miðvikudagur, desember 29, 2004

Gleðilega rest!

Þá er maður kominn til Akureyris þar sem fólk segir gleðilega rest, eins skrítið og það kann að hljóma. Ég er orðinn vanur því að vera á Íslandi og tilhugsunin um að fara aftur til Danmerkur er svolítið skrítin, en samt góð. Það verður gaman að fara aftur út þótt næsta hrina verði í lengra lagi. Ég býst ekki við því að koma heim um páskana og því verð ég í tæpa sex mánuði í Danmörku, frá 10. janúar til 4. júlí. Vonandi verður jafn gaman og það var í haust.

En já, ég ákvað að skella mér til Akureyrar (ég veit að það er vitlaust að segja Akureyris en það er bara skemmtilegara) til að heimsækja pabba og fjölskyldu ásamt Fjólu systur og Davíð kærastanum hennar. Við förum aftur heima á morgun og eyðum áramótunum fyrir sunnan. Það á enn eftir að koma almennilega í ljós hvað gerist á gamlárskvöld en sama hvað það verður þá mun verða gaman eins og alltaf, það er ég viss um. Á annan í jólum fór ég á Litlu-jól með strákunum og svo á ball með Sálinni í Stapa og það var rosaleg stemmning og margt um manninn eins og alltaf. Gaman að hitta allt fólkið sem maður hafði ekki hitt í töluvert lengri tíma en oftast.

Ég kveð ykkur að sinni, vonandi eigið þið gleðilega rest. :)
Kær kveðja að norðan,
Magnús Sveinn.

fimmtudagur, desember 23, 2004

Jólastúss og almennt annríki

Það er ekkert smá mikið búið að vera að gera hjá mér síðan ég kom heim. Núna er ég búinn að vera heima í akkúrat viku þegar þetta er skrifað og viljiði vita hvað ég er búnn að gera? Hmmm... látum okkur sjá. Ég er búinn að fara á eina tónleika, í tvö partý, á keflvískan skemmtistað, á keflvískt ball, tvo daga og tvö kvöld í sumarbústað, búa til nýja heimasíðu fyrir ættina mína, kaupa sex jólagjafir, fara á litlu jól, hitta gamla aðalinn minn og síðast en ekki síst fara í skötuveislu! Kannski er ég að gleyma einhverju. En ég hafði amk ekki tíma til að blogga.

Bæði tónleikarnir sem ég fór á síðasta fimmtudag og ballið síðasta laugardag voru með Hjálmum sem eru orðnir ein af mínum uppáhalds hljómsveitum. Er einmitt að hlusta á diskinn þeirra núna. Eintóm snilld. Og tónleikarnir, þar sem Hjálmar spiluðu með KK, voru alveg frábærir! Þeir tóku lög eftir KK í reggí stílnum sínum og lögin af disknum sínum, auk þess sem KK spilaði lög eftir sig og nokkur cover-lög líka. JólaTaðurinn var svo haldinn með miklum glæsibrag í sumarbústað ömmu og afa í Þrastarskógi á sunnudaginn og fram á þriðjudag. Alltaf gaman að skella sér í bústað og vonandi að JólaTaðurinn sé hefð sem nái að halda sér.

Það er nóg af hefðum og Litlu-Jól verkfræðinnar eru ein af þeim. Að vísu hafa næstum allir sem þau stunda hætt í verkfræði en Litlu-Jólin eru haldin árlega engu að síður. Þau voru í gær og það var mjög gaman. Í gær hitti ég líka útskriftarhópinn minn gamla sem fór til Ríó í byrjun árs 2002. Ég mætti seint og það var því heldur stutt í annan endann en samt gaman að sjá þetta frábæra fólk aftur.

Núna er allt stúss búið fyrir utan tvær gjafir sem ég ætla að kaupa á eftir og svo mega jólin koma. Á jólunum erum við oftast annað hvort hér heima eða hjá ömmu og afa en þetta árið verður mamma á Akranesi og allt með öðru sniði en vanalega. Ég og Fjóla verðum hjá Höllu systur og þangað kemur pabbi og fjölskylda að norðan og Jóda stjúpsystir líka með son sinn. Við verðum tíu manns við jólaborðið og þar af tveir litlir snáðar og jólagleðin verður því eflaust mikil þar á bæ. Ég man hvað það gat verið erfitt að bíða eftir því að fá að opna pakkana. En talandi um pakka, það er víst best að fara að pakka inn gjöfunum og klára að kaupa þær síðustu. Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla.
Magnús Sveinn.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Heim

"Ééééeg hlakka svo til! Ég hlakka alltaf svo tiíiil!!"

Það eru að koma jól. Og ég skal snart til Íslands aftur. Sjáiði hvað ég er orðinn danskur! Ég er meira að segja farinn að sletta dönskunni upp um alla veggi. Á fimmtudaginn verð ég hinsvegar kominn aftur á Frónið og þá geta Íslendingar loksins komist í jólaskapið. Týndi sonurinn kominn heim. Að minnsta kosti í bili. Tíunda janúar fer ég aftur til Danaveldis og tek næstu önnina í þessum skóla í nefið.

Það stefnir allt í þrusugóða jólahátíð þetta árið. Ótrúlega mikið planað eitthvað, ég hef varla tíma til að anda. En hver þarf að anda þegar það eru jól! Þetta verður hrikalega gaman og ég hlakka til að sjá ykkur öllsömul aftur þið sem eruð heima.

Verkefnið er að klárast hægt og bítandi. Það er lengi hægt að finna eitthvað að bæði skýrslunni og síðunni sem þarf að snurfusa og laga til þannig að allt sé fullkomið þegar við skilum inn. Vonandi verður allt tilbúið á morgun (miðvikudag) því Lára og Elva eiga flug í hádeginu á fimmtudaginn og þótt ég sé með opinn miða þá langar mig að fljúga á fimmtudagskvöldið. Eyða jafnvel deginum á Strikinu og kaupa kerti og spil handa fjölskyldumeðlimum. Ég biðst afsökunar fyrirfram ef það verða bara tuttugu og sex spil í sumum spilastokkunum, ég er nefnilega í alvörunni fátækur námsmaður þetta árið, alveg í bullandi mínus. Það kemur ekki í veg fyrir að hátíðin renni í garð klukkan sex á aðfangadag, og þá fer ég í kirkju. Einu sinni á ári fer ég í kirkju og það er á aðfangadag með ömmu og afa. Það gerist ekki jólalegra. En verkefnið klárar sig ekki sjálft. Sjáumst fljótlega,
Magnús (Jóla)Sveinn.

fimmtudagur, desember 09, 2004

Ríó

Undanfarna daga hefur verkefnavinna tekið nær allan minn tíma og þess á milli hef ég bara ekki nennt að blogga um verkefnið því það er það eina í mínu lífi þessa dagana! Það gengur fínt og vonandi næst að klára það tveim dögum fyrir síðasta skiladag svo ég komist heim og missi ekki af einu helginni sem ég gæti átt heima fyrir jól.

Á morgun (fimmtudag) er einskonar kveðjupartý fyrir nemendur NoMA því allir fara til síns heima yfir jólin hvort sem það er á Íslandi, í Finnlandi, Færeyjum eða Svíþjóð. Það verður gott að geta tekið hugann aðeins af verkefninu og stefnir allt í gott partý.

Ég hef (augljóslega) ekki enn nennt að setja inn myndir frá helginni þegar við fórum til Köben en það hlýtur að gerast einn daginn. Sjaldgæft að mig grípi svona mikil bloggleti. En það er ekki leti hjá Hlyni og Jóhönnu því þau eru á flakkinu í S-Ameríku! Og Hlynur er farinn að blogga hérna! Kíkið endilega á hann. Það rifjar upp margar minningar frá Ríó að lesa þetta. Það er stórskemmtileg borg, ég á eflaust eftir að heimsækja hana aftur ef ég fæ einhverju um það ráðið. Kveðja,
Maggi.

fimmtudagur, desember 02, 2004

HJÁLPIÐ MAGNÚSI!

Það er aldeilis að bloggletin hefur tekið völdin hérna. En nóg hefur verið að gerast. Ég fór til Kaupmannahafnar síðustu helgi í fríðu föruneyti. "Hópurinn", sem sagt ég, Gústi, Elva, Lára og Rebekka, ákváðum að fara öll á fimmtudeginum því það væri ómögulegt að vera bara eina nótt, og lestirnar eru líka ódýrari á fimmtudögum en föstudögum. Við gistum í gömlu íbúðinni hennar Elvu þar sem Inga vinkona hennar býr núna, og það voru góðar móttökur á þeim bænum. Á föstudeginum fór ég svo á tónleika með Interpol með nokkrum strákum hér úr skólanum en krakkrnir áttu ekki miða (það var löngu uppselt). Tónleikarnir voru frábærir (að sjálfsögðu) þótt það næðist ekki sama stemmning og næst alltaf heima á Íslandi á tónleikum. En Interpol voru virkilega góðir og gaman að fá að sjá þessa snilldar hljómsveit spila aftur, en ég sá þá einmitt á Hróarskeldu '03 þegar þeir voru rétt að byrja að meika það.

Eftir tónleikana var svo djammað niðrí bæ langt framundir morgun og voru sumir orðnir ansi skrautlegir, nefni engin nöfn. Á laugardeginum ætluðum við svo að fara heim en það var svo gaman hjá okkur að ég, Lára og Elva ákváðum að vera eina nótt í viðbót en Gústi og Rebekka fóru heim. Við hittum aftur eitthvað af strákunum sem við höfðum hitt kvöldið áður og kíktum á tónleika með íslenskri pönkhljómsveit sem syngur á dönsku. Þessir tónleikar voru í Öresunds-kollegí þar sem ég held að hlutfallið sé 600 Íslendingar af 2000 manns í heildina sem búa þar. Það er bara ekki þverfótað fyrir þessum Íslendingum útum allt.

Á sunnudeginum kíktum við svo niður í bæ og sáum stóra jólatréið á torginu í fullum skrúða þegar búið var að kveikja á því (rétt misstum af því þegar kveikt var) og sáum milljón manns á Strikinu, enginn smá mannfjöldi um allan bæ. En við vorum þreytt eftir helgina og drifum okkur heim. Vikan er svo búin að fara í eintóma verkefnavinnu því við höfum bara tvær og hálfa viku til að klára þetta verkefni og við viljum sko gera það almennilega.

Það er einmitt meiningin með fyrirsögninni. Ef þú smellir á hana þá ferðu beint á könnun sem við settum á netið og hún snýst um Bang & Olufsen sem verkefnið okkar fjallar einmitt um. Endilega takið þátt í könnuninni fyrir mig og ef þið eruð hjálpsamar manneskjur þá megiði láta sem flesta vita af henni! Það væri ótrúlega vel þegið, sendið póst á alla sem þið þekkið eða gangið með skilti niðrí bæ eða eitthvað. Það myndi hjálpa okkur alveg helling. :) Ég læt svo inn myndir af helginni hingað á síðuna á morgun. Þarf að leggja mig núna. Góða nótt,
Magnús Sveinn.

*uppfærsla* könnunin er búinn og linkurinn því farinn. :)