föstudagur, september 30, 2005

GarbagePalKids

Það var merkileg hersing sem fór frá Helligkorsgade og í áttina að Munkegade í gærkvöldi. Það voru sjö manneskjur og allar með fullar hendur af rusli! Já það getur verið vesen að henda ruslinu sínu í Danmörku. Maður þarf að fara með það í skjóli nætur í ruslagáma nágrannanna. Við strákarnir héldum nefnilega partý síðustu helgi og það var ansi mikið rusl eftir það, og svo var búið að safnast upp mikið af pappakassadóti eftir að ég og Snorri fluttum hingað inn. En við megum bara henda í eina tunnu á viku! Þannig að þetta var eina lausnin sem við sáum. Leynilegar ruslaaðgerðir seint um kvöld.
Maggi.

mánudagur, september 26, 2005

Neverending summer

Það ætlar engan enda að taka þetta sumar! Það var komið fínt veður hér í Danmörku í apríl og maí og þá byrjaði sumarið. Svo fékk ég smá forskot á íslenska sumarfríið með því að taka tvær vikur heima í upplestrarfríinu í júní. Svo kíkti ég út aftur og tók prófið mitt og átti góða viku í Horsens í æðislegu veðri og svo rúma viku á Hróarskeldu í einskærri gleði og góða veðrið hélst allan þann tíma. Svo fór ég heim til Íslands í fimm vikur (hið eiginlega sumarfrí) og skemmti mér mjög vel. Þegar ég kom aftur hingað út þá byrjaði loksins hið danska sumar því það hafði verið leiðinlegt veður á meðan ég var heima. Og það bólar ennþá ekkert á vetrinum! Það er upp undir tuttugu stiga hiti hér flesta daga, fer í það minnsta ekki undir 15 gráður, og nánast engin úrkoma. Þannig að þetta er eitt það lengta sumar sem ég hef upplifað verð ég að segja! :D

Ósk var svo skemmtileg að klukka mig, ég sem var að vonast til að ég myndi sleppa. En ég verð víst að taka þessu og segja fimm tilgangslausar staðreyndir um sjálfan mig. Ég ætla samt ekki að klukka neinn því ég er viss um að ég er einn af fáum bloggurum sem átti eftir að klukka. En já, here we go:

1. Uppáhalds (hversdags)maturinn minn í Danmörku er lasagna, og bara ein sérstök tegund af tilbúnu frosnu lasagna.

2. Ég er með kæk þegar ég tannbursta mig, þá hreyfi ég axlirnar.

3. Mér finnst skárra að sópa en ryksuga.

4. Ég geng alltaf í G-streng á þriðjudögum. (neeeeeeiiii... þetta er einkahúmor.)

4. Mér finnst einkahúmor yfirleitt besti húmorinn.

5. Í október þá er ég búinn að blogga samfleytt í þrjú ár, þrátt fyrir að hafa verið mis duglegur við það.

Og hana nú! Annars er helvíti góð saga með þennan G-strengs brandara, ég segi hana kannski hérna á blogginu við tækifæri ef ég fæ leyfi frá þeim sem á söguna. By the way, þá hef ég aldrei prófað G-streng, og þrátt fyrir að mottóið mitt sé "alltaf að prófa eitthvað nýtt" þá er þetta ekki eitt af því sem ég ætla að prófa.
Maggi.

fimmtudagur, september 22, 2005

Þetta helst

Það er búið að vera nóg að gera í skólanum undanfarið. Kennararnir setja fyrir nokkuð stór verkefni í hverri viku og það hefur bara gengið vel að klára þau þannig að bæði þeir og við séum sátt við útkomuna. Á morgun kemur einhver gaur frá einhverju fyrirtæki til að meta verkefnið frá í síðustu viku. Ég var greinilega ekki mikið að fylgjast með en ég man að hann heitir Johnny.... held ég. Verkefnið var að gera eitt logo, tvær vefsíður, tvo vefbannera, tvær tímarita auglýsingar, og tvo bannera til að stilla uppí búð fyrir reiðhjólaframleiðanda (ekki raunverulegan). Og allt þetta átti að klárast í síðustu viku. Við vorum fimm saman í hóp, ég, Kolla, Birna, Elva og Lára. Þetta gekk bara nokkuð vel og ég vona að við fáum góða umsögn á morgun.

Við erum við það að tryggja okkur miða á SigurRós sem spilar í Gautaborg 3. nóvember. Búin að panta en eigum bara eftir að borga! Þannig að í byrjun nóvember er það road trip baby!!! Það verður geggjjað gaman! Við ætlum að leigja okkur níu manna van og bruna til Svíþjóðar og kannski koma við í Noregi í leiðinni, kíkja á Osló! Okkur er farið að hlakka mikið til! Ég las í viðtali við SigurRós að þeir ætluðu að spila á Íslandi í október og ég verð því miður að beila á þeim en vona að þeir verði geggjaðir! Ég tel engar líkur á öðru, enda stendur á heimasíðunni þeirra (sigur-ros.co.uk) að þeir séu alltaf að spila fleiri og fleiri lög af nýja disknum eftir því sem líður á tónleikaferðalagið. Ég hlakka svooo til! :D
Maggi.

mánudagur, september 19, 2005

Allt að gerast á Helligkorsgade!

Það er ekki lognmollan á þessu heimili frekar en vanalega! Gestagangur alla daga, hér spila menn Halo og Mashed á X-Box tölvunni, Playstation 2 og Game Cube eru ekki langt undan, menn spila pílu og póker, bjóða í partý um helgar, og það er full stofa af fólki í verkefnavinnu hér flesta daga. Svona á þetta að vera! Manni finnst bara sorglegt að þetta er síðasta önnin okkar í Kolding og að við þurfum örugglega að segja upp íbúðinni núna í lok árs. Það er búið að tala um að flytja Helligkorsgade gengið eins og það leggur sig yfir til Köben, því allir virðast ætla að halda náminu áfram þar. Það verður ekki minni afþreyingarmiðstöð get ég lofað ykkur! Enda verður að vera nóg að gera heima hjá manni hér í Danmörku því ekki hefur maður bíl til að fara eitthvert í frítímanum. Maður nennir aldrei að taka strætó til að fara í bíó eða lestina til að fara útúr bænum nema það sé planað fyrirfram. Þannig að það er gott að það er svona mikil stemmning heima! :D
Maggi.

laugardagur, september 17, 2005

Á fimmtudaginn fengu Ísak og Snorri þá hugdettu að skella sér til Þýskalands og það var ekkert verið að tvínóna við hlutina, heldur leigðu þeir bara bíl og brunuðu yfir landamærin og ég fékk að fljóta með. Enginn smá bíll heldur, glænýr Peugeot 406. Eftir dúk og disk fundum við góða landamærabúð, því þrátt fyrir að það sé nóg af þeim á svæðinu þá er alveg hrikalega erfitt að finna þetta! Við troðfylltum kaggann af veigum handa okkur og fleirum og kíktum svo á McDonals og hlógum að Þjóðverjunum sem kunna enga ensku.

Í kvöld fórum við nokkur saman út að borða á Bones og ég fékk mér svaðalega steik! Öss hvað ég er saddur núna, en samt bara passlega. Síðast þegar ég fór þá valt ég útaf staðnum eftir rifin sem ég fékk mér. Sumir misstu sig aðeins í því að panta kartöflur og pöntuðu þrjár bakaðar kartöflur og franskar líka fyrir utan kjötið sem þau fengu, og pöntuðu líka fimm mismunandi tegundir af sósu! Þetta fær staðurinn fyrir að leyfa fólki að panta eins mikið af kartöflum og sósu eins og það vill án þess að borga meira. :) Í kvöld er það svo hittingur hér á Helligkorsgade og við ætlum að fá okkur öl og hafa það gott.
Maggi.

E.s: Ég gleymdi að setja titil á færsluna þannig að ég set hann bara aftast.

Germany and the Steak!

þriðjudagur, september 13, 2005


Takk...
Nýji SigurRósar diskurinn er kominn!

Og hann er ekkert smá góður. Ég er reyndar búinn að hlusta á hann núna í nokkrar vikur, en í dag fékk ég mitt alvöru eintak í hendurnar. Ég keypti mér sérútgáfu sem verður bara gefin út í takmörkuðu upplagi og inniheldur hún meira af listaverkum eftir hljómsveitarmeðlimi og fólkið í kringum þá. Ég mæli eindregið með því að þið hlustið á nýju plötuna, og svo getiði líka nálgast tónleika á netinu sem voru haldnir í gær (11. sept) í Maryland í Bandaríkjunum. Upptökuna af þeim og viðtal við hljómsveitina finniði hérna. Í nóvember ætlum við að fara nokkur saman til Gautaborgar (já, Svíþjóð baby!) á tónleika með SigurRós. Þeir verða á fimmtudegi (3. nóv) og við ætlum að eyða allri helginni í Svíþjóð og gera eitthvað fleira skemmtilegt, fara í tívolí og svona. Það verður eflaust gaman! Oh, allt of langt að bíða. Maður verður bara að hlusta á diskinn á hverjum degi þangað til. :) Hvernig finnst ykkur svo nýji diskurinn?
Maggi.

laugardagur, september 10, 2005

Ég finn bara sjampólykt af myndinni hún er svo raunveruleg!

mánudagur, september 05, 2005

Þetta er nottla engin frammistaða!

Það er nú fokið í flest skjól þegar netfíkill með meiru nennir ekki að blogga. En hvað um það. Gleðilegan september!

Fyrir rúmri viku síðan fórum ég, Birna, Lára og Elva til Horsens í heimsókn til hans Jóa. Tilefnið var miðaldavestival og það var virkilega gaman að sjá það. Eina helgi á hverju ári er allur miðbærinn undirlagður af þessu miðaldaþema og allt umbreytist og virðist vera mörg hundruð ára gamalt! Stór hluti af bæjarbúum klæðist fötum frá þeim tíma, sölubásar eru settir upp útum allt með vörum sem minna á gamla tíma, haldnar eru leiksýningar og um allan bæ er fólk í hlutverkaleik og þykist vera betlarar eða kóngar og allt þar á milli. Við skemmtum okkur rosalega vel alla helgina, drukkum bjór úr leirkrúsum og skylmdumst með trésverðum við hvort annað og ýmsa riddara. Stór rauð regnhlíf kom líka mikið við sögu annað kvöldið og við erum enn að hlægja að mörgum eftirminnilegum atvikum helgarinnar.

Núna á föstudaginn var nýnemadagur í skólanum þar sem allt var gert til að skemmta nýjustu nemendum skólans. Við á öðru árinu lékum við þau í Legeparken þar sem var farið í hinar ýmsu íþróttir og um kvöldið var partý á Republikken. Jói kíkti í heimsókn til okkar frá Horsens og var svo óheppinn að veskinu hans var stolið úr vasanum hans. Hann var ekki lengi að hugsa sig um heldur hljóp þjófinn uppi, tæklaði hann og náði veskinu sínu aftur! Magnað kvöld alveg hreint.

Í gær komst ég í kynni við gátu-leik á netinu sem ég verð bara að mæla með. Hann heitir Not Pron og snýst einfaldlega um að koma sér á næstu þraut með öllum ráðum. Fólk þarf vera ágætlega að sér í netnotkun, fara í View Source til dæmis og sækja þar vísbendingar sem hjálpa til við að koma fólki í næstu þraut. Stundum á maður að nota Google til að hjálpa sér og leita þar að upplýsingum sem gætu komið manni í næsta borð. Oftar en ekki á að finna rétt notendanafn og lykilorð sem gengur að næstu síðu. Endilega lesið reglurnar og prófið ykkur svo áfram. Leikurinn er hér. Góða skemmtun!
Maggi.