þriðjudagur, maí 11, 2010

Hvað gerðist?

Það væri kannski fyrsta setningin hjá mér ef ég myndi vakna úr dái. Bloggið mitt hefur verið í dái í einhverja mánuði, og að sumu leyti ég líka. Það er kannski kominn tími til að vakna!

Ég lenti inná eldgömlum færslum á þessu bloggi áðan. Fyndið að lesa um það sem maður var að hugsa fyrir sex sjö árum síðan. Skrítið að segja frá því, en ég saknaði mín svolítið. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi, var nýhættur í H-skólanum og vissi ekkert í minn haus. Eitthvað var ferðabakterían farin að segja til sín og ég var á leiðinni á mína fyrstu Hróarskeldu. Ég var yngri, vitlausari, óheflaðri og hressari! Ég held ég hafi yfir höfuð verið mjög hress á þessum tíma. Ég er ekki að segja að ég sé dauður úr öllum æðum núna, en það er líklega óumflýjanlegt að maður róist aðeins með árunum. Nú hljóma ég eins og ég sé helmingi eldri en ég er, en ég býst við að margir hafi einhverntíman hugsað eitthvað svipað. :)

Maður er þó ekki orðinn of gamall fyrir Hróarskeldu! Ég á reyndar enn eftir að kaupa mér miða en það stefnir allt í að ég sé að fara á mína sjöundu hátíð. Ég fór samfleytt frá 2003 til 2008. Svo tók ég mér eitt ár í pásu og ætla að mæta aftur og endurnýja kynnin við þessa æðislegu upplifun. Eftir fyrstu hátíðina mína sagði ég hverjum sem vildi heyra að ég ætlaði að fara tíu ár í röð. Aldrei bjóst ég þó við því að ég myndi komast svona nálægt því!

Það skal engan að undra en ég er farinn að gæla við tilhugsunina um að fá mér iPad. Ég er ekki að ljúga því að sjálfum mér að ég þurfi að eignast slíkt tæki, en það breytir því ekki að mig langar í það! Ég held að ástæðan sé 50% tækjafíkn og 50% forvitni. Ég er nefnilega mjög forvitinn hvort ég myndi falla í hinn stóra hóp fólks sem segir að iPad sé búinn að taka yfir 90% þeirra verka sem fólk notar tölvuna sína í. En eins og ég segi, ég hef enga þörf fyrir þetta, mann langar bara alltaf í nýtt dót.

Ég fékk mér reyndar nýtt Apple dót um daginn! Ég keypti mér Magic Mouse í fríhöfninni á Íslandi. Þetta er fínasta mús og ég er bara nokkuð sáttur með hana. Ég hikaði lengi vel við að kaupa svona, en það virðist bara enginn annar músaframleiðandi skilja að það er hægt að gera Bluetooth mús sem er stærri en eldspýtustokkur. Það er mjög gaman að skrolla (kann ekki að segja það á góðri íslensku) með nýju músinni, það virkar svipað og í iPhone (og iPad). Skrollið nær ákveðinni ferð og stoppar rólega eins og eitthvað sem rúllar og hægir svo á sér. Mér finnst að þetta ætti að vera möguleiki í öllum músum og snertiflötum (e. trackpads). Kannski taka fleiri þetta upp. Jæja venjulegt fólk fer að fara á fætur þannig að kannski ætti ég að fara að sofa! :)

..:: maggiPad ::..