miðvikudagur, nóvember 14, 2012

Kaffi frá Guatemala

Ég sit á kaffihúsi á Jagersborggade og sötra kaffibolla sem kostaði mig 38 krónur danskar, eða um 836 krónur íslenskar. Kaffið er víst voðalega fínt og vinsælt á þessu kaffihúsi sem heitir Coffee Collective. Það kemur alla leið frá Guatemala. Kaffibarþjónninn sagði að þetta væri hans uppáhalds kaffi og notaði mörg flott orð til að lýsa því. Mér finnst það súrt, en þó alveg ágætt. Misjafn er smekkur manna. Ef ég hefði smakkað nákvæmlega sama kaffi undir öðrum kringumstæðum, til dæmis ef vinur minn hefði keypt sér kaffibolla á götuhorni og leyft mér að smakka með þeim formerkjum að kaffið væri handónýtt þá hefði ég eflaust líka fussað og sveiað yfir því. Allt er afstætt. Líka kaffi.

Ég átti merkilegan dag í gær. Hann var ansi erfiður og skapið mitt vildi ekki láta að stjórn. Ef mér liði svona í lengri tíma en einn dag þá væri eflaust hægt að stimpla mig sem þunglyndan ef fólk væri með stimplana sína á lofti. Ég hafði þó ekki miklar áhyggjur að festast í þessu fari og leyfði því þessari tilfinningu bara að vera og treysti á að ef ég streittist ekki of mikið á móti þá myndi hún hverfa. Eftir samtal við Supriyju, rifrildi við Cathrine og netsamræður um trúmál við Einsa þá held ég að lærdómurinn sem ég eigi að draga af þessum degi sé:

 What you resist, persists. 

Þetta var einmitt setning í lagi eftir Björk sem ég heyrði í morgun. Fyrir mér þýðir þetta að ef þú streitist á móti einhverju þá viðheldur þú hugmyndinni um það. Ef þú vilt losna við eitthvað, hættu þá að hugsa um það og það mun hverfa. Við nánari eftirgrenslan þá var það Carl Jung sem gerði þessa setningu fræga. Hann, ásamt mörgu öðru, er þemað mitt undanfarin misseri. Ég tek eftir því að sömu hlutir skjóta upp kollinum hvað eftir annað í ákveðinn tíma. Stundum í mánuð, stundum í einn dag. Við búum til þennan heim og við sjáum ekki heiminn eins og hann er heldur eins og við erum. Þannig að ég býst við að þessi þemu séu vísbendingar til mín um að kíkja betur á viðkomandi efni og veita þeim athygli. Follow your path of highest excitement. Allt bendir til þess að besta leiðin til að lifa lífinu sé að leyfa því að gerast sem vill gerast. Follow the white rabbit. Segðu já. Ögraðu sjálfum þér. Gerðu það sem þér finnst rétt hverju sinni. Lærðu af fortíðinni en veltu þér aldrei uppúr henni, því hún er ekki til. Gerðu plön og hafðu framtíðardrauma ef þig langar, en aldrei festast í þeim og mundu að þeir gætu breyst á svipstundu.

Ég er greinilega ekki vanur að drekka kaffi. Ég kláraði ekki einu sinni kaffibollann minn og mig svimar. Hversu mikil hæna er hægt að vera?! Kaffi er eiturlyf eins og svo margt annað. Nú skil ég betur fólk sem er ómögulegt ef það fær ekki kaffibollann sinn, þetta hefur ansi sterk áhrif á líkamann. Ég er vanur að drekka bara kaffi sem eftirrétt eftir stóra máltíð og þá líður mér ekki svona. Nóg um það.

Annað sem ég geti lært af gærdeginum er að það þurfa ekki allir að vera sammála mér eða líka vel við mig. Ef ég geri mitt besta þá er allt í lagi að aðrir séu ekki á sama máli og ég, þeir sjá hlutina út frá sínu sjónarhorni alveg eins og ég og það er allt í góðu. Fyrir mér þýðir það að gera sitt besta að fylgja sinni sannfæringu, bera virðingu fyrir öllu fólki og raunar öllu í umhverfi manns, og taka lífinu ekki of alvarlega.

Reyndar held ég að allir geri alltaf sitt besta. Þetta "besta" er bara hugtak eins og hvað annað, alveg eins og "rétt" og "fullkomið", nú eða andstæður þessara orða sem við túlkum sem neikvæðar. Við ákveðum sjálf hvað þetta allt saman þýðir. Við mannfólkið bjuggum til þessi orð og merkingar þeirra breytast í sífellu. Ég hugsa of til baka til annarinnar í heimspeki sem ég tók vorið 2003 í Háskóla Íslands. Þar ræddum við meðal annars fram og til baka hvað vitneskja væri og hvernig væri hægt að vita eitthvað "í raun og veru". Haha! En kjánaleg umræða. Rætt var hvernig vitneskja væri rétt útfrá allskonar skrítnum aðstæðum. Eftirá að hyggja var þetta ekki meiri speki en það að velta sér uppúr orðum eins og þau hefðu einhverja merkingu í raun og veru. En ætli það megi ekki eyða tímanum í það eins og hvað annað. Ég held ég láti þetta gott heita í bili.

 Maggi.

mánudagur, apríl 04, 2011

Hlustaðu

Þú ert ekki hugsanir þínar heldur meðvitundin þar á bakvið. Egóið talar án afláts í hausnum á þér en þú ert hlustandinn.

miðvikudagur, mars 23, 2011

Af jörðu ertu kominn

Líf myndaðist á jörðinni fyrir ansi löngu síðan þegar aðstæðurnar voru ákjósanlegar. Við mennirnir komum til sögunnar töluvert síðar sem afleiðing af því lífi sem skapaðist. Við höfum með hjálp tækninnar okkar útrýmt ansi mörgum tegundum af dýrum og plöntum og ef við pössum okkur ekki þá gætum við gert þessa plánetu óbyggilega fyrir manninn og jafnvel fyrir þær flestar aðrar tegundir lífs. Þetta er ekki svartsýni heldur staðreyndir. Allt í góðu með það.

Mín pæling er, hvar kemur inní þessa atburðarás sú hugmynd að við séum ekki jörðin okkar? Ef „við“ gerum eitthvað er jörðin þá ekki að gera það sjálf? Er það að við séum með sjálfsvitund nóg til að við séum eitt og jörðin annað? Ef við myndum sprengja jörðina í loft upp, væri hún þá ekki að sprengja sig sjálf?

Er gasið í sólinni ekki sólin? Eru gígarnir á tunglinu ekki tunglið? Er allt ekki partur af öllu? Af hverju höldum við að við séum undanskilin?

„Við erum gestir og hótel okkar er jörðin,“ sagði Tómas Guðmundsson í sínu frábæra ljóði. Þannig líður okkur og kannski er það allt í góðu lagi. Ég veit ekki alveg hvert ég er að fara með þetta. Ætli ég sé ekki bara að reyna að segja það sama og oft áður. Það þýðir ekki að taka hlutunum of alvarlega heldur njóta bara ferðarinnar. :)

Maggi.

fimmtudagur, febrúar 03, 2011

Ekkert er í eðli sínu gott eða slæmt

Er ekki gott að vita það? ;)

Maggi.

miðvikudagur, febrúar 02, 2011

Magister

Það eru tímamót í mínu lífi. Mér finnst ég standa á krossgötum og mér finnst ég ekki sjálfur eiga völina hvert ég mun halda. Kannski á maður alltaf völina, en þannig er búið um hnútana að sumir valkostirnir eru ekki ákjósanlegir þó þeir séu fræðilega mögulegir. Jæja, kannski fínt að tala ekki of lengi undir rós heldur að koma sér að efninu. Annað hvort mun ég flytja aftur heim til Íslands eða halda áfram að búa í Danmörku. Nú eða ekkert að ofangreindu og ég flyt í eitthvað annað land eða hoppa fyrir lest. Þeir valkostir hljóma ekkert spennandi í mínum augum. Ég hef prófað að búa í fjórum löndum og ferðast helling þannig að ég er ekkert hungraður í að prófa nýtt land, og mig langar mjög mikið að þeysast um á þessari jarðkringlu í nokkra tugi ára til viðbótar þannig að lestin er heldur ekki í boði.

Mér líður vel í Danmörku og ég gæti alveg hugsað mér að búa hér eitthvað áfram. Hér á ég vini, hef réttindi og jafnvel atvinnumöguleika ef ég væri byrjaður að leitast eftir því. Sá galli er á gjöf Njarðar að mig langar ekki að festast, mig langar að enda á Íslandi áður en langt um líður. Ég sakna fjölskyldu minnar og vina heima á klakanum og líður vel að vera Íslendingur á eyjunni okkar fögru. Akkuru flyt ég þá ekki bara aftur á klakann eftir sex og hálft ár í útlöndum? Jú, ég er hræddur um að atvinnuástandið sé ekkert sérstakt í mínum bransa frekar en öðrum og ég hef ekki rétt á bótum á Íslandi á meðan ég væri að leita mér að vinnu því ég hef verið svo lengi í burtu. Þannig að staðan mín er sú að ég sæki um vinnu á báðum stöðum og þar sem ég fæ vinnu þar enda ég í bili. Ef engin vinna gefst þá verð ég eitthvað áfram hjá baununum því þeir myndu nenna að halda mér uppi. Kannski ekki skrítið að mér finnist ég ekki ráða alveg yfir eigin örlögum.

Ég kláraði mastersprófið mitt fyrir tæpri viku síðan. Það er örlítið skrítið að vera búinn með þetta langa nám en samt ekki jafn skrítið og ég hafði búsist við. Himininn var alveg jafn blár eftirá og rónarnir á Christianshavn voru alveg jafn fullir. Óneitanlega er það skemmtileg tilhugsun að þurfa aldrei að hugsa um heimavinnu eða lokaverkefni. Við taka öðruvísi verkefni og aðrar skyldur þegar þar að kemur. Ég nýtti tækifærið sem útskriftin bauð og hélt veislu fyrir vini mína á skemmtistað hér í miðbæ Kaupmannahafnar. Það var virkilega vel heppnað kvöld og sérstaklega gaman að hrella dönsku vini mína með hákarli og brennivíni sem ég hafði komið með frá Íslandi eftir jólafríið. :)

Nú styttist í aðra Íslandsförina á skömmum tíma. Hver veit nema ég rambi á einhverja vinnu á meðan ég er á klakanum! Ég hlakka að minnsta kosti til því það verður nóg að gerast og heimsóknin verður eflaust fljót að líða.

Maggi.

miðvikudagur, janúar 19, 2011

Schadenfreude

Ég sá grein í íslenskum fréttamiðli á netinu um daginn þar sem vitnað var í forsetann okkar sem sagði að við gætum nú huggað okkur við það að það væru mörg ríki í Evrópu sem stæðu verr heldur en við í kjölfar efnahagshrunsins. Mér finnst ég hafa heyrt eitthvað í þessum dúr margoft áður og mér finnst það alltaf jafn afkáralegt. Þetta er schadenfreude eins og Þjóðverjarnir kalla það, að gleðjast yfir óförum annara. Er það ekki bara sorglegt að ástandið í mörgum löndum sé virkilega slæmt útaf efnahagshruninu? Það huggar mig að minnsta kosti lítið. Ég skil þá hugsun að "misery loves company", að það sé kannski gott að vita af því að við erum ekki eina þjóðin sem er að berjast í bökkum. Það nær þó ekki lengra en það og maður ætti aldrei að þakka fyrir að einhverjir aðrir hafi það þó verr en maður sjálfur. Það er alls ekki það sama og að vera þakklátur fyrir að maður hafi það gott.

***

Það styttist í skólalok hjá mér! Ég tek eitt próf nú í bláendann á janúar og svo er ég hættur að mennta mig í bili. Það er skrítin tilhugsun og líka sú staðreynd að ég veit ekkert hvað tekur við. Einhvern veginn er ég samt orðinn vanur þeirri tilhugsun að vita afskaplega lítið hvað er framundan og því tek ég þessu öllu saman bara með stóískri ró. Kannski flyt ég til Íslands fljótlega og kannski verð ég aðeins lengur í Danaveldi. Kemur í ljós.

Ég átti frábært og viðburðaríkt jólafrí. Mig langar að telja upp eitthvað af því sem ég gerði eins og ég gerði í lok sumars. Á rúmum þremur vikum í jólafríinu mínu: fór ég á ferna tónleika, þar af þrjá þar sem ég þekkti flytjendurna. Tveir af þeim voru með klassískri tónlist og tveir örlítið poppaðri. Ég fór á tvenn litlujól með vinahópum mínum. Ég hélt gleðileg jól með fjölskyldunni með öllum tilheyrandi hefðunum og fór í jólaboð. Ég fór í frábæra skíðaferð með vinunum til Akureyrar og átti þar líka góðar stundir með fjölskyldunni minni þar. Ég hélt auðvitað uppá áramót og átti magnað ógleymanlegt móment sem slúttaði árinu á fullkominn hátt. Ég djammaði með vinum mínum oftar en einu sinni og oftar en þrisvar, þar á meðal á pub quiz á fimmtudögum, í gamlárs- og nýárspartýjum, á öðrum í jólum og aðra daga sem voru fallnir til þess í þremur mismunandi bæjum og borgum. Ég eyddi tíma með systrum, frænkum og frændum. Fór í bíó, fór í sund, hélt pókerkvöld, og eflaust sitthvað fleira sem ég er að gleyma. Þannig að það má sjá að ég sat ekki auðum höndum!

Annað má segja um janúar þar sem það eina sem ég hef fyrir stafni er að horfa á handboltann og undirbúa prófið mitt. Febrúar verður eflaust viðburðaríkari þar sem ég verð staddur á Íslandi mestallan mánuðinn.

Áfram Ísland! :D

Magnús.

mánudagur, október 25, 2010

Í þínum eigin heimi

Heilinn okkar vinnur merkilega vinnu. Hann heldur utan um það sem við skynjum með öllum okkar mögnuðu skilningarvitum, hann geymir minningar okkar, hann stjórnar líkama okkar, hann geymir persónuleika okkar. Hann er okkur allt.

Mér finnst áhugavert að velta því fyrir mér að ég upplifi heiminn á minn hátt og mun alltaf gera það. Enginn mun nokkurntíman sjá eins og ég sé, hugsa eins og ég hugsa, vera eins og ég er. Á sama hátt mun ég aldrei upplifa heiminn sem nokkur annar. Ég mun aldrei nokkurntíman vita hvernig þér líður. Ég mun aldrei skynja neitt með öðrum skilningarvitum nema mínum eigin.

Heimurinn eins og hann leggur sig, er inní hausnum á mér. Heilinn minn er eina tenging mín við umheiminn. Fyrir mér er það sem ég sé/upplifi/hugsa o.s.frv. það eina sem er til og mun nokkurtíman vera til. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á þetta nema kannski með hástöfum, það er EKKERT í heiminum nema mín hugsun.

Við fæðumst ein og við deyjum ein. Ætli það sé þetta sem er átt við þegar fólk segir það? Þetta eru kannski frekar einmannalegar pælingar hjá mér. Máski spruttu þær útfrá því að ég hef verið meira einn undanfarið en ég hef áður vanist. Ég er félagsvera og elska að vera innan um fólk, og nú bý ég einn í fyrsta sinn í lífi mínu. Ég er ekki einmanna og ég nýt þess að vera til, en maður fer að hugsa um allskonar undarlega hluti ef maður hefur ekki annað fólk nálægt sér.

***

Önnur stutt pæling í lokin. Ég hef verið að spila póker á netinu og stundum koma upp svekkjandi aðstæður. Ég hef vanið mig á að hugsa að ég stjórna því ekki hvað hinir gera og ég stjórna því ekki hvaða spil koma upp. Það þýðir því ekkert að svekkja sig á þeim hlutum leiksins. Það eina sem ég stjórna er það sem ég geri sjálfur og auðvitað geri ég mitt besta og reyni svo að læra af mistökum mínum.

Þú sérð kannski hvert ég er að fara með þetta. Þetta á ekki bara við um póker á netinu, heldur á þetta við um allt. Maður stjórnar því sem maður gerir (ef þá það, ekki samkvæmt "Ástæðum alls" sem ég skrifaði hér um árið en það er önnur saga) og því þýðir ekki að svekkja sig á utanaðkomandi aðstæðum. Auðvitað hefur maður áhrif á umhverfi sitt upp að vissu marki, en það er svo margt sem við einfaldlega ráðum ekkert um. Við þurfum bara að taka því sem kemur. Þetta er svipað og ég minntist á í færslunni um daginn, ömurlegur dagur. Við stjórnum ekki veðrinu og það ætti ekki að stjórna okkur. Við ættum ekki að láta allt það neikvæða sem gerist stjórna okkur á neinn hátt. Við eigum bara að taka hlutunum eins og þeir eru, lifa í núinu og hugsa ekki of mikið.

Ef þig langar að losna við hugsanirnar þínar í smá stund, lokaðu augunum og hugsaðu: Hver ætli næsta hugsun mín verði? Reyndu svo að hugsa um það (s.s. um ekkert) eins lengi og þú getur. :)

Maggi.

mánudagur, október 04, 2010

Nú er kominn tími til að hafa áhyggjur!

Ég sá þessa setningu á mbl.is fyrir nokkrum misserum og hún stakk í augun. Frekar saklaus lína í sjálfu sér, en ef maður hugsar um hana í smá stund þá sér maður að hún á aldrei við. Ég hef séð svipaðar fullyrðingar reglulega síðan, nú síðast í þessari frétt á visir.is. Þar segir Guðbjartur Hannesson ráðherrra velferðarmála meðal annars: „Ég hef áhyggjur af því fólki sem er í rauninni að standa í skilum, standa við allar sínar skuldbindingar en hefur afar takmarkaða peninga til framfærslu. Það þarf líka að hafa áhyggjur af þeim hópi ekki síður en mörgum öðrum."

Síðan hvenær er það einhver lausn að hafa áhyggjur af hlutunum? Áhyggjur eru í raun aldrei af hinu góða. Jú, áhyggur geta kannski ýtt fólki útí að gera eitthvað sem er nauðsynlegt, en er ekki betra að gera hlutina á góðum forsendum en slæmum? Maður getur stundum ekki gert neitt að því, maður hefur áhyggjur af ýmsum hlutum, það er frekar algeng tilfinning. Það ætti samt aldrei að vera val manns. Maður á ekki vijandi að hafa áhyggjur af neinu, maður á bara að gera eitthvað í hlutunum.

Engar áhyggjur!

Maggi.

miðvikudagur, september 29, 2010

Tilgangur lífsins

Pælingar, pælingar. Ég gæti eflaust aldrei gefið út bók því Páll Skúlason er nú þegar búinn að gefa út bók sem heitir Pælingar og því er það nafn frátekið. Þótt það endi kannski aldrei í bók, í mesta lagi sem setningar ritaðar á þetta blogg, þá geri ég mikið af því að velta hlutunum fyrir mér, pæla, hugsa, spá og spögulera. Ég er ekkert að ýja að því að ég sé eitthvað sérstakur með það, langt í frá. Ég býst fastlega við því að allir pæli, bara mis mikið.

Þessi færsla ætti kannski frekar að heita tilgangur mannkyns. Ég hef pælt svolítið í því undanfarið af hverju við séum á þessari jörð. Nei annars, ég get ekki orðað það þannig. Ég hef pælt í því af hverju fólk pælir í því af hverju við séum á þessari jörð.

Nú er það talin nokkuð almenn vitneskja að heimurinn "varð til" við miklahvell, sama hvort hann hafi verið til fyrir það eða ekki, fyrir ansi löngu síðan. Eftir dúk og disk varð til líf á þessum hnetti sem við búum á. Það líf þróaðist í mannskepnuna sem hófst handa við að pæla, pæla í því af hverju í ósköpunum við værum hér.

Auðvitað eru þeir til, líklegast flestir mjög trúaðir, sem trúa öðrum kenningum um upphaf heimsins, jarðarinnar og mannkyns. Allt í góðu með það. Svo lengi sem þeir skaða engan (sem er því miður ekki alltaf raunin) þá mega þeir trúa því sem þeir vilja.

En hver er tilgangurinn með þessu öllu saman? Svona fyrir okkur hin sem trúum ekki á Biblíuna eða Kóraninn. Hver er tilgangurinn með manninum og dýrunum, jörðinni, sólkerfinu, alheiminum? Mér finnst sú spurning skemmtileg og það er gaman að velta sér uppúr henni, en ég held að þeir sem komast að einhverri niðurstöðu séu strax komnir á villigötur. Af hverju þarf að vera tilgangur? Það að það sé tilgangur þýðir fyrir mér að það sé eitthvað æðra en við. Eitthvað sem veit betur, eitthvað sem "skapaði" okkur, hvort sem það var kall í skýjunum eða einhverskonar "intelligent design" eins og einhver sagði. En ekkert er æðra okkur, og ekkert er óæðra. Hlutirnir bara eru. Heimurinn varð til, við urðum til. Á sama hátt munum við hætta að verða til og heimurinn mun hætta að verða til. Það er hvorki gott né slæmt, þannig er það bara.

Ef allt mannkyn myndi deyja í dag, væri það slæmt? Segjum að öll dýr og plöntur, allt líf á jörðinni myndi deyja á sama tíma. Game over. Þýðir það að eitthvað hafi misheppnast? Að eitthvað hafi farið úrskeiðis og að við hefðum átt að geta betur? Nei, við erum ekki í tölvuleik. Það er ekkert lokaborð. Það er enginn endakall. Það er enginn sigurvegari, og enginn sem tapar. Það er líka allt í lagi. Af hverju þurfum við tilgang?

Sumir segja að tilgangurinn sé ást, nú eða hamingja. Mér finnst það göfug markmið og ég held að mannkynið eigi algjörlega að lifa eftir þeim. Það er ekki það sem ég á við hinsvegar. Tilgangurinn er ekki ást, tilgangurinn er ekki hamingja. Tilgangurinn er ekki að lifa að eilífu eða að láta mannkynið aldrei deyja út. Douglas Adams sagði að tilgangur lífsins væri 42 og tilgangur jarðarinnar væri að finna út raunverulegu spurninguna um tilganginn. Það er jafn gáfulegt svar og hvað annað. :)

Þetta á alls ekki að vera leiðinleg eða þunglynd færsla. Hún breytir í sjálfu sér ekki miklu fyrir mig eða aðra. Ég er ekki sá fyrsti sem kemst á þessa skoðun og ég verð ekki sá síðasti og ég er alls ekki að taka sjálfan mig mjög alvarlega. Ég og allir hinir munum vakna og fara framúr á morgun alveg eins og alla daga og lifa lífinu.

Hverju breytir þetta þá fyrir mér? Mér finnst þægileg tilhugsun að það er óþarfi að taka hlutina of alvarlega, eða taka sjálfan mig of alvarlega. Það er enginn sigurvegari og allir eru jafnir. Enginn er æðri en þú, og það sem er kannski mikilvægara, enginn óæðri. Allt tekur enda. Þar til það gerist, láttu þér líða vel og komdu vel fram við alla í kringum þig. :)

Maggi.

mánudagur, september 20, 2010

Ömurlegur dagur?

Í dag í Kaupmannahöfn er allt frekar grámyglulegt. Það er rigning, frekar kalt, og augljóst að haustið er alveg að koma og fáir eða engir sólardagar eftir í þessu sumri. Flestir kannast eflaust við að hugsa í svona aðstæðum, "Oj hvað þetta er ömurlegur dagur."

En það er ekki rétt! Eina sem er ömurlegt er manns eigin hugsun, það er ekkert ömurlegt við daginn. Maður ræður því algjörlega hvernig maður upplifir hlutina og það er ekki hægt að skella skuldinni á þennan dag. Hann er bara eins og hann er. :)

fimmtudagur, september 16, 2010

Eyrnakonfekt

Ég elska tónlist. Ég hlusta á tónlist næstum allan daginn og er duglegur að sanka að mér nýjum plötum. Ef ég heyri lag í sjónvarpsþætti, sé tónlistarmyndband sem einhver setur á Facebook, eða heyri fólk tala um hljómsveit sem það hefur gaman að þá er ég oftast snöggur að kynna mér viðkomandi tónlist. Sæki diska, les um uppruna sveitarinnar á Wikipedia og skoða tónlistarmyndbönd. Þegar ég er kominn með leið á öllu eða langar í eitthvað ferskt þá fer ég stundum á metacritic.com og sæki tónlistina sem fær bestu dómana. Meira að segja þó það sé eitthvað sem ég myndi vanalega ekki hlusta á. Stundum er það eitthvað sem er alls ekki fyrir mig en þá er enginn skaði skeður. Ég hef meira að segja tekið uppá því nokkrum sinnum undanfarið að hlusta á Hip-Hop playlista á YouTube sem ég hef haft mjög gaman að þó ég sé ekki mikil hipphoppari í eðli mínu.

Ég get ekki sagt að ég sé alæta á tónlist (eins og er svo algengt að heyra frá fólki hvort sem það meinar það eða ekki) en það er ansi margt sem ég get hlustað á. Hljómsveitirnar sem ég hlusta mest á í augnablikinu eru Arcade Fire, Fanfarlo, Edward Sharpe & The Magnetic Zeros og Beirut svo einhverjir séu nefndir. Í vor og sumar hlustaði ég mjög mikið á Bon Iver, The Temper Trap, Gorillaz, The xx og Miike Snow. Þetta er fljótt að breytast og ég verð eflaust kominn með eitthvað nýtt á fóninn þegar líður á haustið. Ég set auðvitað líka oft eldri tónlistina á fóninn, en það er svo gaman að hafa tilbreytingu í þessu og prófa eitthvað nýtt.

***

Saint Augustine of Hippo skrifaði; Dilige, et quod vis fac. Það þýðir á ensku; Love, and do what you will. Mér finnst það fallegt og mikil speki. Fyrir mér þýðir það að maður eigi að gera hvað það sem gerir mann hamingjusaman svo lengi sem maður gerir það af ást. Með öðrum orðum; þú átt að gera það sem þig langar til svo lengi sem það kemur ekki niður á hamingju annara.

***

Mig langar ekki að þetta blogg lognist alveg útaf. Ég hef skrifað hér síðan 2002 og mér þætti synd að hætta því. Ekki bara til að halda í einhverja gamla hefð heldur hef ég gaman að því að skrifa og gaman að því að lesa það seinna meir. Ég hef reyndar dottið í þá grifju eins og svo margir bloggarar að eyða of miklu púðri í upptalningu á öllu sem maður tekur sér fyrir hendur. Mig langar að minnka það töluvert, enda er allt mitt fólk á Facebook sem gæti langað að fylgjast með mér. Það er miklu skemmtilegra að blogga um vangaveltur um hitt og þetta, ákveðin efni (eins og tónlist t.d.) eða ákveðna atburði sem gaman er að segja frá.

Svo ég geri nú samt upp sumarið sem var gersamlega bloggsnautt þá skemmti ég mér konunglega. Fór fyrst á Hróarskeldu sem var hreint út sagt æðisleg, flutti inní nýja íbúð á kollegíinu, fór beint til Íslands á ættarmót á Ísafirði, hélt afmælisbústað, fór í eins árs afmæli, fór í þrefalt afmæli á bát, fór á fáránlega skemmtilega Þjóðhátíð í Eyjum, heimsótti pabba á Akureyri, fór í innflutningspartý, fór í tveggja ára afmæli, fór á bjórþróttamót, fór í brúðkaup, átti besta bæjardjamm í manna minnum, púttaði með afa, spilaði Wii með Bigga, spilaði fótbolta með strákunum, heimsótti systur mínar, knúsaði allar litlu frænkurnar og frændana, kynntist nýju frábæru fólki, bjó til besta bragðarefs-kombó sem um getur og svo miklu miklu fleira. Haustið hefur líka byrjað með trompi með Hot Chip tónleikum, öðru brúðkaupi (þar sem ég mætti í vitlausa kirkju ásamt fleirum), Klakamóti í Svíþjóð og fleiru. Nú þarf ég bara að komast á skrið í að skrifa Mastersritgerðina mína og klára skólann með stæl.

Bless kex!
Maggi.