fimmtudagur, október 21, 2004


Traffík í Köben
Kaupmannahöfn

Það er alltaf gaman að koma til Kaupmannahafnar. Síðasta helgi var engin undantekning! Ég og Jómbi fórum þangað og máluðum bæinn rauðan. Við hittum vini okkar og kíktum í heimsókn til þeirra og með þeim á djammið. Ég þakka Björk og Sigrúnu kærlega fyrir gestrisnina. Ég ákvað að leyfa myndunum að segja sögu helgarinnar í stað þess að þylja upp hvað við gerðum. Einhver sagði að ein mynd segði meira en þúsund orð og ef það er satt er ég sko búinn að segja ansi mikið um þessa helgi! Þetta var góður endir á haustfríinu.

Skólinn byrjaði semsagt aftur á mánudaginn og það þýðir að við erum að mæta aftur í tíma á morgnanna og fram að hádegi. Það er bara mjög fínt enda eru fögin sem við erum í áhugaverð. Við erum komin með einn nýjan kennara, í Communication, og er hann mun betri en sá gamli og ég hlakka til að sjá hvort hann geti ekki komið þessu annars skemmtilega efni betur til skila.

Á morgun höldum við kynningu á ICHI-heimasíðunni sem við gerðum í síðasta verkefni fyrir fólkið frá B-Young fyrirtækinu. Það verður eflaust staðið upp og klappað fyrir okkur í hálftíma eftir þessa 5 mínútna kynningu og okkur boðin launahá staða í margmiðlunargeiranum sem við þurfum að afþakka með láði því við viljum auðvitað klára skólann fyrst. Nei, annars er ég bara þokkalega bjartsýnn á þetta enda skiluðum við inn mjög góðu verkefni.

Jómbi var svo sniðugur að fá lánað hjól í Köben á laugardagskvöldið og þar sem dauðaleit að eiganda þess um alla Kaupmannahöfn bara engan árangur þá ákvað ég að ættleiða hjólið. Ég er semsagt orðinn hjólandi maður hér í Kolding! Það var hinsvegar hægara sagt en gert að koma því hingað til Kolding. Elva vinkona Rebekku og sambýlingur okkar þessa dagana var að flytja frá Köben til Kolding og ég hjálpaði henni að koma þessum sjö ferðatöskum eða hvað það var og hjólinu hennar ásamt spánýja hjólinu mínu í lestina og útúr henni aftur. Á leiðinni inní lestina lokaðist hurðin á okkur og ég þurfti að halda henni opinni á meðan Elva henti inn síðustu töskunum og stökk sjálf inn! Svo var vesen að koma hjólunum fyrir en það gekk á endanum og við þurftum að sitja á töskunum alla leiðina til Kolding, í tvo og hálfan tíma. Þegar við nálguðumst Kolding var svo troðfullt af fólki í lestinni að við héldum að við kæmumst aldrei út úr lestinni með allt þetta dót á þessum stutta tíma sem lestin stoppar á hverjum stað! En það hafðist einhvernvegin á ótrúlega skömmum tíma með hjálp nokkurra miskunsamra samverja sem voru með okkur í lestinni. Danir eru mjög hjálpsamir upp til hópa. :)
Magnús.
blog comments powered by Disqus