mánudagur, mars 03, 2003

Starkaður og Hróbjartur


Starkaður og Hróbjartur (eða Starky & Hróz eins og þeir vilja láta kalla sig) eru ofurgáfaðir fjögurra ára drengir. Þeir eru báðir á leikskólanum Krummabóli þar sem reynt er að verða við kröfum þeirra um allir leikfélagar þeirra séu vitsmunalegir jafningjar þeirra. Þetta reynist erfitt því eins og við vitum eru fjögurra ára krakkar yfirleitt ekki komnir í heimspekilegar hugleiðingar. Starky & Hróz eru hinsvegar búnir að kynna sér eitthvað öll helstu fræði sem nútíminn býður uppá og eru komnir á þá skoðun að heimspekin sé þeim öllum æðri. Við grípum niður í samræður þeirra þar sem þeir sitja á brún stóra gula sandkassans og Hróbjartur er að rita niður eðlisfræðiformúlur í sandinn...


Starkaður. Hvað ertu að gera?
Hróbjartur. Ég er að skrifa grunnformúlurnar sem Einstein setti fram, bara svona til að fá netta upprifjun.
Starkaður. Nei ég meina hvað ertu að spá? Þú gleymdir öðru veldinu í fjórðu línu. Helduru að Einstein hefði þótt merkilegur hefði hann skippað öðru veldi hér og þar í útreikningum sínum?
Hróbjartur. Svona þér að segja þá var Einstein utan við sig eins flestir miklir hugsuðir.
Starkaður. Já að vísu. (Starky grípur til grænnar skóflu og mokar sandi í hól. Fyrir utan sandkassann eru hinir krakkarnir að hlaupa og öskra og leika sér eins og fjögurra og fimm ára krökkum sæmir. Einhver er búinn að ræna húfu einnar stelpunnar og hún er við það að fara að skæla. Hinir krakkarnir vita að þeir eiga ekki að hætta sér í Norð-Austur horn gula sandkassans því þar eru Starky & Hróz iðulega að spjalla saman.)
Hróbjartur. Helduru að við eigum einhverntíman eftir að bæta þessar formúlur? Ég meina, við erum komnir með ágætis grunn í eðlisfræði og eigum eftir að bæta okkur mikið ætla ég að vona. Við gætum lagt fyrir okkur eðlisfræðina og reynt að komast að nýjum hlutum sem engum hefur dottið í hug að kanna. Ég meina fólk er alltaf að komast að einhverju nýju og lagfæra kenningar. Þetta er fólkið sem er munað eftir. Fyrst við höfum bara þessa einu ævi til okkar afnota, er þá ekki mál málanna að láta amk nafn okkar lifa lengur en fram á okkar dánardag? Mér þykir það göfugt verkefni í lífinu. Það væri nú samt gaman að lifa að eilífu og horfa á endalausa tækniþróunina, hvernig kynslóð eftir kynslóð bætir það sem á undan var komið.
Starkaður. En hugsaðu þér þetta minn kæri Hróz. Hver kynslóð lærir það helsta sem á undan var komið, bæði sögulega og fræðilega. Allt það merkasta sem á hverjum tíma er viðurkennt er það sem þeir læra sem skara munu framúr jafnöldrum sínum, ekki satt?
Hróbjartur. Jú, við verðum að fallast á þetta.
Starkaður. Ef við gerum ráð fyrir að mannkynið muni verða til nokkrar milljónir ára í viðbót, þá ættu miklar framfarir eftir að verða frá því sem er í dag. En ólíklegt verður að þykja að maðurinn breytist mikið til batnaðar með þróun, jafnvel þótt kenning Darwins sé sönn í einu og öllu. Þeir hæfustu lifa af, en strax í dag er nær öllum gert jafn hátt undir höfði, og því fá þeir sem ekki eru æðri á neinn hátt samt tækifæri til að fjölga sér.
Hróbjartur. Þetta er allt satt og rétt, en hvað kemur þetta framförum í tækninni við? Gríðarlegar framfarir urðu á tuttugustu öldinni en við erum sammála um að maðurinn hafi ekkert þróast á þeim tíma.
Starkaður. Mikið rétt. En það er ekki það sem ég var að benda á. (Starky hagræðir hér stóra gula hattinum sínum og pollabuxunum eins og hann gerir ávallt þegar hann er að fara að koma með nýjustu mikilfenglegu uppgötvanir sínar í þeirri andrá.) Segjum sem svo að maðurinn þróist lítið eitt. En því meira sem maðurinn lærir og því lengra sem hann kemst í tækniþróun á öllum sviðum, þeim mun meira þurfa þeir sem ætla að læra vel og skara framúr að læra. Því meiri tíma sem þeir eyða í lærdóm, þeim mun minni tíma hafa þeir fyrir eigin rannsóknir og uppgötvanir. Þá verður það alltaf minna og minna sem kemur fram sem ný sannindi með hverri kynslóð sem líður. Samt bætist alltaf eitthvað við, en það þýðir bara að það er meira fyrir næstu kynslóð á eftir að læra og minni tími til nýrra uppgötvana! Því verðum við að áætla að það séu takmörk sett fyrir því hversu mikið mannkynið getur lært! Við munum staðna og ekki eiga möguleika á því að komast lengra í okkar tækniþróun.
Hróbjartur. Þarna komstu aftan að mér eins og þér einum er lagið Starky. En ég held að við þurfum ekki miklar áhyggjur að hafa af þessu. Því við erum nú bara fjögurra ára.
Starkaður. Mikið rétt, enda verður maður að miða við ansi langan tíma ef þetta á að ná fram að ganga eins og ég set þetta fram hér. (Í þessu kallar Anna uppáhalds fóstran þeirra kumpána að kominn sé tími á kaffi, og krakkarnir flykkjast inn til að fá sér kakó. Stelpan sem hafði tapað húfunni er búin að taka gleði sína á ný og allt er fyrirgefið, amk fram í næsta leiktíma.)
Hróbjartur. Jæja, Ég held að við verðum að halda áfram með þessar samræður á morgun því mér segir svo hugur að restin af þessum ágæta októberdegi fari í að hnoða leir.
Starkaður. Já, kíkjum inn í kakó.


Annar hluti kemur fljótlega.
..:: m ::..
blog comments powered by Disqus