miðvikudagur, september 29, 2010

Tilgangur lífsins

Pælingar, pælingar. Ég gæti eflaust aldrei gefið út bók því Páll Skúlason er nú þegar búinn að gefa út bók sem heitir Pælingar og því er það nafn frátekið. Þótt það endi kannski aldrei í bók, í mesta lagi sem setningar ritaðar á þetta blogg, þá geri ég mikið af því að velta hlutunum fyrir mér, pæla, hugsa, spá og spögulera. Ég er ekkert að ýja að því að ég sé eitthvað sérstakur með það, langt í frá. Ég býst fastlega við því að allir pæli, bara mis mikið.

Þessi færsla ætti kannski frekar að heita tilgangur mannkyns. Ég hef pælt svolítið í því undanfarið af hverju við séum á þessari jörð. Nei annars, ég get ekki orðað það þannig. Ég hef pælt í því af hverju fólk pælir í því af hverju við séum á þessari jörð.

Nú er það talin nokkuð almenn vitneskja að heimurinn "varð til" við miklahvell, sama hvort hann hafi verið til fyrir það eða ekki, fyrir ansi löngu síðan. Eftir dúk og disk varð til líf á þessum hnetti sem við búum á. Það líf þróaðist í mannskepnuna sem hófst handa við að pæla, pæla í því af hverju í ósköpunum við værum hér.

Auðvitað eru þeir til, líklegast flestir mjög trúaðir, sem trúa öðrum kenningum um upphaf heimsins, jarðarinnar og mannkyns. Allt í góðu með það. Svo lengi sem þeir skaða engan (sem er því miður ekki alltaf raunin) þá mega þeir trúa því sem þeir vilja.

En hver er tilgangurinn með þessu öllu saman? Svona fyrir okkur hin sem trúum ekki á Biblíuna eða Kóraninn. Hver er tilgangurinn með manninum og dýrunum, jörðinni, sólkerfinu, alheiminum? Mér finnst sú spurning skemmtileg og það er gaman að velta sér uppúr henni, en ég held að þeir sem komast að einhverri niðurstöðu séu strax komnir á villigötur. Af hverju þarf að vera tilgangur? Það að það sé tilgangur þýðir fyrir mér að það sé eitthvað æðra en við. Eitthvað sem veit betur, eitthvað sem "skapaði" okkur, hvort sem það var kall í skýjunum eða einhverskonar "intelligent design" eins og einhver sagði. En ekkert er æðra okkur, og ekkert er óæðra. Hlutirnir bara eru. Heimurinn varð til, við urðum til. Á sama hátt munum við hætta að verða til og heimurinn mun hætta að verða til. Það er hvorki gott né slæmt, þannig er það bara.

Ef allt mannkyn myndi deyja í dag, væri það slæmt? Segjum að öll dýr og plöntur, allt líf á jörðinni myndi deyja á sama tíma. Game over. Þýðir það að eitthvað hafi misheppnast? Að eitthvað hafi farið úrskeiðis og að við hefðum átt að geta betur? Nei, við erum ekki í tölvuleik. Það er ekkert lokaborð. Það er enginn endakall. Það er enginn sigurvegari, og enginn sem tapar. Það er líka allt í lagi. Af hverju þurfum við tilgang?

Sumir segja að tilgangurinn sé ást, nú eða hamingja. Mér finnst það göfug markmið og ég held að mannkynið eigi algjörlega að lifa eftir þeim. Það er ekki það sem ég á við hinsvegar. Tilgangurinn er ekki ást, tilgangurinn er ekki hamingja. Tilgangurinn er ekki að lifa að eilífu eða að láta mannkynið aldrei deyja út. Douglas Adams sagði að tilgangur lífsins væri 42 og tilgangur jarðarinnar væri að finna út raunverulegu spurninguna um tilganginn. Það er jafn gáfulegt svar og hvað annað. :)

Þetta á alls ekki að vera leiðinleg eða þunglynd færsla. Hún breytir í sjálfu sér ekki miklu fyrir mig eða aðra. Ég er ekki sá fyrsti sem kemst á þessa skoðun og ég verð ekki sá síðasti og ég er alls ekki að taka sjálfan mig mjög alvarlega. Ég og allir hinir munum vakna og fara framúr á morgun alveg eins og alla daga og lifa lífinu.

Hverju breytir þetta þá fyrir mér? Mér finnst þægileg tilhugsun að það er óþarfi að taka hlutina of alvarlega, eða taka sjálfan mig of alvarlega. Það er enginn sigurvegari og allir eru jafnir. Enginn er æðri en þú, og það sem er kannski mikilvægara, enginn óæðri. Allt tekur enda. Þar til það gerist, láttu þér líða vel og komdu vel fram við alla í kringum þig. :)

Maggi.
blog comments powered by Disqus