fimmtudagur, september 28, 2006

Crazy to do

Það er heldur betur búið að vera brjálað að gera undanfarið. Síðasta föstudag fengum við íbúðina okkar nýju afhenta og á þriðjudaginn hófust flutningar. Reyndar vorum við ekki að flytja dótið sem við eigum heldur að flytja endalaust af dóti úr búðinni og heim í nýju íbúðina! Við leigðum flutningabíl í einn dag og nýttum daginn mjög vel. Bíllinn var algjör skrjóður, enda ekki við öðru að búast af bílaleigu sem heitir Rent-a-Wreck. Þeir leigja semsagt bíla sem eru við það að hrynja en koma manni amk (vonandi) á leiðarenda. Það besta er auðvitað að það kostar mjög lítið að leigja hjá þeim.

Ég og Ósk fórum í skólann um morguninn og náðum einum tíma áður við þurftum að leggja af stað til að sækja bílinn. Það tók alltof langan tíma að sækja bílaleigubílinn því við fengum rangar upplýsingar hvað eftir annað. En það tókst að lokum og við gátum byrja að útrétta. Við byrjuðum á því að fara í genbrug verslun, sem er verslun sem selur notuð húsgögn á vægu verði. Þar biðu Arndís og Biggi eftir okku og við ætluðum að reyna að kaupa sem mest notað til að spara pening. Það gekk heldur betur eftir því við keyptum mjög mikið og fórum með tvo bílfarma af dóti heim. Þar á meðal voru þrjú rúm, þrír sófar, þrír hægindastólar, sófaborð, borðstofuborð og sex stólar, fataskápur, eldhúsborð og fleira. Þetta allt kostaði okkur kannski kringum 2500 danskar krónur eða um þrjátíu þúsund. Það er ekkert verð fyrir allt þetta dót! Allt var í mjög góðu ástandi, það sást ekki á rúmunum og sófarnir eru mjög þægilegir og þar af einn svefnsófi. Annar er leðursófi, mjög flottur og þægilegur en of stór til að komast á efstu hæðina hjá okkur því hún er undir súð. Það var mjög skrautleg tilraun gerð til að koma sófanum upp en allt kom fyrir ekki. Þriðji sófinn er grænn og mjög retro.

Eftir að hafa borið allt dótið sem við keyptum upp þröngan stiga uppá aðra og þriðju hæð langaði okkur mest að leggja okkur. En til þess að nýta bílinn fórum við í IKEA! Þar keyptum við heilan helling af dóti, eitthvað af húsgögnum (hillur, skáp og náttborð) en aðallega litlu hlutina sem hvert heimili þarf að eiga. Allt í eldhúsið, lampa, ljós og ljósaperur, sængurföt, rúmteppi og fleira. Eftir þrjá tíma í IKEA vorum við alveg búin á því en þurftum samt að gera einn hlut í viðbót. Keyra niðrí bæ og sækja fjóra kassa sem Sigrún vinkona mömmu geymdi fyrir mig síðan í janúar. Eftir það þurftum við að fara heim, skila af okkur dótinu og skila svo bílaleigubílnum.

Við villtumst í hvert skipti sem við þurftum að keyra eitthvert og það voru miklar vegalegndir milli allra staðanna. IKEA er lengst útúr bænum og bílaleigan er lengst í burtu líka. Þannig að þetta var erfiður dagur og við vorum ekki komin heim fyrr en eitt eftir miðnætti, búin að vera á fullu síðan átta um morguninn.

Ég og Ósk sváfum svo fyrstu nóttina á nýja staðnum í nótt og vorum hæst ánægð með nýja stóra rúmið okkar. Kannski af því að það voru bara einbreið rúm á hinum staðnum og ég þurfti að sofa á óþægilegri dýnu á gólfinu.

Annars er bara allt fínt að frétta. Skólinn gengur vel. Ég er að fara að flytja kynningu á fyrsta verkefninu mínu á eftir. Það gekk bara mjög vel og hópurinn minn ætlar að halda sér og klára þetta verkefni á önninni. Nú í byrjun var þetta hugmyndavinna til að koma sér af stað í lokaverkefnið. Verkefnið okkar snýst um að gera útgáfu af Bomberman þar sem maður stjórnar leiknum með því að ganga um leikborð og við notum motion-tracking til að tölvan viti hvar leikmennirnir eru. Hmm, kannski ekki hægt að útskýra hugmyndina í einni setningu. En ég á eflaust eftir að tala um verkefnið aftur hérna síðar. Bið að heilsa úr 18-22 stiga hita hér í Danmörku. ;)
Magnús, aka. Maggi.
blog comments powered by Disqus