mánudagur, febrúar 27, 2006

Undraland

Það er margt skrítið í kýrhausnum, og það er líka margt skrítið í San Francisco. Þetta var partýhelgi, og partýin voru hvert öðru skrítnara. Á föstudaginn fór David með okkur í partý á skemmtistað, og þemað var space-dót. Til dæmis Star-Trek og Star Wars og bara allt skrítið dót úr geimnum. Sumir tóku þemað mjög alvarlega og voru í svaka búningum. Ég lét mér nægja að líma þriðja augað á mig. Lára setti inn slatta af myndum frá partýinu og þær segja meira en þúsund orð.

Í gærkvöldi (lau) ákváðum við svo að kíkja í partý sem við vissum lítið sem ekkert um með kunningja Camillu sem hún kynntist á netinu. Þetta var einkapartý og við vissum að þemað þar var Lísa í Undralandi, en við nenntum ekki að standa í neinu búningaveseni svona á síðustu stundu. Þegar við komum þangað þá kom í ljós að það var jafnvel enn ýktara en partýið frá kvöldinu áður! Þetta var Te-partý, og það voru einhver hamingju-aukandi lyf í te-inu, þannig að við héldum okkur frá því. Partýið var haldið í skuggalegu vöruhúsahverfi hérna í borginni og allt umhverfið var virkilega spúkí og eins og klippt útúr bíómynd. Til að komast inní partýið þurfti maður að skríða innum pínulitla hurð (eins og í Lísu í Undralandi) og það var búið að skreyta þvílíkt mikið og gera allt flott fyrir partýið. Það var svaka hljóðkerfi og dansgólf, frír bjór og allt til allt til að halda gott partý! Enda var hörku gaman innan um allt skrítna fólkið. Við hittum stelpu sem var búin að láta kljúfa á sér tunguna og gat hreyft hlutana tvo í sitthvora áttina. Því miður er hún ekki með tunguna útúr sér á þessari mynd. Þarna var líka fullt af "semi-frægu" fólki, t.d. gaurinn sem bjó til Mozilla vafrann og fleiri hörku forritarar og þannig fólk sem nördum þykir kannski áhugavert að rekast á. Við vorum bara heppinn að álpast inní svona elítu-partý. Við spjölluðum við einn af plötusnúðunum og honum þótti auðvitað geðveikt kúl að við værum frá Íslandi. Hann gaf mér geisladisk með einhverju setti sem hann spilaði, ég veit ekki alveg af hverju, ekki er ég að fara að ráða hann hehehe. Lára setti inn myndir af þessu partý líka. Það verður seint sagt að við sitjum aðgerðarlaus hér í þessari mögnuðu borg.

Annars er allt gott að frétta af mér. Hálsbólgan sem ég nældi mér í um daginn er á undanhaldi en veðurspáin er hundleiðinleg fyrir vikuna. Hitinn á daginn á að fara undir tíu stig og nálægt frostmarki á nóttunni! Þetta er nú ekki eitthvað sem maður bjóst við þegar maður ákvað að flytja til Californiu. En við erum Norður Evrópubúar og látum þetta ekkert á okkur fá. Gleðilegan Bolludag, Sprengidag og Öskudag! Syngið Fyrr var oft í koti kátt einu sinni fyrir mig. Kveðja frá Undralandi,
M.
blog comments powered by Disqus