru ágætir, en hátíðin hófst fyrst fyrir alvöru þegar Metallica spilaði um kvöldið. Þegar þeir tónleikar byrjuðu var ég búinn að týna öllum strákunum og taldi ekki möguleika á að finna þá innanum 60 þúsund manns þannig að ég gerði bara eins gott úr þessu og ég gat og klifraði uppí staur sem var þarna ekkert allt of langt frá sviðinu og var þar nær alla tónleikana. Þessir tónleikar voru alveg frábærir, þeir tóku öll gömlu frægu lögin sín, One, Nothing Else Matters og Master Of Puppets til að nefna nokkur. Þeir voru líka með sprengingar og flugelda og svoldil svona læti til að auka á showið og það var nokkuð flott. Það var frábært að vera uppí þessum staur því þá sá ég yfir allan mannfjöldann, og þvílíkt magn af fólki hef ég aldrei séð! Ekki á tónleikum amk. Það var alveg geggjað. Eftir tónleikana fann ég svo strákana aftur niðrá tjaldsvæði og við djömmuðum eitthvað fram eftir nóttu.

Innskot:
Eftir tónleikana og djammið alla dagana var maður nottla alveg búinn og ég var kominn inn í tjald milli 3 og 5 flestar næturnar, en maður vaknaði alltaf á morgnana klukkan svona átta eða níu því þá var hitinn inni í tjöldunum orðinn alveg óbærilegur. Ég var heppinn að deyja ekki bara úr súrefnisskorti eða hita eða eitthvað því þetta var alveg svakalegt. Maður skreið svo útúr tjaldinu og fór í stuttbuxur og kannski bol í mesta lagi og gat ekki sofið meir. Því var fæsta dagana sofið mikið.
Framhald...

Á föstudeginum sáum við Murderdolls (svipaði til Stone Sour, einhver úr Slipknot líka) og Asian Dub Foundation (skrítið rapp eitthvað, hélt þeir væru öðruvísi). Eftir það dösuðum við bara í sólinni á einhverjum bekk og drukkum bjór og horfðum á mannlífið. Um kvöldið var svo komið að Iron Maiden og við fórum snemma á þá þannig að við náðum að vera fremst. Það var fínt, ég er enginn aðdáandi en það var gaman að sjá að gömlu kallarnir kunna ennþá að rokka. Þeir eiga líka nokkur fín lög og alltaf gaman að svona rokktónleikum, sérstaklega þar sem söngvarinn er svona ofvirkur. Ég var þar þó bara í þrjú kortér því ég vildi drífa mig á SigurRós sem voru að fara að byrja. Ég mætti snemma á þá líka og náði að vera fremst. Það að maður náði að vera fremst þýddi miklu minni troðning því það var bara hleypt inn í hólf sem voru fremst fyrir framan hvert svið ákveðið mörgum þannig að það var rúmt um mann. SigurRós voru góðir að vanda, en þó þótti mér þeir betri í desember í Háskólabíói. Kannski var það af því að áhorfendurnir (það sáu 20 þús. manns þessa tónleika) voru iðnir við að klappa inní miðjum lögum og vera með læti sem fór í taugarnar á mér. Svo var gaur beint fyrir framan mig sem ætlaði að vera svo sniðugur að kasta vatni yfir fólkið fyrir aftan sig (það voru rétt vatnsglös til þeirra sem voru fremst og var heitt) en það tókst ekki betur til en að hann sturtaði öllu vatninu beint yfir mig og ég stóð þarna rennblautur á SigurRósartónleikum með krosslagðar hendur og boraði gat á hausinn á gaurnum með augnaráðinu. Ég var næstum búinn að hjóla í hann en taldi uppá tíu og hugsaði með mér að ég myndi ekki láta hann eyðileggja fyrir mér þessa tónleika. Eftir SigurRós voru Coldplay að spila en ég sá lítið af þeim því ég er nýbúinn að sjá þá tvisvar hérna heima og fór frekar niðrí tjaldbúðir og fór í hlýrri föt því það var stundum svoldið svalt á kvöldin. Ég kíkti þó á restina á Coldplay þegar ég kom til baka og þeir voru mjög fínir bara. Ég fór svo yfir í Metropol (techno tjaldið) þar sem Darren Emerson var að spila og dansaði þar einn (en nottla með fullt af fólki) því ég var búinn að týna strákunum eins og gengur og gerist. Fann þá svo aftur ég ég hafði litla orku í meira djamm eftir útrásina sem ég fékk í technoinu.

Innskot:
Á tónleikasvæðinu var líka rosalega margt hægt að gera til að drepa tímann og leika sér. Ég nenni ekki einu sinni að fara í það allt. Þetta var mjög stórt svæði með sex stórum tjöldum þar sem var tónlist mest allan tímann, og svo fullt af svæðum til að hanga á eða gera eitthvað snðiugt. Alla dagana var fólk labbandi um með einhverja gjörninga, ástarofurhetjurnar voru sniðugar, gengu um og föðmuðu alla og gáfu fólki "License To Love" límmiða. Fullt af fólki í allskonar búiningum sem vildi bara fá fólk til að hlæja og það tókst oftast. Mjög skemmtileg stemmning bæði á tjaldsvæðunum og tónleikasvæðinu allan tíman.

Laugardagurinn var slakasti tónleikadagurinn. Ég sá eitthvað smá af Xploding Plastix, Melvins, Tomahawk og Fu Manchu. Ekkert af þessu var að gera neina snilldarhluti, en var heldur engin leiðindi nema Melvins sem mér þóttu leiðinlegir og varla hægt að kalla tónlist. Um kvöldið voru svo Blur og The Cardigans en ég sá ekkert af þeim útaf stelpuveseni á mér, tala kannski meira um það seinna. Ég frétti líka að þeir hefðu verið leiðinlegir þannig að ég missti víst ekki af miklu. Ég nennti lítið að djamma því ég var á einhverjum bömmer (útaf fyrrnefndu veseni) og fór því að sofa. Þó var gaman frá því að segja að ég hitti skemmtilegt fólk sem ég þekki þarna um kvöldið og hékk smá með þeim, og það voru einmitt þau sem kynntu mig fyrir borgurunum ómótstæðilegu.

Á sunnudeginum hékk ég með Tomma Young Hróarskeldugúrú og fólkinu hans og var það fín tilbreyting. Við kíktum á The Thrills, Xibit og vorum fremst á Queens of The Stone Age. Þetta voru allt ágætis tónleikar, en ég fór af Queens til að fara á Bonnie 'Prince' Billy og Massive Attack. Hvorugir voru að gera neinar rósir en það var gaman að heyra Teardrop með Massive Attack læv. Eftir það hitti ég Halldór Karl og Geira og var með þeim restina af kvöldinu. Við fórum að sjá Björk og þar gerðist svolítið sem ég átti alls ekki von á. Hún stal senunni algjörlega og var með lang bestu tónleikana á hátíðinni! Þeir voru alveg æðislegir og ekkert nema snilld! Hún er nottla frábær söngkona og tónlistarmaður og hefði það verið nóg til að halda uppi þessum tónleikum, en hún var líka með svo æðislegt show í kringum þetta allt að maður bara gapti! Brjáluð flugeldasýning fyrir ofan sviðið og eldur útum allt á sviðinu, og þegar ekki var allt vaðandi í eld og flugeldum þá voru mjög flott myndbrot á risatjaldi aftast á sviðinu sem fönguðu steminguna í laginu sem var verið að spila. Taktarnir hjá henni eru svo flottir og það ætlaði allt að brjótast út í reif stemmningu þegar hún var að spila sum lögin. Þetta voru án efa bestu tónleikarnir á hátíðinni, og meira að segja þeir bestu sem ég hef farið á. (Að vísu verð ég að undanskilja tvenna SigurRósar tónleika ('99 og '02)því þeir voru allt öðruvísi góðir). Maður var stoltur af að vera Íslendingur þarna þótt maður sé eiginlega hættur að hugsa þannig um Björk. Ég er barasta orðinn Bjarkar aðdáandi núna held ég bara svei mér þá.

Eftir þessa æðislegu tónleika fór ég með strákunum á þeirra tjaldsvæði og hitti nýja Íslendinga og djammaði með þeim eitthvað fram eftir nóttu. Daginn eftir fórum við inní Köben og fundum okkur ódýrt en gott hótel því við áttum ekki flug fyrr en daginn eftir. Kíktum auðvitað á pöbbarölt á Strikinu og það var skemmtilegt síðasta kvöld. Þriðjudagurinn fór svo í bið eftir fluginu sem var ekki fyrr en seint um kvöldið. Ég komst með og ekki nót með það þá var ég á Saga Class! Djöfull var það næs, endalaust pláss og dekrað við mann alla leiðina. Það var gott eftir læti vikunnar þar á undan. Þó var ég kominn með hálsbólgu og er enn með en það verður víst að hafa það. Þá er ég búinn að lýsa öllum dögunum fyrir sig og held ég láti þetta nægja í bili því mér er farið að verkja í puttana og ég er búinn að skrifa allt allt of mikið! Ég á þó eftir að skrifa meira en það kemur seinna.

Vil bara enda með því að undirstrika hvað þetta var frábært. Stemmningin á svæðinu, fólkið, veðrið, tónleikarnir, þetta var allt alveg frábært og er engin spurning að ég verð þarna á næsta ári. Og þar á eftir og þar á eftir. Þið sem öfundið mig af að hafa farið, ég skil ykkur alveg og þig megið alveg vera öfundsjúk! En ekki blóta mér fyrir að hafa farið, þið skulið frekar bara ákveða að fara á næsta ári, því ég veit um svo marga sem hefur langað lengi að fara en ekki látið verða af því. Drífðu þig bara! Það er ekkert flókið! Ég lofa þér því, þú sérð ekki eftir því.
..:: brand new roskilde fan ::..

miðvikudagur, júlí 02, 2003

Kominn á klakann


Jæja, vikan er búin og fyrsta Hróarskeldan að baki. Ég get sko sagt þér að þetta verður ekki sú síðasta. Ég er þreyttur eftir vikudjamm og ferðalög dagsins (og ég er kominn með hálsbólgu og veikur barasta) þannig að ég ætla lítið að blogga núna en á morgun verður bætt úr því og þú færð stemmninguna frá Hróarskeldu beint í æð... eða svona næstum. Þetta var æðisleg ferð og það small barasta allt saman til að þetta yrði snilldar hátið. Stemmningin, veðrið, tónleikarnir... bara hele klabben. Ég held ég hætti í lélegu enskuslettunum og færi mig um set yfir í lélegu dönskusletturnar. Ég kveð með setningu helgarinnar, pas på den, det er en tog!
..:: magzzzzzz.... ::..