mánudagur, júlí 23, 2007

Roskilde, Taður o.fl.

Eins og aðrir bloggarar vita þá verður alltaf erfiðara að blogga því lengra sem líður frá því að maður bloggaði síðast. Í það minnsta þeir bloggarar sem segja frá því sem á daga þeirra drífur. En það þýðir ekki að leggja árar í bát og gefast upp heldur bretta upp ermarnar og gefa 110%.

Við fórum á Hróarskeldu. Hún var blaut, drullug og skemmtileg. Björk, Arcade Fire og Muse voru bestu tónleikarnir eins og við bjuggumst við. Í staðinn fyrir að setja myndir á netið setti ég myndir í TVF (Tímarit Víkurfrétta) og þið getið nálgast það í sjoppum og matvörubúðum hér á Suðurnesjum. :)

Síðan við komum heim hefur ýmislegt gerst líka. Hið árlega, opna, alþjóðlega Biggapúttmót var haldið fyrir rúmri viku síðan og ég kom, sá og sigraði með því að byrja fyrstu 18 holurnar á 6 undir pari. Það hef ég ekki gert áður og verður erfitt að leika eftir. Á mánudaginn fyrir viku átti ég afmæli og fyrst fjölskyldan mín var öll annað hvort úti á landi eða í Danmörku þá fékk ég Óskar fjölskyldu lánaða. Ósk eldaði fyrir mig og bakaði köku og hvort tveggja var mjög vel heppnað. Ég fékk líka fullt af pökkum og þar stendur hæst svona harður diskur frá Ósk. Algjör snilld því hann er pínulítill og það þarf ekki að stinga honum í samband við rafmagn. Mælimeðissu. :) Eftir afmælismatinn fórum við í keilu og það var mjög gaman! Nokkrir lögðu leið sína í Öskjuhlíðina alla leið úr Keflavík og nokkrir úr Reykjavík líka.

Um helgina fórum við svo í hinn árlega AfmælisTað og var hann virkilega vel heppnaður. Þar fékk ég enn fleiri pakka, og hæst ber þar að nefna 4.7 kg Toblerone! Rosalega, rosalega, rosalega stórt! Mikið hlegið að því sem og öðru sem gerðist um helgina. Takk fyrir mig og takk fyrir komuna allir sem mættu!

Vinnan hefur gengið vel og hefur mikið snúist um golf. Og það mun ekki linna mikið á næstunni, Íslandsmótið í golfi verður haldið á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði um helgina og ég verð þar alla fjóra keppnisdagana að skjóta og klippa vídjó.

Hmm, þetta varð nú ekki jafn langt og ég bjóst við! Enda var þetta farið á hundavaði. Kannski ég bloggi aftur fljótlega. Hver veit! Ekki ég.

Maggi.