laugardagur, maí 31, 2003

Reality... bites? ...og kisur.


Er þetta raunveruleikinn...?Ég hef verið að hugsa svolítið um raunveruleikann undanfarið. Öll þekkjum við (leyfi ég mér að fullyrða) að eitthvað sem maður gerir að kvöldi til og virtist vera alveg brilliant hugmynd er ekkert nema heimskulegt daginn eftir og maður sér eftir því um leið og maður vaknar. Þá er ég ekki að tala um eitthvað fylleríisröfl heldur bara að heilinn fúnkerar ekki alveg nógu vel þegar klukkan er orðin of margt. Ég held nefnilega að raunveruleikinn sé mestur þegar maður vaknar og svo dvíni hann eftir því sem líður á daginn. Svo þegar maður er orðinn of þreyttur, jafnvel kominn í svefngalsa þá er raunveruleikinn í lágmarki. Ég tala nú ekki um þegar maður er í glasi og jafnvel að halda partý. Að vakna daginn eftir og sjá að allt er í rúst og eiga eftir að þrífa í þynkunni, það er raunveruleikinn að slá þig í framan með blautri tusku. Þá erum við eins og hundur raunveruleikans og hann er að nudda okkur uppúr pissupollinum sem við migum útí horni af því að við vissum ekki betur. Munurinn er bara að við lærum ekki af reynslunni eins og hundarnir. Jæja, ég er alveg að missa mig í samlíkingunum hérna. Nóg af persónugerfingum um raunveruleikainn. Ef þið viljið fleiri þá er bara að láta vita! Hehe. Ég þyrfti að fara að semja ljóð aftur. Ef ég man rétt þá kunni ég það einu sinni.

Ef þetta er ekki sæt mynd þá veit ég ekki hvað. Mig langar í kisu. Við áttum einu sinni kisu. Svo tók móðir mín sig til og myrti hana. Það var ekki skemmtileg upplifun. Ég var í mestu uppáhaldi hjá henni alla tíð og hún lá stundum ofan á sænginni minni þegar ég svaf. Líka gott að hafa gæludýr í húsinu þegar maður er einn heima, það er bara eitthvað þægilegt við það að vita af einni sál nálægt sér hvort sem það er manneskja eða köttur eða hundur eða ormur. Ok, kannski ekki ormur. En Tinnu var alltaf gott að hafa hjá sér, rólyndis köttur, matvönd með eindæmum og með mikinn persónuleika. En móðir mín sá ekki fegurðina í henni lengur þegar hún var farin að fæla burtu fólk sem hrúgaðist inn í fjölskylduna og tók því heilsu þeirra fram yfir Tinnu (sem by the way var búin að vera miklu lengur í fjölskyldunni heldur en þetta nýja fólk og ég þekkti hana mun betur líka). Tinna var því svæfð fyrir tveimur árum síðan ef ég man rétt og við höfum ekki eignast annað gæludýr síðan. En þegar maður sér svona myndir þá langar mann fátt meira en að hafa lítinn kettling í húsinu til að leika við og kúra með. En móðir sú sem tíðrætt hefur verið um í þessari færslu tekur það ekki í mál. Maður verður nú barasta að fara að drulla sér að heiman, burt úr harðræðinu, burt frá mæðrum sem myrða vini manns. Vill einhver taka mig að sér? "Karlmaður á barnsaldri leitar að samastað og uppihaldi, no questions asked. Ekkert í því fyrir þig, bara leiðindi og volæði." Ég held að þessi auglýsing myndi slá í gegn í Fréttablaðinu. Eða... nei. Mig langar í kött.
..:: catmandu ::..

föstudagur, maí 30, 2003

Oh happy day!


Já það var gaman í dag. Ég vaknaði klukkan átta og skellti mér í bæinn með Goldeneye þar sem var tekin sundæfing í Kópavogi, geðveikt veður, bara heiðskýrt og læti. Skemmtileg æfing, og svo var auðvitað kíkt í heitapottinn og sólað sig smá áður en maður kom sér uppúr. Á heimleiðinni var að sjálfsögðu komið við í Kentökkí í Hafnarfirði og einn Tower Zinger Barbeque fékk að kenna á svengd minni og aðrir viðstaddir fengu sér að sjálfsögðu það sama! :)
Svo skelltum við okkur í Kef þar sem ég og Goldeneye og Cookie fórum í körfubolta alveg heillengi og það var nottla geggjað veður í Kef líka þannig að það var ekki leiðinlegt. Svo skelltum við okkur í Bláa Lónið og það var alveg svaðalega fínt. Stappað af fólki en samt ekki of mikið. Sundsysturnar kíktu með okkur, bara gaman að því. Auðvitað sólaði maður sig eins og mest maður mátti og kíkti á mannlífið (stelpurnar). Ég bið að heilsa stelpunni með flotta rassinn, erfitt að horfa á eitthvað annað maður, úff. :)
Eftir lónið fórum við svo út að borða í Keflavíkinni, að sjálfsögðu var það þjóðarréttur Íslendinga sem varð fyrir valinu, píddsa og kók. Þökkum LangBest kærlega fyrir. Svo slúttuðum við Goldeneye og Cookie deginum með því að taka tvo hringi á púttvellinum og ég endaði kvöldið með stæl. Ég var að brillera á seinni hringnum en klúðraði svo síðustu holunni og var ekki sáttur... Við skulum bara segja að pútterinn minn hafi látist. Útför verður gerð frá Keflavíkurkirkju á sunnudaginn klukkan 2.
Þetta var semsagt mjög skemmtilegur dagur, þakka Goldeneye og Cookie kærlega fyrir! :) Vonandi áttuð þið líka góðan dag, nógu gott var veðrið að minnsta kosti! Og svo vil ég að lokum bjóða Norsarana velkomna heim! Verðum að fara að halda partý (eins og við segjum alltaf en stöndum aldrei við...). Við bara verðum! En núna er ég alveg búinn eftir þennan annasama dag. Held ég fari og fylli baðið af AfterSun og liggji þar í klukkutíma áður en ég fer að sofa. Húðin mín er rauð, rauðari en hárið mitt, og þá er nú mikið sagt! Ég sé fram á að verða mjög brúnn og sætur í sumar! Gaman að því! :)
..:: james brown ::..

fimmtudagur, maí 29, 2003

K.O.


Smelltu hér til að sjá stelpuna! (eða svona næstum...)Djöfull sáum ég og Mulletinn góðan slag um helgina! Við vorum niðrí bæ á torginu með öllum sölubásunum (man ekkert hvað það heitir) og vorum að fá okkur að jéta, as you do. Allvega, við vorum bara þarna í hægðum okkar og sjáum við þá ekki fólk hópast í kringum einhverja vitleysinga. Við nottla komum úr Kebblaík og erum aldir upp við svona og máttum ekki missa af neinu og fórum þess vegna úr pulsubiðröðinni til að sjá slagsmálin. Og viti menn, þetta voru stelpur! Alveg snar klikkaðar stelpur og held ég einn strákur líka. Strákurinn var víst búinn að lemja eina stelpuna í klessu og hún var þarna hágrenjandi og blóð útum allt!! Fólk var takandi tillhlaup og sparkandi í mann og annan og oftast voru það stelpur. Þessi blóðuga var grenjandi og hrækjandi blóði á alla sem voru búnir að gera eitthvað. Maður vorkenndi henni nottla, hún var alblóðug aumingja stelpan og grátandi, en þetta voru samt góð slagsmál! Mulletinn gat nottla ekki annað en gantast svolítið og gekk hnarreistur kringum fólkið eins og hann væri á háum hælum og hélt höndunum uppi eins og hann héldi á svona spjaldi sem á stendur hvaða lota er að fara að byrja (þúst, eins og stelpurnar í bikíníunum í boxinu)!! Ég hélt ég myndi pissa í mig úr hlátri, þetta var ógeðslega fyndið. Annars þurfti ekki annað en að öskra uppyfir sig útí loftið "báááuu!!" til að við myndum deyja úr hlátri þetta kvöld! Þetta er einkahúmor dauðans, sem eins og allir vita er besti húmorinn. Þetta var amk snilldar bæjarferð þrátt fyrir að við værum bara tveir. Gaman að geta þess að það að við Mulletinn getum hangið tveir saman og látið eins og fávitar og skemmt okkur konunglega veit á gott því við förum líklegast saman í heimsreisu á næsta ári við þriðja mann! Það verður eflaust ekki leiðinlegt.
..:: mag ::..

miðvikudagur, maí 28, 2003

Childhood memories


Vá hvað ég er mikið eftirá! Ég gleymdi alveg að minnast á Ungfrú Ísland keppnina þegar hún var og núna er hún löngu búin! Og ég ætla því bara að segja eitt, til hamingju Steinunn!!! Ég fylgdist voða lítið með þessu enda var það algjör óþarfi (og ég er ekki með stöð 2). Þegar Steinunn tekur þátt þá eru úslitin bara sjálfgefin. Ég varð skotinn í Steinunni þegar hún var í 6. bekk og ég var í 5. bekk. Ég hefði eflaust verið skotinn í henni fyrr en ég átti bara ekki heima í sama landshluta og hún fyrr en þá. Mér þótti hún ótrúlega falleg og tók alltaf eftir henni hvar sem hún var þótt hún vissi eflaust ekki að ég væri til. Svo liðu árin og Steinunn varð bara fallegri (veit ekki alveg hvernig það var hægt en svoleiðis var það) og ég kynntist henni svolítið. Það var fyrst í gegnum fjölskylduna því fjölskyldur okkar tengjast. Svoldið skrítnum böndum en samt, mamma mín var í pössun hjá ömmu Steinunnar og svo passaði mamma barn hennar seinna (ss pabba Steinunnar). Við semsagt höfum talað nokkrum sinnum saman og þekkjumst svona smá. Það er heldur ekki nóg með að hún sé svona falleg því hún er alveg frábær manneskja. Það kom fáum á óvart þegar hún vann Ungfrú Suðurnes og ég var viss um að hún myndi vinna Ungfrú Ísland líka, sem hún gerði með glæsibrag! Það verður gaman að fylgjast með henni keppa erlendis því hún á örugglega eftir að standa sig vel og gera okkur stolt af sér! Efast um að hún lesi þetta en ef svo vildi til þá segi ég aftur, til hamingju! Kannski hittumst við aftur og spjöllum í heitapottinum. Hver veit! :)

Svo vil ég benda á snilldar sögu hjá Tomma Young frá Tælandi. Þetta er helvíti mögnuð saga og ef hún er sönn (sem ég efast svosem ekkert um) þá fær hún mann til að hugsa... Galdrar og fáránlegar tilviljanir og læti! Ætli gaurinn hafi verið að feika þetta og ef svo er hvernig í andsk. fór hann að því!!!?
..:: max ::..

þriðjudagur, maí 27, 2003

Það líður að jólum...


Rauðhærður drengur. Skrifborðsstóll og tölva. Heyrnartól og lyklaborð. Tónlist og tikk. Herbergi með bláum og hvítum veggjum á víxl og svartar mublur. Smá drasl, föt, geisladiskar og bækur. Óumbúið rúm. Rauðhærður ráðvilltur drengur. Hann skrifar eitthvað inn í tölvuna. Eitthvað um umhverfið í kringum sig. Af hverju, veit hann ekki. Kannski af því að honum datt ekkert annað í hug... Neeeii... Það hefði verið einfaldasta lausnin og sú sem flestir hefðu giskað á en það er rangt. Ástæðan er örlítið flóknari. Þessi fjörurra ára drengur (þótt standi á fæðingarvottorðinu hans að hann verði tuttuguogeins árs í sumar) hefur nefnilega ýmislegt að segja frá en honum finnst eins og hann hafi sagt frá því áður og væri bara að endurtaka sig. Hann hefur haldið því fram áður að hann sé eins og ólétt kona. Ekki af því að hann er með stóran maga og borðar fyrir tvo (því það er ekki raunin), heldur af því að hann hefur skapsveiflur á við nashyrning. Kannski er óléttu konu dæmið ekki svo góð samlíking. Hann er frekar eins og unglingur. Unglingur sem veit ekkert hvað hann vill, með rokkandi sjálfsálit eins og býfluga og... ægifagurt rauðleitt hár sem minnir á sólarlag á Bali. Mér finnst að hann ætti að skrifa bók. Og í við biðjum til guðs að hann skrifi ekki um sjálfan sig því það væri ekki skemmtileg lesning. Þá myndi enginn kaupa bókina og þá myndi aumingja strákurinn með rauða hárið sem er jafn rautt og tómatar eru grænir áður en þeir verða rauðir hafa enn meiri ástæðu til að efast um sjálfan sig. Viðurkenning er kannski það eina sem vantar hér. Kannski frekar léleg ástæða til að gera nokkurn skapaðan hlut en hey, ert þú fullkomin/n? Hélt ekki.
..:: drengurinn með hárið sem er jafn rautt og rauða hafið er blátt ::..

mánudagur, maí 26, 2003

Voða mikið að segja


Já ég hef voða mikið að segja núna.
Ég bara nenni því ekki.
Samt, alltaf þegar ég sezt niður og ætla að skrifa stutta færslu um eitthvað þá verður hún alveg fáránlega löng.
Að vísu eru stuttar færslur ekki mín sérgrein, ég hef bara alltaf svo mikið að segja.
Annað hvort það eða þá að ég kem mér bara aldrei að efninu.
Eins og núna.
En nóg um það.

Ég tók þessa fríhelgi með trompi og djammaði eins og geðsjúkur maður.
Fín helgi.
Júróvisjón og svona.
Ég endaði í höfuðborginni bæði á föstudags og laugardagskvöld.
Að vísu endaði ég heima hjá mér bæði kvöldin, en þú fattar.
Það var gaman í bæði skiptin.
Ekki mikið meira um það að segja.
Heimskuleg færsla maður.
Svo mörg voru þau orð.
..:: whaa? ::..

föstudagur, maí 23, 2003

Open your heart


Júróvisjón er á næsta leiti (duh) og ég man bara ekki eftir öðru eins umstangi. Annað hvert orð sem maður heyrir er Júróvisjón og hitt orðið sem kemur inn á milli er iðulega Birgitta. En þrátt fyrir öll lætin þá fer þetta alls ekki í taugarnar á mér. Þvert á móti finnst mér frábært hvað Íslendingar eru rosalega mikið 'hype' fólk. Svona hlutir sem koma upp og eiga hug og hjörtu þjóðarinnar allrar í smá tíma. Þá er ég ekki að tala um þegar klámmyndastjarna (ron jeremy) eða fávitar (jackass) koma til landsins og varla er talað um annað, heldur eins og þegar handboltaliðinu gengur vel eða allir halda að við vinnum Júróvisjón! Að vísu held ég að flestir átti sig á því að það eru hverfandi líkur á því að við vinnum en finnst gaman að halda því fram vegna þessa gríðarlega áhuga sem þjóðin hefur á þessari keppni. Uppáhalds hobbý þjóðarinnar er að sameinast um að elska eitthvað svona mikið, og auðvitað er eðlilegt að það myndist smá svona love/hate samband í bland. Fólk fær nóg af þessu og auðvitað er það skiljanlegt. En ég mun horfa á imbann á morgun eins og flestir og hlægja að hallærislegu þjóðunum og dást að því hvað við Íslendingar stöndum okkur alltaf vel. Ég spái fimmta sætinu og tel það þó bjartsýnisspá. Ég held að við megum alveg vera sátt við hvaða sæti sem er ofan við 10. sætið. (eða ofan við 16. sætið??) Ef þú ert ekki enn búin/n að skoða bloggsíðu Gísla Marteins og Loga Bergmanns þá legg ég til að þú gerir það því hún er ákaflega skemmtileg. Hún er hér.

Ég fór uppí bústað í dag og gerði mest lítið nema liggja í sólbaði. Eins og rauðhærðum sæmir brann ég vel og stend því vel undir nafni síðunnar sem raunamæddur rauðhærður einstaklingur. Nei nei, þetta er nú ekki svo slæmt, fínt að fá smá lit þegar rauði liturinn dofnar (eftir svona hálft til eitt ár). Ég ætla samt að hrista af mér allan kláða með því að fá mér strumpameðal (áfengi) og skella mér í höfuðstaðinn að leita að stemmningu. Eflaust finn ég hana, því ef hún finnst ekki þá er ég þekktur fyrir að búa hana bara til úr engu! (nema strumpameðali og góðu skapi, stundum of góðu!)
..:: haukdal? ::..

fimmtudagur, maí 22, 2003

The Truth Is Out There...


Lífið gengur sinn vanagang. Ég er enn fastur í hausnum á mér, fastur í heimi alvarlegra, ekki svo alvarlegra, heimskulegra, skemmtilegra og fáránlegra pælinga og allt þar á milli. Ég sé ekki fram á náðun í bráð þannig að hér verð ég að dúsa og hugsa minn gang. Þó finnst mér eins og ég sé að bíða eftir vitrun. Ég fékk eina slíka um daginn í mjög merkilegu partýi en sú hafði ekki mjög mikil áhrif á líf mitt og því var þetta svona eftirá litið einungis minniháttar vitrun. Ég finn það samt að ég er á barmi mikillar uppgötvunar. Ekki fyrir heiminn, ekki einu sinni fyrir Ísland og ekki einu sinni fyrir fólkið sem neyðist til að umgangast mig og mínar pælingar dag frá degi. Einungis fyrir mig. Hvernig ég ætla að lifa lífinu. Ég held það kallist að verða fullorðinn. Bara svona einn daginn, bam! Og þá veit ég það. Ekki endilega eitthvað sem ég get komið í orð heldur bara eitthvað sem ég veit. Bara svona, já auðvitað! Svona virkar þá heimurinn og ég. Eða kannski er ég bara að verða geðveikur. Ah, hverjum er ekki sama. Ignorance is bliss.
..:: who? ::..

þriðjudagur, maí 20, 2003

Human behavior


Ég þoli ekki þegar fólk verður fúlt útí mann og segir manni ekki af því. Hvernig á maður að geta leiðrétt misskilning eða afsakað gjörðir sínar ef maður veit ekki einu sinni af því að fólk sé eitthvað fúlt. Baktal og vesen er alveg óþolandi. Ég kynntist manneskju um daginn sem eipar alveg ef hún kemst að því að einhverjir voru að tala um hana. Þótt hún viti að það hafi ekki verið neitt slæmt sem væri verið að segja um hana, bara ef einhver er að tala um hana þá verður hún alveg móðursjúk og heldur að það sé eitthvað samsæri í gangi. Sú manneskja lenti að vísu í einelti þegar hún var yngri og þetta sýnir vel hvað einelti getur farið hrikalega illa með fólk. En það er ekki það sem ég er að tala um. Ég komst að því í dag að vinur minn sé eitthvað fúll útí mig og algjörlega á fáránlegum forsendum. Þetta er bara misskilningur sem þarf að leiðrétta, en ef fólk lætur ekki vita af svona hlutum geta þeir bara smitað útfrá sér. Speak your mind people.

Svona hlutir eru líka í gangi á fleiri vígstöðvum í mínu lífi. Ég nenni bara ekki að lifa lífinu með einhverja grímu eins og sumir gera. Lifa í lygi. Þá byrgist bara upp einhver reiði í fólki sem erfitt er að losna við. Hreinskilni er mikilvæg. Ég er ekki að tala um að maður eigi að segja allt sem maður hugsar, en ekki vera með einhverja uppgerð. Ekki smjaðra við fólk og snúa sér svo að næsta manni og drulla yfir þann sem þú varst að brosa til og jafnvel sleikja upp. Það veit aldrei á gott. Ég þekki líka manneskju sem hefur aldrei neitt gott að segja. Hún talar og talar og talar en alltaf um vandamál sín og annarra. Kannski lifir hún bara svona fáránlega erfiðu lífi, en það er hrikalega leiðinlegt að umgangast svona fólk sem aldrei hefur neitt jákvætt að segja. Megas sagði það best (þó ekki fyrstur manna): Ef þú smælar framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig!
..: m ::..

mánudagur, maí 19, 2003

Blank canvas


Mér finnst ég vita svo lítið. Ég er eins og óskrifað blað. Blank canvas. Mér finnst ég bara hafa verið að fæðast og að ég eigi allt eftir. Að lífið sé rétt að byrja. Þetta er bæði góð og slæm tilfinning. Góð að því leiti að ég get gert allt sem ég vill. Ég á svo mikið eftir og að öllum líkindum verður það gott líf og eitthvað sem ég get hugsað um þegar ég er orðinn gamall og verið ánægður með. Tilfinningin er slæm að því leiti að ég veit ekkert hvað ég vill og möguleikinn er alltaf fyrir hendi að eitthvað klikki. Að ég eigi eftir að sjá eftir einhverju, einhverri stórri ákvörðun. En í raun og veru eru engar rangar ákvarðanir. Maður þarf ekki að sjá eftir neinu, sama hversu heimskulegt eða misheppnað það var. Það er bara eitthvað sem er komið í reynslubankann og hluti af því sem gerir mann að þeirri persónu sem maður er. Af hverju er maður þá svona hræddur við þessar stóru ákvarðanir?

Ég er ekki eins og þeir sem segjast ekki sjá eftir neinu þegar þeir eru spurðir hvort það væri eitthvað sem þeir myndu vilja breyta um líf sitt. Ég sé eftir ýmsu, frekar sem ég hef ekki gert heldur en ég hef gert, en sú eftirsjá er tilgangslaus. Stundum hugsa ég fram í tímann, bara stutt, kannski nokkra daga, og segi "Vá hvað ég hlakka til þegar þessi dagur er kominn því þá verð ég búinn í prófum!" eða eitthvað álíka. Undanfarið hef ég gert meira af því að kunna meta stundina sem ég lifi í í ljósi þess sem ég hef hugsað áður. Í gær eða í síðustu viku eða jafnvel fyrir nokkrum árum. Hugsa um þegar ég var veikur hvað ég óskaði þess að vera það ekki og að ég myndi virkilega njóta þess þegar ég loksins kæmist á lappir aftur. Og það að njóta þess gerir mikið fyrir mann. Maður er þakklátur fyrir það sem maður hefur og þá virðast líka öll þau "vandamál" sem maður stendur frammi fyrir þá stundina vera svo smávægileg. Þegar maður lendir í óhappi, keyrir á eða eitthvað, þá hugsar maður kannski "Ég vildi að ég gæti skippað viku fram í tímann þegar þetta er löngu liðið og ég hættur að velta mér uppúr þessu" en hversu magir hugleiða það eftir viku hvað það er auðveldara að vera til þá stundina heldur en oft áður? Stundum þarf maður að stoppa aðeins og hugsa um hvað maður er í raun heppinn.

Kannski fór ég pínulítið útfyrir efnið sem ég var að tala um í byrjun... en þó ekki. Ég held nefnilega að í framtíðinni mun ég hugsa til baka og segja með sjálfum mér "Þegar ég var tvítugur gat ég gert hvað sem ég vildi og mér stóðu allar dyr opnar, og núna...". Það sem ég vill er góður endir á þessa setningu. Ég vill vera ánægður með val mitt og horfa ekki til baka með eftirsjá, eins tilgangslaust og það er. Ég vill ekki endilega vera bestur eða ríkastur eða eitthvað, heldur bara gera mitt besta. Og ætli svarið sé ekki að hvað sem ég geri það er mitt besta. Ég hefði ekki getað gert það neitt öðruvísi þegar það er liðið, og þess vegna ætti ég að hætta að velta mér uppúr svona spurningum og lifa bara lífinu. Hitt kemur að sjálfu sér! Læra að elska spurningarnar stóð einhverstaðar. Það er nú hægara sagt en gert. Maður getur ekki annað en reynt og vonað það besta.
..:: blanky ::..

laugardagur, maí 17, 2003

Er ég skrímsli...?


"Að dómi Sabínu er því aðeins hægt að lifa í sannleika, að ljúga hvorki að sjálfum sér né öðrum, að maður sé laus við áhorfendur. Um leiða og við höfum vitni að því sem við gerum, semjum við okkur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að augnaráði þess sem á okkur horfir og ekkert verður satt sem við gerum. Það að hafa áhorfendur, að hugsa sér áhorfendur, er að lifa í lygi. Sabína fyrirlítur þær bókmenntir þar sem höfundurinn skýrir frá einkalífi sínu og vina sinna. Sá sem glatar einkalífi sínu á ekkert eftir að dómi Sabínu. Og sá sem lætur það af hendi af fúsum og frjálsum vilja er skrímsli."

Sabína hefði örugglega ekki verið mjög hlynnt bloggum það get ég sagt ykkur. Lifi ég í lygi? Er ég skrímsli?! Það er alveg þess virði að velta því fyrir sér held ég. Þetta var brot úr Óbærilegum léttleika tilverunnar sem ég er ennþá að lesa (en alveg að verða búinn með). Ýmislegt sem ég fíla mikið í þeirri bók. Ýmsar pælingar. Næst les ég örugglega Eva Luna eftir Isabel Allende. Móðir mín talaði svo ákaflega vel um hana að ég held ég geti ekki annað en lesið hana. Einhver sem getur mælt með henni eða jafnvel rakkað hana niður? Ég er opinn fyrir öllu. Ég ætla að reyna að lesa margar bækur í sumar. Hef ekki verið nóg duglegur við það undanfarin... ár.

Margar pælingar voru líka í Matrix Revolutions sem ég sá í gær. Næstum of margar. En þetta var mjög skemmtileg og ótrúlega flott mynd. Hasarmynd í hæsta gæðaflokki. Ég gapti amk yfir mörgum atriðum og þótt mörgum hafi þótt að þeir færu yfir strikið þá fannst mér það allt í lagi því það var viðbúið. Myndin er ekki gallalaus, en hún er virkilega góð og úrvals skemmtun. Þrjár og hálf stjarna af fjórum. Tæknibrellurnar eru bara svoooo flottar. Mæli með því að þið sjáið hana í bíó því annars næst fílingurinn ekki nærri eins vel. Og að horfa á The Matrix á undan er sniðugt því þessi mynd byrjar um leið og maður er kannski ekki alveg nógu vel inní þessu ef það er langt síðan maður sá fyrstu myndina. Annars stefnir allt í mjög rólegt laugardagskvöld hjá mér. Vinnuhelgi og svona. Sem þýðir að ég þarf að vakna kl. fimm (þegar vinirnir og flestir aðrir eru ennþá að djamma!! Dem.) En næsta helgi, Júróvisjónhelgi, verður svakaleg! Ég veit nú ekki alveg hvað verður haft fyrir stafni en það verður djammað ég get sko lofað ykkur því! Jay!
..:: maggggg ::..

föstudagur, maí 16, 2003

matrixxxx...


Þá er komið að því. Ég er að fara að sjá aðra myndina í Matrix tríólógíunni í bíó. Ekki það að ég hafi verið að bíða eftir henni með kúkinn í buxunum eða eitthvað, ekki nema síðan ég sá treilerinn í fyrsta skipti sem var fyrir nokkrum vikum. VÁ hvað þessi mynd er flott. Við strákarnir erum að fara að glápa á mynd númer eitt svona til að koma okkur í gírinn og svo verður farið í bíó hér í Keflavík kl. 11. Þetta verður eitthvað magnað.

Rakst á soldið skemmtilegt um daginn. Það er amk skemmtilegt fyrir þá sem hafa gaman að góðum bloggurum. Hérna er nefnilega síða með öllum bloggunum hjá blogger.com sem voru uppfærð sl. 10 mínútur. Gaman að fletta í gegnum þetta og sjá eitthvað áhugavert. Mér finnst gaman að lesa blogg hjá fólki sem ég þekki ekki, og oft kemur fyrir að maður finni virkilega áhugaverðar og skemmtilegar persónur sem eru að blogga. Endilega kíkið á þetta.
..:: mags ::..
surprize...


Ég gat auðvitað ekki annað en horft á lokaþáttinn af The Batchelorette fyrst ég festist í þeim næstsíðasta (hey kommon, ég verð að hafa afsökun!). Og viti menn! Nei! Menn viti ekki, því hún valdi ekki gaurinn sem ég var viss um eftir síðasta þátt að hún myndi velja. Hún valdi semsagt gaurinn sem var líkari mér so all hope is not lost! Ok, ég er ekki tall, dark and handsome (actually none of the above), en ég er þessi týpa sem er erfiðara að kynnast því ég er rólegur (sona yfirleitt amk) og frekar þessi rólega rómantíska týpa frekar en þessi outgoing karakter. (vá ég er farinn að hljóma eins og einkamálaauglýsing! kíkið í moggann í næstu viku, síðu 3! híhíhí.)

Ég fékk lag með Avril Lavigne (?) á heilann og það svo svakalega að ég er að downloda því! (ég er farinn að skammast mín fyrir þessa færslu). Ég verð semsagt að downloda því og nauðga því svo ég nái því útúr hausnum á mér. Annars er tónlistin hennar alls ekki svo slæm og ég er á hraðri leið með því að komast í þann stóra hóp stráka sem finnst hún super-fly-hot. Sá bara ekki hvað allir sáu við hana fyrst en eftir að hafa séð myndbandið nokkrum sinnum við lagið sem ég fékk á heilann (i'm with you) þá fór ég að sjá það. Hvað er hún annars gömul? 16? 17? (skamm skamm Maggi.)

Mér finnst að allir sem lesa þetta eigi að taka þátt í könnuninni minni. Það er eiginlega skammarlegt hvað það taka fáir þátt í þessum könnunum hjá mér miðað við fjölda heimsókna á síðuna. Kannski ætti ég bara að hætta þessu, take a hint for once. Kannski ætti ég bara að gefa móðurmálið upp á bátinn!! (ég var að fatta hvað ég er búinn að sletta mikið á english í þessari færslu!) En í sambandi við þessi demparamál, þá er dempari það sem þú gerir til að það skvettist ekki vatn úr klósettinu þegar þú hefur hægðir! Mjög vital upplýsingar.

Orð dagsins: SLAG!
..:: mags ::..

fimmtudagur, maí 15, 2003

The best nap EVER!!


Hvernig kyssir þú...?Ok, ég féll. Ég stóðst ekki mátið. Ég ákvað að taka eitt af þessum heimskulegu net-prófum sem sumir fá ekki nóg af (skil ekki af hverju, ég er búinn að drulla yfir marga). Ég ákvað að láta einhvern bandarískan-tölvunörda-forritara segja mér hvernig ég kyssi. Ég hefði nú getað sagt mér útkomuna sjálfur. You Are A Romantic Kisser! Ef þú lest það sem er sagt þarna þá er það að vísu eiginlega allt satt um mig! Mér finnst ýkt gaman að kyssa (geri ekki nóg af því samt...) og langaði að sjá hvort ég myndi ekki fá eitthvað skemmtilegt út. Fyrir utan að ég var örugglega eini bloggarinn á jörðinni sem átti eftir að taka þetta kossapróf! Hahahaha, kossapróf! Sona eins og krossapróf þú skilur! Hahahaha! Krossa... Æi whatever.

Ég fór uppí sumarbústað með ömmu og afa í dag og hjálpaði Gunna smið að byggja við bústaðinn. Það gekk mjög vel og var bara gaman, eitthvað sem ég bjóst sko ekki við. Það var geðsjúkt gott veður. Í hádeginu lagði ég mig uppí bústað, og ég get svo svarið það, það er eitthvað við þetta rúm! (fyrir þá sem þekkja til, neðra rúmið í herberginu vinstra megin!) Það er bara svaðalegt! Ef maður leggst í það þá kemst maður í þennan geggjaða blund-gír (ég er fyrsti maður í heiminum sem notar orðið blund-gír! ég fíla mig eins og Shakespeare!) og maður liggur bara í dái milli svefns og vöku í sona hálftíma. Svo vaknar maður endurnærður og reddí í hvað sem er! Helvíti gott. Þyrfti að ræna rúminu eða amk stela teppinu úr því og gá hvort þetta karma elti þessa hluti. Eru hlutir með karma? Eða eru það bara hurðir og menn? (hahahaha! kominn í smiða-brandarana á fullu maður!) Eigðu góðan dag. (úff hvað þetta er vond sletta maður).
..:: mr. smith goes to nappington ::..

miðvikudagur, maí 14, 2003

Skrímsli


Ég ætlaði að blogga svo mikið og merkilegt núna. En svo ákvað ég að sleppa því. Það var aðallega röfl og væl og ég er að reyna að venja mig af því. Það er ekkert leiðinlegra (ok það er fullt af hlutum mun leiðinlegri en maður tekur svona til orða) en fólk sem röflar yfir tilgangslausum hlutum sem oftast er ekki hægt að breyta. Ég nenni ekki að vera þetta fólk. Ég ákvað líka á sama tíma að reyna að dæma fólk ekki fyrirfram. Ég var hálfsofandi í vinnunni í dag og það var kona sem ég fíla ekkert allt of mikið en hef þó ekkert á móti í raun sem stóð hjá sófanum sem ég var sofandi í (eða það hélt hún). Hún hafði haft augastað á þessu svefnstæði og var eitthvað fúl af því að ég lá þar og las þegar hún gat legið þar og sofið. Fyrstur kemur fyrstur fær eru reglurnar sem gilda þarna og því ætlaði ég ekkert að fara að færa mig fyrir hana. Allavega, sagði hún við einhvern "hann sefur þarna enn... með bókina sína." (bókin lá við hliðina á mér). Einhver las titilinn á bókinni og þau sögðu örfá orð og svo segir hún "mér finnst þessi leiðinlegur." Ég lá bara þarna, þó nær vöku en svefni, en hún vissi ekkert um það, ég hefði getað verið glaðvakandi! Ég var hissa á þessu kommenti frá henni. Ég meina ég hef aldrei talað við hana og kannski er það ástæðan fyrir því að henni finnst ég leiðinlegur, en maður á ekki að dæma fólk svona fyrirfram. Ég hélt ég yrði ekkert fúll en ég var það smá. Manni er aldrei sama um hvað fólki finnst um mann. Ég hef látið það vera að kynnast fólki í vinnunni. Það gerir það mun einmannalegra en ég bara get það ekki. Þetta fólk er ekki eins og ég. Ég veit að það er lélegt að segja þetta og þú heldur kannski að ég líti stórt á sjálfan mig (sem ég geri ekki) en ég á bara ekki samleið með þessu fólki. Núna er ég að dæma þau fyrirfram því ég þekki þau ekki í raun, en ég held ég þekki þau nóg til að segja þetta. Eflaust halda margir þarna að ég sé ýkt heimskur því ég þegi meira en ég tala. Mun meira. En ég slekk á sjálfum mér í vinnunni og vinn bara. Æi ég er hættur að röfla um þetta. Fyrirgefðu að ég hafi "látið" þig lesa þetta bull. Vinna er vinna. En þar sem ég er kominn í mótsögn við sjálfan mig frá því í byrjun þessarar færslu þá held ég að það sé kominn tími til að hætta, og fara ekki að lesa bókina mína því ég gleymdi henni í vinnunni! Dem.
..:: mags ::..

þriðjudagur, maí 13, 2003

Óbærilegur léttleiki...


Engin leið er að prófa hvor ákvörðunin er sú rétta, því ekki er neitt til að miða við. Við upplifum allt nú þegar og óundirbúin. Rétt eins og leikari sem gengur inn á sviðið æfingarlaust. En hvers virði er lífið úr því að að fyrsta æfingin á lífinu er lífið sjálft? Þetta er ástæðan fyrir því að lífið er alltaf líkast skissu. En jafnvel orðið "skissa" er ekki rétt, því skissa er ætíð uppkast að einhverju öðru, undirbúningur undir málverk, en skissan líf okkar er hins vegar skissa að engu, uppkast án málverks.
Tómas endurtekur fyrir munni sér þýska málsháttinn: "einmal ist keinmal", einu sinni er aldrei, einu sinni er ekkert. Að lifa aðeins einu lífi er eins og að lifa alls ekki.


Ég er að lesa skáldsöguna Óbærilegur léttleiki tilverunnar eftir Milan Kundera. Hún er virkilega góð og ég er að fíla hana í tætlur sérstaklega útaf svona pælingum eins og ég skrifaði upp hér fyrir ofan. Þetta er ástarsaga, ástarþríhyrningur (ferhyrningur, fimmhyrningur?) if you will, en inn á milli koma heimspekilegar pælingar og allskonar pælingar um heiminn. Það er mjög gaman að því öllu saman. Endilega finnið hana á næsta bókasafni og lesið hana mér til samlætis svo ég hafi einhvern til að spjalla við um hana! Kannski er einhver búinn að lesa hana sem les þetta blogg. Endilega kommentið!

Þá er maður byrjaður í vinnunni og "rútínan" byrjuð ef rútínu má kalla. Svona 2-2-3 kerfi er nú sosem ekki mikil rútína, frí inní miðri viku og unnið aðra hverja helgi, en þetta er skipulagt kaos. Ágætis vinna svosem (ég vinn við að eyðileggja töskuna þína þegar þú ferð til útlanda) en ég er búinn að komast að því að það sem þú vinnur við er aukaatriði. Með hvernig fólki þú vinnur er aðalatriðið. Ég er að reyna að gera það besta úr minni aðstöðu þótt ég hafi farið miður fögrum orðum um ýmsa sem ég var/er að vinna með þegar þeir heyrðu ekki til (vonandi les enginn þeirra þetta blogg!). Does "a human waste-bin" ring a bell? Vonandi ert þú í skemmtilegri sumarvinnu (eða bara vinnu!) með skemmtilegu fólki. Have a nice one.
..:: magchen ::..

sunnudagur, maí 11, 2003

..:: hmmm ::..


Það var hörku gaman í bænum í gær. Við strákarnir vorum með VIP herbergi á Mekka Sport (því við erum svo important þú veist) og þar var djammað og djúsað og ýmislegt gert... óþarfi að fara í það allt hér. Svo var hélt helmingurinn heim, veit ekki alveg af hverju, einhver leti í gangi, en hinn helmingurinn fór niðrí bæ og kíkti á stemninguna þar. Það var auðvitað nóg af henni en sem áður þá enduðum við á staðnum okkar. Hann varð alveg stappaður stuttu eftir að við komum og var bara hörku gaman þar þannig að við entumst þar restina af nóttinni. Það var svolítið heitt, ég held ég hafi farið svona hundraðtuttuguogsjö sinnum á barinn til að fá mér vatn. Þau voru örugglega orðin frekar leið á mér. Ég missti af kosningavökunni en ég held ég hefði ekki nennt að glápa bara á sjónvarpið alla nóttina heldur. Ég ætla bara að fá þetta beint í æð í fréttunum í kvöld. Mér finnst fyndið að Inga Sóla hafi ekki einu sinni komist á þing! Það verður ekki á allt kosið! (pun intended).
..:: mags ::..

laugardagur, maí 10, 2003

Framsóknarfár


Það var hörku gaman á ballinu með Írafár í Stapa í gær. Framsóknarmenn héldu þetta ball og eiga hrós skilið fyrir. Ég kíkti niður í bæ fyrr um kvöldið og sá Botnleðju hressa aðeins upp Samfylkingarfólk og fleiri og var það fínt. Svo var sötraður bjór í boði Heimis (ungra sjálfstæðismanna) þannig að maður er ekki bundinn við einn flokk þegar kemur að svona hlutum sko! Hvað með það þótt það birtist mynd af manni í bæjarblöðunum þar sem maður segist styðja Framsókn? Maður verður samt að halda opnum hug... Merkilegt samt hvað margir sáu þessa mynd og þurftu endilega að segja mér það. Enn merkilegra er þó að það sé ekki hægt að smella af mynd þegar maður er svona nokkurnvegin eðlilegur í framan! Og ekki bara þarna heldur svona yfir höfuð gengur það frekar brösulega hjá myndasmiðum sem langar að festa mig á filmu að ná rétta svipnum. Er ég kannski bara svona asnalegur í framan? Ég er amk ekki óheppnasti maður í heimi í þessum efnum heldur er það vinur minn og hér þarf sko ekki að nefna nein nöfn.

Í kvöld verður svo beilað á kosningavökunni, í það minnsta svona fyrst um kvöldið, kannski nær maður í skottið á henni um nóttina. Ég er nefnilega að fara í bæinn með vinunum þar sem verður trallað afskaplega mikið og það er svo margt á dagskrá að ég get bara ómögulega misst af þessu! Mig langar mikið að sjá kosningavökuna því hún verður örugglega mjög skemmtileg þar sem enginn getur séð fyrir hvernig þetta verður, en það sem verður í gangi í bænum verður vonandi og eflaust miklu skemmtilegra! Jæja, maður þar víst að fara að kjósa. Og mundu, ég verð einn inní kjörklefanum!! Hvað er málið með þetta komment frá hausum flokkana? Manni er ekki ætlað að skilja allt.
..:: magchen in action ::..

föstudagur, maí 09, 2003

Bloggi bloggi blogg...


Ég er búinn að skipta um vakt í vinnunni... meira að segja áður en ég byrjaði! Sem þýðir aðeins eitt... ég ætla að takaða tvöfalt um helgina!!! JAY! Þetta er algjör snilld, það ættu að vera kosningar á hverju ári. Maður fær sér bara svona bréfatætara sem maður getur fest á bréfalúguna sína og þá þarf maður ekki að sortéra ruslpóstinn, því þessa dagana er ALLT ruslpóstur. Ég hendi þessu öllu um leið, meira að segja frá flokknum sem ég styð (ok ég glugga fyrst í það) því maður er búinn að heyra þetta allt saman áður! Ég er búinn að heyra stefnumál flokkanna og mynda mér skoðun, og löngu búinn að fá leið á þessu. Ef við gætum sleppt öllu þessu veseni þá er ekkert því til fyrirstöðu að hafa kosningar á hverju ári og þá myndu flokkarnir keppast við að skemmta manni og gefa manni bjór oftar...

Ég festist í Batchelorette þættinum áðan, þeim næst-síðasta og það var svolítið óþolandi. Það eru tveir gaurar eftir og það er augljóst hvorn hún á eftir að velja. Málið er bara að ég samsvara mér miklu meira með hinum gaurnum og allt það sem er líkt með okkur... það eru ástæðurnar fyrir því að hann verður ekki valinn! Það böggaði mig því mig langar að eiga kærustu og kannski eru þetta ástæðurnar fyrir því að það er ekki að gerast... Ég veit ekki hvort fólk veit þetta um mig en mig langar fátt meira en að eignast kærustu. Auðvitað ekki bara hvaða stelpu sem er og ekki stelpu sem væri bara eitthvað að leika sér heldur stelpu sem væri virkilega hrifin af mér og sem ég er jafn hrifinn af á móti. Stelpu sem væri með mér af því hver ég er en ekki bara af því að hún vill vera með einhverjum eða af því að ég var hrifinn af henni. Stelpu sem ég get ekki beðið eftir að hitta í hver skipti sem ég hitti hana þótt við séum búin að þekkjast heillengi, og stelpu sem ég get ekki hugsað mér að fara frá í hvert skipti sem við þurfum að kveðjast. Stelpu sem ég get kysst og kúrað hjá endalaust. Mig langar ekki bara í kunningja eða vinkonu eða ríðufélaga. Mig langar í kærustu.

Ég held ég hafi aldrei bloggað um þetta mál áður af einhverju viti, en það er mjög ofarlega í huga mér. Enda blogga ég ekki um hvað sem er. Ef þú lesandi góður heldur að þú sért að lesa um allt sem er að gerast í mínu lífi og að ég tali nú ekki um í mínum haus þá skjátlast þér. Það er svo ótrúlega margt sem ég hugsa sem ég skrifa ekki um og mjög margt sem ég lendi í (belive it or not) sem ég minnist ekki einu orði á. Ekki misskilja mig með þessa færslu, ég var ekkert að röfla eða væla, bara að segja það sem ég er að hugsa svo að þú vitir eitthvað um mig. Hvort sem þig langaði til þess eða ekki (híhíhí). Og btw ég var ekki að tala um neina ákveðna stelpu (get alveg séð fyrir mér smá misskilning þar) heldur einhverja sem á enn eftir að finna mig (því ég er búinn að svipast um og ég sé hana hvergi). Má maður ekki vera pínu væminn stundum? Ekki kommenta á þessa færslu.
..:: just me ::..

miðvikudagur, maí 07, 2003

ÉG ER BÚINN Í PRÓFUM!!!!!!!

...mér til ómældrar ánægju og öðrum til mæðu. Þið sem ekki eruð búin í prófum.... gott á ykkur. Þið eigið skilið að sitja sveitt yfir bókunum. Þið eigið skilið að hafa samviskubit yfir hvað þið hafið lært lítið. Þið eigið skilið að missa af kosningadjamminu. Þið eigið skilið að þurfa að hanga inni að læra fyrir ógeðsleg próf þegar sólin úti skín og fuglarnir syngja í trjánum og allir aðrir í heiminum aðrir en þið eru úti að spóka sig og borða ís. Þið eigið skilið að kvíða fyrir prófunum og þá sérstaklega rétt fyrir próf og sitja svo sveitt í marga klukkutíma og bisa við að hripa sem mest niður á allt of stuttum tíma sem þið fáið. Þið eigið skilið að koma grátandi útúr prófunum því þið lærðuð ekki nógu vel og henguð bara á netinu þegar þið áttuð að vera að læra. En þetta tekur allt enda. Til ykkar sem eruð búin óska ég góðs sumars og vonandi fáið þið æðislegar einkunnir og getið eytt dögunum í sæluvímu yfir að vera búin! Við sjáumst svo á kosningadjamminu! ;)

Það kom upp skemmtileg pæling í gær. Ætli þeir sem telja sig vera æðri öðrum, t.d. kóngafólk og forsetar og svona, jafnvel bara mjög ríkt fólk, skammist sín fyrir að þurfa að kúka? Ég held að svoleiðis fólk vilji ekki viðurkenna að það þurfi að kúka eins og almúginn. Það gerir það nú samt. En til þess að bæta nú upp fyrir það að þetta fólk þurfi að kúka þá kúka þau í gullklósett. Hafiði tekið eftir því hvað það er rosalega mikið lagt í baðherbergin hjá ríku fólki? Það er svo það geti litið í kringum sig þegar það kúkar og hugsað "jæja, ég kúka eins og almúginn en ég get amk gert það með stæl í marmaraklósettið mitt sjö milljón króna baðherbergisinrrétinguna!" Svo mörg voru þau orð.
..:: max ::..

þriðjudagur, maí 06, 2003

Vá hvað mig langar í básatilboð...


Og vá hvað það er erfitt að vera í prófum! Ég er búinn að taka tvö próf og hef beilað að læra fyrir þau bæði. Ég lærði eitthvað, nóg til að ég nái þeim alveg, en ég las ekki einu sinni allt efnið yfir einu sinni fyrir próf! Kannski helminginn... ef það! Og það er ekki eins og ég hafi lesið efnið um önnina... Semsagt ég fór í gegnum alla áfangana (leyfi ég mér að fullyrða) án þess að lesa allt efnið einu sinni yfir! Þetta er ekki líkt mér og satt að segja hélt ég að það væri ekki svona auðvelt í H-skólanum. Kannski er þetta bara deildin sem ég er í. Pældíðí, ég er að fá fimm einingar fyrir hvern kúrs, semsagt fimmtán einingar í það heila, og ég er ekki búinn að gera neitt í allan vetur! Mæta í skólann tvisvar í viku og.... That's it! Jobu Kretz mætti ekki einu sinni í skólann (hvað þá las heima) og hann á eftir að ná þessu líka að öllum líkindum! Þannig að ef þig langar í fáránlega auðveldar einingar í H-skóla þá ferðu beinustu leið í heimspeki í HÍ. Síðasta prófið verður erfiðara en hin tvö og því þarf ég að taka mig vel á á morgun. Shit maður. Þetta verður allt búið á miðvikudaginn... þetta verður allt búið á miðvikudaginn... þetta er mantran mín þessa dagana. SJENSINN að ég meiki að fara aftur í H-skólann næsta haust. Fokkit! Ég er farinn í heimsreisu! Góða nótt!
..:: whoa ::..

sunnudagur, maí 04, 2003

Írskt SMS


Í gærkvöldi þáði ég bjór af framsóknarmönnum. Við fórum í bátsferð frá Grindavík á hvalaskoðunarbát og um borð var hljómsveit og bjór og fullir framsóknarmenn. Það var mjög gaman og ekki nærri eins erfitt og ég hafði búist við, þ.e. að vera á bát að drekka. Þegar maður er komin í glas er maður orðinn frekar valtur og í stað þess að bæta bara á veltuna þá fann maður voða lítið fyrir öldugangi því maður var valtur fyrir. Um borð datt mér í hug að senda vinkonu minni á Írlandi SMS, mér fannst bara eitthvað svo voða sniðugt við það, ég á bát á miðju norður atlantshafinu að senda vinkonu minni á Írlandi SMS! Eftir bátsferðina var svo haldið í Kef þar sem við tók frekar hefðbundið djamm. Paddys, Zetan og Duus. Ég hætti mér ekki inn á Casino heldur fór frekar snemma heim. Ég hef ekki enn komið inná Casino síðan síðasta sumar sælla minninga. :þ

Nú hefst næsta törn, síðasta prófið mitt er á miðvikudaginn og það verður gott að vera búinn. Úff hvað ég hlakka til. En af hverju samþykkti ég að byrja í vinnunni strax á föstudaginn? Ég meina þetta er kosningahelgi! Fullt af kosningavökum útum allan bæ! Jæja, ég græði þá bara peninga í staðinn. Skrítið samt hvað það er lítil huggun...
..:: bREaD ::..

laugardagur, maí 03, 2003

Saturday 2 Sunday, Monday...


Monday to runway HO! Að vísu hef ég ekki hugmynd um hvernig Eminem lagið er í raun en svona syngjum ég og Goldeneye það alltaf og öskrum svo úr hlátri eins og couple of mondgós, sérstaklega ef það er fólk í kringum okkur sem veit ekkert um hvað við erum að tala. En það var nú ekki það sem ég ætlaði að skrifa um. Ég er búinn í prófi númer 2 og gekk það barasta mjög vel! Eftir uppgjöf gærkvöldsins var ég orðinn vægast sagt svartsýnn og bjóst bara við því að falla eins og einfættur maður á skautum. En síðasta tilraunin til að ná einhverjum tökum á þessu efni var að mæta snemma í morgun (já, það er hægt að vakna snemma á laugardögum, ég vissi það ekki heldur!) og bruna í höfuðborgina og spjalla við Jobu Kretz um efnið í nokkuð mörg kortér. Það gekk líka bara svona vel og náðum við þessu svona nokkurn vegin fyrir prófið. Svo tókst mér að skrifa svona líka rosalega mikið á prófinu að það bara hlýtur eitthvað af því að hafa meikað eitthvað sens, ég trúi ekki öðru. Svo verður fagnað í kvöld með því að gefa hvölum bjór. Það verður gaman.

Hvað er þessi Magga sem segist vera best að tala um? Hún talar um það í þessari færslu að umræðurnar um Chloe á netinu eigi ekki rétt á sér. Hún segir að Chloe sé bara vel vaxin og að fegurðarskyn fólks sé brenglað ef það segi að hún sé feit og ekki með fullkomin brjóst. Að vísu er ég alveg sammála henni með það og ef það eru svoleiðis umræður á netinu (sem ég hef þó ekki rekist á) þá er ég bara sammála flestu sem hún segir. Stelpur eiga ekkert að vera fullkomnar og eru það fæstar. Persónulega finnst mér fegurð og kynþokki fara ótrúlega mikið eftir útgeislun og hvernig stelpur bera sig, ekki bara í hvaða mót þær eru steyptar (brosa stelpur! brosa!). Það sem ég var hinsvegar að setjá útá með Chloe (tek það fram að ég hef ekki hugmynd um hvort Magga hafi lesið það) er að hún sé að strípalingast eitthvað á netinu. Það var það sem ég var að setja útá og eflaust fleiri sem hneiksluðust á þessu. Ég held að það sé frekar ástæðan fyrir því að fólk sé að tala um þetta frekar en hitt.

Þessi gaur er í heimsreisu og bloggar um það reglulega. Það virðist bara vera svakalega gaman hjá honum (og þeim, hann er með einhverjum vinum sínum) og minnkar þetta ekkert löngun mína til að skella mér út og leita að ævintýrum. Þau eru víst búin að kynnast alveg milljón manns og fara til mjög margra staða eins og sönnum ferðalöngum sæmir. Skemmtileg lesning, amk það sem ég kíkti á. En nú er málið að fara að þefa uppi hvar stemmmingin verður í kvöld. Ef þú veist það þá máttu láta mig vita! Annars var ég að pæla í að gefa bara upp MSN-addressuna mína hér svo fólk sem les þessa síðu en ég er ekki með inní contacts geti spjallað. Þannig að ef þú heldur að þú hafir gaman að tala við mig og ég við þig þá máttu endilega henda mér inn í MSN hjá þér!! Magchen á MSN: maggisv@hotmail.com
..:: mags ::..

föstudagur, maí 02, 2003

Föstudagur...?


Það er ekkert föstudagslegt við þennan dag. Ég fékk ekki pídsu í kvöldmatinn, ég er ekki á leiðinni út á djammið, og það er próf hjá mér á morgun!!! Úff hvað ég er illa undirbúinn fyrir þetta próf. Það er rosalega lítið efni sem við tökum fyrir þetta próf og það er ansi góð ástæða fyrir því. Bókin sem er til prófs er sú leiðinlegasta, þurrasta og óskiljanlegasta sem skrifuð hefur verið! Mér er skapi næst að fara og skeina mér með henni! (úff... ljót mental image þarna mar, sorry). Hún var fyrst gefin út árið 1783 af leiðinlegum gaur sem heitir Immanuel Kant og nægir það ekki til að þú skiljir hversu leiðinleg hún er. Hún... arg!!! Ég hata þessa bók! Og ég er ekki einu sinni búinn að lesa helminginn af henni. Ég meika það bara ekki. Sorry, en mér er nokkurnvegin alveg sama um þetta fag þannig að ég nenni ekki að lesa meir. Ég fell þá bara. (ég er að tala eins og ég sé búinn að vera ýkt duglegur, frekar misleading). Allavega, vonandi átt/áttir þú jafn ömurlegt föstudagskvöld og ég. Misery loves company! :þ
..:: i-hate-kant-so much.com ::..
Sarcastic Green


Maus voru góðir. Mjög góðir meira að segja á köflum. Ég var semsagt á útgáfutónleikum Maus sem eru að fara að gefa út plötuna Musick eftir nokkra daga. Tónleikarnir voru á Gauknum í skítakulda og fámenni. Þrátt fyrir það tókst þeim að flytja lögin sín frábærlega og held ég að platan verði algjört brill. Mun rokkaðri og öflugri heldur en Maus á að sér að vera. Þeir eru semsagt búnir að leggja þetta ballöðu dæmi á hilluna og farnir að nauðga græjunum sínum enn betur og er ekkert nema gott um það að segja. Tóku líka nokkur gömul og góð og svei mér þá ef nýju lögin eru ekki bara miklu betri þótt maður hafi bara heyrt þau flest einu sinni (semsagt í kvöld). Lagið Life in a fishbowl sem er farið að spila reglulega á X-inu er bara svo æðislega flott að það er bara engu lagi líkt. Magchen mælir með Maus. Ég fékk líka loksins að sjá Dáðadrengi spila læv og voru þeir mjög skemmtilegir og með afar skemmtileg lög og gott prógramm bara. Góð sviðsframkoma og svona. Gaman að svona hressum gaurum. Einn þeirra er með mér í heimspekinni, Atli feiti. Ekki það að það komi neinu við sem ég var að segja. :þ
..:: max ::..

fimmtudagur, maí 01, 2003

X-men 2


Eins og kom fram í þessari afar skemmtilegu færslu hér að neðan (sem var btw skrifuð í nótt við afar erfiðar aðstæður) þá fórum við nokkir vinirnir saman í bíó. Við sáum myndina x men tveir sem er bara hin ágætasta mynd verð ég nú að segja. Meira að segja bara þrusu góð að flestu leyti. Ég sá ekki fyrri myndina (held ég ég hafi ákveðið fyrirfram að hún væri leiðinleg) þannig að ég get ekki borið þær saman, en ég var búinn að heyra að þessi væri mun betri hún hefur fengið þrusu góða dóma og átti þetta kannski þátt í því að ég ákvað að skella mér. Þetta er mjög góð mynd uppá allan hasar að gera og sem ofurhetju mynd er hún bara mjög góð líka. Þannig að ef þú heldur að þú hafir gaman af henni þá hefuru það eflaust, en ef þú heldur að hún sé ömurleg þá á hún eftir að koma þér á óvart ef þú sérð hana samt. Hún fær þrjár af fjórum stjörnum hjá mér og er það mjög vel af sér vikið á mínum skala miðað við gerð myndarinnar. Á undan myndinni var sýndur trailer úr Matrix 2 og held ég að hún verði all svakalega góð. Þeim tókst allavega að gera svaðalega góðan trailer úr henni og kitlaði hann afskaplega því mann þyrsti í meira þegar trailerinn var búinn.
..:: maghcen ::..
Snar


Það kom svolítið magnað fyrir mig áðan. Ég var í skeitparkinu hér í bæ (ég veit ekki hvort fólk veit hvar hann er eða vissi almennt að það væri skeitpark hér í bæ en ég ætla ekki að láta það trufla þessa æsilegu sögu sem þú ert að fara að lesa....) og var þar með nokkrum strákum. Við höfðum komið úr bíó og farið og tekið nokkra rúnta. Þegar við sáum að það var ljós í skeitparkinum þá ákváðum við að banka uppá og heilsa uppá strákana. Þeir voru bara þarna inni að skeita og svona. Ég og Mr. Timberlake stóðum og töluðum saman og horfðum á strákana skeita svolítið. Mr. Timberlake sagði mér sögu úr vinnunni sinni, hann sagði að þegar það væri ekkert að gera þá leiddist honum mjög mikið og að þá væri hann bara að stara útí loftið því þá væri enginn þarna sem hann gæti talað við því hann er bara að vinna fyrir einhvern gamlan kall sem er að byggja hótel eða eitthvað. Ég þekki líka gamlan kall, hann er afi minn. Hann á heima útá landi og einu sinni var hann allur í að hnýta flugur. Svona flugur sem maður notar í stangveiði skiluru. Ég get nú varla ímyndað mér neitt leiðinlegra sko. Bara að sitja og hnýta flugur... og hnýta svo aðeins meira... og svo leggja sig eða hlusta á útvarpið eða eitthvað. Svo kallar amma kannski "það er kominn matur!" en afi má ekkert vera að því að fara að borða. Hann vantaði einn þráð til að klára að hnýta þessa flugu. Og svo var hann að hlusta á svo skemmtilegan þátt í útvarpinu. Hann eyðir næstu fjórum og hálfri mínútu í að klára að hlusta á þáttinn á meðan amma borðar ein útí eldhúsi. Svo stendur afi upp og labbar útí bíl til að fara útí búð og kaupa þráðinn sem hann vantaði til að klára að hnýta fluguna. Hann notar svo bílskúrshurðaopnarann til að opna bílskúrshurðina og bakka svo bílnum út. Hann rifjar upp hvað hann var þakklátur fyrir að Helgi nennti að setja upp þennan opnara fyrir hann því hurðin var orðin heldur þung fyrir hann til að lyfta henni oft á dag. Það var mjög góður dagur og Ásta var þarna líka. En núna er Helgi með Ástu á skíðum á Ítalíu og afi hugsar um hvort þau séu ekki að skemmta sér vel. Á því augnabliki er Helgi að hugsa heim því hann er með heimþrá. Hann liggur á spítala úti á Ítalíu á meðan Ásta er á skíðum og rennir sér niður stóru brekkuna aftur og aftur og aftur. Hann fótbrotnaði nefnilega á fyrsta degi í ferðinni. Hann liggur í sjúkrarúminu og bíður eftir hjúkrunarkonunni. Hann var löngu búinn að ýta á takkann til að fá hana inn til sín því hann langaði í vatn að drekka. En hjúkrunarkonan kemur bara ekki, þannig að Helgi liggur bara og horfir útí loftið. Sjónvarpið í herberginu er bilað þannig að hann getur ekkert horft á sjónvarpið. Allar útvarpsstöðvarnar eru á ítölsku þannig að hann skilur ekki neitt og þær spila leiðinlega músík. Hann er einn í herbergi þannig að hann hefur engan til að tala við. Það er dregið fyrir gluggann þannig að hann getur ekki horft út, en það er líka vont veður núna. Hann hugsar með sér að Ásta geti ekkert skíðað í þessu veðri og vonar að hún komi í heimsókn til sín. En hún kemur ekki og hann bíður því bara áfram eftir húkrunarkonunni svo hann fái nú vatn því hann er svo þyrstur. Hann horfir bara á vegginn. Veggurinn er hvítur og hann sér að hann er illa málaður. Hann vann nefnilega eitt sumar við að mála hjá Hákoni mági sínum. Hann horfir á vegginn og fer að dotta. Hann hrekkur upp við að hann er farinn að dreyma! Hann man ekki hvað hann var að dreyma. Svo horfir hann áfram á vegginn í þrjár mínútur og nær þá að sofna. Hann fer að dreyma. Hann dreymir um þegar hann var lítill strákur í sveitinni. Hann fékk stundum að hlaupa úti á túni með boltann sinn, en flesta daga þurfti hann að hjálpa til með verkin á bænum. Nú situr hann bara inní eldhúsi með smáköku og mjólk og húsfreyjan er að hlusta á útvarpið. Þulurinn í útvarpinu er að taka við tal við mann sem hafði átt kúna sem mjólkaði óvenju mikið á Egilsstöðum. Þetta var ekkert venjuleg kú. Hún mjólkaði rosalega mikið. Þegar kallinn sem sækir mjólkina kom að sækja mjólkina einn daginn þá sagði hann við bóndann "Ertu kominn með fleiri kýr kallinn?" en bóndinn svaraði að bragði "Nei, hún Silla mín mjólkar bara svo rosalega vel þessa dagana!" en kýrin hér einmitt Silla í höfuðið á látinni eiginkonu bóndans. Honum þótti hún alltaf hafa sama augnaráðið eins og látin eiginkona hans og skýrði hana því Sillu til minningar um hana. Eitt sinn þegar lítil stúlka kom í heimsókn til hans og bað um að fá að kíkja inn í fjós til að klappa Baulu, en það hét beljan áður en hann breytti nafninu, en þá sagðin bóndinn "Tjah, hún Baula heitir núna Silla!" Þá glotti litla stelpan við tönn og bóndinn sá að hún var með eina gulltönn í efri gómi. Þannig var nú það að hún hafði verið á hjólabretti frænda síns og dottið svona illa á ostaskerann á heimilinu að framtönnin brotnaði í átján mola. Litla stelpan heimtaði að sett yrði skíragull í staðinn fyrir tönnina og var því hlýtt eftir að hún hafði bitið framan af tveimur puttum á eina tannlækninum á Húsavík, en þaðan var stelpan. Tannlæknirinn fékk örorkubætur fyrir þetta en varð að hætta sem tannlæknir og því dugðu örorkubæturnar ekki. Konan hans fór því frá honum og tók frá honum öll börnin og báða kettina, en hann sat eftir með sárt ennið og hundinn og átta putta og tvo hálfa. Hundurinn var einmitt með flær og því fór hann með hundinn til dýralæknis. Á leðinni til dýralæknisins var honum litið inn á rakarastofuna í bænum og þar sá hann tvo menn að sópa gólfið. Hann hugsaði með sér að það væri nú skrítið að það þyrfti tvo menn til að sópa gólfið á rakarastofunni. Þegar hann kom til dýralæknisins var enginn laus stóll í biðstöfunni.
..:: magchen ::..