fimmtudagur, júlí 28, 2005

Vil du ha' dressing på?

Nú sit ég inná skrifstofu á Akureyri í nýja húsinu hans pabba míns. Hingað er ég kominn til að njóta verslunarmannahelgarinnar og slappa af. Ég kom keyrandi í gær, miðvikudag, með Kristjönu systur og Helenu vinkonu hennar, og Jóhann Már fékk að fljóta með. Það er svaka fínt veður núna og vonandi helst það fram á mánudag þegar stefnt er á að keyra heim. En það er kominn tími á framhaldið af Hróarskeldusögunni minni.


Hróarskelda, dagur eitt:

Þegar við vöknuðum um hádegi á sunnudeginum fór laugardagurinn að segja til sín. Ég varð vel þunnur, og kenni ég hitanum um. Ég er nefnilega þannig að í miklum hita verð ég alveg ónýtur ólíkt mörgum sem finna aldrei fyrir þynnku þegar heitt er. Sumir voru líka búnir að sólbrenna eftir að hafa sofnað í sólinni, og Eyjó fær verðlaunin fyrir flottasta sólbrunann. Hann var með jakkann sinn breiddann yfir hálfa bringuna og hendina ofaná bringunni en þrjá fingur útfyrir jakkann. Þannig að hann var bæði með jakkafar og handafar á bringunni alla hátíðina! Það var virkilega fyndið.

Dagurinn fór svo í að jafna sig, njóta (og ekki njóta) góða veðursins, en það var alveg steikjandi hiti. Við tjölduðum fleiri tjöldum til að passa svæðið okkar, röltum um þjónustusvæðið og slöppuðum af eftir erfiðan laugardag. Þjónustusvæðið var mjög svipað og hin árin, sömu matarbásarnir þar sem mexíkóski maturinn stóð uppúr, fatabásar og básar með bongótrommur, hakkí sakk bolta og allt milli himins og jarðar. Í miðjunni var svo trampólín, klifurveggur, kassaklifur, frisbígolf, körfuboltavöllur, strandblakvöllur, þrautabraut og eflaust eitthvað fleira sem ég er að gleyma. Auðvitað allt morandi í léttklæddu fólki með bjór í hönd, og það var sko ekki leiðinlegt að kíkja á stelpurnar! Við strákarnir höfðum oft orð á því út hátíðina að við hefðum aldrei séð þvílíkt og annað eins flóð af gullfallegu kvenfólki, og held ég að þetta verði seint toppað.

Um kvöldið fengum við svo okkur að sjálfsögðu bjór saman, bongurnar Jenna og Traci voru vel nýttar, en ef mig minnir rétt entist fólk ekki mjög lengi þetta kvöldið sökum þreytu frá laugardeginum. Framhald síðar...
Maggi.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Þá er komið að því...

Hmmm... hvað ætli þetta verði löng færlsla? :) Já... alveg rétt, ég ætlaði að segja ykkur frá Hróarskeldu! Þannig að þið sem eruð enn spæld yfir að missa af Hróarskeldu farið að leggja kapal eða eitthvað, hér er ekkert fyrir ykkur að finna. :)


Hróarskelda, dagur núll:

Eins og ég sagði í færslunni minni fyrir tæpum mánuði síðan þá vorum ég, Eyjó, Jói og Kristjana í Horsens í vikunni fyrir Kelduna í undirbúningi. Öllu draslinu sem við vorum búin að kaupa, tjöldum, svefnpokum, dýnum, 15 kössum af bjór, tveimur bongum, einhverjum töskum og fleiru var svo komið vel fyrir á kerrunni góðu sem við höfðum keypt.

Á laugardegi í frábæru veðri í Horsens lögðum við svo af stað á hraða snigilsins niður í bæ í áttina að lestarstöðinni. Kerran, sem átti víst að þola allt að 150 kílóum, átti í miklum erfiðleikum að ráða við þessi 120 kíló sem við tróðum á hana. Allir sem sáu okkur á leiðinni ráku upp stór augu og flestir hlógu. Jói var fremst á stýrinu, ég var aftast og hélt í tvö bönd svo kerran myndi ekki renna á undan okkur, Eyjó var allt í kring til að passa að kerran dytti ekki, og Kristjana tók af okkur myndir því þetta var svo fyndið. Eftir dúk og disk komumst við svo að lestarstöðinni og hittum akkúrat á lest sem var að fara til Hróarskeldu. Það var hægara sagt en gert að koma þessum 120 kílóum uppí lestina en það gekk og við vorum svo ótrúlega heppin að lenda á lestarvagni með plássi fyrir reiðhjól þannig að þar gátum við geymt kerruna, sem var farin að svigna ískyggilega undan þunganum.

En til Hróarskeldu komumst við. Þegar við stigum út úr lestinni þar sagði kerran hingað-og-ekki-lengra! Fremri öxullinn var kengboginn, dekkin læstust, og við vorum strand, með 120 kílóa kerru sem var ekki hægt að hagga. Við reyndum margt til að koma henni af stað, en það var ekki fyrr en við fluttum allan þungan á aftari tvö dekkin að það var hægt að drösla henni út úr lestarstöðinni. Þar hittum við Camillu og Miu vinkonu hennar og þær tóku eitthvað af draslinu okkar í Prinsessuna (bílinn hennar Camillu) en restina tókum við með okkur í leigubíl að hliðinu vestan-megin. Við vorum komin í biðröðina klukkan níu um kvöldið, opnuðum fyrsta bjórinn og spiluðum hakkí sakk.

Fljótlega rann fólkið á lyktina sem hafði ekki komið með neinn bjór, og sá að við vorum með heldur meira en við gætum torgað þetta kvöld. Við sögðum nei við þá fyrstu sem komu því þeir vildu kaupa kassann á hundraðkall! Þótt að við hefðum keypt kassana á 33 kr. stykkið þá kostar kassi inná svæðinu 180 kr. þannig að við værum að tapa á þessu. Loksins sögðum við okey, þeir sem vilja borga 200 kr. danskar fyrir kassann mega kaupa, og skrifuðum meira að segja skilti uppá djókið en bjuggumst ekki við að margir vildu það. Það er skemmst frá því að segja að við seldum næstum allan bjórinn okkar! Fólkið var þyrst í bjór og auðvitað eru peningar þá aukaatriði! Þannig að allur peningurinn fór í sjóð og fyrir hann var keyptur bjór inná svæðinu út hátíðina. Kassarnir inná svæðinu eru með 30 bjórum en þeir sem við seldum með 24. Við þurftum líka að bera minna þegar við komumst loksins af stað í átt að tjaldsvæðunum þannig að við græddum helling á þessum viðskiptum.

Klukkan tólf á miðnætti fengu svo allir armböndin sín og var hleypt inná lokað svæði fyrir innan hliðið. Þar var þröngt á þingi, eflaust yfir tvöþúsund manns, en fólkið drakk bara sinn bjór og spjallaði og hafði það gott. Ég tróð mér ofan í svefnpoka og náði að leggja mig smá. Klukkan átta um morguninn var þetta hólf svo opnað og allir sem höfðu beðið um nóttina fengu að fara inn á svæðið á sama tíma. Við vissum nákvæmlega hvar við vildum vera og fórum beint þangað. Við fengum líka risastórt svæði á frábærum stað! Alveg uppgefin hentum við upp báðum partýtjöldunum okkar og öllum þeim tjöldum sem við vorum með og lögðum okkur svo eftir erfiða nótt. Þeir sem sofnuðu undir berum himni voru ekki lengi að sólbrenna, enda mikil sól strax frá fyrsta degi!

Framundan var einn mesti þynnkudagur sem ég man eftir, og eftir það, ógleymanleg Hróarskelduhátíð. En frá restinni segi ég seinna! Það er komið nóg í bili, ég held að ekki nokkur maður myndi nenna að lesa um alla hátíðina í einu og því ætla ég að taka þetta í pörtum. Ég lofa að það mun ekki líða langt milli parta, þannig að kíkið aftur hingað inn sem fyrst! Þangað til næst, kveðja frá Keflavík,
Magnús hinn rauðhærði.

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Roskilde = SNILLD!!!

Já, ég er enn á lífi. Hróarskelda var æðisleg eins og við var að búast. Geggjað veður, geggjað fólk, geggjaðir tónleikar. Ferðasagan kemur seinna. Síðan þá er búið að vera brjálað að gera! Vinna, vinna, vinna og djamma þess á milli. Núna um helgina verður haldið uppá 23ja ára ammælið mitt með pompi og prakt! Sú saga kemur líka seinna. Ég er mjög þreyttur eftir alla þessa vinnu, meira en tólf tímar á dag í hellulögn! Það tekur á. Vonandi á ég þá einhvern pening eftir sumarið þótt maður verði stutt hérna heima á klakanum.

Það sem er helst í fréttum að ég var að panta mér myndavél núna rétt áðan! Fæ hana í hendurnar eftir tvær vikur. Það verður mikil hamingja eftir myndavélaleysi síðan í apríl. Ég tók heilar níu myndir á Hróarskeldu á Polaroid myndavélina mína! Þær hefðu líklegast verið níu hundruð ef ég hefði haft stafræna. :) Ég skrifa allt um þessi ævintýri mín seinna! Þangað til þá, hafið það gott.
Maggi.