þriðjudagur, mars 31, 2009

Animeisjön

Það eru stór skil í skólanum nú á föstudaginn. Á þessari önn, líkt og þeirri síðustu, er einn áfangi þar sem við ráðum nokkurnvegin sjálf hvað við gerum. Auðvitað verður það að vera innan þess sviðs sem skólinn er að kenna og við fáum leiðsögn frá kennurum ef við þurfum, en þar fyrir utan sjáum við sjálf um að læra það sem okkur langar til. Við Ósk ákváðum að fá æfingu í animation. Ég set útkomuna hér á bloggið síðar í þessari viku.

***

Ég reyni oft að forðast það að sletta of mikið á ensku, í það minnsta þegar ég skrifa. Ég fletti því upp orðinu animation í ensk-íslenskri orðabók og fékk þrjár mismunandi niðurstöður.

- Hreyfimynd
- Lífgun
- Myndlífgun

Mér þykja þær allar mjög slæmar. Ef fjallað er um mynd sem er flokkuð sem animation, þá er kannski hægt að segja að hún sé hreyfimynd (þótt það sé alls ekki lýsandi orð því öll myndskeið eru jú hreyfimyndir ekki satt?) en það er ekki hægt að segja að myndin sé lífgun eða myndlífgun. Ef einhver er að búa til slíka mynd, eða að animeita, er sá hinn sami þá að búa til hreyfimynd, að lífga eða að myndlífga? Af þrennu illu er síðasti kosturinn þó skástur.

Ósk vill nota orðið hreyfivæða. Það er gott að því leyti að það er hægt að segja ég ætla að hreyfivæða þetta, en það myndi þó ekki duga sem lýsing á slíkum myndum. Það væri kannski hægt að hreyfivæða hreyfimynd?

Er einhver annar með betri tillögu? Það er synd að orðið animeita sé komið í orðaforða manns. Ætli maður noti ekki teiknimynd frekar en animation um slíkar myndir, en þrívíddar-teiknimyndir eru þó ekki teiknaðar, eða hvað?

***

Að lokum ætla ég að deila með ykkur mynd sem mér finnst mjög flott. Myndina fékk ég af Wikipedia og hún er af Hong Kong. Það er hægt að fá enn stærri upplausn af myndinni þar. Ég minnkaði hana þannig að hún passar á "skjáborðið" mitt. ;)


Maggi.
blog comments powered by Disqus