miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Norðurbrú

Við erum búin að finna íbúð í Köben! Og gott betur en það, við ætlum að leigja hana frá og með 1. september! Vei! Íbúðin er á 11. hæð í blokk við Lundtoftegade á Nörrebro. Það er hverfi ágætlega nálægt miðbænum, Biggi reiknaði út að það væru um 3 kílómetrar niðrí bæ. Það er stutt strætó- eða hjólaferð. Hinsvegar er tæplega hálftíma lestar- eða strætóferð í skólann minn sem er í Ballerup. En það er allt í lagi, miklu betra að vera í miðbænum því við erum fjögur saman og verðum öll að gera mismunandi hluti. Biggi í skóla í Frederiksbjerg (sem er hverfið við hliðina á Nörrebro, skólinn hans er 2 km frá íbúðinni okkar) og Ósk og Arndís munu fara að vinna fyrst um sinn.


Við munum eiga heima á 11. hæð í einni af þessum blokkum

En já. Verslunarmannahelgin kom og fór. Við (ég, Ósk, Biggi og Jómbi) vorum minna á Sigló en áætlað var vegna aftakaveðurs og veikinda gestgjafa en vorum þess í stað í góðu yfirlæti í bílskúrnum hjá pabba og Möggu á Akureyri, fyrir utan Jómba sem gisti hjá vini sínum. Það var virkilega gaman hjá okkur að því undanskildu að djammið var ekki gott. Of mikið af fólki og bara einhver leiðindi. En við skemmtum okkur vel við að spila og fíflast saman alla helgina. Á mánudeginum kíktum við til Siglufjarðar, heimsóttum þar ömmu og afa og kíktum á ljósmyndasýninguna hans afa sem var mjög flott.

Næstu helgi er ferðinni aftur heitið norður í land því Fiskidagurinn mikli verður haldinn á Dalvík með pompi og prakt! Ég og systur mínar fjórar (já ég á fjórar systur, vissiru það ekki?) ætlum að mæta og skemmta okkur með pabba og Möggu og Dalvíkingunum. Það verður eflaust mjög gaman, og aldrei að vita nema Óskin mín kíki með mér.

Svo styttist í það að við förum út, ekki nema þrjár vikur uppá dag þegar þetta er skrifað. 30. ágúst semsagt. Þetta verður bara gaman og vonandi stendur íbúðin undir væntinum. Vinkona mömmu er búin að fara að skoða hana fyrir okkur og leist bara vel á þannig að við erum ágætlega bjartsýn á þetta. Bið að heilsa.

Maggi.
blog comments powered by Disqus