mánudagur, febrúar 06, 2006

Hólar og hæðir

San Francisco er mögnuð borg að mörgu leyti. Hún er falleg, húsin eru litrík, skrítnar og skemmtilegar verslanir, mikið af almenningsgörðum, brekkur útum allt (sumar snarbrattar), og allskonar fólk sem gerir það sem það vill án þess að vera dæmt. Svo er fólk líka bara svo almennilegt og kurteist hvar sem maður kemur. Borgin hefur þó sína galla, því öll hverfin eru ekki góð og sumstaðar mikið um glæpi og eiturlyf. Maður heldur sig frá þeim stöðum. Heimilislausir eru líka ótrúlega margir um alla borg og betla stöðugt. Biðja um mat eða smápeninga. Maður verður bara að leiða það hjá sér þótt það geti verið mjög erfitt.

Helgin var góð. Við fengum fólk í heimsókn á laugardagskvöldið, aðallega til að monta okkur af íbúðinni okkar en hún er orðin rosalega fín eftir að við tókum eldhúsið í gegn. Það er allt annað að sjá það núna eftir að við máluðum og settum upp veggfóður og spónarplötur þar sem við átti. Það er mjög flott eins og má sjá á myndum á blogginu hjá bæði Láru og Camillu. Sjálfur á ég engar myndir enda á ég ekki myndavél. Ég verð að fara að gera eitthvað í því. En já ég var að segja frá laugardagskvöldinu. Við kíktum aðeins út eftir að fólkið hafði verið hér að sötra bjór, en það varð nú ekki neitt úr neinu djammi því við vissum ekki nákvæmlega hvert förinni var heitið. Við röltum þó Broadway (jább, ekki bara í New York) og sáum mikið af áhugaverðu fólki. Þrátt fyrir að margir í borginni geri það sem þeim sýnist þá er greinilega nóg af fólki sem er að rembast við að reyna að vera eitthvað sem það er ekki. Allir sem voru á djamminu á Broadway voru rosalega feik og greinilega að reyna að líkjast einhverjum öðrum, flestir með lélegum árangri.

Í dag hittumst við svo í hádeginu hjá David og hann fór yfir hvað við munum vera að gera. Aðal hlutverk mitt er animation, sem ég er mjög sáttur við og hlakka til að takast á við. Svo byrja ég tvo daga í viku hjá Elastic Creative um miðjan mánuðinn. Eftir þetta spjall fórum ég, Haukur og Starri í göngutúr, kíktum í Buena Vista Park og fengum ágætt útsýni yfir borgina. Gengum líka í gegnum Castro hverfið sem er samkynhneigðasta hverfi í heiminum. Það er alveg magnað að sjá hvað það er gay, allt í kringum mann er alveg æpandi samkynhneigt. Svo fórum við aftur til Davids og horfðum á Superbowl sem var nú bara skemmtilegra en ég bjóst við. Þetta var fjörugur leikur og gaman að horfa þótt ég kunni ekki reglurnar nema að litlum hluta. Á morgun byrjar svo alvaran. Mæting klukkan níu og við hefjum formlega starfsnámið okkar. Það verður bara gaman og ég er viss um að þessi tími verður ótrúlega fljótur að líða.

Ef ykkur langar að sjá hvar ég á heima þá getiði skoðað það á Goggle, hérna. Húsið heitir 1251 7th Avenue, og við erum búin að skýra það Area 51 (því númerið endar á 51, voða sniðugt). :p Kær kveðja frá sunny San Francsico.
Maggi.
blog comments powered by Disqus