þriðjudagur, ágúst 29, 2006

iMagg

Til hamingju ég! Hvern hefði grunað? Ég er að rita þessi orð á nýju MacBook Pro fartölvuna mína. Mikið er hún nú falleg. Næstu dagar og vikur verða skemmtilegar, að setja hana upp nákvæmlega eins og ég vil hafa hana. Gamla vélin mín, Acer fitubollan, lét lífið nú í sumar þegar ég missti hana í gólfið. Hún stóð sig nú samt mjög vel og ég er mjög sáttur við hana. En það verður að segjast að nýji makkinn er fallegri, og greindari líka.

En næstu dagar og vikur verða ekki bara skemmtilegir útaf nýju tölvunni minni. Nei það verður sko nóg að gerast. Ný borg, ný íbúð (eða tvær), nýr skóli, sem þýðir nýjir kennarar og skólafélagar. Nýtt, nýtt, nýtt. En ég hef kærustuna með mér og slatta af vinunum til að deila öllu þessu nýja með. Það gerir þetta allt enn betra.

iMagg.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Leitið og þér munið finna...?

Íbúðaleit er nú í algleymingi... aftur. Það þýðir ekki að láta bilbug á sér finna heldur láta hendur standa fram úr örmum og láta ekki deigan síga. Við höfum fengið jákvæð svör síðustu þrjá daga en það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið. Alltaf virðist sú staðreynd að við séum fjögur saman fara eitthvað vitlaust ofaní fólk. Það er erfitt að finna íbúð fyrir fjóra í Köben, hvað þá fjögur ungmenni. Fordómar gagnvart ungu fólki virðast blómstra í Danmörku rétt eins og á Íslandi og við höfum heldur betur fengið smjörþefinn af því.

Helgin var góð, þrátt fyrir mikla mannmergð á laugardeginum eins og við var að búast. Við fórum út á bát til að sjá flugeldasýninguna, ég þakka Elvu Söru gott boð. Það var mjög skemmtilegt og ég náði fínum myndum af sýningunni.

Kona
Stelpa dagsins: Ósk. :)

Þegar þetta er skrifað er vika í brottför til Danmerkur. Tilhlökkunin lætur bíða eftir sér þar til við fáum íbúð, sem gerist vonandi fljótlega... aftur.

Maggi.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Fallegur, sólríkur, f***ing helv***s dagur

Við misstum íbúðina.

M.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

3x3farar

Þegar ég spurði í vinnunni hver í Rockstar: Supernova ætti að vera í næstu þríförum kom upp sú hugmynd að hafa Supernova þrífara. Sú hugmynd féll í svo góðan jarðveg að ég fékk alveg heilan helling af tillögum þannig að úr urðu 3x3 farar eða nífarar.



Maggi.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Krækjur

Ég var að taka til í krækjulistanum hér á síðunni enda mikil þörf á. Helmingurinn hættur að blogga og hinn helmingurinn búinn að skipta um síðu. Og þriðji helmingurinn ekki búinn að breyta neinu.

Ég vil bjóða nýjustu bloggarana á listanum velkomna en það eru faðir minn hann Jón Baldvin og systir mín hún Fjóla Þórdís. Þau eru byrjuð að blogga fyrir nokkru síðan og voru þau ekkert að láta vita af því. Svona eru góð samskiptin í minni fjölskyldu. :p

Það styttist í fiskidaginn! Hvað er betra en fiskur? Jú, einmitt... ókeypis fiskur.

Maggi.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Norðurbrú

Við erum búin að finna íbúð í Köben! Og gott betur en það, við ætlum að leigja hana frá og með 1. september! Vei! Íbúðin er á 11. hæð í blokk við Lundtoftegade á Nörrebro. Það er hverfi ágætlega nálægt miðbænum, Biggi reiknaði út að það væru um 3 kílómetrar niðrí bæ. Það er stutt strætó- eða hjólaferð. Hinsvegar er tæplega hálftíma lestar- eða strætóferð í skólann minn sem er í Ballerup. En það er allt í lagi, miklu betra að vera í miðbænum því við erum fjögur saman og verðum öll að gera mismunandi hluti. Biggi í skóla í Frederiksbjerg (sem er hverfið við hliðina á Nörrebro, skólinn hans er 2 km frá íbúðinni okkar) og Ósk og Arndís munu fara að vinna fyrst um sinn.


Við munum eiga heima á 11. hæð í einni af þessum blokkum

En já. Verslunarmannahelgin kom og fór. Við (ég, Ósk, Biggi og Jómbi) vorum minna á Sigló en áætlað var vegna aftakaveðurs og veikinda gestgjafa en vorum þess í stað í góðu yfirlæti í bílskúrnum hjá pabba og Möggu á Akureyri, fyrir utan Jómba sem gisti hjá vini sínum. Það var virkilega gaman hjá okkur að því undanskildu að djammið var ekki gott. Of mikið af fólki og bara einhver leiðindi. En við skemmtum okkur vel við að spila og fíflast saman alla helgina. Á mánudeginum kíktum við til Siglufjarðar, heimsóttum þar ömmu og afa og kíktum á ljósmyndasýninguna hans afa sem var mjög flott.

Næstu helgi er ferðinni aftur heitið norður í land því Fiskidagurinn mikli verður haldinn á Dalvík með pompi og prakt! Ég og systur mínar fjórar (já ég á fjórar systur, vissiru það ekki?) ætlum að mæta og skemmta okkur með pabba og Möggu og Dalvíkingunum. Það verður eflaust mjög gaman, og aldrei að vita nema Óskin mín kíki með mér.

Svo styttist í það að við förum út, ekki nema þrjár vikur uppá dag þegar þetta er skrifað. 30. ágúst semsagt. Þetta verður bara gaman og vonandi stendur íbúðin undir væntinum. Vinkona mömmu er búin að fara að skoða hana fyrir okkur og leist bara vel á þannig að við erum ágætlega bjartsýn á þetta. Bið að heilsa.

Maggi.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Rocstar þrífarar: Dilana

Jæja þá er komið að næstu þríförum. Ég kann bara vel við Dilönu þannig að vonandi verða aðdáendur hennar ekki sárir. :) Ætli það sé ekki kominn tími á Magna næst! Bíðið spennt.

Maggi.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

20 árum síðar

Það dreif margt á daga mína í júlí þó ég hafi nú ekki verið iðinn við að rita það á þessa síðu. Ætli það sé ekki besta sönnunin fyrir því að ég hef haft í nógu að snúast, enginn tími til að blogga. Það ber helst að nefna AfmælisTaðinn sem haldinn var með pompi og prakt í tilefni þess að aðeins er eitt ár þar til ég verð kvart-aldargamall. Það var, pardon my french, ógeðslega gaman og þakka ég öllum fyrir komuna sem.. komu.

Helgina eftir Taðinn fórum ég og Ósk í grillveislu hjá XFM og fengum geggjaðan mat. Á laugardeginum fórum við svo saman í rafting ásamt fullt af vinum okkar því hún Camilla vinnur einmitt hjá Arctic Rafting. Það var geggjað gaman og eftir það var farið í heitan pott, grillað og spjallað. Svo var haldið aftur til höfuðborgarinnar í partý hjá Ísaki sem var mjög skemmtilegt.

Fyrir rúmri viku síðan hélt ónefnd vinkona mín, hún Elva Sara, uppá afmælið sitt. Það var um borð í bát, eða lítilli snekkju réttara sagt, og var það mjög vel heppnað teiti og allir skemmtu sér vel. Sumir skemmtu sér meira að segja svo vel að þeir höfðu ekki hugmynd um að þeir hefðu skemmt sér vel!

Í síðustu viku fór ég líka á tvenna SigurRósar tónleika. Þeir fyrri voru á Ólafsvík og voru alveg geggjaðir. Ég, Kristinn og Biggi fórum saman og sátum fimm metra frá sviðinu og ég tók yfir 200 myndir. Þeir seinni voru á Klambratúni og voru þeir skiljanlega öðruvísi en hinir enda ekki jafn mikil nálægð. En þeir voru góðir engu að síður.

Næstu helgi er lengsta helgi ársins að nafninu til, en það er hin sjö atkvæða Verslunarmannahelgi. Ég, Óskin mín og Biggi höfum í ár ákveðið að heiðra Siglfirðinga og nærsveitamenn með nærveru okkar, og aldrei að vita nema fleiri bætist í hópinn. Síldarhátíðin er málið í ár.

Þessa dagana kemst fátt annað að en pælingar í sambandi við húsnæði í Köben. Ég, Ósk, Biggi og Arndís ætlum að búa saman og vantar því að leigja 4ra herbergja íbúð, helst miðsvæðis. Ef þú eða einhver sem þú þekkir eigið eina slíka á glámbekk þá þætti mér mjög vænt um að þú létir mig vita.

Maggi.

E.s: Hvað ætlar þú að gera um Verslunarmannahelgina?

Zed - Stitch - Lucas

Það er einn gaur í Rockstar sem fer í taugarnar á mér og það er hann Lucas. Hann er frekur, hrokafullur gúmmítöffari sem getur varla talað hvað þá sungið. Mér finnst gaman að gera grín að honum og því fann ég til þessa tvo sem mér finnst líkir honum.



Maggi.