fimmtudagur, desember 28, 2006

Gleðilegt ár!

Ég hef ekki verið mikið fyrir að strengja áramótaheit gegnum tíðina. Finnst það kjánalegt að mörgu leyti. Jújú, fínt að bæta sjálfan sig í hinu og þessu en þarf maður afsökun eins og áramót til þess?

Já, kannski þarf maður það. Maður notar allskonar hluti sem afsakanir til að hjálpa manni að bæta sig og af hverju ekki að nota áramótin? Ég ætla nú samt að byrja rólega í að strengja einhver heit. Ég ætla að bæta mig í hinu og þessu sem ég hef verið að hugsa um, en eina sem ég ætla að strengja heit um er að halda betur utanum fjármálin mín. Ég hef ekki verið nógu duglegur í því, og er pínu forvitinn hvert peningarnir mínir eru að fara.

Hátíðarnar hafa verið æði. Mikill matur, góður félagsskapur, afslöppun og svo meiri matur. En Adam var ekki lengi í Paradís. Nú er það bara prófalestur og próftaka út mánuðinn. Við höldum til DK 4. janúar og fyrsta prófið er daginn eftir. Fjögurra tíma skriflegt próf í forritun. Jább, skriflegt, s.s. með blað og blýant. Skrifa forrit án þessa að nota tölvu, það er bara eins og menn gerðu á miðöldum. En þetta er gert til að fólk svindli ekki og maður hlýtur að skilja það.

En eins og ég segi, nú er það bara próflestur þannig að ég hef engan tíma til að skrifa blogg! :) Vonandi eruði södd og sátt eftir hátíðarnar.
Maggi.

sunnudagur, desember 24, 2006

Gleðileg jól!

Vonandi verða jólin þín kærleiksrík og góð, full matar og drykkjar í góðum félagsskap.
Maggi.

sunnudagur, desember 17, 2006

Andvökunótt

Nú eru verkefnin okkar í skólanum loksins að klárast. Við komum heim á klakann á mánudaginn, en þangað til er brjálað að gera að klára skýrsluna og allt sem þarf að gera áður en við skilum. Ég klippti saman vídjó í dag af prófununum á leiknum okkar sem fóru fram fyrir rúmri viku síðan. Við ætlum að sýna það í prófinu og líka á mánudaginn þegar nemendur fá að sýna hverjum öðrum verkefnin sem þeir gerðu. Hér fyrir neðan er vídjóið! Vonandi hafiði gaman af því. Endilega kommentið ef þið sjáið eitthvað sem má betrumbæta.

Maggi.




þriðjudagur, desember 12, 2006

Stolnar blóðnasir

Og ég fæ blóðnasir
en ég stend alltaf upp.

Þetta eru tvær línur úr laginu Hoppípolla með SigurRós. Ég var fyrst að átta mig á því í dag að þetta er ekkert annað en ritstuldur. Ekki hélt ég að strákarnir í SigurRós yrðu uppvísir að þessu. Það voru einmitt strákarnir í eðalbandinu Chumbawamba sem mæltu þessi orð í laginu Tupthumping frá árinu 1997:

I get knocked down,
but I get up again.

Og strákarnir í Chumbawamba halda áfram:

He sings the songs that remind him
of the good times,
he sings the songs that remind him
of the better times...

Strákarnir í SigurRós gera sér lítið fyrir og stela þessu líka:

Brosandi,
hendumst í hringi,
höldumst í hendur...

Kannski ekki orðrétt en hugtökin eru bersýnilega þau sömu. Ég held við ættum að fara varlega þegar við áfellumst Hannes Hólmstein um ritstuld þegar svona vinnubrögð viðgangast beint fyrir framan nefið á okkur.
Maggi.

E.s: Takk allir fyrir gott partý á laugardaginn!

fimmtudagur, desember 07, 2006

Ósk á afmæli í dag! :)

Til hamingju með daginn ástin mín! :*

Maggi.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Bomberman Evolved

Núna er tölvuleikurinn okkar fullgerður, eða í það minnsta eins fullgerður og hann mun verða, því nú standa yfir prófanir á honum fyrir lokaverkefnið okkar. Við erum með stóra kennslustofu að láni og fólk kíkir í heimsókn til okkar, prófar leikinn og svarar nokkrum spurningum sem munu hjálpa okkur við skýrslugerðina. Tilgangurinn er auðvitað aðallega til að kynnast svona prófunum en við látum sem þetta sé til að við getum þróað leikinn áfram.

Ég setti saman smá vídjó um uppsetninguna á leiknum og má það finna neðst í færslunni. Við tökum líka upp vídjó um prófanirnar og kannski endar það líka á þessari síðu, hver veit.
Maggi.



sunnudagur, desember 03, 2006

Fyrsta árið

Á föstudaginn var ár liðið frá því að ég og Ósk byrjuðum saman. Það hefur ansi mikið vatn runnið til sjávar síðan þá og ætli stærstu breytingarnar séu ekki að núna búum við saman í Kaupmannahöfn og lærum bæði Medialogy í útibúi Álaborgarháskóla (eins og flestir ættu að vita). Til hamingju með daginn ástin mín. :)

Þegar ég bloggaði síðast vorum við á leiðinni í jólaföndur í skólanum. Það var ansi gaman og föndrið okkar heppnaðist svo vel að við vorum með flottasta skrautið og unnum keppnina! Við vissum reyndar ekki að það væri keppni en það breytti því ekki að við unnum tvo miða á jólahlaðborð sem var haldið í skólanum núna á föstudaginn! Þannig að við ákváðum að eyða afmælinu okkar í að njóta vinningsins og mættum á skólabarinn og gæddum okkur á dönskum jólamat. Hann stóð undir væntingum og var bara ekkert sérstaklega góður. En í heildina litið var föstudagurinn frábær og verður lengi í minnum hafður.

Umferðarljósa-partýið daginn eftir jólaföndrið var haldið á skemmtistað sem höfðaði ekki mikið til okkar og því fórum við snemma heim. Of mikill reykur og fáránleg tónlist spilaði þar stærstan part. En fyrrihluti kvöldsins var vel heppnaður og vorum við langt frá því að vera ósátt með kvöldið.

Nú eru bara tvær vikur þangað til við komum heim! Það er nú ekki mikið búið að plana jólin eins og er, en það verður gaman að koma heim og hitta fjölskyldu og vini. Ólíkt undanförnum árum þá mun ég þurfa að læra mikið fyrir lokaprófin í janúar því þetta nám er heldur erfiðara en það sem ég var í. Þannig að það verður nóg að gera þessar rúmu tvær vikur sem við verðum heima. Sjáumst fljótlega!
Maggi.

E.s: Gleðilega aðventu! :D

föstudagur, nóvember 24, 2006

Juleklip

Ætli það séu ekki 10 ár síðan ég hef föndrað í skólanum, en það er einmitt á dagskrá í dag í skólanum mínum! Reyndar er það bara notað sem ágætis afsökun til að drekka bjór eftir erfiða viku, en maður verður nú að sýna lit og búa til í það minnsta einn músastiga. Þetta er nú samt bara létt upphitun fyrir djammið sem er á morgun. Þá verður haldið fyrsta skipulagða skóladjammið á önninni. Það er partý á skemmtistað niðri í bæ og þemað (því Danir eru mikið fyrir það að hafa þema) er umferðarljós! Jább, frekar skrítið þema en þetta er víst frekar algengt hér hjá Baununum. Það virkar þannig að þeir sem eru á föstu mæta í rauðum fötum, þeir sem eru á lausu í grænum, og þeir sem eru einhverstaðar mitt á milli mæta í gulu. Þetta er eflaust ágæt leið til að pússa saman einhleypingana hér í skólanum því afsökunin "Nei ég er á föstu..." virkar ekki alveg já fólki sem er grænt frá toppi til táar. Ég og Ósk mætum auðvitað rauðklædd og ég skarta rauða hárinu sem aðra daga. :)
Maggi.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Systaz

Takk fyrir komuna síðustu helgi systur mínar! Þetta var mjög gaman þótt það væri stutt. Ég og Ósk sitjum uppí skóla að forrita, ótrúlega dugleg. Brjálað að gera í skólanum þessa dagana og er ekkert að fara að minnka fyrr en 18. desember þegar við fljúgum heim. Það verður gaman! :)
Maggi.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

8

Lífið gengur sinn vanagang hér í Kaupmannahöfn. Við förum í skólann, horfum á sjónvarpið, eldum, borðum, sofum, verslum, förum út á lífið, fáum gesti í heimsókn, heimsækjum aðra og svo framvegis. Okkur líður vel og allt gengur vel. Ætli ég geti ekki sagt að ef ég blogga ekki þá sé hægt að áætla að allt gangi vel og að við séum södd og sátt. :)

Skólinn gengur mjög vel þessa dagana. Lokaverkefnið er komið á betra skrið nú þegar fyrirlestrarnir eru að mestu búnir. Hópurinn minn er kominn nokkuð langt, við erum nærri því búnir að gera tölvuleikinn með allri forritun og grafík, tracking (sem ég er í) gengur mjög vel og kennarinn okkar átti ekki til orð í dag þegar hann sá hvernig okkur gekk. Það styttist í að hægt verði að spila leikinn og þá taka við prófanir til að gera hann sem bestan. Svo þurfum við auðvitað að skrifa skýrslu um allt sem við höfum gert og það merkilegasta sem við höfum lært á önninni. Við höfum núna um það bil sex vikur áður en við þurfum að skila inn verkefninu. Þá eru næstum því komin jól! Ótrúlegt en satt. Tíminn flýgur áfram á undraverðum hraða.

Mamma og Ægir gistu hjá okkur fyrir rúmri viku síðan. Við elduðum handa þeim og horfðum með þeim á bíómynd. Það var mjög gaman og ég vona að það hafi farið vel um fyrstu næturgesti okkar. Svo hittum við (ég og Ósk) ömmu Fjólu og Gilla frænda á sunnudagskvöldinu sömu helgi og fórum með þeim á dýrindis steikhús. Afi komst því miður ekki því hann fékk fyrir hjartað og þurfti að eyða mestallri ferðinni uppá spítala. Eftir matinn fórum við að heimsækja hann og hann var brattur að venju.

Gulli, Atli, Ásgeir og Valdi komu að heimsækja Stinna síðustu helgi og við buðum þeim í smá partý á laugardagskvöldið. Það var mjög gaman, og þemað var átta! (jább, talan 8). Það var vegna þess að um verslunarmannahelgina gerði Biggi þá uppgötvun að núna í nóvember yrði hann 8.888 daga gamall, og Ósk yrði 8.000 daga gömul á svipuðum tíma. Það þýðir líka að ég verð fljótlega 8.888 daga gamall því Biggi er bara tveimur vikum eldri en ég. Við hengdum upp áttur og spiluðum Flash-teiknimynd með fljúgandi áttum (sjá neðst í færslunni). Þetta var ansi vel heppnað og allir skemmtu sér vel. Á sunnudaginn fórum svo ég Biggi og Jói út að borða með strákunum og Stinna, og valdi Stinni staðinn Kalaset. Hann er líka svona svaka fínn, bæði veitingastaður og skemmtistaður. Maturinn er ódýr, en flottur og virkilega bragðgóður. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hef borðað artí-fartí borgara eins og Valdi kallaði hann.

Jói kvartaði yfir því að færslurnar mínar væru of langar, þannig að ég er hættur. Í lokin ætla ég að koma með nokkrar óskráðar reglur sem allir ættu að kannast við.

Óskráðar reglur:

1.

2.

3.

4.

5.


Maggi.





mánudagur, október 23, 2006

The Perfect Setup

Mér finnst eins og það séu svona þrír dagar síðan ég bloggaði síðast en þeir eru víst nær því að vera tuttugu og þrír. Það er nóg að gera hjá okkur og tíminn líður ótrúlega hratt! Þegar ég bloggaði síðast var kringum 20 stiga hiti alla daga en nú er hitinn kominn niður í 10-15 gráður. Lífið er komið í töluvert fastari skorður en þá, við erum búin að koma okkur vel fyrir og bara einstaka hlutir sem enn vantar í íbúðina. Við höfum bara ekki komið í verk að kaupa okkur gardýnur og skrifborð. Það er það helsta sem vantar inni hjá okkur og svo vantar eitthvað smotterí inní stofu líka. Skólinn gengur bara vel, nú tekur fyrirlestrunum að fækka og áherslan flyst meira yfir á lokaverkefnið fyrir önnina. Ég hef verið að vinna með color-tracking (hvað er það á íslensku?) og það gengur alveg ágætlega. Fljótlega þurfum við að gera viðameiri tilraunir til að sjá hversu vel okkur mun takast að framkvæma leikinn okkar. Aðrir hafa unnið hörðum höndum við að forrita leikinn og enn aðrir hafa unnið með þrívíddar-grafíkina og skýrsluskrif.

Frítíminn okkar þessa dagana fer að mestu leyti í að horfa á bíómyndir og þætti í aðstöðunni okkar á efstu hæðinni. Skjávarpinn er kominn upp og við náum 110 tommu stórri mynd á tjaldi sem við hengdum upp á einum veggnum. Það virkar meira að segja enn stærra í svona litlu rými. Svo tengdum við græjurnar mínar og hengdum hátalarna uppá vegg, tengdum DVD spilarann minn og keyptum okkur svokallað TV-box til að geta náð sjónvarpsútsendingum og sent í skjávarpann. Við gerum hinsvegar mest af því að tengja tölvurnar okkar beint við skjávarpann og spila það sem við höfum downlodað. Við erum nefnilega komin með 8 MB þráðlausa nettengingu og höfum verið dugleg við að nýta hana. Þannig að þurfið engar áhyggjur að hafa af því að okkur leiðist. :) Námið okkar er líka þannig upp sett að eftir hvern fyrirlestur hittast allir í hópunum sínum og vinna verkefni tengt því sem var kennt í tímanum. Þannig að maður er til dæmis alltaf búinn að reikna stærðfræðina í skólanum og þarf því ekki að gera það heima. Þetta er mjög þægilegt og hjálpar manni mikið með námið. Auðvitað þarf maður líka að vera duglegur heima og lesa í bókunum fyrir tímana. Annars mun seinni helmingur annarinnar verða mun tímafrekari þegar vinnan við lokaverkefnið er komin á fullt skrið.

Síðustu helgi héldum við afmælispartý fyrir Arndísi og innflutningspartý í leiðinni. Það var mjög skemmtilegt og flestir vinir okkar hér í Köben sáu sér fært að koma. Fengum meira að segja góða gesti frá Íslandi og Kolding. Nú um helgina verður stór hluti af fjölskyldunni minni í Kaupmannahöfn. Mamma og Ægir munu gista hjá okkur á föstudagskvöldið, og amma, afi og Gilli verða líka í bænum og við borðum með þeim öllum á sunnudagskvöldinu. Við ætlum að fara á uppáhalds veitingastaðinn minn í Kaupmannahöfn, Spiseloppen í Kristjaníu. Björk kynnti mig fyrir honum þegar Torgeirz og Jobu Kretz voru í heimsókn fyrir rúmum tveimur árum og síðan þá hef ég farið einu sinni eða tvisvar. Maturinn þarna er ekki mjög dýr og alveg svakalega góður.

Ég hef ekki verið nógu duglegur að taka myndir, en ég hef samt tekið eitthvað smá. Ef ég fyllist miklum eldmóð og dugnaði þá set ég kannski eitthvað af þeim á netið ef einhver hefur áhuga. Annars er aldrei sniðugt að lofa of mikið uppí ermina á sér. :)
Maggi.

fimmtudagur, september 28, 2006

Crazy to do

Það er heldur betur búið að vera brjálað að gera undanfarið. Síðasta föstudag fengum við íbúðina okkar nýju afhenta og á þriðjudaginn hófust flutningar. Reyndar vorum við ekki að flytja dótið sem við eigum heldur að flytja endalaust af dóti úr búðinni og heim í nýju íbúðina! Við leigðum flutningabíl í einn dag og nýttum daginn mjög vel. Bíllinn var algjör skrjóður, enda ekki við öðru að búast af bílaleigu sem heitir Rent-a-Wreck. Þeir leigja semsagt bíla sem eru við það að hrynja en koma manni amk (vonandi) á leiðarenda. Það besta er auðvitað að það kostar mjög lítið að leigja hjá þeim.

Ég og Ósk fórum í skólann um morguninn og náðum einum tíma áður við þurftum að leggja af stað til að sækja bílinn. Það tók alltof langan tíma að sækja bílaleigubílinn því við fengum rangar upplýsingar hvað eftir annað. En það tókst að lokum og við gátum byrja að útrétta. Við byrjuðum á því að fara í genbrug verslun, sem er verslun sem selur notuð húsgögn á vægu verði. Þar biðu Arndís og Biggi eftir okku og við ætluðum að reyna að kaupa sem mest notað til að spara pening. Það gekk heldur betur eftir því við keyptum mjög mikið og fórum með tvo bílfarma af dóti heim. Þar á meðal voru þrjú rúm, þrír sófar, þrír hægindastólar, sófaborð, borðstofuborð og sex stólar, fataskápur, eldhúsborð og fleira. Þetta allt kostaði okkur kannski kringum 2500 danskar krónur eða um þrjátíu þúsund. Það er ekkert verð fyrir allt þetta dót! Allt var í mjög góðu ástandi, það sást ekki á rúmunum og sófarnir eru mjög þægilegir og þar af einn svefnsófi. Annar er leðursófi, mjög flottur og þægilegur en of stór til að komast á efstu hæðina hjá okkur því hún er undir súð. Það var mjög skrautleg tilraun gerð til að koma sófanum upp en allt kom fyrir ekki. Þriðji sófinn er grænn og mjög retro.

Eftir að hafa borið allt dótið sem við keyptum upp þröngan stiga uppá aðra og þriðju hæð langaði okkur mest að leggja okkur. En til þess að nýta bílinn fórum við í IKEA! Þar keyptum við heilan helling af dóti, eitthvað af húsgögnum (hillur, skáp og náttborð) en aðallega litlu hlutina sem hvert heimili þarf að eiga. Allt í eldhúsið, lampa, ljós og ljósaperur, sængurföt, rúmteppi og fleira. Eftir þrjá tíma í IKEA vorum við alveg búin á því en þurftum samt að gera einn hlut í viðbót. Keyra niðrí bæ og sækja fjóra kassa sem Sigrún vinkona mömmu geymdi fyrir mig síðan í janúar. Eftir það þurftum við að fara heim, skila af okkur dótinu og skila svo bílaleigubílnum.

Við villtumst í hvert skipti sem við þurftum að keyra eitthvert og það voru miklar vegalegndir milli allra staðanna. IKEA er lengst útúr bænum og bílaleigan er lengst í burtu líka. Þannig að þetta var erfiður dagur og við vorum ekki komin heim fyrr en eitt eftir miðnætti, búin að vera á fullu síðan átta um morguninn.

Ég og Ósk sváfum svo fyrstu nóttina á nýja staðnum í nótt og vorum hæst ánægð með nýja stóra rúmið okkar. Kannski af því að það voru bara einbreið rúm á hinum staðnum og ég þurfti að sofa á óþægilegri dýnu á gólfinu.

Annars er bara allt fínt að frétta. Skólinn gengur vel. Ég er að fara að flytja kynningu á fyrsta verkefninu mínu á eftir. Það gekk bara mjög vel og hópurinn minn ætlar að halda sér og klára þetta verkefni á önninni. Nú í byrjun var þetta hugmyndavinna til að koma sér af stað í lokaverkefnið. Verkefnið okkar snýst um að gera útgáfu af Bomberman þar sem maður stjórnar leiknum með því að ganga um leikborð og við notum motion-tracking til að tölvan viti hvar leikmennirnir eru. Hmm, kannski ekki hægt að útskýra hugmyndina í einni setningu. En ég á eflaust eftir að tala um verkefnið aftur hérna síðar. Bið að heilsa úr 18-22 stiga hita hér í Danmörku. ;)
Magnús, aka. Maggi.

mánudagur, september 18, 2006

Lífið er óútreiknanlegt

Í dag var Bryndís Eva, dóttir Hjörleifs og Bebbu, lögð til hinstu hvílu. Ég samhryggist innilega og sendi þeim hlýja strauma. Þau hafa staðið sig svo vel og vakið þjóðfélagið til umhugsunar um mjög mikilvæg málefni. Aðdáunarvert að geta látið gott af sér leiða þótt erfiðleikarnir séu miklir. Verum góð við hvert annað.
Maggi.

sunnudagur, september 17, 2006

Edelsmindevej 13

Hvar byrjar maður? Ég gaf fjölskyldu og vinum loforð þegar ég fór frá Íslandi (enn einu sinni) að ég myndi vera duglegur að blogga þegar ég kæmi út. Ég hef því miður ekki staðið við það en ég ætla nú að láta vita af mér stundum svo fólk fái að heyra hvernig gangi.

Það er bara allt gott að frétta af okkur. Stærstu fréttirnar eru að við erum komin með íbúð! Það gerðist bara í dag og við erum alveg himinlifandi með þetta allt saman. Íbúðin er hérna í Brønshøj, sama hverfi og við búum núna í tímabundnu íbúðinni okkar, bara tíu mínútna labb í burtu. Við erum búin að vera mjög sátt með þessa staðsetningu því ég og Ósk erum jafnlengi að komast í skólann og að komast niður í miðbæ. Íbúðin er 101 fermeter, 3ja herbergja, en reyndar tæknilega séð 4ra herbergja því við megum líka vera á hæðinni fyrir ofan, í risinu. Þar er auka klósett, mini-eldhús með ísskáp og pláss fyrir svona chill-out lounge. Það verður aðal stofan okkar en niðri ætlum við að reyna að koma fyrir einverri borðstofu þar sem við getum borðað saman. Við erum nefnilega búin að vera ansi dugleg að elda saman og höfum sparað hellings pening með því. Ekki veitir af því nú þurfum við að borga deposit og kaupa okkur húsgögn í nýju íbúðina okkar.

Á föstudaginn fórum við á tónleika með eðal bandinu Hot Chip. Það var algjör snilld! Þeir eru svo mikil nörd og þeir reyna það líka. Fimm gaurar á sviðinu, allir með hljómborð eða mixera og nokkrar bongó trommur og einhver lítil hljóðfæri sem framkalla hávaða. Þvílíkt dansvæn tónlist og geggjuð stemmning á litla Vega. Mæli með því að þú hlustir á þá ef þú hefur ekki heyrt í þeim ennþá. Mikil snilld hér á ferð. Svo hefur verið umræða hjá okkur um að kíkja á Muse í Berlín í nóvember. Flugið og miðinn á tónlekana kostar ekki nema rúman tíuþúsundkall og því er erfitt að finna ástæðu fyrir að fara ekki! :)

Best að fara að læra smá fyrir svefninn. Í þessari viku eigum við að klára skýrslu um verkefni sem verður mögulega lokaverkefnið okkar á önninni. Hópurinn minn ætlar að gera útgáfu af Bomberman þar sem leikurinn fer fram í heilu herbergi, og leikmennirnir færa sig á milli reitanna sem eru teiknaðir á gólfið. Svo er tölvuleiknum sjálfum varpað uppá vegg og þar sjá leikmennirnir hvar þeir eru staddir í leiknum. Veit ekki hversu vel mér tókst að útskýra þetta en þetta er amk frekar spennandi og gæti orðið mjög skemmtilegt lokaverkefni.

Kveðja frá Danmörku,
Maggi.

mánudagur, september 11, 2006

350s

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið jafn duglegur og ég ætlaði að vera í að blogga. En fyrst tíminn sem ég er í fer rétt að byrja ætla ég að hafa þetta voða stutt og laggott. Það gengur allt mjög vel hjá okkur. Skólinn er byrjaður og er fínn, pínu öðruvísi en ég bjóst við. Fjallar soldið mikið um tölvuleiki og motion capture (t.d. eins og EyeToy leikirnir sem eru í PlayStation fyrir þá sem þekkja það). Svo er mikil stærðfræði og forritun. Við erum líka byrjuð í verkefni sem á að taka þrjár vikur og ef það fæðist góð hugmynd á þeim tíma þá megum við halda áfram með hana út önnina og gera stórt verkefni úr því. Ég er í hóp með fimm öðrum strákum, fjórum dönskum og einum kínverskum. Hópavinnan gengur bara ágætlega og við erum með fína hugmynd sem ég lýsi fyrir ykkur síðar.

Við erum enn ekki komin með varanlegt heimilisfang en erum búin að fara að skoða eina íbúð niðrí miðbæ. Við höfum ekki enn fengið að vita hvort við fáum hana en höldum í vonina.

Tíminn er byrjaður! Hann heitir Light, the eye and the visual system. Meira seinna.

Maggi.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

iMagg

Til hamingju ég! Hvern hefði grunað? Ég er að rita þessi orð á nýju MacBook Pro fartölvuna mína. Mikið er hún nú falleg. Næstu dagar og vikur verða skemmtilegar, að setja hana upp nákvæmlega eins og ég vil hafa hana. Gamla vélin mín, Acer fitubollan, lét lífið nú í sumar þegar ég missti hana í gólfið. Hún stóð sig nú samt mjög vel og ég er mjög sáttur við hana. En það verður að segjast að nýji makkinn er fallegri, og greindari líka.

En næstu dagar og vikur verða ekki bara skemmtilegir útaf nýju tölvunni minni. Nei það verður sko nóg að gerast. Ný borg, ný íbúð (eða tvær), nýr skóli, sem þýðir nýjir kennarar og skólafélagar. Nýtt, nýtt, nýtt. En ég hef kærustuna með mér og slatta af vinunum til að deila öllu þessu nýja með. Það gerir þetta allt enn betra.

iMagg.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Leitið og þér munið finna...?

Íbúðaleit er nú í algleymingi... aftur. Það þýðir ekki að láta bilbug á sér finna heldur láta hendur standa fram úr örmum og láta ekki deigan síga. Við höfum fengið jákvæð svör síðustu þrjá daga en það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið. Alltaf virðist sú staðreynd að við séum fjögur saman fara eitthvað vitlaust ofaní fólk. Það er erfitt að finna íbúð fyrir fjóra í Köben, hvað þá fjögur ungmenni. Fordómar gagnvart ungu fólki virðast blómstra í Danmörku rétt eins og á Íslandi og við höfum heldur betur fengið smjörþefinn af því.

Helgin var góð, þrátt fyrir mikla mannmergð á laugardeginum eins og við var að búast. Við fórum út á bát til að sjá flugeldasýninguna, ég þakka Elvu Söru gott boð. Það var mjög skemmtilegt og ég náði fínum myndum af sýningunni.

Kona
Stelpa dagsins: Ósk. :)

Þegar þetta er skrifað er vika í brottför til Danmerkur. Tilhlökkunin lætur bíða eftir sér þar til við fáum íbúð, sem gerist vonandi fljótlega... aftur.

Maggi.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Fallegur, sólríkur, f***ing helv***s dagur

Við misstum íbúðina.

M.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

3x3farar

Þegar ég spurði í vinnunni hver í Rockstar: Supernova ætti að vera í næstu þríförum kom upp sú hugmynd að hafa Supernova þrífara. Sú hugmynd féll í svo góðan jarðveg að ég fékk alveg heilan helling af tillögum þannig að úr urðu 3x3 farar eða nífarar.



Maggi.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Krækjur

Ég var að taka til í krækjulistanum hér á síðunni enda mikil þörf á. Helmingurinn hættur að blogga og hinn helmingurinn búinn að skipta um síðu. Og þriðji helmingurinn ekki búinn að breyta neinu.

Ég vil bjóða nýjustu bloggarana á listanum velkomna en það eru faðir minn hann Jón Baldvin og systir mín hún Fjóla Þórdís. Þau eru byrjuð að blogga fyrir nokkru síðan og voru þau ekkert að láta vita af því. Svona eru góð samskiptin í minni fjölskyldu. :p

Það styttist í fiskidaginn! Hvað er betra en fiskur? Jú, einmitt... ókeypis fiskur.

Maggi.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Norðurbrú

Við erum búin að finna íbúð í Köben! Og gott betur en það, við ætlum að leigja hana frá og með 1. september! Vei! Íbúðin er á 11. hæð í blokk við Lundtoftegade á Nörrebro. Það er hverfi ágætlega nálægt miðbænum, Biggi reiknaði út að það væru um 3 kílómetrar niðrí bæ. Það er stutt strætó- eða hjólaferð. Hinsvegar er tæplega hálftíma lestar- eða strætóferð í skólann minn sem er í Ballerup. En það er allt í lagi, miklu betra að vera í miðbænum því við erum fjögur saman og verðum öll að gera mismunandi hluti. Biggi í skóla í Frederiksbjerg (sem er hverfið við hliðina á Nörrebro, skólinn hans er 2 km frá íbúðinni okkar) og Ósk og Arndís munu fara að vinna fyrst um sinn.


Við munum eiga heima á 11. hæð í einni af þessum blokkum

En já. Verslunarmannahelgin kom og fór. Við (ég, Ósk, Biggi og Jómbi) vorum minna á Sigló en áætlað var vegna aftakaveðurs og veikinda gestgjafa en vorum þess í stað í góðu yfirlæti í bílskúrnum hjá pabba og Möggu á Akureyri, fyrir utan Jómba sem gisti hjá vini sínum. Það var virkilega gaman hjá okkur að því undanskildu að djammið var ekki gott. Of mikið af fólki og bara einhver leiðindi. En við skemmtum okkur vel við að spila og fíflast saman alla helgina. Á mánudeginum kíktum við til Siglufjarðar, heimsóttum þar ömmu og afa og kíktum á ljósmyndasýninguna hans afa sem var mjög flott.

Næstu helgi er ferðinni aftur heitið norður í land því Fiskidagurinn mikli verður haldinn á Dalvík með pompi og prakt! Ég og systur mínar fjórar (já ég á fjórar systur, vissiru það ekki?) ætlum að mæta og skemmta okkur með pabba og Möggu og Dalvíkingunum. Það verður eflaust mjög gaman, og aldrei að vita nema Óskin mín kíki með mér.

Svo styttist í það að við förum út, ekki nema þrjár vikur uppá dag þegar þetta er skrifað. 30. ágúst semsagt. Þetta verður bara gaman og vonandi stendur íbúðin undir væntinum. Vinkona mömmu er búin að fara að skoða hana fyrir okkur og leist bara vel á þannig að við erum ágætlega bjartsýn á þetta. Bið að heilsa.

Maggi.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Rocstar þrífarar: Dilana

Jæja þá er komið að næstu þríförum. Ég kann bara vel við Dilönu þannig að vonandi verða aðdáendur hennar ekki sárir. :) Ætli það sé ekki kominn tími á Magna næst! Bíðið spennt.

Maggi.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

20 árum síðar

Það dreif margt á daga mína í júlí þó ég hafi nú ekki verið iðinn við að rita það á þessa síðu. Ætli það sé ekki besta sönnunin fyrir því að ég hef haft í nógu að snúast, enginn tími til að blogga. Það ber helst að nefna AfmælisTaðinn sem haldinn var með pompi og prakt í tilefni þess að aðeins er eitt ár þar til ég verð kvart-aldargamall. Það var, pardon my french, ógeðslega gaman og þakka ég öllum fyrir komuna sem.. komu.

Helgina eftir Taðinn fórum ég og Ósk í grillveislu hjá XFM og fengum geggjaðan mat. Á laugardeginum fórum við svo saman í rafting ásamt fullt af vinum okkar því hún Camilla vinnur einmitt hjá Arctic Rafting. Það var geggjað gaman og eftir það var farið í heitan pott, grillað og spjallað. Svo var haldið aftur til höfuðborgarinnar í partý hjá Ísaki sem var mjög skemmtilegt.

Fyrir rúmri viku síðan hélt ónefnd vinkona mín, hún Elva Sara, uppá afmælið sitt. Það var um borð í bát, eða lítilli snekkju réttara sagt, og var það mjög vel heppnað teiti og allir skemmtu sér vel. Sumir skemmtu sér meira að segja svo vel að þeir höfðu ekki hugmynd um að þeir hefðu skemmt sér vel!

Í síðustu viku fór ég líka á tvenna SigurRósar tónleika. Þeir fyrri voru á Ólafsvík og voru alveg geggjaðir. Ég, Kristinn og Biggi fórum saman og sátum fimm metra frá sviðinu og ég tók yfir 200 myndir. Þeir seinni voru á Klambratúni og voru þeir skiljanlega öðruvísi en hinir enda ekki jafn mikil nálægð. En þeir voru góðir engu að síður.

Næstu helgi er lengsta helgi ársins að nafninu til, en það er hin sjö atkvæða Verslunarmannahelgi. Ég, Óskin mín og Biggi höfum í ár ákveðið að heiðra Siglfirðinga og nærsveitamenn með nærveru okkar, og aldrei að vita nema fleiri bætist í hópinn. Síldarhátíðin er málið í ár.

Þessa dagana kemst fátt annað að en pælingar í sambandi við húsnæði í Köben. Ég, Ósk, Biggi og Arndís ætlum að búa saman og vantar því að leigja 4ra herbergja íbúð, helst miðsvæðis. Ef þú eða einhver sem þú þekkir eigið eina slíka á glámbekk þá þætti mér mjög vænt um að þú létir mig vita.

Maggi.

E.s: Hvað ætlar þú að gera um Verslunarmannahelgina?

Zed - Stitch - Lucas

Það er einn gaur í Rockstar sem fer í taugarnar á mér og það er hann Lucas. Hann er frekur, hrokafullur gúmmítöffari sem getur varla talað hvað þá sungið. Mér finnst gaman að gera grín að honum og því fann ég til þessa tvo sem mér finnst líkir honum.



Maggi.

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Óvenjuleg ástarjátning

Það er merkilegt hvað maður tekur sér fyrir hendur í frítíma sínum. Ég keypti mér bláan spreybrúsa og leigði mér krana um daginn. Þetta er afraksturinn. ;)






Maggi.

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Gaman já

Það getur verið gaman í vinnunni. Í gær var ég í Garðinum og tók þar uppá vídjó garðana sem fengu fegrunarverðlaunin þar í bæ (hahaha, já það eru garðar í Garðinum, mjög fyndið æ nó). :) Í dag klippti ég þetta svo saman og setti mússík undir og setti þetta á netið. Hinn daginn gerði ég líka vídjó um krakka sem eru í siglinganámskeiði hjá siglingafélaginu í Keflavík. Bæði þessi vídjó eru í Vef sjónvarpinu á vf.is.

Maggi.

E.s: Ég á ammæli á sunnudaginn! :D Veij!

mánudagur, júlí 10, 2006

Skýjaborgir


Njarðvík, 10. júlí 2006

Live is life

Það er ekki laust við að maður letjist í blogginu á sumrin. Þá nennir heldur enginn að hanga í tölvunni! Nema þeir sem vinna við tölvur... sem eru flestir sem ég þekki. Hmm... kannski ætti maður að vera duglegri.

Lífið er gott. Ég er í fínu djobbi og á gullfallega yndislega kærustu. Vonandi leikur lífið við þig líka.

Maggi.

E.s: Hafiði einhverntíman velt fyrir ykkur hvernig gaurarnir í Opus fundu uppá þessum magnaða texta árið 1984? "Live is life, Na Na Na Na Na!" (8) Hvern hefði dottið í hug að það yrði hittari. Myndin sem fylgir færslunni er tribute til tískunnar það blessaða ár.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Heim í Heiðardalinn

Sumarblíða = Lárétt rigning í Reykjanesbæ. Já ég er kominn heim og veðurguðirnir hafa bryddað uppá þeirri skemmtilegu nýjung að leyfa dropunum að falla lárétt. Það er nú bara hressandi, það þýðir að loftið er tært og ryklaust og maður getur klætt sig í uppáhalds peysuna sína án þess að deyja úr hita. Ef maður tekur líka með sér stóran ruslapoka þegar maður fer út þá kemst maður leiðar sinnar án þess að labba eða nota farartæki! Einkar skemmtilegt. Mæli með að þið prófið það.
Maggi.

laugardagur, júní 24, 2006

Haldið skal til Hróarskeldu

Þá er komið að því, fjórða árið í röð. Keldan hans Hróars. Hver var þessi Hróar annars? Ég hef heyrt nafnið Hróbjartur en ekki Hróar.

Prófið mitt gekk vel og fyrir viku síðan útskrifaðist ég úr NoMA sem Margmiðlunarhönnuður. Gaman að því. Blóm og kransar afþakkaðir. Harðir pakkar vel þegnir.

Vegni ykkur vel í því sem þið takið ykkur fyrir hendur. Bless í bili.

Maggi.

mánudagur, júní 12, 2006

Sólarvörn

Á morgun flýg ég til Danmerkur. Í fríhöfninni á leiðinni út ætla ég að kaupa mér bestu sólarvörn sem ég veit um, og nota hana óspart á ferðalagi mínu. Meira að segja þótt það verði rigning.

Ferðalagið mitt er þrískipt. Fyrsta tæpa vikan verður í Kolding, heimabæ brennandi flugeldaverksmiðja. Þar tek ég eitt munnlegt próf, og útskrifast (ef guð lofar) á föstudaginn. Eftir það fer ég til Horsens, heimabæ allra helstu glæpamanna Danmerkur, og verð þar í viku hjá Jóa. Ég býst við að sá tími fari í að horfa á HM og sötra bjór, ásamt því að skipuleggja vikuna þar á eftir. Þriðju og síðustu vikunni minni í Danaveldi mun ég nefnilega eyða í Hróarskeldu, heimabæ bestu tónleika-útihátíðar í heimi!

Veðurspáin fyrir næstu vikuna er mjög góð, sem er bæði gott og vont. Auðvitað er alltaf fínt að hafa gott veður, en þeim mun meira gott veður sem er í Danmörku fyrir Hróarskeldu, þeim mun meiri líkur eru að það muni rigna á hátíðinni! Þetta er vísindalega sannað. En það þýðir ekkert annað en að maður mun undirbúa sig extra vel og kaupa sér stígvél og pollagalla og láta svo eins og gamla fólkið í Hoppípolla myndbandinu með SigurRós þegar maður mætir á svæðið.

Ég reyni að blogga amk einu sinni áður en ég fer á hátíðina, læt vita hvernig undirbúningurinn gengur og hvernig mér gekk á prófinu. Bless bless!
Maggi.

fimmtudagur, júní 08, 2006

Skip

Ætli þetta sé tákn? Um leið og ég ætla að fara að blogga liggur blogger niðri. Því er ég að nýta besta forrit sem gert hefur verið í að rita hugsanir mínar, Notepad. Ég mun svo pósta þessu þegar þeir hjá blogger.com vilja hleypa mér aftur inná síðuna. Kannski eru þeir svona ósáttir því ég hef ekkert verið að blogga? Kæmi mér ekki á óvart.

Það er nefnilega pínulítið langt síðan ég bloggaði! Og meira að segja enn lengra síðan ég bloggaði almennilega. Ég kom með þá kenningu um daginn að ástæðan væri endurnýjunga-leysi á þessari blessaðri bloggsíðu. Ég hef alltaf búið til nýtt lúkk reglulega fyrir bloggið mitt og það hefur gefið mér aukinn kraft í að blogga því það er miklu skemmtilegra að skrifa inná síðu sem er flott og ný. Kannski er þarna (mjög illa) falin lausn á blogg-vandamálum mínum. Búa til nýja síðu. Kannski ég geri það bara fljótlega, hver veit.


Það sem á daga mína hefur drifið

Fyrst maður hefur fallið í þá gryfju að skrifa frekar um það sem maður er að gera í stað þess sem maður er að hugsa (en eins og allir vita er mun skemmtilegra að lesa hugsana-blogg), ætli ég segi ykkur ekki aðeins frá því sem ég hef verið að bralla. Síðasta almennilega færsla sem ég skrifaði var þegar Biggi var á heimleið frá San Francisco og ég var á leiðinni í Road-Trip með sex öðrum NoMA-lingum. Það er skemmst frá því að segja að við keyrðum tæpa 3800 kílómetra á átta dögum og það var bara mjög gaman að því. Planið sem ég skrifaði um hélst nokkurnvegin, nema við fórum ekki í rússíbanagarðinn og ég fór ekki til Mexíkó. Á meðan hinir fóru til Mexíkó varð ég eftir í San Diego og hlaut höfðinglegar móttökur hjá Nonna og Elísabetu. Það var virkilega gaman, og það væsir sko heldur betur ekki um þau í flottu íbúðinni sinni í flotta hverfinu. :)

Það stærsta sem gerðist í ferðinni frá mínu sjónarhorni séð var að ég brann. Og ég brann ekkert æh-mig-svíður-svo-ég-verð-að-fá-mér-smá-after-sun. Ég brann æh-hvenær-ætlar-hjartslátturinn-í-andlitinu-á-mér-og-bólgan-og-blöðrurnar-að-fara?! Það var ekki skemmtilegt. Ég var svo rauður að ég var sjálflýsandi. Ég var líka veikur heilan dag á eftir og var alla ferðina og rúmlega það að ná mér eftir þetta í andlitinu og á fótunum. Ég flagnaði nokkrum húðlögum og fékk blöðrur á fæturna og svona skemmtilegheit. Úff, ég óska engum að lenda í svona.

***

En ég komst heim heill á húfi, og í fang Óskarinnar minnar. Síðan ég kom heim hef ég brallað ýmislegt. Ég hef að sjálfsögðu eytt öllum þeim tíma sem ég get með Óskinni minni. Við erum búin að vera saman í hálft ár núna í byrjun júní! Til hamingju með hálfs árs afmælið ástin mín. :*

Ég hef líka farið oft í sund og bíó og svona hluti sem eru lítt merkilegir að segja frá. Þannig að ég hefði kannski átt að sleppa því. Ég og Ósk fórum í Evróvisjón-útskriftar-partý hjá Pálu og Gulla sem var virkilega gaman. Við fórum líka í útilegu um síðustu helgi. Kíktum í Þjórsárdal og skemmtum okkur konunglega (þrátt fyrir klósettleysi). Við vorum þar fimmtán saman komin og helgin var mjög vel heppnuð. Alveg útaf fyrir okkur á ótrúlega fallegum stað í mjög fínu veðri. Gerist ekki betra.

Ég bloggaði örlítið um það að ég væri kannski að fá vinnu. Ég fékk semsagt vinnu hjá Víkurfréttum og er búinn að vera þar í þrjár vikur. Það er búið að vera virkilega fínt og ég er óðum að komast inní hlutina. Ég er svona allt-muligt maður hjá þeim, er bæði með blaðamönnunum og hönnunardeildinni. Þannig að ef ég ætti að telja upp það sem ég hef verið að gera þá myndi það hljóma einhvern vegin svona; taka upp vídjó, klippa vídjó, taka ljósmyndir, taka viðtöl, skrifa greinar á netið, skrifa greinar í blaðið, hanna auglýsingar í blaðið, vinna ljósmyndir fyrir blaðið, vinna ljósmyndir fyrir netið, hann flash borða fyrir netið... Þetta er ekki tæmandi listi. Það besta er að þetta er akkúrat það sem ég hef verið að læra og hef áhuga á! Og það hentaði líka ágætlega að ég byrjaði hjá þeim núna í þrjár vikur og lærði inná hlutina, og kæmi svo aftur af fullum krafti í júlí eftir Danmerkurför mína. Kannski er eitthvað til í því þegar fólk segir að ég sé heppinn. Ég tók þátt í Stóra-HM leiknum í dag. Það er aldrei að vita nema ég sé á leiðinni á úrslitaleikinn í Þýskalandi í júlí... ef heppnin er með mér. :)


Framhaldið

Sumarið er rétt að byrja. Á mánudaginn þá fer ég til Kolding til að klára skólann minn. Ég tek próf á miðvikudaginn og útskriftarathöfnin er á föstudaginn. Það veður gaman að kíkja til Kolding enda átti maður nú heima þarna í eitt og hálft ár. Sú tilfinning að maður eigi heima þarna er samt alveg horfin. Núna er maður bara rétt að heimsækja og er svo farinn. Eftir þá viku fer ég svo til Jóa í Horsens. Þar verður sötraður bjór og horft á heimsmeistarakeppnina. Ég er ekki enn búinn að gera upp við mig með hvaða liði ég held. Það hlýtur að koma til mín í draumi fljótlega.

Svo er komið að Hróarskeldu. Eftir fyrsta skiptið mitt á Hróarskeldu sagði ég við sjálfan mig og hvern sem vildi hlusta að ég myndi fara á hátíðina næstu tíu ár þar á eftir. Þetta er fjórða árið mitt í röð. Þetta er nefnilega ansi skemmtilegt, og hátíðin í ár verður engin undantekning. Fullt af góðum böndum, góð stemmning og ef guð lofar, gott veður. Það skyggir samt mikið á að Óskin mín kemst ekki með mér. Það er ótrúlega súrt, en hún kemur með mér næst vona ég.

Svo er ég búinn að sækja um skóla í Kaupmannahöfn og kemst að öllum líkindum inn því þetta er áframhald á náminu mínu og þeir segjast taka við öllum sem eru búnir með þennan grunn. Þá þarf maður að fara í íbúðaleit og svoleiðis vesen. Hver veit nema Ósk komi með mér út, ég verð að halda í þá von. Ég held það sé pínu augljóst hvar hugur minn liggur í dag sem aðra daga.

Ég held að þetta sé komið nóg í bili. Ég ætla að sleppa því að byggja skip, þetta var nóg. :)

***

Nú er kominn nýr dagur og ég er mættur í vinnuna. Þeir hjá Blogger.com eru búnir að fyrirgefa mér og ákváðu að setja síðuna upp aftur þannig að færslan fékk að fara á netið. Til hamingju ef þú náðir að lesa hana alla. Verið góð við hvort annað, og í guðanna bænum, notið sólarvörn.

Magginn.

mánudagur, maí 29, 2006

halló

maggi er á lífi!
kveðja,ósk.

föstudagur, maí 19, 2006

Heppinn

Á morgun fæ ég að vita hvort ég hafi fengið vinnu...

Maggi.

föstudagur, maí 05, 2006

Voðalega er langt síðan ég hef bloggað....

...ég verð að fara að gera eitthvað í þessu.
Maggi.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Kominn og farinn

Páskarnir eru komnir og farnir. Biggi er kominn og farinn. Og San Francisco er komin og farin! Þetta er nú kannski ekki alveg satt því Biggi fer ekki fyrr en í fyrramálið, og ég kem ekki heim fyrr en eftir tíu daga.

Biggi kom í heimsókn til okkar hérna í San Fran og það var að sjálfsögðu hörku stemmning að fá hann á svæðið. Við vorum algjörir túristar og rifjuðum upp gamla tíma frá í heimsreisunni. Við fórum í siglingu um flóann, sigldum undir Golden Gate brúnna og sáum Alcatraz. Við versluðum ansi mikið. Fórum í rússíbanagarð sem heitir Six Flags Marine World. Við kíktum uppá Twin Peaks og sáum geggjað útsýni yfir borgina þaðan. Við borðuðum góðan mat. Við borðuðum páskaegg. Við fórum á djammið að hætti San Francisco-búa. Við horfðum á bíómyndir á risaskjá. Og við gerðum miklu fleira.

Ég held að ég geti með sanni sagt að rússíbanarnir hafi staðið uppúr. Þeir voru algjör snilld! Algjör über schnilld. Við Biggi höfðum hvorugir prófað alvöru stóran rússíbana áður, bara eitthvað tré-rusl á Spáni, þannig að við vorum ansi spenntir. Við fórum í fjóra stóra rússíbana og fleiri lítil tæki, og við sáum höfrungasýningu og hvalasýningu og fleira. Og við fórum akkúrat á deginum þegar veðrið var sem best! Þetta hefði ekki getað verið betra. Á tímabili var eins og maður væri aftur orðinn tíu ára og mættur í Tívolíið í Hveragerði. Good times.

Ég kem heim til Íslands þann 28. apríl. Þangað til verð ég hins vegar ekki heima hjá mér í San Francisco heldur á flakki um vesturströndina. Við erum nefnilega að fara sjö saman í road-trip að hætti kanans. Við byrjum á að fara til Los Angeles (aldrei að vita nema við förum í annan rússíbanagarð enda komust ekki allir með síðast), svo keyrum við niður til San Diego (eða Sandy Ego eins og Nonni vill kalla borgina sína) og röltum kannski líka yfir landamærin til Mexíkó, svona til að geta sagst hafa komið þangað. Eftir það er stuttur spölur í Grand Canyon (ekki nema eins dags keyrsla eða svo) og eftir Miklagljúfrið förum við til Las Vegas á tækniráðstefnuna N.A.B. Þegar hún er búin keyrum við svo aftur til San Fran og fljúgum svo heim daginn eftir. Hviss bamm búmm! Þrjú þúsund kílómetrar takk fyrir. Fyrir utan ferðina til Íslands, hún er eitthvað meira held ég. :) Bless í bili.
Maggi.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

The Rock

Á laugardaginn fórum við í skoðunarferð í Alcatraz fangelsið. Það var gaman að skoða hvernig menn höfðu það þarna, og nóg var af góðum myndatækifærum. Að öðru leyti var þetta ekki ýkja spennandi þótt auðvitað sé gaman að geta sagst hafa komið þangað. Þetta var liður af Study-Trip sem skólinn stendur fyrir og það er gríðar góð þátttaka í henni, tveir kennarar og jafn margir Húsvíkingar. Þá er það upp talið. En við sem erum hér í SF reynum að taka þátt í þessari lærdómsferð þeirra eins og við getum.


The Rock.


Ekki var nú rúmt um þá Capone og félaga.



Um kvöldið eftir ferðina í fangelsið fórum við á þrusu sjávarréttastað og ég fékk mér fáránlega góðan rækjurétt (en ekki hvað!) og feitasta eftirrétt í manna minnum. Ég rúllaði útaf staðnum. Við skulum ekki einu sinni minnast á skjaldbökuna. Við ákváðum svo að kíkja á bar um kvöldið fyrst Húsvíkingarnir voru í heimsókn og það var fínasta skemmtun. Enn betri skemmtun var þó biðin eftir strætó á leiðinni á barinn. Ég, Birna og Kolla biðum í 78 mínútur eftir stætó og tókst að stúta allmörgum hvítvínsflöskum á þeim tíma til að stytta okkur stundir. Hér eru örfáar myndir af barnum.



Búnda orðin blörrí af hvítvíninu.



Aggi Húsvíkingur, Camilla og ég.



Trine (NoMA kennari) og Kolla.



Heimir, Aggi og Camilla.



Í dag (mánudag) fórum við svo í MoMA (nýlistasafnið) hér í SF, og var það alveg ágætt. Það mátti ekki taka myndir inni á sýningunum, en ég smellti nokkrum af í andyrinu.



Sýningin var vel auglýst.



SF MoMA.



Jæja, þá er komið nóg af þessari stuttu myndasýningu. Eins og þið sjáið þá nennti ég ekki að setja þetta upp í síðu! Svona getur maður nú verið latur. :) Vonandi hafiði það öll gott á Fróni. Það styttist í að ég kíki í vorblíðuna með ykkur, bara 25 dagar þangað til. :p
Maggi.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Blogga segiði...

Ég er hress að vanda, þótt lítið hafi verið um blogg hjá mér undanfarið. Ástæða? Hmmm... ég veit barasta ekki. Lífið er gott hér í San Francisco, en dvölin okkar fer sko heldur betur að styttast í annan endann. Það er akkúrat mánuður eftir! Tveir þriðju búnir, og maður er næstum kominn heim aftur. Það verður gott að koma heim þótt ég viti líka að ég eigi eftir að sakna San Francisco, þetta er frábær borg.

Við hér í Area 51 (eins og við köllum íbúðina okkar) héldum partý síðasta laugardag. Við buðum öllum NoMA-lingunum að sjálfsögðu, og slatta af fólki sem við höfum kynnst hérna í SF. Þetta varð hörku partý og mikil gleði. Hún var meira að segja aðeins of mikil, og það lýsti sér í töluvert minni gleði daginn eftir. En maður var nú ekki lengi að komast yfir það.

Fólkið fer að týnast heim næstu vikurnar. Paw og Rasmus, dönsku sambýlingarnir okkar, fara fyrstir manna núna á fimmtudaginn. Svo fara Íslendingarnir að fara einn af öðrum, en við sem ætlum á ráðstefnuna í lok apríl förum síðust heim. Biggi ætlar að kíkja í heimsókn í apríl og því ætla ég lítið að vinna yfir páskana þegar hann verður í heimsókn. Það er líka allt í lagi því tæknilega séð er starfsnámið að enda núna í mars. Það verður gaman að rifja upp túrista-taktana okkar Bigga frá því í heimsreisunni fyrir tveimur árum. Vá það eru heil tvö ár síðan. Mikið líður tíminn hratt.

"Til hamingju Ósk með að hafa unnið keppnina í brúarsmíði!" Ég er rosalega stoltur af kærustunni minni. Hún og Máni vinur hennar rústuðu keppninni og kennararnir höfðu aldrei séð svona háan stuðul, þ.e. að svona létt brú hafi þolað svona mikinn þunga. Ekkert smá gaman að eiga svona klára kærustu. ;)

En já allt gott að frétta. Leiðinlegt veður samt. Kuldinn fór, en við tók rigning. Hvað á það að þýða að skella á okkur leiðinlegasta vetri í manna minnum? Við erum í Californiu, það á að vera sól og hiti alla daga. Það er eins gott að apríl verði skárri svo maður hafi nú eitthvað til að monta sig af. :) En nóg af mér, hvað segið þið gott?
Maggi.

sunnudagur, mars 19, 2006

Ocean Beach

Í dag fór ég í göngutúr á ströndinni með iPoddinn minn, myndavélina, linsurnar mínar (bæði í augunum og á myndavélinni), og góða skapið að vopni. Ég tók tæplega 400 myndir og leyfi ykkur að sjá einhvern slatta af þeim. Þær er að finna hérna.

Í gær gerðum við smá tilraun í stúdíóinu. Það var mjög áhugavert.
Maggi.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Göngutúr

Eftir vinnu hjá Elastic í dag rölti ég um miðbæinn þegar sólin var að setjast og tók nokkrar myndir. Þegar ég kom heim fiktaði ég aðeins með nokkrar þeirra í Photoshop. Ég setti þær á netið, enn engir þumlar, og meira að segja mun stærri myndir. Þið sem eruð með hægar nettengingar verðið bara að vera þolinmóð. :) Myndirnar eru hérna.
M.

mánudagur, mars 13, 2006

Myndir, myndir, myndir!

Já, það er kominn tími á fleiri myndir. Í gær héldu David og Tom vinur hans saman uppá afmælin sín. Ég var með myndavélina á lofti og setti inn nokkrar myndir til að leyfa ykkur að vera með! :) Þær eru hér.
Maggi.

laugardagur, mars 11, 2006

Fleiri myndir!

Dagurinn í dag var nú ekki merkilegur en ég hélt áfram að leika mér með myndavélina mína og er að komast uppá lagið með stillingarnar á uppáhalds linsunni minni. Á meðan ég nenni og hef gaman að þá held ég áfram að henda inn myndum hérna á bloggið mitt. Þannig að hérna er næsti skammtur!
Maggi.

föstudagur, mars 10, 2006

Langþráð...

Eins og glöggir lesendur bloggsins míns þá hef ég ekki verið mjög duglegur að setja inn myndir sem ég hef tekið. Ein helsta ástæða þess er að ég týndi myndavélinni minni í apríl sl. Ég hef síðan þá leitað að verðugum arftaka Canon PowerShot G5 vélarinnar minnar og það var ekki fyrr en núna á mánudaginn sem ég fjárfesti loksins í nýrri myndavél. Hún heitir því mikilfenglega nafni Pentax *ist DL (nei ég veit ekki heldur hvað stjarnan þýðir) og er stafræn SLR vél, sú minnsta sinnar tegundar. Hún er líka frekar ódýr miðað við Canon vélar, en í mjög svipuðum gæðaflokki. Margir telja Pentax linsurnar meira að segja vera þær bestu á markaðnum. Ég hef undanfarna daga verið að leika mér að taka myndir og er mjög sáttur með arfta heittelskuðu G5 vélarinnar minnar.

Strax á mánudaginn, sama dag og ég keypti vélina, fann ég notað flass á netinu og ferðaðist langan spöl í lest (tæpan klukkutíma) í austur til að sækja það. Á þriðjudaginn fann ég svo ágæta linsu á eBay og pantaði hana og fæ hana eftir nokkra daga vonandi. Í gær (miðvikudag) fann ég svo linsu á netinu hjá manni sem á heima frekar langt frá borginni, en ég ákvað að skella mér, norður í þetta sinn, og kaupa af honum linsuna. Þegar ég kom þangað eftir rúma klukkutíma rútuferð þá var hann með þrjár linsur sem hann seldi mér fyrir spottprís. Það kom á daginn að ein þeirra var Canon, en það gerir lítið til, ég sel hana bara aftur og fæ eflaust hærra verð fyrir. Í dag keypti ég svo adaptor fyrir linsurnar mínar nýju því þær eru svo gamlar og með öðruvísi festingar en myndavélin mín getur tekið við. Þessi adaptor sem ég keypti þrusuvirkar og ég er búinn að vera að leika mér í dag og prófa mig áfram. Ein linsan sem ég keypti er strax komin í uppáhald. Hún er mjög góð í litlu ljósi, og getur líka tekið myndir með mjög litlu fókus svæði. En eigum við ekki að leyfa myndunum að tala? Hérna eru myndir frá síðustu dögum.
Magnús.

laugardagur, mars 04, 2006

Aaaand... Action!

Á morgun (lau) fer ég á tökustað auglýsingar til að hjálpa til. Shane, gaur sem vinnur hjá Elastic, bauð mér að koma og hjálpa til fyrir 50 dollara. Ég þáði það að sjálfsögðu, ekki fyrir peninginn, heldur að fá að fylgjast með og sjá hvernig svona production gengur fyrir sig. Þetta er auglýsing fyrir einhverja tösku fyrir krakka sem lítur út eins og bíll (eða það held ég amk, eitthvað álíka). Það verða ss krakkar í aðalhlutverkum í þessari auglýsingu. Annars veit ég mest lítið um hvernig þetta verður. Ég segi betur frá þegar þetta er búið. En það er gaman að fá tækifæri til að fylgjast með alvöru upptökum, sama hvað er verið að taka upp.

Það er allt fínt að frétta fyrir utan smá veikindi. Hálsinn á mér sem ég hélt að væri búinn að lagast tók uppá því að versna aftur, þannig að ég er búinn að hanga heima í mestallan dag til að laga þessa hálsbólgu svo ég komist í tökuna á morgun. Veðrið þessa vikuna er búið að vera frekar leiðinlegt eins og spáð hafði verið. Maður bíður spenntur eftir vorinu, en það er vonandi handan við hornið hérna hjá okkur í Californíu. Þið bíðið með vorið heima á Íslandi þar til ég kem heim í lok apríl. Það eru reyndar ekki nema tæpar átta vikur þangað til! Ótrúlegt að ég sé búinn að vera hérna úti í fimm vikur nú þegar. Mikið verður nú gott að komast heim. Hugurinn leitar þangað oft á dag. Af hverju er aldrei hægt að gera allt sem mann langar til í einu? Bless bless, og ekkert kex.
Maggi.

mánudagur, febrúar 27, 2006

Undraland

Það er margt skrítið í kýrhausnum, og það er líka margt skrítið í San Francisco. Þetta var partýhelgi, og partýin voru hvert öðru skrítnara. Á föstudaginn fór David með okkur í partý á skemmtistað, og þemað var space-dót. Til dæmis Star-Trek og Star Wars og bara allt skrítið dót úr geimnum. Sumir tóku þemað mjög alvarlega og voru í svaka búningum. Ég lét mér nægja að líma þriðja augað á mig. Lára setti inn slatta af myndum frá partýinu og þær segja meira en þúsund orð.

Í gærkvöldi (lau) ákváðum við svo að kíkja í partý sem við vissum lítið sem ekkert um með kunningja Camillu sem hún kynntist á netinu. Þetta var einkapartý og við vissum að þemað þar var Lísa í Undralandi, en við nenntum ekki að standa í neinu búningaveseni svona á síðustu stundu. Þegar við komum þangað þá kom í ljós að það var jafnvel enn ýktara en partýið frá kvöldinu áður! Þetta var Te-partý, og það voru einhver hamingju-aukandi lyf í te-inu, þannig að við héldum okkur frá því. Partýið var haldið í skuggalegu vöruhúsahverfi hérna í borginni og allt umhverfið var virkilega spúkí og eins og klippt útúr bíómynd. Til að komast inní partýið þurfti maður að skríða innum pínulitla hurð (eins og í Lísu í Undralandi) og það var búið að skreyta þvílíkt mikið og gera allt flott fyrir partýið. Það var svaka hljóðkerfi og dansgólf, frír bjór og allt til allt til að halda gott partý! Enda var hörku gaman innan um allt skrítna fólkið. Við hittum stelpu sem var búin að láta kljúfa á sér tunguna og gat hreyft hlutana tvo í sitthvora áttina. Því miður er hún ekki með tunguna útúr sér á þessari mynd. Þarna var líka fullt af "semi-frægu" fólki, t.d. gaurinn sem bjó til Mozilla vafrann og fleiri hörku forritarar og þannig fólk sem nördum þykir kannski áhugavert að rekast á. Við vorum bara heppinn að álpast inní svona elítu-partý. Við spjölluðum við einn af plötusnúðunum og honum þótti auðvitað geðveikt kúl að við værum frá Íslandi. Hann gaf mér geisladisk með einhverju setti sem hann spilaði, ég veit ekki alveg af hverju, ekki er ég að fara að ráða hann hehehe. Lára setti inn myndir af þessu partý líka. Það verður seint sagt að við sitjum aðgerðarlaus hér í þessari mögnuðu borg.

Annars er allt gott að frétta af mér. Hálsbólgan sem ég nældi mér í um daginn er á undanhaldi en veðurspáin er hundleiðinleg fyrir vikuna. Hitinn á daginn á að fara undir tíu stig og nálægt frostmarki á nóttunni! Þetta er nú ekki eitthvað sem maður bjóst við þegar maður ákvað að flytja til Californiu. En við erum Norður Evrópubúar og látum þetta ekkert á okkur fá. Gleðilegan Bolludag, Sprengidag og Öskudag! Syngið Fyrr var oft í koti kátt einu sinni fyrir mig. Kveðja frá Undralandi,
M.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

"Good Afternon, Elastic Creative. How May I Direct Your Call?"

Já það er ýmislegt sem maður lendir í um ævina. Þessa stundina líður mér eins og ritara hjá stóru amerísku fyrirtæki. Reyndar er raunin sú að ég er bara nemi hjá frekar litlu fyrirtæki, og hvorugt þeirra sem á að svara í símana eru við þannig að ég þarf að svara. "Drew is out at lunch. May I Direct you to his voicemail?"

Ég er semsagt byrjaður að "vinna" hjá hinu fyrirtækinu í starfsnáminu mínu, Elastic Creative. Ég er hérna tvisvar í viku, miðvikudaga og annað hvort þriðjudaga eða fimmtudaga eftir því hvenær þau þarfnast hjálpar minnar meira. Voandni fæ ég einhver skemmtileg verkefni hérna fljótlega, hingað til hef ég aðallega verið í skítverkunum, hella uppá kaffi og taka til og þannig lagað. Samt fínt að komast eitthvert annað af og til og prófa eitthvað nýtt. Það gengur mjög vel hjá okkur í MediaPosse. Við erum búin að taka upp nokkra stutta sjónvarpsþætti til að æfa okkur á því. Ég var gestur í tveimur þeirra og þáttastjórnandi í einum, þannig að ég er orðin sjónvarpsstjarna! Þetta er reyndar ekki til sýnis neinstaðar eins og er og það stendur ekki til held ég. En ég er amk búinn að losna við bróðurpartinn af myndavélafælni minni sem er ágætt.

Ég hef nú ekki verið mjög iðinn við að blogga þannig að það er frá nógu að segja. Hmmm... á hverju ætti ég að byrja. Heimilið okkar stækkar með hverri vikunni, núna erum við orðin sjö! Chistoffer frá Danmörku ætlar að gista hjá okkur þar til hann finnur sér stað til að búa á. Hann var í starfsnámi hér hjá David í fyrra og var einmitt líka hjá Elastic Creative. Þeim leist svo vel á hann að þeir eru búnir að ráða hann í vinnu! Þannig að hann er fluttur hingað út og ætlar að vinna hjá Elastic í þónokkurn tíma (amk 18 mánuði held ég). Heimilið okkar er farið að líkjast alvöru heimili, við erum komin með sjónvarp (sem ég keypti á 1500 kall íslenskar!), borðstofuborð sem er reyndar þythokkíborð (næstum eins og í Friends), ég er kominn með rúm, hillur, skrifborð og stól inní herbergi til mín, þannig að þetta er allt farið að taka á sig mynd.

Um daginn fórum ég, Camilla og Lára til Santa Cruz með Mauru, vinkonu Camillu sem býr í Palo Alto. Santa Cruz er í tæpra 2ja tíma fjarlægð frá SF, en við tókum lestina til Palo Alto og keyrðum restinna af leiðinni með Mauru. (Það er skrítið að skrifa Mauru. Hún heitir Maura, borið fram Moira.) Þar fórum við á "The Boardwalk", ekta lítinn amerískan skemmtigarð við ströndina. Við fórum í rússíbana, löbbuðum á ströndinni, ég fékk mér Corn-Dog (mjög gott by the way) og við skoðuðum mannlífið. Virkilega gaman að sjá þetta allt og manni leið eins og í amerískri bíómynd. Eftir þetta röltum við um miðbæinn sem var mjög afslappaður og fínn. Ég keypti mér geðveikt flotta Vans skó (æ nó, æ nó, mér finnst gaman að versla skó, voða fyndið, en í þetta skiptið vantaði mig skó) og við fórum á súrefnis-bar sem ég hef aldrei prófað áður. Ég fann varla fyrir neinu þótt það væri eitthvað meira súrefni en vanalega sem ég andaði að mér, en ég get amk sagt að ég hafi prófað súrefnis-bar.

Ég er búinn að vera á leiðinni í bíó núna ansi lengi. Það er ótrúlega langt síðan ég hef farið og mér finnst við ekki hafa gert neitt "venjulegt" hér í borginni. Bara verið að túristast eða hangið heima (þó aðallega verið að vinna). Við fórum reyndar um daginn í Stonestown Mall, sem er soldið langt í burtu. Það var fínt, við fengum okkur Haagen-Daas ís og röltum um í frekar dýrum og flottum verslunum. Annars er svo margt sem mig langar að prófa sem ég á eftir. Við eigum heima rétt hjá Golden Gate Park, sem er risastor garður með allskonar áhugaverðum hlutum (eflaust) en ég hef ekkert kíkt í hann. Eina helgina fljótlega ætlum við svo að leigja bíl og fara til Los Angeles, og kannski stoppa í Six Flags í leiðinni sem er svaka rússíbanagarður. Það verður ekki leiðinlegt.

Ég er að spá í að kaupa mér myndavél sem fyrst (fyrir þá sem hafa áhuga á slíkum hlutum). Ég fann eina góða sem heitir Panasonic FZ30 og ég held að hún henti mér vel. Þetta er samt alltaf mikill hausverkur, því ég get ekki ákveðið hvort mig langar í litla vél se ég get alltaf verið með eða hlunk sem tekur betri myndir. Og hvort sem ég ákveð þá þarf ég að ákveða hversu dýra vél ég fæ mér, hvort ég fari í SLR vél eða eitthvað lakara. Þessi sem ég er að spá í er lík SLR vélunum að mörgu leyti en er ódýrari, og hefur líka kosti umfram þær vélar að mínu mati. Þar ber hæst manual 12x Zoom og snúnings-skjár sem ég er alveg orðinn háður eftir að hafa átt G5 véina.

Það er búið að vera frekar kalt í SF undanfarið, og þá aðallega inní herberginu mínu! Úff hvað það getur verið hrikalega kalt. Það er engin kyndng og það blæs í gegnum gluggana. Hitinn úti fer stundum nálægt frostmarki á nóttunni og þar af leiðandi er ég kominn með hálsbólgu að anda að mér svona köldu lofti á nóttunni. Paw og Rasmus keyptu sér rafmagnsofn til að hita upp sitt herbergi og ég held ég þurfi að fjárfesta í einum slíkum. Það er ekki bara sól og blíða þótt maður eigi heima í Californiu! :) Bið að heilsa ykkur heima á klakanum. Vonandi er ekki svona kalt heima hjá ykkur.
Maggi.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Það sem ég sakna frá Íslandi...

Já það er ýmislegt sem maður saknar þegar maður er ekki á Íslandi. Bragðarefur, Draumur, kúlusúkk, og bara allt íslenskt sælgæti, rúnturinn, rúmið mitt, koddinn minn, bíllinn, djammið, íslenskan... eru dæmi um hluti sem ég sakna ekki neitt. Ég sakna fjölskyldu og vina. En umfram allt sakna ég Óskar. Hún er yndisleg. Hún er ástæðan fyrir því að ég get ekki beðið eftir að komast heim aftur.

Það er allt gott að frétta af mér. Nóg að gerast, nóg að segja frá. Aldrei að vita nema ég skrifi eitthvað um það fljótlega. :)

Kær kveðja frá köldu San Francisco.
Maggi.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Klukk(u) mismunur

Vikan hjá MediaPosse hefur farið í að klára að setja upp stúdíóið og að testa allt sem testa þarf áður en hægt verður að taka upp eitthvað af viti. Það byrjar allt í næstu viku. Veðrið hefur verið með besta móti, betra en það er vanalega á þessum árstíma. Það er fínt þótt maður geti nú lítið notið þess. Maður kíkir aðeins út þegar það er pása og svona, fer í hakkí sakk og borðar hádegismat frá einhverjum af ótrúlegum fjölda veitingastaða sem eru í nágrenninu.

Ég og Camilla lentum í smá ævintýri í gærdag. Það fór einhver gaur að tala við okkur og hafði rosalegan áhuga á okkur því við vorum frá Norðurlöndunum og hann var einmitt að fara að túra þar með hljómsveitinni sinni eftir tvær vikur. Hann var á leiðnni á tónleika hér í SF það sama kvöld með Metallica, REM, Green Day og nokkrum fleirum af stærstu nöfnum í bransanum og hann ætlaði að bjóða okkur með sér! Þessi gaur leit ekki út fyrir að vera í neinni hljómsveit, hann var frekar gamall (örugglega vel yfir sextugt) og í frekar skítugum fötum. Við Camilla ákváðum að rölta með honum því hann var á leiðnni að ná í miða á tónleikana. Ég varð bara að heyra meira af þessari sögu hans. Hann talaði allan tímann á leiðinni á hótelið þar sem hann ætlaði að kaupa miðana, og vissi reyndar ýmislegt um tónlist og um Norðurlöndin, til dæmis Hróarskeldu. Svo gekk hann með okkur inná fínt hótel og að tíkallasímum þar inni, þar sem hann hringdi í umboðsmann sinn til að láta vita að við ætluðum með honum á tónleikana. Svo kom að því. Hann vildi fá pening fyrir miðunum.

Ég var búinn að pikka í Camillu á meðan hann var í símanum og segja henni að "við værum ekki með neinn pening". Það var það sem við sögðum honum, þótt við værum bæði með nægan pening. Hann vildi bara fá 10 dollara frá hvoru okkar og hann gat ekki lánað okkur fram á kvöldið þegar tónleikarnir byrjuðu því unnusta hans var með kreditkortið hans og var að versla. Ég vissi allan tímann að þetta væri svikahrappur en ég dáðist að því hvað hann nennti að hafa mikið fyrir því að ná af okkur 20 dollurum. Við skildum því við hann og "ætluðum að sækja pening". Til að fullkomna söguna þá röltum við Camilla að gatnamótunum þar sem tónleikarnir áttu að vera á en fundum ekki staðinn. Þar var reyndar gamalt hús í niðurníslu sem var líklega tónleika hús fyrir ansi mörgum árum. Það hefði ekki verið leiðinlegt að fara á tónleika með öllum stærstu rokkböndum heimsins í einu! En sumt er of gott til að vera satt, og þetta var gott dæmi um það. Ég býst ekki við að einhver nái að svíkja útúr mér pening aftur eftir mögnuðustu svik sem ég veit um, sem ég og Biggi lentum í útí Thaílandi sælla minninga. Það er reyndar bara góð saga eftirá, og við fengum flott jakkaföt útúr því. Kannski rifja ég þá sögu upp seinna.

En já, ég var víst klukkaður! Þannig að hér kemur listi yfir fjóra hluti af allskonar dóti. Veij! Enjoy! :)

4 störf sem ég hef unnið yfir ævina:
Kjötvinnsla (ilmur af hráu kjöti í fötunum manns)
Hellulagnir (sandur útum allllt)
Hlaðdeildin (á hnjánum að henda 50. kg töskum / vefja heyrnartól)
Nýjasta djobbið, vídjóvinnsla hjá MediaPosse í San Francisco! :D

4 bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:
Being John Malcovich
Igby Goes Down
Lost In Translation
Kill Bill

4 staðir sem ég hef búið á:
Ísland (Ísafjörður, Akureyri, Keflavík)
Danmörk (Kolding)
USA (San Francisco)


4 sjónvarpsþættir sem eru í uppáhaldi:
Malcolm In The Middle
My Name Is Earl
Lost
Prison Break

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Hmm.... bara fjórir?
Thaíland
Ástralía
Brasilía
Kambódía

4 heimasíður sem ég skoða daglega:
Gmail.com
Óskí :)
Bebba og Hjölli
maggi.tk :p

4 máltíðir sem ég held upp á:
Bananakaka
Bananakaka
Bananakaka
Lasagna (helst frá Familien Dafgård í DK)

4 bækur sem ég les oft:
Catcher In The Rye
(hef engar aðrar bækur lesið oft)

4 staðir sem ég myndi vilja vera á núna:
hvar sem er með ósk
uppí bústað hjá ömmu og afa
Bora Bora
Koh Phi Phi

4 manneskjur sem ég ætla að klukka:
Einar þessi
Einar hinn
Jobu Kretz
Jói Bjarni Bjarna

Góðar stundir!

Maggi.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Hólar og hæðir

San Francisco er mögnuð borg að mörgu leyti. Hún er falleg, húsin eru litrík, skrítnar og skemmtilegar verslanir, mikið af almenningsgörðum, brekkur útum allt (sumar snarbrattar), og allskonar fólk sem gerir það sem það vill án þess að vera dæmt. Svo er fólk líka bara svo almennilegt og kurteist hvar sem maður kemur. Borgin hefur þó sína galla, því öll hverfin eru ekki góð og sumstaðar mikið um glæpi og eiturlyf. Maður heldur sig frá þeim stöðum. Heimilislausir eru líka ótrúlega margir um alla borg og betla stöðugt. Biðja um mat eða smápeninga. Maður verður bara að leiða það hjá sér þótt það geti verið mjög erfitt.

Helgin var góð. Við fengum fólk í heimsókn á laugardagskvöldið, aðallega til að monta okkur af íbúðinni okkar en hún er orðin rosalega fín eftir að við tókum eldhúsið í gegn. Það er allt annað að sjá það núna eftir að við máluðum og settum upp veggfóður og spónarplötur þar sem við átti. Það er mjög flott eins og má sjá á myndum á blogginu hjá bæði Láru og Camillu. Sjálfur á ég engar myndir enda á ég ekki myndavél. Ég verð að fara að gera eitthvað í því. En já ég var að segja frá laugardagskvöldinu. Við kíktum aðeins út eftir að fólkið hafði verið hér að sötra bjór, en það varð nú ekki neitt úr neinu djammi því við vissum ekki nákvæmlega hvert förinni var heitið. Við röltum þó Broadway (jább, ekki bara í New York) og sáum mikið af áhugaverðu fólki. Þrátt fyrir að margir í borginni geri það sem þeim sýnist þá er greinilega nóg af fólki sem er að rembast við að reyna að vera eitthvað sem það er ekki. Allir sem voru á djamminu á Broadway voru rosalega feik og greinilega að reyna að líkjast einhverjum öðrum, flestir með lélegum árangri.

Í dag hittumst við svo í hádeginu hjá David og hann fór yfir hvað við munum vera að gera. Aðal hlutverk mitt er animation, sem ég er mjög sáttur við og hlakka til að takast á við. Svo byrja ég tvo daga í viku hjá Elastic Creative um miðjan mánuðinn. Eftir þetta spjall fórum ég, Haukur og Starri í göngutúr, kíktum í Buena Vista Park og fengum ágætt útsýni yfir borgina. Gengum líka í gegnum Castro hverfið sem er samkynhneigðasta hverfi í heiminum. Það er alveg magnað að sjá hvað það er gay, allt í kringum mann er alveg æpandi samkynhneigt. Svo fórum við aftur til Davids og horfðum á Superbowl sem var nú bara skemmtilegra en ég bjóst við. Þetta var fjörugur leikur og gaman að horfa þótt ég kunni ekki reglurnar nema að litlum hluta. Á morgun byrjar svo alvaran. Mæting klukkan níu og við hefjum formlega starfsnámið okkar. Það verður bara gaman og ég er viss um að þessi tími verður ótrúlega fljótur að líða.

Ef ykkur langar að sjá hvar ég á heima þá getiði skoðað það á Goggle, hérna. Húsið heitir 1251 7th Avenue, og við erum búin að skýra það Area 51 (því númerið endar á 51, voða sniðugt). :p Kær kveðja frá sunny San Francsico.
Maggi.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Moving day

Í gær hjálpuðum við David að flytja allt tæknidótið hans úr íbúðinni hans og niðrí sjónvarpsstúdíó sem hann er nýbyrjaður að leigja. Það var mikið verk, mikið drasl, og svo þurfti líka að þrífa og skipuleggja niðrí stúdíói. En þetta var líka bara gaman. Nóg af skemmtilegu fólki og allir duglegir við að taka til hendinni. Því miður þýddi þetta samt að við gerðum ekkert í íbúðinni okkar í dag. Eldhúsið er ennþá algjörlega vanhæft í að taka við nokkrum matvælum, allt skítugt og viðbjóðslegt. Það þarf að þrífa mikið og mála þar áður en eitthvað matarkyns fær að komast þar inn.

Í dag verður gerð ferð í IKEA og eitthvað af dóti keypt fyrir heimilið. Stelpurnar ætla að sjá um það því það er ekki pláss fyrir alla í bílnum hjá vinkonu Camillu, enda stór fjölskylda á þessu heimili. Ég ætla að reyna að þrífa og mála og koma mér betur fyrir hér og jafnvel rölta aðeins um hverfið og kynnast því. Fátt leiðinlegra en að uppgötva einhverja snilld sem er rétt hjá manni þegar maður er alveg að fara að flytja burt. Vonandi leikur lífið við ykkur sem eruð heima á klakanum þrátt fyrir að handboltinn hafi ekki gengið eins og best var á kosið. Adios! :)
Maggi.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

But wait, there's more!

Kannastu við að ætla að skrifa bloggfærslu en nennir varla að byrja því það er of margt búið að gerast? Aha, þú giskaðir rétt, þetta er ein af þeim færslum. En ég ætla að láta mig hafa það. Ætli ég þurfi ekki að fara á hundavaði yfir sumt til að einhver nenni að lesa þetta. :)

Vikan mín á Íslandi var virkilega góð. Ég fór á snjóbretti í fyrsta skipti. Tókst ekki að drepa mig þrátt fyrir ítrekaðar (óviljandi) tilraunir en uppskar í staðinn nístandi harðsperrur eins og við var að búast. Annars eyddi ég mestöllum tíma mínum með betri helmingnum mínum og það var æði. Það var erfitt að fara burt. Mjög erfitt meira að segja. En þrátt fyrir að árlegum kveðjustundum hafi fjölgað með þessari heimsókn er ég mjög ánægður með að hafa komið heim.

Á sunnudaginn var fórum ég, Lárelva, Kolla, Birna, Rebekka og Gústi uppí flugvél sem skutlaði okkur til Stóra eplisins, höfuðborgar Empire fylkisins, Nýju Jórvíkur, New York, New York. Þar stoppuðum við Lárelva í tvær nætur og náðum við að sjá ansi mikið á þessum eina og hálfa sólarhring. Nánari útlistun á því má finna á bloggsíðum Láru og Elvu en hápunktarnir að mínu mati voru Empire State byggingin, og að rölta um götur borgarinnar í mannmergðinni.

Á þriðjudaginn (sem var víst í gær! ég trúi því varla að við höfum bara komið hingað í gær, fúff, margt búið að gerast) flugum við svo hingað til San Francisco. David tók á móti okkur á flugvellinum og skutlaði okkur í íbúðina okkar. Við erum mjög ánægð með hana, og hún er að flestu leyti mjög fín. Hún er riiisastór (150 m2), en hún er líka riiisa-skítug. Eldhúsið er virkilega ógeðslegt, en við erum að reyna að lappa uppá þetta. Það fylgdu engin húsgögn fyrir allt þetta rými, en við erum með skápa og bráðabirgða rúm. Dönsku strákunum sem eru hér í starfsnámi með okkur (Paw og Rasmus) vantaði húsnæði og þar sem við erum með nægt pláss þá ákváðum við að leyfa þeim að vera hérna með okkur! Þannig að núna erum við orðin sex saman í einni íbúð. Þetta var ákveðið núna rétt áðan og þeir eru fluttir inn. Núna þurfum við bara að finna okkur slatta af húsgögnum og þrífa allt vel og þá erum við í virkilega góðum málum. Íbúðin er í mjög fínu hverfi, ekki of mikið af heimilislausu fólki hér nálægt (sem er aðal plágan hér í SF, endalaust mikið af betlurum). Annars lýst mér mjög vel á borgina, hún er virkilega falleg og litrík og fólkið er mjög almennilegt.

En það gengur semsagt allt mjög vel, og ég er ánægður með hlutina hérna úti. Við byrjum að vinna fyrir alvöru á mánudaginn og það verður spennandi að sjá hvernig verkefni við munum takast á við. Næstu dagar fara í að koma sér betur fyrir í íbúðinni okkar og hjálpa David við að færa allan búnaðinn hans í nýja sjónvarps-stúdíóið sem hann er að byrja að leigja og setja allt upp. Ég skal reyna að vera duglegur að blogga en ég ætla samt ekki að lofa of mikið uppí ermina á mér! Ég er kominn með símanúmer hér úti og það er +1 415-439-3043. Hafið samt í huga að tímamismunurinn er átta klukkustundir! Þið eruð á undan mér (en ekki segja mér hvað gerist). Stelpurnar eru allar búnar að blogga betur um það sem á daga okkar hefur drifið og setja inn myndir þannig að kíkið endilega á bloggin þeirra, nenni ekki að setja inn linka. :)
Kveðja frá San Francsico,
Magnús Sveinn.

föstudagur, janúar 27, 2006

Jahá!

Ef þú vilt, þá máttu svara þessum spurningum um mig í komment kerfið! :)

1. Hver ert þú?

2. Erum við vinir?

3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?

4. Ertu hrifinn af mér?

5. Langar þig að kyssa mig?

6. Láttu mig hafa gælunafn og útskýrðu afhverju þú valdir það.

7. Lýstu mér í einu orði.

8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?

9. Lýst þér ennþá þannig á mig?

10. Hvað minnir þig á mig?

11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað hvað myndi það vera?

12. Hversu vel þekkiru mig?

13. Hvenær sástu mig síðast?

14. Hefur þig einhvern tíman langað til að segja mér eitthvað en ekki getað það?

15. Ætlaru að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?


Maggi.

föstudagur, janúar 20, 2006

Próf, flutningar og utanlandsferðir

Ætli það sé ekki kominn tími til að maður láti nú eitthvað vita af sér! Í fréttum er það helst að ég ákvað að taka Einar Frey á orðinu og fjölga árlegum kveðjustundum mínum með því að koma heim til Íslands áður en ég fer til Bandaríkjanna. Ég kem heim á morgun, laugardag, og flýg til New York átta dögum seinna, þann 29. janúar. Ég og Lárelva ætlum að stoppa tvær nætur í New York bara til að spóka okkur um og fá smá tilfinningu fyrir borginni. Svo fljúgum við beint í hasarinn í San Francisco. Þar erum við komin með ódýra 150 m2 íbúð og verðum þar fjögur saman (Camilla bætist við). Við hlökkum mikið til og þetta verður eflaust mögnuð lífsreynsla.

Ég er búinn að taka tvö munnleg próf núna í janúar, annað var hóp-próf og hitt einstaklings. Við strákarnir, The Helligkorsgade Experience featuring Bjarni, stóðum okkur eins og hetjur og fengum tíu. Við erum mjög sáttir með þá einkunn og auðvitað ótrúlega stoltir af verkefninu okkar sem var svo flott að okkur langar að trúa að kennararnir hafi aldrei séð annan eins frágang á verkefni. Svo var 48 tíma próf sem var einstaklings. Það virkaði þannig að við fengum verkefni sem við höfðum 48 klst. til að leysa, og svo tveim dögum seinna áttum við að halda kynningu á því og svara spurningum um það og námsefnið. Ég fékk ellefu fyrir þetta próf sem er hæsta einkunn sem gefin er fyrir utan þrettán sem er örsjaldan gefin í þessum skala. Þannig að ég er mjög ánægður með það. :)

Helligkorsgade 14, 1. sal, er næstum orðin tóm! Við erum að leggja lokahönd á flutningana. Snorri og Þolli búnir að fylla heilan flutningabíl og eru á leiðinni með það útí Samskip í Árósum og við Ægir og Steinunn kærasta Þolla erum að taka til og þrífa. Ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að ég bloggaði núna! Fín afsökun til að taka sér smá pásu. ;) Sjáumst á Íslandi!
Maggi.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

It's easier to leave than to be left behind

Mér finnst stundum að árlegar kveðjustundir mínar séu einum of margar. Sífellt að kveðja vini og fjölskyldu, vitandi að ég á ekki eftir að sjá fólkið mitt í langan tíma. Það getur verið erfitt, en svona er það ef maður vill halda ævintýrinu áfram.

Fríið var æðislegt, ég veit ekki hvar ég ætti að byrja þannig að ég ætla bara að láta þar við sitja. Bestar voru stundirnar þar sem minnst var gert. Alveg eins og bíómyndirnar sem eru frábærar þótt ekkert gerist, persónurnar eru aðalatriðið. Ég er heppinn að þekkja svona mikið af frábærum persónum. Og enn bætist í leikarahópinn. Sífellt verið að skrifa ný hlutverk, meira að segja ansi stór hlutverk. Það verður gaman að sjá hver framvindan verður í þessari bíómynd sem er líf mitt.
Maggi.

föstudagur, janúar 06, 2006

Tónleikaárið hefst...

Gleðilegt ár! Kannski heldur langt liðið á árið til að koma með þessa kveðju, en betra seint en aldrei. Það hefur verið nóg að gerast um hátíðirnar og ég hef greinilega ekki gefið mér tíma til að blogga. En nú styttist í að fríið verði búið og því er gott að koma sér í gírinn aftur. Ég ætla ekki að þreyta ykkur með upplistun á því hvað á daga mína hefur drifið síðan ég bloggaði síðast. Nægir að segja að jólin hafi verið góð, áramótin þrusu skemmtileg, og nýársTaður var haldinn í tilraunaskyni og fór sú tilraun upp og ofan. Held að jólaTaður sé frekar málið eins og árin tvö á undan.

En tónleikaárið 2006 er að bresta á með pompi og prakt! Í kvöld eru tónleikar í höllinni í boði Toyota þar sem Mínus, Bang Gang, Hjálmar, Brain Police, Hairdoctor og Beatmakin Troopa koma fram. Það voru gefnir miðar útum allar trissur og ég nældi mér í miða með því að hringja inná XFM.

Á morgun eru svo tónleikar gegn virkjunaframkvæmdum sem heita Ertu að verða náttúrulaus? Ég keypti miða í stúku eins og ég skrifaði hér á bloggið fyrr í mánuðinum, og ef við rifjum upp hverjir koma þar fram þá eru það Ham, Damien Rice, Lisa Hannigan, Magga Stína, Múm, Sigur Rós, Hjálmar, KK, Rass, Björk, Ghostigital, Damon Albarn, Egó auk óvæntra uppákoma. Það er aldeilis haldin góð kveðjuveisla fyrir mann ég segi ekki annað! Þetta verður svaka stuð. En það er verið að koma að sækja mig til að fara á fyrri tónleikana. Sjáumst!
Maggi.