fimmtudagur, september 16, 2010

Eyrnakonfekt

Ég elska tónlist. Ég hlusta á tónlist næstum allan daginn og er duglegur að sanka að mér nýjum plötum. Ef ég heyri lag í sjónvarpsþætti, sé tónlistarmyndband sem einhver setur á Facebook, eða heyri fólk tala um hljómsveit sem það hefur gaman að þá er ég oftast snöggur að kynna mér viðkomandi tónlist. Sæki diska, les um uppruna sveitarinnar á Wikipedia og skoða tónlistarmyndbönd. Þegar ég er kominn með leið á öllu eða langar í eitthvað ferskt þá fer ég stundum á metacritic.com og sæki tónlistina sem fær bestu dómana. Meira að segja þó það sé eitthvað sem ég myndi vanalega ekki hlusta á. Stundum er það eitthvað sem er alls ekki fyrir mig en þá er enginn skaði skeður. Ég hef meira að segja tekið uppá því nokkrum sinnum undanfarið að hlusta á Hip-Hop playlista á YouTube sem ég hef haft mjög gaman að þó ég sé ekki mikil hipphoppari í eðli mínu.

Ég get ekki sagt að ég sé alæta á tónlist (eins og er svo algengt að heyra frá fólki hvort sem það meinar það eða ekki) en það er ansi margt sem ég get hlustað á. Hljómsveitirnar sem ég hlusta mest á í augnablikinu eru Arcade Fire, Fanfarlo, Edward Sharpe & The Magnetic Zeros og Beirut svo einhverjir séu nefndir. Í vor og sumar hlustaði ég mjög mikið á Bon Iver, The Temper Trap, Gorillaz, The xx og Miike Snow. Þetta er fljótt að breytast og ég verð eflaust kominn með eitthvað nýtt á fóninn þegar líður á haustið. Ég set auðvitað líka oft eldri tónlistina á fóninn, en það er svo gaman að hafa tilbreytingu í þessu og prófa eitthvað nýtt.

***

Saint Augustine of Hippo skrifaði; Dilige, et quod vis fac. Það þýðir á ensku; Love, and do what you will. Mér finnst það fallegt og mikil speki. Fyrir mér þýðir það að maður eigi að gera hvað það sem gerir mann hamingjusaman svo lengi sem maður gerir það af ást. Með öðrum orðum; þú átt að gera það sem þig langar til svo lengi sem það kemur ekki niður á hamingju annara.

***

Mig langar ekki að þetta blogg lognist alveg útaf. Ég hef skrifað hér síðan 2002 og mér þætti synd að hætta því. Ekki bara til að halda í einhverja gamla hefð heldur hef ég gaman að því að skrifa og gaman að því að lesa það seinna meir. Ég hef reyndar dottið í þá grifju eins og svo margir bloggarar að eyða of miklu púðri í upptalningu á öllu sem maður tekur sér fyrir hendur. Mig langar að minnka það töluvert, enda er allt mitt fólk á Facebook sem gæti langað að fylgjast með mér. Það er miklu skemmtilegra að blogga um vangaveltur um hitt og þetta, ákveðin efni (eins og tónlist t.d.) eða ákveðna atburði sem gaman er að segja frá.

Svo ég geri nú samt upp sumarið sem var gersamlega bloggsnautt þá skemmti ég mér konunglega. Fór fyrst á Hróarskeldu sem var hreint út sagt æðisleg, flutti inní nýja íbúð á kollegíinu, fór beint til Íslands á ættarmót á Ísafirði, hélt afmælisbústað, fór í eins árs afmæli, fór í þrefalt afmæli á bát, fór á fáránlega skemmtilega Þjóðhátíð í Eyjum, heimsótti pabba á Akureyri, fór í innflutningspartý, fór í tveggja ára afmæli, fór á bjórþróttamót, fór í brúðkaup, átti besta bæjardjamm í manna minnum, púttaði með afa, spilaði Wii með Bigga, spilaði fótbolta með strákunum, heimsótti systur mínar, knúsaði allar litlu frænkurnar og frændana, kynntist nýju frábæru fólki, bjó til besta bragðarefs-kombó sem um getur og svo miklu miklu fleira. Haustið hefur líka byrjað með trompi með Hot Chip tónleikum, öðru brúðkaupi (þar sem ég mætti í vitlausa kirkju ásamt fleirum), Klakamóti í Svíþjóð og fleiru. Nú þarf ég bara að komast á skrið í að skrifa Mastersritgerðina mína og klára skólann með stæl.

Bless kex!
Maggi.
blog comments powered by Disqus