mánudagur, mars 31, 2003

Skógur þrastar


Þá er maður loksins kominn heim eftir sumarbústaðarferð. Ég veit ekki hvort ég nenni að segja ykkur alla sólarsöguna en það gerðist sko ýmislegt get ég sagt ykkur. Ég get ekki sagt ykkur allt en ætli ég komi ekki svona með það helsta.

Við fórum á föstudaginn og fljótlega tók að hrúgast inn fólk. Við trölluðum þarna í bústaðnum allir elstu sundkrakkarnir úr öllum félögunum og skemmtum okkur vel. Sumir of vel og ég var einn af þeim. Ég "ákvað" semsagt rétt um miðnætti að koma mér í rúmið (ég hata þann sem fann upp tekíla). En hinir skemmtu sér vel fram eftir nóttu. Á laugardagsmorguninn létu sig svo næstum allir hverfa, kanski útaf þrengslum í bústaðnum hver veit? Við vorum sex eftir og eyddum deginum í slökun og að reyna að láta renna af okkur mesta timbrið. Kíktum í sund og grilluðum um kvöldið og svona, bara voða fínt. Allir mun hressari á sunnudeginum og þegar leið á daginn kom í ljós að það væri ekkert sniðugt að fara að keyra í bæinn í veðrinu sem var uppá heiði. Því ákváðum við bara að taka sunnudagskvöldið líka með trompi og kláruðum allt sem til var í bústaðnum og spjölluðum mikið saman í nokkrum göngutúrum og í nokkrum afar áhugaverðum samtölum uppí bústað. Bara gaman að því. Ég þakka öllum sem þraukuðu þetta svona lengi og finnst mér að þessi bústaðarferð hafi nú bara verið ansi vel heppnuð. Ég þakka þeim sem hlýddu.
..:: magchen in action ::..

miðvikudagur, mars 26, 2003

.:Ha:.


Þetta vakti hjá mér mikla kátínu. Hehehehehe....

Úr læknaskýslum

"Sjúkl. hefur átt við gott heilsufar að stríða."
"Sjúkl. á vanda til að fara austur í sveit um helgar. Þar datt undan henni hestur."
"Nú er svo komið fyrir henni að hún getur að mestu hjálpað sér sjálf. "
"Sjúkl. hefur formlegar hægðir."
"Sjúkl. lærði söngnám. "
"Sjúkl. batnar ef lagst er ofan á hana (medicin)."
"Misnotaði áfengi í óhófi áður fyrr."
"Að höfðu samræði við lækni féllst hann á að koma sjálfviljugur inn."
"Sjúkl. tekur engin lyf, en Magnyl þess á milli."
"Skoðun leiðir í ljós unglingspilt."
"Sjúkl. var í morgun að drekka te og borða maís þegar að bar mann sem heitir Kristmundur."
"Sjúkl. hefur fremur óbærilega verki."
"Daginn fyrir innlögn borðaði hún kvöldmat á eðlilegan hátt, með kjötbollum, eftir það var hún í samkvæmi."
"Sjúkl. hefur aldrei fundið fyrir þessum verkjum nema þegar hann vaskar upp í sumarbústað, en er ráðlagt eftirlit, ef verkirnir koma fram við önnur tækifæri. "
"Sjúkl. hefur verið í vandræðum með gervifótinn, en hann hefur haft fjóra fætur frá því að hann lenti í slysinu, en þann síðasta fékk hann í apríl s.l."
"Sjúklingur fær verki í bringunni ef hún liggur á vinstri hlið lengur en í eitt ár."
"Á öðrum degi var hnéð betra og á þriðja degi var það alveg horfið."
"Sjúklingur hefur verið niðurdreginn alveg síðan hann byrjaði að hitta mig árið 1983."
"Sjúklingur er tilfinningalaus frá tá og niðurúr."
"Sjúklingur tárast og grætur stöðugt. Virðist líka vera niðurdreginn."
"Sjúklingur er ekki þekktur fyrir að fremja sjálfsmorð."
"Sjúklingur var í góðu ásigkomulagi þar til flugvélin hans varð eldsneytislaus og hrapaði."
"Þegar hann var lagður inn, hafði ör hjartsláttur stoppað og honum leið betur."
"Sjúklingur fékk sér vöfflur í morgunnmat og lystarstol í hádeginu."
"Húðin var þurr og rök"

Já, þar hafiði það! :)
..:: max ::..

mánudagur, mars 24, 2003

IMÍ


Já. Ég er búinn að vera í Heimaey síðustu sex daga að þessum meðtöldum og var þetta bara ferð hin ágætasta. Meira að segja bara mjög vel heppnuð keppnisferð. Mótið byrjaði ekki fyrr en á föstudag þannig að við höfðum tvo daga í síðustu viku fyrir okkur sjálf og þegar við vorum ekki í lauginni vorum við elstu strákarnir í pílu eða að spila póker. Það var spilaður mikill póker um helgina og redduðum við okkur spilapeningum og alles. Mótið var vel heppnað, ég var bara þokkalega sáttur við mín sund miðað við aldur og fyrri störf. Sá mig einhver í sjónvarpinu kanski? Það var ótrúlega gaman að sjá suma krakkana synda því nokkrir stóðu sig alveg frábærlega vel. Mig langar að óska fjórum sérstaklega til hamingju með frábær sund ef þau skyldu álpast til að lesa þetta og þeir sem til þekkja ættu að kannast vel við hvað þessir krakkar stóðu sig vel. Það eru Íris, Öddi, Birkir og Kolbrún Ýr!

Nú er bara málið að halda ótrauður áfram í H-skólanum og halda áfram að plana næstu helgi sem verður lengi í minnum höfð ef allt fer að óskum. Mótslokum verður fagnað með miklum stæl og getur vel verið að ég skrifi eitthvað meira um það síðar. Ég get meira að segja lofað því! Bloggpásu minni er hérmeð lokið.
..:: ótrauður ::..

miðvikudagur, mars 19, 2003

Þjóðhátið... eða svona næstum


Jæja þá er maður á leiðinni til Eyja. Það verður eflaust bara helvíti gaman. Allir að fylgjast með mér í sjónvarpinu! Það á víst að sýna eitthvað beint frá mótinu, veit ekki alveg hversu mikið. Þið fylgist bara með! :) Ég efast samt um að ég taki mig neitt allt of vel út í sjónvarpinu, kannski ekkert allt of sniðugt að vera að auglýsa það hérna. Jæja, það les þetta enginn hvort eð er. Skemmtið ykkur á meðan ég er í burtu! Ég veit það verður erfitt en þið verðið að reyna. :)
..:: mags rags ::..

þriðjudagur, mars 18, 2003

Thingz


Adaptation er góð mynd og fær hún 3 stjörnur af fjórum mögulegum. Af hverju fær hún ekki meir spyrð þú kanski? Tjah, ég spyr sjálfan mig stundum þessarar sömu spurningar, og svarið er augljóst. Being John Malcovich er bara betri. Sami gaur skrifar þær báðar en Malcovich (sem fær fullt húst hjá mér) er über schnilld. Þessi á skilið 3 og hálfa á venjulegan mælikvarða, en fær bara þrjár útaf samanburðinum sem er óhjákvæmilegur.

Annar er það af mér að frétta að ég fer til Eyja þeirra er kenndar eru við Vestmenn á miðvikudaginn og kem ekki heim fyrr en á mánudag. Ástæðan er innanhúsmeistaramótið sem tekur greinilega svona mikinn tíma. Ég hef litlar áhyggjur að það verði leiðinlegt, en vonandi leiðist ykkur ekki á meðan því ég get nottla ekki bloggað þegar ég er svona langt frá allri siðmenningu. :)
..:: mags ::..

mánudagur, mars 17, 2003

The world is my oyster


Dagurinn í dag gæti hafa verið einn af þeim merkilegri í mínu lífi. Og ég er ekki að meina það á heimspekilegu nótunum ("Ætli hver einasti dagur í lífi okkar sé sá merkilegasti í sjálfu sér?") því ég er ekki alltaf að hugsa um heimspeki. Heimspeki er skemmtilegt hobbý, en til lengdar er hún frekar tilgangslaus. Engin niðurstaða, og maður getur ekki breytt heiminum (fyrir utan að allir breyta heiminum að einhverju marki, en það eru heimspekilegar pælingar líka þannig að við sleppum þeim hér). Ég er í heimspeki en eins og flestir sem mig þekkja vita þá verð ég þar stutt. Bara einn mánuð enn.

En aftur að því sem gerir þennan dag (sunnudaginn 16. marz 2003) merkilegri en flesta. Ég tók ákvörðun um að taka ákvörðun. Ég hef ákveðið að lífið sé tilgangslaust ef það hefur ekki tilgang. Þetta virðist liggja í augum uppi en er í raun eitthvað sem maður þarf að átta sig á. Ég hef að engu að stefna, sundferillinn er á leiðinni niðrum klósettið (ekki það að ég hafi nokkurntíman getað orðið meira en amatör), ég hef ekki hugmynd um hvað mig langar að vinna við í framtíðinni og þar af leiðandi hef ég ekki hugmynd um hvað mig langar að læra. Það heldur ekki eins og ég sé að fara að gifta mig og eignast börn eins og ástarlífið hjá mér (ef ástarlíf má kalla) hefur gengið undanfarið. Því ætla ég að standa við orð mín og fara í ævintýr á hjara veraldar. Það er ekki ákveðið hvenær, hvert, hvernig eða með hverjum, en ég mun leggja land undir fót í nokkra mánuði og lifa lífinu nákvæmlega eins og mig langar. Sú hugmynd kom upp í dag að fara til Ástralíu með bakpoka og góða skapið og leist mér bara vel á það. Ég þekki fullt af fólki í Ástralíu síðan ég var þar árið 2000 og væri örugglega frábært að heimsækja einhverja af þessum vinum og kunningjum og rifja upp gamla tíma og lenda í nýjum ævintýrum.

Ef ég vinn bara núna eftir skólann út árið og kanski eitthvað smá fram á það næsta ætti ég að eiga nægan pjéning til að koma mér af landi brott og lifa í útlandinu í nokkra mánuði. Þetta langar mig að gera og þótt að ég sé hræddur að prófa eitthvað svona nýtt og standa á eigin fótum (því stundum finnst mér ég bara vera svona átta ára inní mér) þá gerir það þetta bara enn meira spennandi og ævintýralegt. Ástralía er líka æðislegasta land í heimi, nema kanski fyrir utan frónið sem ég elska mjög mikið, og langar mig að kynnast því betur. Síðast þegar ég fór í fjórar vikur árið 2000 þá voru það bestu fjórar vikur ævi minnar og þótt þetta verði auðvitað allt öðruvísi ferð þá ætti hún að vera engu minna spennandi. Ég vona svo innilega að ég hafi það í mér að framfylgja þessu plani, og þótt allt eigi eftir að breytast í umgjörðinni, þá stendur eftir eini sannleikurinn sem ég veit þessa dagana. Mig langar að leggja heiminn að fótum mér.
..:: m ::.. ..:: magchen ::.. ..:: red ::.. ..:: maggi ::..

laugardagur, mars 15, 2003

Josh Wink

Í gærkvöldi skemmti ég mér alveg svaðalega rosalega ógeðslega vel! við vinirnir fórum á Astro og sáum og heyrðum Josh Wink fara á kostum í DJ-búrinu og trylla lýðinn með geðveikum töktum og látum. Ég dansaði í tæpa þrjá tíma með stuttum stoppum. Vá hvað það var geggjað gaman! Josh Wink er snillingur! Ég hefði alveg eins hafa getað staðið undir sturtunni heima í hálftíma, ég hefði ekki verið blautari þegar ég kom út! :) Ég held ég hafi bara einu sinni svitnað svona mikið og það var á Rammstein tónleikunum. Það var geðveikur hiti þarna en þegar Higer State Of Conciousness kom eftir að við höfðum hitað upp fyrir það í tvo tíma, þá gleymdist allur hitinn og svitinn og fólkið og það var bara geðveikt! Tuttugu mínútna útgáfa af laginu og þakið ætlaði af húsinu þegar hæsta punkti var náð! Vá hvað var gaman. Á tímabili þegar reykurinn var sem mestur og strobe-light-ið var á fullu þá sá maður minna en ekki neitt en dansaði bara áfram eins og vitleysingur.

Svo tekur maður því bara rólega í kvöld. Ná úr sér þreytunni eftir þetta kvöld. Mennirnir sem byrjuðu á Electolux eru snillingar allir saman. Ekki spillti svo fyrir hvað það var mikið af fallegu kvenfólki þarna (sem féll þó í skuggann af Chloe sem var þarna líka). Og svo er ég búinn að frétta að Scooter sé að koma til landins og hef ég ákveðið að fara og dansa eins og vitlaus maður þar líka. Scooter er snillingur líka, rúmlega fimmtugur maðurinn og er enn að trylla unglingsstelpurnar, og ég ætla sko að vera á staðnum þegar þær ganga af göflunum! :)
..:: lord of the dance ::..

fimmtudagur, mars 13, 2003

Hvað er eðlilegt að sofa mikið?
Æi, who cares. Góða nótt!
..:: m ::..

miðvikudagur, mars 12, 2003

maggi.tk


Vikan byrjar frekar hægt miðað við hvað helgin var brjáluð. Í miðri viku vill ég ekkert gera nema éta og horfa á vídjó því það er gaman. En ég syndi líka og fer í skólann og reyni að lesa eitthvað af þessum bókum sem ég á að vera að lesa. En líf mitt undanfarna mánuði hefur litast mikið af því að ég er svo stefnulaus og það er alls ekki gott fyrir mig. Ég er sá sem verð alltaf að hafa eitthvað til að hlakka til, einhvern stóran atburð í ekki svo fjarlægri framtíð, en það er bara algjör skortur á slíku hjá mér. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég ætla að gera í haust og er ekki með neitt sérstakt planað í sumar. Er að spá í að fara að undirbúa eitthvað álíka drastíkt og heimsreisu eða eitthvað. Eitthvað til að stefna að því ég hef svo sannarlega ekki hugmynd um hvað ég ætla að læra. Og það er lítill tilgangur í að hanga í H-skóla í einhverjum fögum sem eiga ekki við mann. Ekki það að heimspekin sé svo slæm heldur er hún bara ekki eitthvað sem ég ætla að gera lengi, bara prófa. Þú fyrirgefur ef þessi hugleiðing var á alvarlegu og leiðinlegu nótunum en stundum er ég alvarlegur og leiðinlegur. Það fer illa með fólk að hafa ekkert að gera. Að þessum orðum sögðum ætla ég að fara að sofa. Kanski fæ ég draumsýn sem segir mér hvað ég eigi að gera. Maður veit ekki, erfitt að segja. En allavega, góðar stundir.
..:: red ::..

þriðjudagur, mars 11, 2003

Starkaður og Hróbjartur
----- 3. hluti -----

Þetta þarf að lesa hægt.


Stóri guli sandkassinn hefur athygli okkar aftur. Strákarnir okkar sitja þar og halla sér upp að brún hans og horfa upp í skýin. Þeir eru einir úti því hinir krakkarnir eru farnir inn að lúra í oggustund.


Hróbjartur. Veistu hvað?
Starkaður. Já. Ég veit hvað. Það var að renna upp fyrir mér. Þetta er ekki svo ýkja flókið. Við erum. Það er ekki mikið meira að segja um það. Allt sem við upplifum er bara spunnið í kringum þessa einu vitneskju í heiminum. Hvort sem þetta er allt draumur, hvort sem við mannverurnar séum það eina sem skiptir máli og mælikvarði alls, þetta breytir ekki það miklu. Auðvitað er enginn raunveruleiki eins og við hugsum um hann. Um leið og einhver dettur niður á góða lausn á öllu saman þá er einhver annar mættur um leið til að draga hana í efa og finna á henni galla. Og það er engin lausn. Við erum alin upp í raunveruleika sem er ekki til. Það sem við skynjum er ekki til. Þegar þú horfir í spegil, ert það í raun þú sem þú ert að horfa á? Auðvitað ekki og það eru örugglega flestir sammála um það. Það er bara spegilmyndin af þér. En afhverju eru þá allir svona blindir á það að það sem þeir upplifa dags daglega er ekkert annað en spegilmyndin af því sem við höldum að sé til. Þegar þú horfir á eitthvað þá helduru að þú sjáir það. En það eina sem er að gerast er að heilinn í þér er að vinna úr einvherri skynjun sem augun í þér fengu frá einhverju. Hvað þetta eitthvað er veit enginn. Enginn. Og líklegast er það ekki neitt, eða að minnsta kosti ekkert sem við getum nokkruntíman skilið því við erum svo takmörkuð. Af hverju er það sem þú sérð eitthvað raunverulegra en það sem þú sérð gegnum spegilinn. Það sem þú sérð þar er ekki í speglinum í raun heldur bara mynd af því. Það sem þú telur þig sjá í raunveruleikanum er ekki þar heldur bara í hausnum á þér. Þú sjálfur ert inní hausnum á þér og getur ekki annað. Þú munt aldrei komast þaðan. Hvort sem við tveir sem liggjum hérna og horfum uppí himininn erum til í raun eða erum bara persónur í skáldsögu, skiptir það í raun máli? Við erum til. Við erum í hausnum á einhverjum. Hvort sem það er ég, Starkaður Ágústsson, eða bara ég, hugarburður einhvers annars, og hvort sem ég er í hausnum á einni persónu eða hundrað milljón manns, þá er ég til. Engu minna en þú og allir hinir. Raunveruleikinn er eitthvað sem er ekki til. Þetta er allt ímyndun. Og mín ímyndun er engu verri en þín. Við horfum uppí skýin og segjum frá því sem við sjáum. Ég segist sjá fíl en þú sérð regnhlíf. Samt erum við að horfa á sama skýið. Ætlar einhver að koma hingað og segja okkur að annar hvor okkar hafi rangt fyrir okkur? Eða að við höfum báðir rangt fyrir okkur og að það sé einhver mynd sem er þarna í raun? Nei. Aldeilis ekki. Við höfum báðir rétt fyrir okkur. Ég sé fíl og þú sérð regnhlíf. Það er enginn raunveruleiki sem annar okkar er að horfa framhjá. Ég er bara í hausnum á þér og þú ert bara í hausnum á mér. Þannig að nei. Ég breyti svarinu mínu. Ég veit ekki hvað. Hvað ætlaðiru aðeins að segja?
Hróbjartur. Ég man það ekki.
Starkaður. Þarna sérðu.

..:: m ::..

sunnudagur, mars 09, 2003

Saturday Sunday


Ég fór ekki í bústað. Vona að það hafi verið gaman hjá Jessie og félögum og ég þakka kærlega boðið. En það var hinsvegar svaðalega gaman hjá mér í gær! Ég svaf nottla yfir mig á æfingu um morguninn og vaknaði klukkan tólf og hringdi uppí fjall. Þá sagði mér kall í símsvara að það væri geggjað veður í Bláfjöllum og að ég ætti að drulla mér á skíði! Þannig að ég rauk upp til handa og fóta og allra útlima og tók mig til, hringdi í "Hið dularfulla H" og við brunuðum uppí fjall. Og það var engin smá snilld. Veðrið var eins eins og pantað útúr bæklingi, nær heiðskýrt, eins stigs frost, lyngt og bara einfaldlega frábært til skíðaiðkunar. Snjórinn var fínn, sumstaðar smá harðfenni en það var allt í lagi. Ég var mesti töffarinn á skíðasvæðinu með eldrautt loðið hárband sem Fjóldís litla systa á, og uppúr því stóð beint uppí loftið eldrauður og glæsilegur brúskurinn. Svo var ég með Oakley sólglerugun mín til að toppa lúkkið. Ég vildi að ég hefði verið með myndavél. FS var í skíðaferð í fjallinu á sama tíma og við hittum nokkra krakka þaðan en misstum af Goldeneye og HeimsKspekingnum. Vorum mestallan daginn með Anderson Mojo og Steinari (hmmm... vantar kúl nick á Steinar.) Við vorum útúm allt fjall og prófuðum fullt af brekkum og þetta var allt saman svaðalega fínt og mæli ég með því að þið öll sem eruð alltaf að fresta því að koma ykkur á skíði drífið í því hið fyrsta áður en það er um seinan.

Eftir að ég hafði farið og klárað kökurnar úr ammælinu hjá litla frænda mínum sem ég missti af útaf skíðaferðinni var mér boðið að fara í framsóknarpartý. Ég var á báðum áttum vegna skíðaþreytu en ákvað að slá til. Hentist heim í sturtu og mætti ferskur í partý. Það fór að týnast inn fólk og meira að segja hljómsveit að spila og læti. Fljótlega fóru að tínast inn allra flokka kvikindi, ungir sjálfstæðismenn og ég veit ekki hvað og hvað. Því ákvað ég að bjóða öllum vinum mínum þangað sem voru í partýi í samfylkingarhúsinu. Þeir komu þangað en stoppuðu stutt því við brunuðum í bæinn. Sex manns í Yaris, lovely. En það gekk upp og við skemmtum okkur vel í bænum. Kvöldið einkenndist af nostalgíu því ég hitti fólk sem ég hef ekki talað við í mörg ár og var það mjög gaman. Hitti líka Önnu sem fór með mér út til Ástralíu og það var gaman. Ég fór að tjékka og dagbókin sem við skrifuðum inná mbl.is er þar enn! En maður þarf að kaupa greinarnar þar núna þannig að ég get örugglega aldrei skoðað þetta aftur. Hrmph. Svo þegar stemmning var farin að myndast á dansgólfum staða bæjarins þá var auðvitað kominn tími til að koma sér heim. En dagurinn og kvöldið voru svo sannarlega vel heppnuð og vona ég að þið hafið einnig átt ánægjulega kvöldstund.

Í sambandi við könnunina mína, "Take of their hats!", þá er rétta svarið "Popes in a Volkswagen". Þetta er komið úr Friends og vildi ég bara tjékka Friends kunnáttu ykkar því ég kann flestar seríurnar utanað og þykir miður ef þið gerið það ekki líka. Taktu þátt í nýju könnuninni! Það er ekki eins og ég sé búinn að gera nóg þessa helgi því er ég að fara í mat á FlugHótel í kvöld því afi er áttræður. Nóg að gera! Bið að heilsa.
..:: magchen ::..

laugardagur, mars 08, 2003

Ágætis byrjun


Þessi helgi byrjar bara ágætlega. Ég fór semsagt á árshátíð ÍAV á Broadway og var það bara fínt. Hefði samt aldrei nokkurntíma í helvíti tímt (týmt?) að borga níuþúsundkall fyrir þetta (miðinn kostaði það víst). Stelpurnar í Le 'Sing voru flottar og kunnu að dansa og maturinn var góður. Ég vann ekkert í happdrættinu en kall sem var á mínu borði vann eftir að hafa blótað og röflað yfir því að vinna aldrei neitt og svo var eins og hann hefði unnið Miss World hann var svo hissa og glaður þegar hann vann koníaksflöskuna. Magnað. Góð saga?

Ég hef verið svoldið í því að kíkja á blogg hjá öðrum svona útaf þessu Iceblog dæmi öllu og það fara sum blogg verulega í taugarnar á mér. Þeir sem blogga um ekkert nema hvað þeir hafa lítið að blogga um eru leiðinlegir. Þeir sem blogga ekki heldur birta bara einhverjar heimskulegar kannanir á hvernig persóna þeir eru fara í taugarnar á mér en þó ekki meira en kannanirnar sjálfar. Þær eru það tilgangslausasta og leiðinlegasta sem til er á netinu. Ég veit að það er líka tilgangslaust að láta það fara í taugarnar á sér en það gerir það samt. Fólk sem er með blogg en bloggar einu sinni í mánuði er líka leiðinlegir bloggarar. Sjálfum finnst mér gaman að blogga og blogga um það sem mér finnst skemmtilegt að blogga um og reyni að forðast eins og ég get að vera einhver af ofantöldum bloggurum.

Þetta finnst mér fyndið. Er þetta í alvöru eða? Hvað ætli manneskjan hafi fengið mikla stríðni útá þetta? Kanski var það tilgangurinn enda gott djók ef svo er.

Það þekkja örugglega flestir sem þetta lesa goðsögnina um rauðhært kvenfólk. Kvenfólk sem er rauðhært, og ég er að tala um mjög rauðhært en ekkert amatör dæmi, er nefnilega yfirleitt óvenju fallegt eða herfilega ljótt. Þetta er kanski ljótt að segja, en staðreyndin er að millivegurinn er frekar sjaldgæfur og er í raun undantekningin sem sannar regluna. Mér finnst að það sé löngu tímabært að skella þessu yfir á karlpeninginn líka því ég hef á tilfinningunni að það sé alls ekki mikið álit hjá almenningi á rauðhærðum karlmönnum. Ég kenni þessu algjörlega um það hversu illa mér hefur gengið í hözzl deildinni. Helvítis steríótýpu kjaftæði. Eins og heyra má eru menn gramir hér á bæ.

Svo er bara málið að fara annaðhvort á skíði eða í sumarbústað á morgun. Eða er kanski bara bæði betra? Takaða tvöfalt? Mér líst vel á það. Þetta á allt eftir að koma í ljós. Þetta fer allt einhvernveginn, það er það eina sem ég get verið viss um. Ætli það sé ekki bara ágætis huggun í öllu sem maður tekur sér fyrir hendur? Ég held það. Þetta fer allt einhvernveginn. Þegar þetta er liðið þá get ég ekket gert í því lengur hvernig það fór þannig að það er ástæðulaust að hafa áhyggjur af nokkur yfir höfuð. Með þessum hugleiðingum kveð ég.
..:: red ::..

föstudagur, mars 07, 2003

Allt of langt síðan ég hef bloggað!


Halló halló! Það er ýmislegt að frétta af mér. Ég er kominn með útgáfusamning af smásögunum mínum með heimspekilegu ívafi. Það er nottla hið bezta mál! Býst við að fá Nóbelinn þá og þegar. Ég er ekki búinn að fá útúr fleiri prófum en þangað til það gerist fékk ég 10 í þeim öllum báðum. Ég er hættur við að fara til Kananananarí! Nokkrar ástæður, litlar líkur á að ég komist á smáþjóðaleikana vegna þess að ég kann ekki að synda (amk ekki þessa dagana!), ég á ekki pjéning, og ég á engan pjéning. Þetta plús peningaleysi eru aðalástæðurnar.

Í gær eftir æfingu slógum ég Goldeneye og Cookie þessu öllu bara uppí kæruleysi og brunuðum í bæinn og fengum okkur feitan Tower Zinger Barbeque borgara á KFC og mikið svaðalega var hann góður. Svo kíktum við á Gangs Of New York og er það mynd hin fínasta. Meira að segja bara mjög góð. Og löng. Það má ekki gleyma löng. Samt tókst mér að mæta á morgunæfingu! Þvílíkur dugnaður.

Ég er víst að fara á árshátíð hjá ÍAV á morgun á Broadway. Djöfull verður það svaðalega fínt. Matur og fínerí. Annars lítið planað um helgina. Eitthvað sem þú vilt benda á? Allar tillögur vel þvegnar.
..:: magchen ::..

þriðjudagur, mars 04, 2003

Starkaður og Hróbjartur

---- 2. hluti. ----


Hróbjartur situr efst í klifurgrindinni og Starkaður hangir á hvolfi með krosslagðar hendur og lokuð augu. Guli sandkassinn var ekki fýsilegur staður fyrir drengina gáfuðu til að rökræða í þessum leiktíma vegna efnahernaðar kattanna í hverfinu. Sumir krakkanna láta það ekki mikið á sig fá og Hróbjartur horfir uppá eina stelpuna stinga uppí sig vænni lúku af sandi og japla á honum eins og hann væri hnossgæti. Maður má allt þegar maður er bara tveggja ára.

Starkaður. Hvað helduru að ég geti hangið svona lengi?
(Hróz lét spurningu Starky sem vind um eyru þjóta.)
Hróbjartur. Ég sé næstum heim til mín héðan.
(Starky grípur í stöngina sem hann hangir sér í og vippar sér upp til vinar síns.)
Starkaður. Ég sé ekki næstum því heim. Óþolandi að eiga heima svona langt frá leikskólanum sínum. Hvað ætli þetta sé eiginlega langt? Örugglega 10 kílómetrar.
Hróbjartur. Hættu þessu væli, ég veit nákvæmlega hvað það er langt heim til mín. Mamma röltir þetta með mér alla morgna og þetta eru 314 skref fyrir mig. Hvað ætli ég hafi labbað þetta oft eiginlga? Eða það sem meira er, hvað ætli maður hafi tekið mörg skref yfir ævina? Alveg slatta get ég sagt þér. Eigum við að reikna það út?
Starkaður. Nei ég nenni því ekki. (Starkaður var kominn aftur í sínar fyrri stellingar, hangandi á hvolfi í einum af rimlunum.) Þú gætir það hvort eð er aldrei. Ég meina, það eru allt of margir óvissuþættir. Þetta yrði svakalega ónákvæmt hjá þér.
Hróbjartur. Já ég veit, en það skaðar ekki að reyna. Ef ég væri fíll, ætli ég gæti þá munað öll skrefin sem ég hef tekið? Þeir muna víst ansi mikið. En hvað hafa þeir svosem að muna? Hmmm.. Hvað ég gerði á þessum degi fyrir tólf árum? (Hróz reyndi að gera sig dimmraddaðann til að leika fíl.) Ég rölti niður að vatnsbóli og fékk mér 24 sopa. Vatnið var frekar heitt. Svo lagði ég mig. Þvílíkt líf að vera fíll, skrítið að hann geti munað allt, það hefur aldrei neitt gerst hjá honum! Einhver ætti að lána honum alfræðiorðabók og spyrja hann svo útúr henni. Hann gæti ekkert munað þá.
Starkaður. Hvað varstu að segja um mömmu þína?
Hróbjartur. Þegiðu. Mömmubrandarar voru kanski fyndnir þegar við vorum tveggja.
Starkaður. Jeje. En þetta skrefadæmi er svoldið áhugavert. Nú hefur þú tekið ákveðinn fjölda skrefa um ævina. Það er alveg augljóst. Sama hvort þú munir það, sama þótt öllum í heiminum sé alveg sama og enginn muni hugsa útí það aftur, þá hefur þú tekið ákveðinn fjölda af skrefum um ævina ekki satt?
Hróbjartur. Jú það gefur augaleið. Ég hef tekið X mikið af skrefum um ævina. Hvað ertu að fara?
Starkaður. En þú veist ekki hvað þú hefur tekið mörg skref. Þú gætir reiknað það nokkurnveginn út, en þú gætir aldrei vitað það fyrir víst. Samt erum við búnir að fullyrða að þessi tala sé til. Talan sem enginn veit. En er þessi tala þá til? Er þessi vitneskja til um atburði sem augljóslega hljóta að hafa átt sér stað?
Hróbjartur. Neeeiii. Hún er ekki til.
Starkaður. En við vorum að segja að þú hafir tekið ákveðinn fjölda skrefa! Við vitum það fyrir víst. Segjum sem svo að mamma þín hafi haldið skrá í huganum yfir öll skref sem þú hefur tekið, eins bjánalega og það kann að hljóma, en eins og fram hefur komið gleyma fílar aldrei. (Starky glotti og var ánægður að hafa komið þessu skoti einu sinni enn að. Hann var sko ekki vaxinn uppúr mömmubröndurunum.) Þá væri vitneskjan til. Spurningin er sú, þarf einhver að vita eitthvað til að hægt sé að vita það?
Hróbjartur. Nú ertu kominn útí spurninguna um hvort það heyrist hljóð þegar tré fellur í skóginum og enginn heyrir það.
Starkaður. Já, ekki langt frá því enda er sú spurning löngu orðin klassísk.
Hróbjartur. En ok. Ég geng í svefni og stundum rekst mamma á mig þegar hún er ekki komin í rúmið líka. Segjum að ég hafi gengið í svefni í nótt. Mamma var farinn að sofa og Lísa systir líka. Enginn sá mig, og ég man ekkert eftir því af því að ég var sofandi. Ertu þá að segja að ég hafi ekki gengið í svefni?
Starkaður. Nei, þú ert að misskilja spurninguna. Það er hljóðið í spurningunni með tréið sem er vandamálið. Auðvitað hreyfðist loftið og titringur myndaðist, þannig að ef einhver hefði verið nálægt þá hefði hann heyrt tréið falla. Skrigreiningin okkar á hljóði er að einhver heyri það ekki rétt? Hvernig getur hljóð verið til ef enginn heyrir það?
Hróbjartur. Mér finnst spurningin mín vera alveg eins.
Starkaður. Það væri betra að spyrja hvort hægt væri að vita hvort þú gekkst í svefni ef engar sannanir liggja fyrir.
Hróbjartur. Jájá Sherlock. Þú ert ágætur. Ég nenni þessu ekki lengur. Hvað ætlaru annars að hanga þarna lengi?
(Starky er orðinn verulega rauður í framan.)
Starkaður. Þar til ég dett niður. Ég gæti verið hérna í marga daga.
(Hróz klifrar niður og hleypur til stelpunnar sem borðaði sandinn og hvíslar einhverju að henni. Hún stendur upp með fulla lúku af sandi og lallar yfir til Starky sem hangir enn. Áður en hann getur beitt nokkrum vörnum við skellir hún framan í hann sandinum og hann öskrar upp yfir sig og dettur niður með skell. Stelpan röltir sallaróleg yfir til Hróz og réttir fram höndina. Hann lætur hana hafa karamellu að launum, og fer að klifurgrindinni þar sem Starky er að hreinsa framan úr sér sandinn.)
Hróbjartur. Ætli það sé nokkur möguleiki að vita af hverju stelpugreyið gerði þetta? Er sú vitneskja möguleg Starky? (Hróz nær ekki að halda andlitinu og hlær hátt þegar Starky hreynsar útúr nefinu með því að halda fyrir aðra nösina og blása útum nefið.)
Starkaður. Maður þarf nú ekki að heita Sherlock til að komast að því. Segðu mér, varstu búinn að komast að því hver stal síðustu kjötbollunni þinni í hádeginu? (segir Starky og glottir. Upphefst mikill eltingaleikur, enda verður maður stundum að fá að hlaupa þegar maður er bara fjögurra ára.)

..:: magchen in action ::..
Ég fékk 7 í siðfræði. Úff, og ég sem hélt mér hefði gengið best í því. Hefði viljað fá meira. Anyhoo.
..:: m ::..

mánudagur, mars 03, 2003

Starkaður og Hróbjartur


Starkaður og Hróbjartur (eða Starky & Hróz eins og þeir vilja láta kalla sig) eru ofurgáfaðir fjögurra ára drengir. Þeir eru báðir á leikskólanum Krummabóli þar sem reynt er að verða við kröfum þeirra um allir leikfélagar þeirra séu vitsmunalegir jafningjar þeirra. Þetta reynist erfitt því eins og við vitum eru fjögurra ára krakkar yfirleitt ekki komnir í heimspekilegar hugleiðingar. Starky & Hróz eru hinsvegar búnir að kynna sér eitthvað öll helstu fræði sem nútíminn býður uppá og eru komnir á þá skoðun að heimspekin sé þeim öllum æðri. Við grípum niður í samræður þeirra þar sem þeir sitja á brún stóra gula sandkassans og Hróbjartur er að rita niður eðlisfræðiformúlur í sandinn...


Starkaður. Hvað ertu að gera?
Hróbjartur. Ég er að skrifa grunnformúlurnar sem Einstein setti fram, bara svona til að fá netta upprifjun.
Starkaður. Nei ég meina hvað ertu að spá? Þú gleymdir öðru veldinu í fjórðu línu. Helduru að Einstein hefði þótt merkilegur hefði hann skippað öðru veldi hér og þar í útreikningum sínum?
Hróbjartur. Svona þér að segja þá var Einstein utan við sig eins flestir miklir hugsuðir.
Starkaður. Já að vísu. (Starky grípur til grænnar skóflu og mokar sandi í hól. Fyrir utan sandkassann eru hinir krakkarnir að hlaupa og öskra og leika sér eins og fjögurra og fimm ára krökkum sæmir. Einhver er búinn að ræna húfu einnar stelpunnar og hún er við það að fara að skæla. Hinir krakkarnir vita að þeir eiga ekki að hætta sér í Norð-Austur horn gula sandkassans því þar eru Starky & Hróz iðulega að spjalla saman.)
Hróbjartur. Helduru að við eigum einhverntíman eftir að bæta þessar formúlur? Ég meina, við erum komnir með ágætis grunn í eðlisfræði og eigum eftir að bæta okkur mikið ætla ég að vona. Við gætum lagt fyrir okkur eðlisfræðina og reynt að komast að nýjum hlutum sem engum hefur dottið í hug að kanna. Ég meina fólk er alltaf að komast að einhverju nýju og lagfæra kenningar. Þetta er fólkið sem er munað eftir. Fyrst við höfum bara þessa einu ævi til okkar afnota, er þá ekki mál málanna að láta amk nafn okkar lifa lengur en fram á okkar dánardag? Mér þykir það göfugt verkefni í lífinu. Það væri nú samt gaman að lifa að eilífu og horfa á endalausa tækniþróunina, hvernig kynslóð eftir kynslóð bætir það sem á undan var komið.
Starkaður. En hugsaðu þér þetta minn kæri Hróz. Hver kynslóð lærir það helsta sem á undan var komið, bæði sögulega og fræðilega. Allt það merkasta sem á hverjum tíma er viðurkennt er það sem þeir læra sem skara munu framúr jafnöldrum sínum, ekki satt?
Hróbjartur. Jú, við verðum að fallast á þetta.
Starkaður. Ef við gerum ráð fyrir að mannkynið muni verða til nokkrar milljónir ára í viðbót, þá ættu miklar framfarir eftir að verða frá því sem er í dag. En ólíklegt verður að þykja að maðurinn breytist mikið til batnaðar með þróun, jafnvel þótt kenning Darwins sé sönn í einu og öllu. Þeir hæfustu lifa af, en strax í dag er nær öllum gert jafn hátt undir höfði, og því fá þeir sem ekki eru æðri á neinn hátt samt tækifæri til að fjölga sér.
Hróbjartur. Þetta er allt satt og rétt, en hvað kemur þetta framförum í tækninni við? Gríðarlegar framfarir urðu á tuttugustu öldinni en við erum sammála um að maðurinn hafi ekkert þróast á þeim tíma.
Starkaður. Mikið rétt. En það er ekki það sem ég var að benda á. (Starky hagræðir hér stóra gula hattinum sínum og pollabuxunum eins og hann gerir ávallt þegar hann er að fara að koma með nýjustu mikilfenglegu uppgötvanir sínar í þeirri andrá.) Segjum sem svo að maðurinn þróist lítið eitt. En því meira sem maðurinn lærir og því lengra sem hann kemst í tækniþróun á öllum sviðum, þeim mun meira þurfa þeir sem ætla að læra vel og skara framúr að læra. Því meiri tíma sem þeir eyða í lærdóm, þeim mun minni tíma hafa þeir fyrir eigin rannsóknir og uppgötvanir. Þá verður það alltaf minna og minna sem kemur fram sem ný sannindi með hverri kynslóð sem líður. Samt bætist alltaf eitthvað við, en það þýðir bara að það er meira fyrir næstu kynslóð á eftir að læra og minni tími til nýrra uppgötvana! Því verðum við að áætla að það séu takmörk sett fyrir því hversu mikið mannkynið getur lært! Við munum staðna og ekki eiga möguleika á því að komast lengra í okkar tækniþróun.
Hróbjartur. Þarna komstu aftan að mér eins og þér einum er lagið Starky. En ég held að við þurfum ekki miklar áhyggjur að hafa af þessu. Því við erum nú bara fjögurra ára.
Starkaður. Mikið rétt, enda verður maður að miða við ansi langan tíma ef þetta á að ná fram að ganga eins og ég set þetta fram hér. (Í þessu kallar Anna uppáhalds fóstran þeirra kumpána að kominn sé tími á kaffi, og krakkarnir flykkjast inn til að fá sér kakó. Stelpan sem hafði tapað húfunni er búin að taka gleði sína á ný og allt er fyrirgefið, amk fram í næsta leiktíma.)
Hróbjartur. Jæja, Ég held að við verðum að halda áfram með þessar samræður á morgun því mér segir svo hugur að restin af þessum ágæta októberdegi fari í að hnoða leir.
Starkaður. Já, kíkjum inn í kakó.


Annar hluti kemur fljótlega.
..:: m ::..
All by myself


Ég prófaði svoldið í kvöld sem ég hef lengi talað um að prófa. Ég hef heyrt í mörgum (ok, kannski ekki mörgum en nokkrum og þeir eru skrítnir) sem langar að prófa þetta amk einu sinni, og ég hef heyrt í örfáum sem hafa reynt þetta. Semsagt, ég fór einn í bíó. Einn. Aleinn. Ok, kannski ekki alveg aleinn. Ég og Tolli og tvær þokkadísir fórum í bíó í bæinn og hann fékk að hafa þær tvær í takinu að horfa á hryllingsmynd meðan ég sat einn og flissaði yfir rómantískri gamanmynd, einn í myrkrinu í öðrum sal. Þetta var eins og mig hafi grunað svoldið sérstök lífsreynsla. Það var komið slatti af fólki í salinn þegar ég kom þangað og því tók ég þá djörfu ákvörðun að setjast á næstfremsta bekk þar sem allir gátu séð mig. Ég meina til hvers að dýfa litlutánni í djúpu laugina þegar þú getur hoppað útí með stórum skell!? Ég var nottla viss um að allir hefðu tekið eftir mér og horfðu á mig og dæmdu mig mestalla myndina, en það er einmitt góð ástæða til að allir ættu að prófa þetta. Læra að það eru ekki allir alltaf að horfa á þig, veröldin snýst ekki bara um þig. En bíóferðin var fín, Sandra og Hugh skemmtu mér bara ágætlega með hnyttnum bröndurum sínum og stóð ég sjálfan mig að því að flissa endrum og eins. Mæli með henni fyrir þá sem hafa gaman af slíkum myndum.

Eftir að hafa eytt góðum þremur kortérum í að reyna að losa tangarhald einnar þokkadísinnar á bílnum vegna ofsahræðslu við dökkhærð kvendi í speglum og sjónvörpum tókst mér að komast heim heilu og höldnu. Næst er það bara að prófa að fara alla leið með þetta. Keyra einn á staðinn, kaupa sér einn lítinn popp og eina kók og sitja tvo tíma í myrkrinu aleinn og hafa svo engann til að tala við um myndina að henni lokinni. Þetta er nokkuð spes og mæli ég með þessu fyrir fólk til að fá smá tilbreytingu í tilveruna. Góðar stundir. (ps. allir að kjósa í nýrri könnun!)
..:: moviemag ::..

sunnudagur, mars 02, 2003

Píla


Ammæli númer tvö var líka skemmtilegt. Eyddi mest öllu kvöldinu í að spila pílu og það var helvíti gaman. En nottla var maður líka frammi að syngja með liðinu, komin líka þessi fína trúbadorastemmning í húsið. Fór svo bara heim því það nennti enginn með mér niðrí bæ og allir vinir mínir annað hvort í Reykjavík eða farnir að sofa. Frekar slappt sko. En kvöldið var virklega skemmtilegt. Takk fyrir mig ppl!

Mamma er að baka bollur. Vatnsdeigsbollur er það eina sem blífar á bolludaginn. Hitt er bara svo langt frá því að vera eins gott, þessar stóru bakaríisbollur, þótt þær geti nú verið ágætar. Litlar vatnsdeigsbollur með rjóma og fullt af súkkulaði sem eru bara einn munnbiti! Mmmmm... Ég er farinn að ræna einni bollu af mömmu. Já, og gleðilegan mars!
..:: m ::..

laugardagur, mars 01, 2003

The Importance Of Being Magnús


Ég var að horfa á frábæra mynd, The Importance Of Being Ernest. Hún gerist seint á nítjándu öld (held ég) og þetta er eiginlega mest megnis grínmynd. Hún fjallar um gaur sem býr í sveitinni en segist eiga bróður í borginni til að hafa afsökun til að fara þangað. Sá bróðir heitir Ernest. Þegar hann er í borginni er hann þessi Ernest og allir sem þekkja hann þar kalla hann Ernest en í raun heitir hann John. Hann biður stelpu að giftast sér, sem elskar hann aðallega af því að hann heitir Ernest, en mamma hennar leyfir honum ekki að giftast henni af því að hann á enga foreldra. Vinur hans í borginni kemur í heimsókn í sveitina og segist vera þessi Ernest bróðir hans Johns til að hitta frænku hans. Hún verður ástfangin af honum og líka af stórum hluta af því að hann heitir Ernest. Þau trúlofa sig líka, þannig að hann og John eru trúlofaðir stelpum sem halda að þeir heiti Ernest en hvorugur þeirra heitir það. Þetta er kanski svoldið flókið þegar þú lest þetta. Þetta er rosalega sérstakur húmor og er alveg frábær, amk hló ég alveg helling að þessu öllu saman. Mæli með henni, þrjár stjörnur af fjórum. Annars finnst mér þeir sem gefa stjörnur á fimm stjörnu skalanum bara vera hræsnarar og leiðindapúkar. Púkar segi ég! Fjórar stjörnur á að vera það mesta sem mynd getur fengið.

Niðurstöður úr könnuninni komu mér á óvart en samt ekki. Ég hef alltaf vitað að það er til fólk sem fílar að lesa á meðan það kúkar en ég er ekki í þeim hópi. Hins vegar ef það er eitthvað að marka þessa könnun þá er það meirihluti fólks sem fílar það. Með eindæmum skrítið ef þú spyrð mig. Hvers vegna í ósköpunum ætti nokkur maður eða kona að vilja að glugga í Sögu Dalvíkur á meðan lorturinn læðist lúmkst í klóið. Anyhoo, mér finnst líka að það sé skammarlega lítið gert af því að nota Shout-Out-ið mitt. Shout away people!
..:: magchen ::..



Föstudagsammælið var skemmtilegt. Við fórum í pottinn og sungum eins og vitleysingar enda með nokkra gítarsnillinga innan hópsins. Það er alltaf gaman að því. Kíktum svo niðrí bæ og náðum restinni af tónleikunum sem voru á Zetunni. Það var eiginlega bara svona flipp hjá öllum hljómsveitunum sem spiluðu um kvöldið. Fórum svo á H-38 í smá stund og það var fínt. Systa og mágur minn með tvöfalt ammæli í kvöld og það verður eflaust gaman.
..:: m ::..