þriðjudagur, mars 31, 2009

Animeisjön

Það eru stór skil í skólanum nú á föstudaginn. Á þessari önn, líkt og þeirri síðustu, er einn áfangi þar sem við ráðum nokkurnvegin sjálf hvað við gerum. Auðvitað verður það að vera innan þess sviðs sem skólinn er að kenna og við fáum leiðsögn frá kennurum ef við þurfum, en þar fyrir utan sjáum við sjálf um að læra það sem okkur langar til. Við Ósk ákváðum að fá æfingu í animation. Ég set útkomuna hér á bloggið síðar í þessari viku.

***

Ég reyni oft að forðast það að sletta of mikið á ensku, í það minnsta þegar ég skrifa. Ég fletti því upp orðinu animation í ensk-íslenskri orðabók og fékk þrjár mismunandi niðurstöður.

- Hreyfimynd
- Lífgun
- Myndlífgun

Mér þykja þær allar mjög slæmar. Ef fjallað er um mynd sem er flokkuð sem animation, þá er kannski hægt að segja að hún sé hreyfimynd (þótt það sé alls ekki lýsandi orð því öll myndskeið eru jú hreyfimyndir ekki satt?) en það er ekki hægt að segja að myndin sé lífgun eða myndlífgun. Ef einhver er að búa til slíka mynd, eða að animeita, er sá hinn sami þá að búa til hreyfimynd, að lífga eða að myndlífga? Af þrennu illu er síðasti kosturinn þó skástur.

Ósk vill nota orðið hreyfivæða. Það er gott að því leyti að það er hægt að segja ég ætla að hreyfivæða þetta, en það myndi þó ekki duga sem lýsing á slíkum myndum. Það væri kannski hægt að hreyfivæða hreyfimynd?

Er einhver annar með betri tillögu? Það er synd að orðið animeita sé komið í orðaforða manns. Ætli maður noti ekki teiknimynd frekar en animation um slíkar myndir, en þrívíddar-teiknimyndir eru þó ekki teiknaðar, eða hvað?

***

Að lokum ætla ég að deila með ykkur mynd sem mér finnst mjög flott. Myndina fékk ég af Wikipedia og hún er af Hong Kong. Það er hægt að fá enn stærri upplausn af myndinni þar. Ég minnkaði hana þannig að hún passar á "skjáborðið" mitt. ;)


Maggi.

sunnudagur, mars 29, 2009

The Lonley Island - I'm On a Boat

föstudagur, mars 27, 2009

Útihlaup

Í grunnskóla fannst mér fátt leiðinlegra en útihlaup. Það var í það minnsta það allra leiðinlegasta í leikfimi, meira að segja leiðinlegra en bíp-test. Síðan þá hef ég alltaf haldið því fram að mér finnist leiðnlegt að hlaupa, en núna undanfarið hef ég komist að því að það getur verið mjög skemmtilegt!

Ég er farinn að hlaupa af og til hér um nágrennið, og þar sem við búum niðri í bæ hér í Köben þá er ótrúlega margt að sjá. Ég hef enn ekki hlaupið sömu leiðina og það er af nógu að taka. Ekki spillir fyrir að ef ég hleyp með símann minn við höndina þá get ég notað forrit sem heitir RunKeeper sem skráir niður leiðina sem ég hleyp, hversu hratt ég hleyp hverju sinni og fleiri upplýsingar í þeim dúr. Það er gaman að skoða leiðina eftirá og deila því með öðrum því það er mikil hvatning til að halda þessu áfram. Í dag hljóp ég að litlu hafmeyjunni og til baka framjá Kongens Nytorv og Nyhavn.


Maggi.

fimmtudagur, mars 26, 2009

iChat

Það er miklum mun auðveldara að búa í útlöndum ef það er auðvelt að hafa samband við fólkið sitt. Það er gaman að nota MSN eða Facebook fyrir textaskilaboð, og svo er frábært að geta "skæpað" við fjölskylduna heima. Nú er meira að segja komið svo að flestir (næstum allir) eru komnir með makka, og þá er hægt að nota iChat. Við prófuðum í fyrsta skipti að tengja þrjár tölvur í iChat og það virkaði mjög vel! Það er líka hægt að fíflast eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. :)

Við Ósk horfðum á Breakfast at Tiffany's í kvöld sem er merkilegt fyrir þær sakir að ég hef aldrei séð hana áður! Það er auðvitað synd og skömm, en nú er ég búinn að bæta úr því. Listinn yfir klassískar myndir sem allir eiga að vera búnir að sjá en ég á eftir að sjá er reyndar alveg skammarlega langur. Ég er búinn að verða mér út um slatta af þeim og vonast til að bæta úr þessu smám saman.
Maggi.

miðvikudagur, mars 25, 2009

Here's looking at you, blog

Ég tók mig til og breytti blogginu mínu. Hér í den gerði ég það frekar reglulega, en það hefur fengið að halda sér í svipaðri mynd í nokkur ár. Eftir að maggi.tk nafninu var stolið síðasta vor hef ég lítið nennt að blogga en ég ætla að reyna að breyta því. Það eru kannski einhverjir heima á klakanum sem eru forvitnir um hvort íslenskir námsmenn svelti heilu hungri í Danaveldi eða hvort við náum að skrapa saman aurum fyrir leverpostej svo við getum fengið okkur smá smörrebröd. Kannski verður líka skemmtileg nostalgía að lesa gamlar færslur eftir nokkur ár.

Við erum í skemmtilegum tímum þessa önnina í skólanum. Einn þeirra er vídjóvinnsla (Advanced Audiovisual Production) þar sem við hlaupum um ganga skólans með flottar vídjóvélar og þykjumst vera kvikmyndagerðarmenn. Útkoman er svona upp og ofan en yfirleitt er mjög gaman bæði að skipuleggja, taka upp og klippa myndirnar. Nýjasta afurðin er mynd sem við ákváðum að kalla Fjórir eða FOUR. Í henni er sögð saga með fjórum myndavélum, en öll myndskeiðin sjást allan tímann á skjánum. Hljóðið er notað til að leiða áhorfandann að því sem er merkilegast í sögunni hverju sinni. Hér er útkoman. Athugið að það er hægt að horfa á myndina í háskerpu með því að smella á HD hnappinn á spilaranum.


Maggi.

Breytingar

Ég fer nú fljótlega að bæta úr skorti á færslum á þessu bloggi. :)

Maggi.