The world is my oyster
Dagurinn í dag gæti hafa verið einn af þeim merkilegri í mínu lífi. Og ég er ekki að meina það á heimspekilegu nótunum ("Ætli hver einasti dagur í lífi okkar sé sá merkilegasti í sjálfu sér?") því ég er ekki alltaf að hugsa um heimspeki. Heimspeki er skemmtilegt hobbý, en til lengdar er hún frekar tilgangslaus. Engin niðurstaða, og maður getur ekki breytt heiminum (fyrir utan að allir breyta heiminum að einhverju marki, en það eru heimspekilegar pælingar líka þannig að við sleppum þeim hér). Ég er í heimspeki en eins og flestir sem mig þekkja vita þá verð ég þar stutt. Bara einn mánuð enn.
En aftur að því sem gerir þennan dag (sunnudaginn 16. marz 2003) merkilegri en flesta. Ég tók ákvörðun um að taka ákvörðun. Ég hef ákveðið að lífið sé tilgangslaust ef það hefur ekki tilgang. Þetta virðist liggja í augum uppi en er í raun eitthvað sem maður þarf að átta sig á. Ég hef að engu að stefna, sundferillinn er á leiðinni niðrum klósettið (ekki það að ég hafi nokkurntíman getað orðið meira en amatör), ég hef ekki hugmynd um hvað mig langar að vinna við í framtíðinni og þar af leiðandi hef ég ekki hugmynd um hvað mig langar að læra. Það heldur ekki eins og ég sé að fara að gifta mig og eignast börn eins og ástarlífið hjá mér (ef ástarlíf má kalla) hefur gengið undanfarið. Því ætla ég að standa við orð mín og fara í ævintýr á hjara veraldar. Það er ekki ákveðið hvenær, hvert, hvernig eða með hverjum, en ég mun leggja land undir fót í nokkra mánuði og lifa lífinu nákvæmlega eins og mig langar. Sú hugmynd kom upp í dag að fara til Ástralíu með bakpoka og góða skapið og leist mér bara vel á það. Ég þekki fullt af fólki í Ástralíu síðan ég var þar árið 2000 og væri örugglega frábært að heimsækja einhverja af þessum vinum og kunningjum og rifja upp gamla tíma og lenda í nýjum ævintýrum.
Ef ég vinn bara núna eftir skólann út árið og kanski eitthvað smá fram á það næsta ætti ég að eiga nægan pjéning til að koma mér af landi brott og lifa í útlandinu í nokkra mánuði. Þetta langar mig að gera og þótt að ég sé hræddur að prófa eitthvað svona nýtt og standa á eigin fótum (því stundum finnst mér ég bara vera svona átta ára inní mér) þá gerir það þetta bara enn meira spennandi og ævintýralegt. Ástralía er líka æðislegasta land í heimi, nema kanski fyrir utan frónið sem ég elska mjög mikið, og langar mig að kynnast því betur. Síðast þegar ég fór í fjórar vikur árið 2000 þá voru það bestu fjórar vikur ævi minnar og þótt þetta verði auðvitað allt öðruvísi ferð þá ætti hún að vera engu minna spennandi. Ég vona svo innilega að ég hafi það í mér að framfylgja þessu plani, og þótt allt eigi eftir að breytast í umgjörðinni, þá stendur eftir eini sannleikurinn sem ég veit þessa dagana. Mig langar að leggja heiminn að fótum mér.
..:: m ::.. ..:: magchen ::.. ..:: red ::.. ..:: maggi ::..
Halló heimur!
Fyrir 2 árum