sunnudagur, september 17, 2006

Edelsmindevej 13

Hvar byrjar maður? Ég gaf fjölskyldu og vinum loforð þegar ég fór frá Íslandi (enn einu sinni) að ég myndi vera duglegur að blogga þegar ég kæmi út. Ég hef því miður ekki staðið við það en ég ætla nú að láta vita af mér stundum svo fólk fái að heyra hvernig gangi.

Það er bara allt gott að frétta af okkur. Stærstu fréttirnar eru að við erum komin með íbúð! Það gerðist bara í dag og við erum alveg himinlifandi með þetta allt saman. Íbúðin er hérna í Brønshøj, sama hverfi og við búum núna í tímabundnu íbúðinni okkar, bara tíu mínútna labb í burtu. Við erum búin að vera mjög sátt með þessa staðsetningu því ég og Ósk erum jafnlengi að komast í skólann og að komast niður í miðbæ. Íbúðin er 101 fermeter, 3ja herbergja, en reyndar tæknilega séð 4ra herbergja því við megum líka vera á hæðinni fyrir ofan, í risinu. Þar er auka klósett, mini-eldhús með ísskáp og pláss fyrir svona chill-out lounge. Það verður aðal stofan okkar en niðri ætlum við að reyna að koma fyrir einverri borðstofu þar sem við getum borðað saman. Við erum nefnilega búin að vera ansi dugleg að elda saman og höfum sparað hellings pening með því. Ekki veitir af því nú þurfum við að borga deposit og kaupa okkur húsgögn í nýju íbúðina okkar.

Á föstudaginn fórum við á tónleika með eðal bandinu Hot Chip. Það var algjör snilld! Þeir eru svo mikil nörd og þeir reyna það líka. Fimm gaurar á sviðinu, allir með hljómborð eða mixera og nokkrar bongó trommur og einhver lítil hljóðfæri sem framkalla hávaða. Þvílíkt dansvæn tónlist og geggjuð stemmning á litla Vega. Mæli með því að þú hlustir á þá ef þú hefur ekki heyrt í þeim ennþá. Mikil snilld hér á ferð. Svo hefur verið umræða hjá okkur um að kíkja á Muse í Berlín í nóvember. Flugið og miðinn á tónlekana kostar ekki nema rúman tíuþúsundkall og því er erfitt að finna ástæðu fyrir að fara ekki! :)

Best að fara að læra smá fyrir svefninn. Í þessari viku eigum við að klára skýrslu um verkefni sem verður mögulega lokaverkefnið okkar á önninni. Hópurinn minn ætlar að gera útgáfu af Bomberman þar sem leikurinn fer fram í heilu herbergi, og leikmennirnir færa sig á milli reitanna sem eru teiknaðir á gólfið. Svo er tölvuleiknum sjálfum varpað uppá vegg og þar sjá leikmennirnir hvar þeir eru staddir í leiknum. Veit ekki hversu vel mér tókst að útskýra þetta en þetta er amk frekar spennandi og gæti orðið mjög skemmtilegt lokaverkefni.

Kveðja frá Danmörku,
Maggi.
blog comments powered by Disqus