miðvikudagur, janúar 12, 2005

Kominn heim - Óveður og flóðbylgjur

Það er gott að vera kominn til Kolding. Dagarnir hafa farið í að reyna að læra fyrir prófin sem eru í næstu viku en það gengur frekar illa því ég hef aldrei farið í munnleg próf áður og veit í raun ekkert við hverju ég á að búast. Ég held að það sama gildi um flesta ef ekki alla sem eru að fara í þessi próf. Vonandi fáum við betri upplýsingar um þetta allt saman áður en prófin bresta á.

Um allt hverfið okkar eru hrúgur af brotnum þakhellum sem hefur verið sópað saman eftir óveðrið sem var síðustu helgi. Það fuku þakehellur af öllum húsunum hér í kring. Frekar merkilegt að þetta sé ekki fest betur niður því þessar hellur eru stórhættulegar þegar þær lenda á jörðinni. Það dóu nokkrir í þessu óveðri hérna í Danmörku og ég held að það hafi oftast verið útaf þakhellum sem fuku og lentu á fólki.

Ég hef verið að skoða fréttir af Koh Phi Phi, eyjaklasanum við Taíland sem ég og Biggi heimsóttum í heimsreisunni okkar í vor. Það var eins og ég hélt, hún fór mjög illa útúr flóðbylgjunni fyrir tveimur vikum og fleiri hundruð manns dóu. 691 dáinn og tæplega þúsund annara saknað eru nýjustu tölur sem ég hef séð. Maður veit ekki hvort þetta fólk sem er saknað er fólk sem gæti komið í ljós að er farið frá eyjunni án þess að láta vita af sér, en líklegast er meirihluti þeirra fólk sem skolaði á haf út og eru dáin og finnast aldrei. Þetta er rosalega mikið mannfall miðað við hvað eyjan er fámenn og um helmingur af þessu fólki voru ferðamenn. Mikið af rusli er um alla eyjuna sem hótelin eru á og það á eftir að taka marga mánuði að hreinsa það allt upp og enn lengri tíma að byggja upp ferðaþjónustuna. Það má segja að við Biggi höfum verið á síðasta sjens að heimsækja þessa paradís. Það er amk langt þangað til að það verði gaman að heimsækja þessar eyjur aftur. [Smelltu hér til að sjá myndirnar sem við tókum á Koh Phi Phi.]
Maggi.
blog comments powered by Disqus