sunnudagur, janúar 30, 2005

Eins og amma hans Einars segir, skemmtilegu fólki leiðist aldrei!

Ég fór til Kaupmannahafnar á fimmtudaginn því Jóhann Már og Einar Þorgeirs gerðu sér ferð til Danmerkur til að hitta mig og Björk. Það má segja að hápunktur heimsóknarinnar hafi verið í gær þegar við fórum út að borða á Spiseloppen í Kristianiu. Það er alveg frábær veitingastaður, virkilega skemmtileg stemmning og alveg ótrúlega góður matur! Ég fékk mér rækjur í forrétt og önd í aðalrétt og ég hélt að ég myndi springa þegar ég var búinn að borða! Ég gat samt ekki hugsað mér að leifa neinu því þetta var svo gott en ég var síðastur að klára að borða bæði forréttinn og aðalrétinn! Það er eitthvað met því ég er alltaf búinn fyrstur. Eftir matinn röltum við svo um Kristianiu og það var mjög gaman, ég hef aldrei komið þangað áður og blótaði því mikið að vera ekki með myndavélina mína. Ég verð bara að kíkja þangað fljótlega aftur áður en þeir eyðileggja enn meira. Annars var bara djamm á okkur og mikið spjallað og bullað drukkinn bjór.
Maggi.

miðvikudagur, janúar 26, 2005

It's picture time!

Ég, Elva og Lára fórum í göngutúr í frostinu í gær og ég uppskar úr honum (ásamt fleiri átökum við kuldabola) þetta líka skemmtilega kvef. Eða kellingaveiki eins og Rebekka kallar það. En mér liggur við að segja að það hafi verið þess virði því það var snjór og vatnið við kastalann hér í Kolding var hálffrosið og kastalinn upplýstur sem skapaði skemmtilega stemmningu. Ég fór því á stúfana með þrífótinn sem ég fékk í jólagjöf, myndavélina mína og tvær aðstoðarkonur og smellti af nokkrum myndum. Sumar þeirra voru bara nokkuð vel heppnaðar og við eigum eflaust eftir að taka fleiri myndarúnta í framtíðinni. Bara vonandi þegar það er ekki svona kalt! Þið getið skoðað afraksturinn hérna.
Maggi.

sunnudagur, janúar 23, 2005

Salsa/Keilu kóngur Kolding

Það er aldeilis. Fjórir dagar síðan við kláruðum prófin! Þeir liðu alveg fáránlega fljótt. Enda var rosalega gaman. Partý (þrjú réttara sagt), afmæli, bjór, heimsóknir, salsa, keila og almenn hamingja lýsa þessum dögum best. Það var mjög gaman í partýinu á föstudaginn þar sem var strandþema og allir mættu með sólgleraugu og sumir hverjir í mjög sumarlegum klæðnaði í janúarfrostinu. Ég keypti mér heilan ananas og skar innan úr honum og notaði sem glas undir vodka blandaðan í ávaxtadjús og vakti það mikla lukku. Hin partýin voru líka skemmtileg en kannski ekki í frásögur færandi. Vinir hennar Láru, þeir Einar og Jenni, voru í heimsókn hjá stelpunum alla helgina og skemmtu sér með okkur. Stórskemmtilegir strákar og alltaf gaman þegar fólk gerir sér ferð af klakanum til að kíkja á okkur baunabelgina.

Í gærkvöldi (lau) var svo haldið á Pit-Stop að venju, en það er uppáhalds skemmtistaðurinn okkar í Kolding. Ég hafði ekki hugmynd um það fyrirfram en það var Salsa-kvöld í gangi og það var sko ekki óhamingja með það hjá mér! Ég dansaði salsa allt kvöldið og skemmti mér konunglega. Fólkið sem var með mér var að fíla þetta mjög misjafnlega en maður á alltaf að gefa svona "nýjum" hlutum sjens, hlutum sem maður er ekki vanur. Mér fannst rosalega gaman að dansa við þetta amk, og fyrir utan eitt atvik þá gekk það bara mjög vel! :D

Í dag átti svo Kolla afmæli (til hamingju aftur Kolla!) og hún hélt smá afmælisboð þar sem var boðið uppá heitan rétt og köku. Kræsingarnar vöktu kannski einum of mikla lukku því fólk var farið að kvarta undan magaverkjum vegna ofáts milli þess sem það hélt áfram að gúffa í sig. Eftir það kíktum við uppí keiluhöllina hérna í Kolding og spiluðum pool í smástund áður en við tókum einn leik í keilu. Ég veit ekki hvað kom yfir mig en ég var alveg funheitur og jarðaði algjörlega gamla metið mitt! Ég skoraði 198 stig og efast um að ég geti nokkurntíman toppað það. Sex fellur og einhverjar feykjur og ég veit ekki hvað og hvað. Mjög skemmtilegt, og ég held að ég geti bara sleppt því að fara aftur í keilu. Það mun aldrei ganga svona vel aftur.

Á morgun er svo alvara lífsins, eða eins alvarlegt og það verður hérna í Baunalandi (sem er ekkert mjög mikill alvarleiki svosem). Skólinn byrjar aftur og það verður bara gaman. Við erum að fara í eitthvað Design dæmi í heila viku sem veitir ekkert af eins og prófin fóru hjá okkur. Svo verð ég nú að fara að henda inn myndum, hef ekki sett inn myndir síðan flugeldaverskmiðjan tók uppá því að springa. Það eru ár og öld síðan það var, og nóg til af myndum. Bið að heilsa öllum í landi íss og snjóa.
Maggi.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Nú er mér öllum próflokið

Prófin eru búin! Þetta tók nú fljótt af, þrjú próf á þremur dögum og gott að vera búinn. Seinni tvö prófin voru öðruvísi en það fyrsta. Það var erfiðara að undirbúa sig fyrir þau því efnið var ekki svo mikið. Próf númer tvö sem var á þriðjudaginn var í Interaction og þar vorum við spurð út úr kóðanum á síðunni okkar. Þessi próf snúast voða mikið um hvað maður nær að kjafta sig vel útúr þeim (enda heita þau munnleg próf) en ekkert endilega um hversu fær maður er í viðkomandi fagi. Ég fékk níu í þessu prófi og var bara þokkalega sáttur við það, en ég klúðraði einni spurningu í lokin eftir að hafa staðið mig mjög vel. Ég átti alveg að vita svarið en það bara datt útúr mér í smá stund á besta tíma eða þannig. Gústi sem kóðaði vefinn og er betri en ég í þessu fékk átta og stelpa sem er nýbyrjuð í þessu og hefur ekkert komið nálægt kóða áður fékk níu. Þannig að það má alveg deila um sanngirni þessa prófs.

Þriðja og síðasta prófið var svo í gær og var nokkuð furðulegt. Það var Design og við vorum tekin inn eitt í einu og spjölluðum við einn af Design kennurunum, en þess má geta að hann er félagslega þroskaheftur. Það er rosalega erfitt að tala við hann en hann má nú eiga það að það var aðeins auðveldara en vanalega í þessu prófi. Nema hvað. Hann gaf okkur ekki einkunn um leið og hver og einn var búinn í prófinu heldur beið hann með það þangað til við vorum öll búin og tók okkur svo inn öll í einu. Það var ekki svoleiðis í hinum prófunum og það var ekki svoleiðis í Design prófinu hjá öllum hópunum sem voru á undan okkur! Það er auðvitað fáránlegt að nota ekki sömu aðferð við að dæma alla en hann sagði að hann hefði ekki getað gert þetta öðruvísi því hann var í svo miklum vafa með okkur.

Hann var vægast sagt óánægður með vefinn, setti útá öll smáatriði sem hann fann og talaði ekki um neina kosti. Það er mjög erfitt að gera þessum manni til geðs og við vorum svo sniðug að hitta á alla veiku punktana hans, gerðum allt sem hann hatar að sjá á vefsíðum. Heildarútlitið á síðunni okkar var gott, og það segi ég eftir að hafa heyrt það frá öllum sem hafa séð hana. En honum fannst það ekki, eða honum fannst það amk ekki skipta máli. Hann gaf okkur sex sem er lægsta einkunn án þess að falla. Og hann leit út eins og hann langaði að fella okkur! Þannig að þetta dró niður meðaleinkunina mína sem stefndi í að vera ansi góð. En niðurstöðurnar liggja fyrir, Business & Communication = 10, Interaction = 9 og Design = 6. Núna er byrjuð fjögurra daga helgi og hún verður vel nýtt í að fagna próflokum. Á föstudaginn er partý hjá Láru og Elvu til að fagna próflokum og afmælinu hennar Kollu og það er strandþema í partýinu þannig að það mæta allir með sólgleraugu og íbúðin verður skreytt hátt og lágt! Það verður eflaust gaman. :D
Maggi.

mánudagur, janúar 17, 2005

1/3... so far so good!

Jæja, fyrsta alvöru prófið mitt í skólanum var í dag. Þetta var próf úr bæði Business og Communication og var þetta lang mikilvægasta prófið og erfiðasta. Núna alla síðustu viku eftir að ég kom heim var ég að reyna að læra fyrir þetta blessaða próf. Það gekk nú mest lítið fyrr en núna um helgina þegar þetta small allt saman og mér tókst að koma mér inní það sem mér þótti mikilvægt og bjóst við að ég gæti talað um. Þetta var nefnilega munnlegt próf og ekki nóg með það, heldur var þetta fyrsta alvöru munnlega prófið mitt (ef undanskilið er eitt dönskupróf í fjölbraut).

Fyrst hélt ég kynningu í fimm mínútur um verkefnið sem við skiluðum núna í desember og svo spurðu tveir kennarar mig út úr í tíu mínútur, svona spjall um módel sem við notuðum eða notuðum ekki og þá hvers vegna og um fyrirtækið Bang & Olufsen sjálft. Þetta gekk bara mjög vel fyrir utan að mér fannst ég stama svolítið á enskunni enda mikið að segja á litlum tíma og ekki alltaf gott að koma orðum nákvæmlega að því sem maður meinar á þessu business-tungumáli sem maður þarf að tala. Einkuninn var gefin strax og var sambland af skýrslunni sem við gerðum og munnlega prófinu og ég fékk einkunina tíu. Tía í danska kerfinu er ekki það sama og tía heima á Íslandi því hérna getur maður líka fengið ellefu sem er hæsta venjulega einkunn sem er gefin. Ég segi venjulega því það er svo líka hægt að fá þrettán, en sú einkunn er sjaldan eða aldrei gefin! Frekar skrítið kerfi en svona vill Daninn gera þetta. Tíu er semsagt ekki hæst en samt mjög fín einkunn þannig að ég er sáttur.

Þetta er semsagt meginástæða þess af hverju ég hef verið latur bloggari undanfarið, nóg annað að hugsa um. Núna eru tvö próf eftir, eitt í Interaction, sem snýst aðallega um kóðun á heimasíðum, og eitt í Design, sem augljóslega snýst um hönnun. Þessi próf eru á morgun og miðvikudaginn og eru eins upp sett og prófið í dag, semsagt kortérs munnleg próf. En þau eru miklu mun léttari því efnið sem við höfum farið í í þessum fögum er mun minna auk þess sem ég var með fínan grunn í kóðun áður en ég byrjaði í þessum skóla og er varla farinn að læra eitthvað nýtt ennþá í því fagi. Þannig að erfiðasti hlutinn er búinn og núna er bara að mæta í hin prófin og standa sig í þeim.

Já það er aldeilis mismunandi hvað fólk kýs að taka með sér á eyðieyju enda mennirnir misjafnir eins og þeir eru margir. Ég hef aldrei skilið tilganginn með þessari spurningu, finnst þetta ekki veita neitt sálfræðilegt innsæi en kannski er það bara ég. Ég spurði nú bara af því að ég komst inní nýjan þátt þegar ég var heima á Íslandi sem heitir Lost og fjallar um fólk sem lendir í flugslysi og fimmtíu manns bjargast en týnast á eyðieyju. Að sjálfsögðu er þessi þáttur bara í Bandaríkjunum en ég sótti hann á netinu og hef haldið því áfram hér í DK. Mæli með honum fyrir þá sem eru með ágæta nettengingu. Nú eru komnir þrettán þættir og ágætis plott búið að myndast. Vonandi hafa það allir gott heima. Kveðja,
Magnús.

laugardagur, janúar 15, 2005

Hnetusmjör

Hvað myndir þú taka með þér er ef þú værir fastur/föst á eyðieyju?

Maggi.

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Kominn heim - Óveður og flóðbylgjur

Það er gott að vera kominn til Kolding. Dagarnir hafa farið í að reyna að læra fyrir prófin sem eru í næstu viku en það gengur frekar illa því ég hef aldrei farið í munnleg próf áður og veit í raun ekkert við hverju ég á að búast. Ég held að það sama gildi um flesta ef ekki alla sem eru að fara í þessi próf. Vonandi fáum við betri upplýsingar um þetta allt saman áður en prófin bresta á.

Um allt hverfið okkar eru hrúgur af brotnum þakhellum sem hefur verið sópað saman eftir óveðrið sem var síðustu helgi. Það fuku þakehellur af öllum húsunum hér í kring. Frekar merkilegt að þetta sé ekki fest betur niður því þessar hellur eru stórhættulegar þegar þær lenda á jörðinni. Það dóu nokkrir í þessu óveðri hérna í Danmörku og ég held að það hafi oftast verið útaf þakhellum sem fuku og lentu á fólki.

Ég hef verið að skoða fréttir af Koh Phi Phi, eyjaklasanum við Taíland sem ég og Biggi heimsóttum í heimsreisunni okkar í vor. Það var eins og ég hélt, hún fór mjög illa útúr flóðbylgjunni fyrir tveimur vikum og fleiri hundruð manns dóu. 691 dáinn og tæplega þúsund annara saknað eru nýjustu tölur sem ég hef séð. Maður veit ekki hvort þetta fólk sem er saknað er fólk sem gæti komið í ljós að er farið frá eyjunni án þess að láta vita af sér, en líklegast er meirihluti þeirra fólk sem skolaði á haf út og eru dáin og finnast aldrei. Þetta er rosalega mikið mannfall miðað við hvað eyjan er fámenn og um helmingur af þessu fólki voru ferðamenn. Mikið af rusli er um alla eyjuna sem hótelin eru á og það á eftir að taka marga mánuði að hreinsa það allt upp og enn lengri tíma að byggja upp ferðaþjónustuna. Það má segja að við Biggi höfum verið á síðasta sjens að heimsækja þessa paradís. Það er amk langt þangað til að það verði gaman að heimsækja þessar eyjur aftur. [Smelltu hér til að sjá myndirnar sem við tókum á Koh Phi Phi.]
Maggi.

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Heim eða að heiman?

Það fer allt eftir því hverig maður á það, allt er afstætt. Er ég að fara heim 10. janúar? Eða er ég að fara að heiman þann dag? Eða kannski bæði? Ætli það skipti ekki bara máli hvernig ég lít á það. Þegar ég kem aftur til Íslands næsta sumar gæti alveg verið að fjölskyldan mín væri flutt í nýtt hús og ég yrði að gista í gestaherberginu! Þá væri nú slæmt að vera gestur á eigin heimili. Ég held því að ég verði að segja að ég sé að fara heim tíunda janúar. Heim til Danmerkur. Heim til Kolding. Heim á Knud-Hansensvej. Home is where the heart is, sagði einhver. Og ég hlakka til að koma heim. Það er gott að búa í Danmörku.

Gleðilegt ár! Til allra ykkar sem ég er ekki búinn að hitta eða heyra í á nýja árinu. 2005. Tvöþúsundogfimm. Tveir núll núll fimm. Ætli það verði gefin út mynd með James Bond árið 2007? Þeir geta varla sleppt því frábæra tækifæri. Tveir núll núll sjö. Kannski verða tveir núll núll sjö í þeirri mynd í staðinn fyrir einn. Gæti fjallað um að Bond, James Bond, væri klónaður og Bond er bæði góði og vondi kallinn! Og maður vissi ekki hvor væri hvað. Myndin gæti heitið 2-007 og væri frumsýnd um allan heim tuttugasta júlí (20.07) klukkan 20.07. Ég myndi fara á þá mynd. Spurning hvort maður fari ekki bara að skrifa handritið!
Maggi.