laugardagur, október 30, 2004


Myndir úr partýinu!
Hrekkjavaka tekin með stæl!

Það rættist aldeilis spádómur okkar um partýið því það var rosalega skemmtilegt! Fólkið var mjög duglegt við að mæta í búningum og voru þeir margir hverjir virkilega flottir og mikið lagt í þá. Myndavélin var á lofti allan tímann og ég tók rúmlega 250 myndir um kvöldið! Geri aðrir betur! Þær voru allar svo flottar að ég átti í erfiðleikum með að sortéra út einhvern slatta til að setja á netið þannig að ég endaði með því að setja 116 myndir inn! Þið skoðið þetta bara allt saman og hafið gaman af! :D Það á örugglega mikið af fólki eftir að setja myndir á netið úr þessu partýi því það voru mjög margir með stafrænar vélar og endalaust mikið tekið af myndum. Ég set kannski inn linka frá þeim eftir helgina. Núna er partý hjá Gústa en ég held að maður taki því nú frekar rólega eftir hörkudjammið í gær. Myndirnar sem ég setti inn eru á íslenskum server þannig að þið þurfið ekkert að hafa áhyggjur af utanlands-downlodinu ykkar þótt þið skoðið þær allar. :) Myndirnar eru hér.
Magchen the Cowboy.

fimmtudagur, október 28, 2004


"I wanna be a Cowboy Baby!"
Kolding's Most Wanted!

Um helgina er hrekkjavaka og í tilefni af því verður mikið partýstand. Það verður svaka partý á Munkegade og þar sem allir að mæta í búningum sem gerir það auðvitað helmingi skemmtilegra! Og gettu hvað ég ætla að vera? Já þú gast þér rétt til, ég ætla að vera kúreki baby! Yeah! Við ætluðum nokkur saman að vera kúrekar, reyndar við öll sem erum saman í hóp í nýja verkefninu, en einhvernveginn fór það þannig að ég er einn eftir sem ætla að vera kúreki! En ég verð nú samt ekki í leiðinlegum félagsskap því Gústi ætlar að vera lögreglustjórinn (The Sherrif, ég ætla auðvitað að syngja "I shot the sherrif" allt kvöldið) og stelpurnar þrjár ætla allar að vera gleðikonur! Svona gamaldags gleðikonur sem voru á kránum í gamla daga að höstla kúrekana. Ekki veit ég af hverju það er svona eftirsótt starf, en þær taka sig amk mjög vel út í búningunum þannig að við strákarnir erum ekkert að kvarta! :D

Við fórum í Storcenter í dag og keyptum allskonar hluti sem passa við þessi hlutverk okkar og ef við verðum ekki langflottasti hópurinn í partýinu þá veit ég ekki hvað! Þetta verður eflaust rosalega gaman. Og ég ætla sko ekki að gleyma myndavélinni heima í þetta skiptið! Það verður tekið nóg af myndum! Og vonandi rata þær hérna inná síðuna fljótlega. :) Vonandi verður helgin ykkar allra skemmtileg og vonandi náiði að gleyma kuldanum þið sem eruð heima á elsku ískalda Fróni.
Maggi.

mánudagur, október 25, 2004


Sjálfsmynd
Today is the first day of the rest of my life... so yesterday was the last day of my life until then?

Ég sakna heimspekilegra pælinga. Ég var að frétta að Birna sem er með mér í bekk (og er gífurlega ákafur bloggari hérna) er skráð í heimspeki í H-skóla Íslands. Hún mætir að vísu frekar sjaldan í tíma því hún á heima í Danmörku. En mér fannst gaman í heimspeki. Ok, maður átti það til að sofna í tímum eða gleyma sér og horfa á skýin útum gluggann eða eitthvað álíka merkilegt og kennararnir gátu verið frekar leiðinlegir og talað við töfluna. En þeir gátu líka verið skemmtilegir og pælingarnar voru oftast virkilega áhugaverðar. Ég held að ég þurfi að fara að komast í einhverja djúsí bók um heimspeki.

Ég man hvað ég var fúll þegar ég skrifaði niður þvílíkar heimspekilegar pælingar sem að voru búnar að gerjast í hausnum á mér í nokkur ár en komst svo fljótlega að því að einhverjir gaurar höfðu stolið öllum hugmyndunum mínum fyrir mörg hundruð árum! Ég þoli ekki þegar það gerist. Kannski ætti ég að fínpússa þær eða byrja algjörlega á nýjum pælingum. Byrja frá grunni. Það lærði maður nú í þekkingarfræði. Það er ekki hægt að vita neitt nema að ná að skilgreina þekkingu. En vandamálið er það hefur engum tekist að skilgreina þekkingu! Þannig að í raun þá veit enginn neitt fyrir víst. Flestir halda eitthvað, og jafnvel telja sig vita suma hluti. En það er auðvitað barnalegt að halda því fram. Ég veit ekki neitt, þú veist ekki neitt, það veit enginn neitt. En það þýðir ekki að það megi ekki velta sér uppúr skemmtilegum heimspekilegum og jafnframt tilgangslausum pælingum.

Þetta ágæta blogg sem hefur snúist útí það sem það átti alls ekki að vera (sem er endalaust mal um það sem á daga mína drífur) var einmitt á hátindi sínum þegar ég var að bulla um heimspeki. Það fannst mér að minnsta kosti. Og ef ykkur fannst það ekki þá tek ég ekkert mark á því af því þið vitið ekkert hvort eð er. Vonandi tekst mér að standa við það sem ég ætla núna að leggja fram. Ég ætla að setja mér markmið. Að minnsta kosti ein innantóm, heimskuleg, grátbrosleg en á sama tíma stórskemmtileg færsla á viku um ekki neitt. Og hana nú! (sagði hænan og lagðist á bakið).
Magnús þenkjari.

Ghost Traffic
New group...

Jæja, þá er hópavinnan byrjuð aftur og í þetta skiptið erum við með töluvert frjálsari hendur en í síðustu skipti. Við fáum að ráða hvaða fyrirtæki við tökum og fáum sjálf að ráða hópum. Ég, Gústi, Rebekka, Elva og Lára erum búin að mynda þennan líka þrusu hóp sem ætlar að taka þetta verkefni algjörlega í nefið! :)

Við eigum að gera einhverja herferð fyrir stofnun sama hvort það er góðgerðar-starfsemi eða fyrirtæki. Núna er bara að leggja höfuðið í bleyti og gera eitthvað magnað! Þetta verkefni er átta vikur, fyrst fimm vikur með skólanum og svo þrjár þar sem við erum bara í verkefnavinnu. Þetta er spennandi og við erum öll búin að lofa okkur að við ætlum að vera ótrúlega dugleg og geta verið stolt af því sem við gerum. Vonandi er veturinn ekki of harður heima, það er ennþá haustfílingur í veðrinu hér. Ég var úti á bolnum fyrr í dag! (að vísu ekki lengi og mér varð soldið kalt, en samt).
Maggi.

sunnudagur, október 24, 2004

Ótrúlegt en satt

Eða kannski bara ekki svo ótrúlegt, en það var rosalega gaman um helgina. Á föstudaginn ákváðum ég, Gústi og Elva að kíkja útá lífið þrátt fyrir að ég og Gústi værum að taka edrú helgina okkar langþráðu. Við kíktum fyrst í partý til Agga og þar var margt um manninn og mjög gaman. Við blótuðum því að vísu mikið að hafa gleymt myndavél en hún kemur bara með næst. Eftir partýið skellti liðið sér niðrí bæ og ég og Gústi vorum lengi að ákveða okkur hvort við ættum að nenna að fara á Shitstop (sem er uppnefni og réttnefni á staðnum Pitstop hér í bæ). Það endaði með því að við skelltum okkur og dönsuðum þar við Elvu og Láru alla nóttina! Það var rosalega skemmtilegt og ég var ekki kominn heim fyrr en um hálf sjö! Hélt aldrei að ég myndi endast svona lengi án þess að vera í glasi. Þetta var frábært kvöld.

Í gær var svo búið að plana að halda vídjókvöld og það gerðum við sko með pompi og prakt! Það kom alveg fulllt af fólki í heimsókn og við borðuðum ógrynni að poppi og snakki og gosi og horfðum á þrjár bíómyndir! Það var alveg frábært kvöld líka og við ætlum sko pottþétt að gera þetta aftur mjög fljótlega. Þannig að þetta var mikil sukk-helgi þrátt fyrir að hafa ekki bragðað deigan dropa af áfengi. Næstu helgi er hinsvegar hrekkjavaka og plönuð nokkur partý, ótrúlegt hvað Íslendingar eru duglegir að halda partý alltafhreint. En það var svo gaman að djamma edrú að það verður pottþétt fastur liður í mínu lífi héðan af.

Á morgun byrjar svo nýtt verkefni í skólanum og í þetta skiptið fáum við að velja sjálf hópana. Spurning hvernig það fer allt saman. Líka mjög forvitnilegt að sjá hvað verkefnið verður því við munum vinna að því í átta vikur hvorki meira né minna! Fyrst bara smá með skólanum því við verðum í tímum líka en eftir mánuð verða engir tímar og við einbeitum okkur bara að þessu stóra verkefni. Það styttist líka á hverjum degi í að maður komi heim og ég held að það sé málið að fara hugsa um árlega JólaTaðinn sem verður haldinn rétt fyrir jól að venju. Það var skuggalega gaman í fyrra og planið er að toppa allt sem á undan hefur farið hvort sem það var AmmælisTaður eða PáskaTaður eða JólaTaður eða hvað! Takið frá restina af árinu til að jafna ykkur þið sem mætið, þið vitið hver þið eruð... ;) Over and out,
Magchen in sober action.

föstudagur, október 22, 2004


Olíumálverk eftir mig
Enn önnur helgi

Þrátt fyrir að í gær var mánudagur þá er kominn föstudagur. Svona er lífið í Danmörku. Svolítið erfitt að venjast þessu, ég er farinn að sakna hinna daganna svolítið, en þetta hefur nú líka sína kosti. Það er svo rosalega oft helgi. Að sjálfsögðu eru plönuð partý hér og þar, en stærsta partýið verður hérna í íbúðinni okkar á Knud Hansensvej alla helgina! Það verður horft á bíómyndir og þætti og spilað og borðaður góður matur og nammi og ís! Sem sagt ekkert fyllerí enda er maður búinn að fá sinn skammt af því undanfarnar helgar með helgarferð til Köben og þegar strákarnir komu í heimsókn og svona. Við erum að spá í að bjóða öllum þeim með okkur sem nenna ekki að hafa áfengi um hönd þessa helgina með okkur, halda jafnvel matarboð á morgun ef það verður stemmning fyrir því. :) Þetta verður vonandi gaman og endurtekið reglulega því við erum svoddan reglumanneskjur. Vonandi verður helgin góð hjá ykkur! Kveðja frá Kolding,
Magnús.

fimmtudagur, október 21, 2004


Traffík í Köben
Kaupmannahöfn

Það er alltaf gaman að koma til Kaupmannahafnar. Síðasta helgi var engin undantekning! Ég og Jómbi fórum þangað og máluðum bæinn rauðan. Við hittum vini okkar og kíktum í heimsókn til þeirra og með þeim á djammið. Ég þakka Björk og Sigrúnu kærlega fyrir gestrisnina. Ég ákvað að leyfa myndunum að segja sögu helgarinnar í stað þess að þylja upp hvað við gerðum. Einhver sagði að ein mynd segði meira en þúsund orð og ef það er satt er ég sko búinn að segja ansi mikið um þessa helgi! Þetta var góður endir á haustfríinu.

Skólinn byrjaði semsagt aftur á mánudaginn og það þýðir að við erum að mæta aftur í tíma á morgnanna og fram að hádegi. Það er bara mjög fínt enda eru fögin sem við erum í áhugaverð. Við erum komin með einn nýjan kennara, í Communication, og er hann mun betri en sá gamli og ég hlakka til að sjá hvort hann geti ekki komið þessu annars skemmtilega efni betur til skila.

Á morgun höldum við kynningu á ICHI-heimasíðunni sem við gerðum í síðasta verkefni fyrir fólkið frá B-Young fyrirtækinu. Það verður eflaust staðið upp og klappað fyrir okkur í hálftíma eftir þessa 5 mínútna kynningu og okkur boðin launahá staða í margmiðlunargeiranum sem við þurfum að afþakka með láði því við viljum auðvitað klára skólann fyrst. Nei, annars er ég bara þokkalega bjartsýnn á þetta enda skiluðum við inn mjög góðu verkefni.

Jómbi var svo sniðugur að fá lánað hjól í Köben á laugardagskvöldið og þar sem dauðaleit að eiganda þess um alla Kaupmannahöfn bara engan árangur þá ákvað ég að ættleiða hjólið. Ég er semsagt orðinn hjólandi maður hér í Kolding! Það var hinsvegar hægara sagt en gert að koma því hingað til Kolding. Elva vinkona Rebekku og sambýlingur okkar þessa dagana var að flytja frá Köben til Kolding og ég hjálpaði henni að koma þessum sjö ferðatöskum eða hvað það var og hjólinu hennar ásamt spánýja hjólinu mínu í lestina og útúr henni aftur. Á leiðinni inní lestina lokaðist hurðin á okkur og ég þurfti að halda henni opinni á meðan Elva henti inn síðustu töskunum og stökk sjálf inn! Svo var vesen að koma hjólunum fyrir en það gekk á endanum og við þurftum að sitja á töskunum alla leiðina til Kolding, í tvo og hálfan tíma. Þegar við nálguðumst Kolding var svo troðfullt af fólki í lestinni að við héldum að við kæmumst aldrei út úr lestinni með allt þetta dót á þessum stutta tíma sem lestin stoppar á hverjum stað! En það hafðist einhvernvegin á ótrúlega skömmum tíma með hjálp nokkurra miskunsamra samverja sem voru með okkur í lestinni. Danir eru mjög hjálpsamir upp til hópa. :)
Magnús.

mánudagur, október 18, 2004


Helgin sem leið (myndir)

föstudagur, október 15, 2004

Kóngsins Köbenhavn

Það er nú frekar lélegt að búa í Danmörku og kunna ekki að gera danskt ö á lyklaborðið sitt. En það breytir því ekki að ég er að fara til Kaupmannahafnar á morgun með Jómba. Við ætlum að gista hjá Björk og Sigrúnu eins og ég hef áður sagt. Því verður ekki bloggað um helgina en eftir helgina, ef ég verð duglegur að taka myndir, þá mun ég setja inn myndir frá helginni. Það er gaman að því að setja inn myndir og ég ætla að halda áfram að vera duglegur í þeim efnum fram eftir vetri.

Í gær fór ég í afmæli til Hilmars og það var mjög gaman. Að vísu eru nokkuð margir farnir úr bænum og því var ekki jafn fjölmennt og hefði getað verið en að sjálfsögðu var mjög góðmennt.

Núna er ég að horfa á tónleika með Jóni Ólafssyni í beinni útsendingu af tonlist.is sem Einar Þ. benti mér á. Þetta er tónleikasería og verður á hverjum fimmtudegi fram að áramótum. Endilega kíkið á þetta, næstur í röðinni er Bubbi sem spilar næsta fimmtudag! Gaman að hafa smá tónlistar-tengingu heim enda var maður duglegur að fara á tónleika heima á Íslandi en gerir ekki jafn mikið af því hér í DK því miður. Heyrumst eftir helgi!
Magnús.

þriðjudagur, október 12, 2004


Gengið sem kom í heimsókn
Mögnuð helgi!

Þetta var ekkert smá skemmtileg heimsókn! Jói og Kristjana komu frá Horsens og Andrés og Jómbi komu frá Íslandi og við skemmtum okkur alveg konunglega saman í þrjá daga. Núna erum við (ég, Jómbi, Jói og Kristjana) komin til Horsens en Andrés fór aftur til Íslands í gær.

Ég er búinn að setja inn myndir frá heimsókninni. Fyrstu myndirnar eru að vísu úr skólanum mínum, ég hélt að það hefðu kannski einhverjir gaman af því að sjá skólann minn. Myndirnar eru hérna.

Núna á fimmtudagskvöldið förum ég og Jómbi, og kannski líka Jói og Kristjana, til Köben og gistum hjá Björk og Sigrúnu. Þar verður líka fullt af krökkum sem eru með mér í skóla og aldrei að vita nema að við hittum þau. Svo verður Savbbi í heimsókn hjá Elísabetu Leifs og auðvitað hittum við þau líka! Þetta verður eflaust ekki síðri helgi en sú sem er nýliðin.
Maggi.

föstudagur, október 08, 2004

Anderson Mojo & Stony McGee

Þá er ICHI verkefninu lokið! Í bili að minnsta kosti. Við þurfum að kynna það sem við gerðum fyrir fyrirtækinu eftir tvær vikur. En þangað til þá er frííí! JAY! Og fríið byrjar sko ekki leiðinlega. Jói og Kristjana (sem btw eru farin að blogga hérna) koma til okkar klukkan þrjú í dag og svo koma Andrés og Jómbi í kvöld og beint í partý hjá vinkonum okkar hérna í miðbæ Kolding! Það verður gaman hjá okkur.

Ég sagði að ég myndi setja lokaútgáfuna af síðunni okkar á netið og ég stóð við það. Þið getið skoðað síðuna sem við gerðum hérna! Vonandi eiga allir góða helgi (er ekki bannað að segja þetta svona?), ég veit að hún verður frábær hérna í Kolding. ;)
Maggi.

fimmtudagur, október 07, 2004


Hmmm...
Verkefnaskil og frí!!

Á morgun eigum við að skila af okkur ICHI verkefninu sem við höfum verið að vinna að síðustu þrjár vikur. Það verður nokkkuð gott að klára þetta þótt þetta hafi nú verið ólíkt skemmtilegra og áhugaverðara verkefni heldur en það síðasta. Ég set inn link á morgun á lokaútgáfu heimasíðunnar sem við skilum inn. Þetta hefur bara gengið mjög vel og við höfum eiginlega fleiri hugmyndir um hvernig á að framkvæma þetta og hvernig við gætum heillað B-Young fólkið heldur en við getum framkvæmt. En þetta er mjög flott og ég er ánægður með árangurinn.

Næsta vika er svo haustfríið okkar og ég hætti við að fara til Svíþjóðar þegar strákarnir ákváðu að kíkja í heimsókn. Andrés og Jómbi koma til Danmerkur á morgun og Jói og Kristjana sem eiga heima í Horsens koma hingað til Kolding til að hitta strákana. Þetta verður eflaust rosalega gaman allt saman. Það er innflutningspartý á morgun (hjá Láru, Heklu, Rósu og Snorra fyrir þá sem þekkja til) og við kíkjum eflaust á þau og skoðum nýju íbúðina. Ég er alveg að missa af strætó þannig að ég skrifa bara meira seinna. Kvejða,
Maggi.

miðvikudagur, október 06, 2004


Blomst
Sófaborð

Við eigum sófaborð! Júhúúú! Þvílík hamingja. Þið vitið hvað matur er miklu betri ef maður eldar hann sjálfur? Ég og Rebekka vorum að komast að því að sófaborð eru miklu fallegri og betri ef maður streðar rosalega mikið við að koma þeim heim til sín. Þar sem við erum að fá fullt af fólki í heimsókn næstu helgi þá þótti okkur ómögulegt að vera ekki með almennilegt sófaborð og fórum því á stúfana eftir skóla í gær. Við fundum þetta líka glæsilega ódýra sófaborð í Biva, og ekki nóg með það því það smellpassaði líka við öll húsgögnin í stofunni okkar. Við tímdum samt ekki að borga 150 kr. fyrir að láta senda það heim heldur ákváðum að taka það bara með okkur í strætó og spara okkur peninginn þrátt fyrir að borðið væri rúmt tonn á þyngd.

Við bröltum með þetta út úr húsgagnaversluninni og út að næstu stoppistöð sem var við hliðina á versluninni. En auðvitað stoppaði fimman ekki þar sem gengur beint heim til okkar. Því þruftum við að bera þennan stóra ólögulega nýðþunga kassa (það átti auðvitað eftir að setja borðið saman) á milli okkar nokkur hundruð metra, yfir risa umferðargötu, og að stoppistöð þar sem fimman stoppaði. Við bárum okkur frekar illa eftir þessa áreynslu og ímynduðum okkur að allir íbúar Kolding væru hlægjandi að okkur í bílum sínum, en þökkuðum fyrir að vesenið væri búið. En nei nei, auðvitað vorum við of fljót að hrósa happi. Þegar strætó kom loksins bannaði bílstjórinn okkur að koma með! Þetta var einhver kellingarálft sem er búin að keyra strætó allt of lengi og það var ekki sjens að þræta við hana, það væri of hættulegt að fara með þetta inní strætóinn! Þannig að strætó keyrði öruggur í burtu og við stóðum eftir með sófaborðið stórhættulega.

Við ákváðum loks að hringja á leigubílastöðina og þeir voru svo vænir að senda okkur viðkunnanlega kellingu á langbak sem skutlaði okkur heim og tók fyrir það 125 kr. danskar. Þannig að við spöruðum okkur bara 25 kall á þessu ævintýri og vorum með harðsperrur í dag eftir þessa kraftagöngu. En við settum saman sófaborðið og það sómir sér alveg ótrúlega vel í stofunni okkar! :)
Magnús.

mánudagur, október 04, 2004


ICHI vefsíðan okkar
Sunday happy sunday

Þessi dagur var yndislegur. Við gerðum næstum ekki neitt og leiddist samt ekki í eina mínútu! Þannig eiga sunnudagar að vera. Við fórum bara að horfa á vídjó þegar við vöknuðum og svo eldaði Gústi handa okkur pasta (mikið þarfaþing að hafa kokk í heimsókn á heimilinu á sunnudags eftirmiðdögum) og við slöppuðum af fram eftir degi. Eftir tvær bíómyndir og nokkra Cribs á MTV og ég veit ekki hvað og hvað þá fór ég og þvoði af mér spjörurnar og á meðan þær voru að malla útí þvottahúsi þá hélt ég áfram að kóða síðuna okkar fyrir ICHI verkefnið.

Ég ákvað að setja smá sýnishorn af því sem við erum að gera með þessari færslu þannig að ef þú smellir á myndina færðu að sjá hvernig forsíðan í verkefninu okkar mun nokkurnvegin líta út. Ég er mjög ánægður með þetta og eftir að Þolli setti þetta svona listavel upp í Photoshop þá tókst mér að kóða þetta nokkuð vel þannig að útkoman er næstum því alveg eins og fyrirmyndin. Svo er nottla nauðsyn í þessu námi að hafa allt fullkomið þannig að maður þarf að validata kóðann sem maður gerir þannig að það má ekki vera ein pínu ponsu villa í kóðanum en þetta gekk allt upp hjá mér og ég fékk grænt ljós hjá validatornum. :)

En allavega, eftir að ég var búinn að þvo og Rebekka hætt að vinna í nýju heimasíðunni sinni (við bíðum öll spennt) þá röltum við niður í bæ (já ég sagði röltum! ég tók ekki strætó í þetta skiptið ótrúlegt en satt). Þar hittum við krakkana hjá Gústa (en ekki hvar?!) og fengum að borða og lékum okkur í tölvunum og spjölluðum fram á nótt. Ég hjálpaði Steinunni að setja inn myndir sem þið hafið kannski gaman af að skoða. Svo var ég skammaður fyrir að vera ekki búinn að setja link á síðuna hennar Rebekku og það er nottla skömm að því en núna er ég búinn að bæta úr því! :D

Það var mjög gaman á föstudaginn þótt við fengjum ekki að horfa á stuttmyndirnar sem var búið að lofa okkur og ég var mikið búinn að hlakka til að sjá. Eftir partýið uppí skóla fór hersingin niður í bæ og þar var dansað langt fram á morgun. Í gærkvöldi (lau) þá kíkti ég í diskókeilu með krökkunum og það var virkilega skemmtilegt. Við verðum að gera það aftur einn daginn þótt keilan sé í sjálfu sér aukaatriði. Það snýst bara um að skemmta sjálfum sér og öðrum.

Þannig að þetta er semsagt búin að vera frábær helgi eins og þær flestar. Næsta helgi verður sko alls engu síðri því þá koma strákarnir í heimsókn og það verður sko þvílíkt fjör! En núna ætla ég að fara að halla mér og mæta hress í skólann á morgun og vinna áfram í verkefninu okkar. Finnst ykkur þetta annars ekki koma bara vel út hjá okkur? Kvejða frá Kolding,
Maggi.

föstudagur, október 01, 2004


Geitungur í Trapholti
Studiestart

Það var mjög gaman í gær en þá hélt Koldingbær svokallað Studiestart fyrir alla nýja nemendur hér í Kolding. Það voru nemendur úr fjórum skólum sem tóku þátt og var ýmislegt gert til að kynna bæinn fyrir okkur nýnemunum. Dagurinn byrjaði í Koldinghus en það er líklegast frægasta mannvirki í Kolding. Að vísu kann ég ekki sögu þess enda þótti mér aðeins of gott að sofa og missti því af þessum fyrsta hluta dagsins. Næst var haldin róðarkeppni milli skólanna og það var hörku spennandi. NoMA lenti í öðru sæti en við hefðum átt að vinna! Sætið í bátnum bilaði í fyrstu umferðinni og það kostaði okkur titilinn. Ég tók ekki þátt að vísu en ég hvatti þau áfram af miklum móð. :)

Eftir að við fengum að borða og róðrarkeppnin var búin var okkur smalað uppí rútu og við fórum í Trapholt sem er listasafn rétt fyrir utan bæinn. Þar var mikið af flott hönnuðum húsgögnum og frekar nútímalegri list. Ég tók sjálfur smá arty flipp fyrir utan safnið og tók fullt af myndum af geitungum og blómum, sumar nokkuð góðar. Eftir Trapholt fórum við svo í sund sem var langþráð hjá mér enda hef ég ekki komið mér af stað ennþá og farið að synda eins og ég ætti að gera. Þeir eiga mjög flotta sundhöll hérna í Kolding en það kostar líka nógu mikið að fara í sund. 45 kr. danskar sem er fimmhundruð íslenskar! Það er heldur mikið fyrir fátækan námsmann. Mánaðarkort kostar þrjúþúsund íslenskar og það er spurning hvort ég skelli mér á eitt svoleiðis fljótlega. En það var mjög gaman í sundi þrátt fyrir mikla vöntun á heitum pottum. Það var einn pínulítill nuddpottur og þá má vera í honum í 10 mínútur í senn en þess á milli þarf að leyfa honum að hreinsa sig kortér! Alveg fáránlegt finnst mér, bæði að hafa bara einn pott og að banna fólki að vera í honum meirihluta dagsins.

Við ákváðum svo að fara út að borða saman hópurinn sem tók þátt í þessum degi frá NoMA og fyrst það var fullt á Jensens Bøfhus fórum við á ágætan ítalskan stað. Eftir að þjónninn hafði komið með súpu til mín sem ég bað ekkert um gerðu þeir loksins hálfmánann sem ég hafði beðið um og allir voru ánægðir með matinn. Eftir það drifum við okkur svo á Godset sem er aðal tónleikastaðurinn hér í bæ, en þar voru tvennir tónleikar í sambandi við þennan Studiestart dag. Þeir fyrri voru mjög góðir, hljómsveit sem ég held að heiti Dicta, og með ótrúlega hæfileikaríkri söngkonu. Hún var með rosalega töff ráma rödd og söng blús og rokk og allt heila klabbið og klikkaði ekki einu sinni. Hún spilaði líka til skiptis á kassagítar og rafmagnsgítar og var bara þvílíkt töff rokk-gella. :)

Seinni tónleikarnir voru ekki að fara vel í mannskapinn, einhver frekar slöpp dönsk strákasveit, og því fór mannskapurinn á Knuds Garage sem er vinsæll viðkomustaður hjá NoMA krökkum. Hann var pakkaður eins og alla fimmtudaga og fín stemmning. Ég var þó ekki að drekka og fór frekar snemma heim enda mikið um að vera í kvöld (föstudag). Annars árs nemendur eru nefnilega að bjóða nýnemana velkomna í skólann og bjóða okkur flottan mat og skemmtiatriði og svo verður haldið niður í bæ á skrallið.

Ég tók alveg fullt af myndum í gær og er búinn að setja þær á netið hérna! Vonandi hafiði gaman að því. Kveðja,
Magnús.