fimmtudagur, júlí 28, 2005

Vil du ha' dressing på?

Nú sit ég inná skrifstofu á Akureyri í nýja húsinu hans pabba míns. Hingað er ég kominn til að njóta verslunarmannahelgarinnar og slappa af. Ég kom keyrandi í gær, miðvikudag, með Kristjönu systur og Helenu vinkonu hennar, og Jóhann Már fékk að fljóta með. Það er svaka fínt veður núna og vonandi helst það fram á mánudag þegar stefnt er á að keyra heim. En það er kominn tími á framhaldið af Hróarskeldusögunni minni.


Hróarskelda, dagur eitt:

Þegar við vöknuðum um hádegi á sunnudeginum fór laugardagurinn að segja til sín. Ég varð vel þunnur, og kenni ég hitanum um. Ég er nefnilega þannig að í miklum hita verð ég alveg ónýtur ólíkt mörgum sem finna aldrei fyrir þynnku þegar heitt er. Sumir voru líka búnir að sólbrenna eftir að hafa sofnað í sólinni, og Eyjó fær verðlaunin fyrir flottasta sólbrunann. Hann var með jakkann sinn breiddann yfir hálfa bringuna og hendina ofaná bringunni en þrjá fingur útfyrir jakkann. Þannig að hann var bæði með jakkafar og handafar á bringunni alla hátíðina! Það var virkilega fyndið.

Dagurinn fór svo í að jafna sig, njóta (og ekki njóta) góða veðursins, en það var alveg steikjandi hiti. Við tjölduðum fleiri tjöldum til að passa svæðið okkar, röltum um þjónustusvæðið og slöppuðum af eftir erfiðan laugardag. Þjónustusvæðið var mjög svipað og hin árin, sömu matarbásarnir þar sem mexíkóski maturinn stóð uppúr, fatabásar og básar með bongótrommur, hakkí sakk bolta og allt milli himins og jarðar. Í miðjunni var svo trampólín, klifurveggur, kassaklifur, frisbígolf, körfuboltavöllur, strandblakvöllur, þrautabraut og eflaust eitthvað fleira sem ég er að gleyma. Auðvitað allt morandi í léttklæddu fólki með bjór í hönd, og það var sko ekki leiðinlegt að kíkja á stelpurnar! Við strákarnir höfðum oft orð á því út hátíðina að við hefðum aldrei séð þvílíkt og annað eins flóð af gullfallegu kvenfólki, og held ég að þetta verði seint toppað.

Um kvöldið fengum við svo okkur að sjálfsögðu bjór saman, bongurnar Jenna og Traci voru vel nýttar, en ef mig minnir rétt entist fólk ekki mjög lengi þetta kvöldið sökum þreytu frá laugardeginum. Framhald síðar...
Maggi.
blog comments powered by Disqus