miðvikudagur, mars 29, 2006

Blogga segiði...

Ég er hress að vanda, þótt lítið hafi verið um blogg hjá mér undanfarið. Ástæða? Hmmm... ég veit barasta ekki. Lífið er gott hér í San Francisco, en dvölin okkar fer sko heldur betur að styttast í annan endann. Það er akkúrat mánuður eftir! Tveir þriðju búnir, og maður er næstum kominn heim aftur. Það verður gott að koma heim þótt ég viti líka að ég eigi eftir að sakna San Francisco, þetta er frábær borg.

Við hér í Area 51 (eins og við köllum íbúðina okkar) héldum partý síðasta laugardag. Við buðum öllum NoMA-lingunum að sjálfsögðu, og slatta af fólki sem við höfum kynnst hérna í SF. Þetta varð hörku partý og mikil gleði. Hún var meira að segja aðeins of mikil, og það lýsti sér í töluvert minni gleði daginn eftir. En maður var nú ekki lengi að komast yfir það.

Fólkið fer að týnast heim næstu vikurnar. Paw og Rasmus, dönsku sambýlingarnir okkar, fara fyrstir manna núna á fimmtudaginn. Svo fara Íslendingarnir að fara einn af öðrum, en við sem ætlum á ráðstefnuna í lok apríl förum síðust heim. Biggi ætlar að kíkja í heimsókn í apríl og því ætla ég lítið að vinna yfir páskana þegar hann verður í heimsókn. Það er líka allt í lagi því tæknilega séð er starfsnámið að enda núna í mars. Það verður gaman að rifja upp túrista-taktana okkar Bigga frá því í heimsreisunni fyrir tveimur árum. Vá það eru heil tvö ár síðan. Mikið líður tíminn hratt.

"Til hamingju Ósk með að hafa unnið keppnina í brúarsmíði!" Ég er rosalega stoltur af kærustunni minni. Hún og Máni vinur hennar rústuðu keppninni og kennararnir höfðu aldrei séð svona háan stuðul, þ.e. að svona létt brú hafi þolað svona mikinn þunga. Ekkert smá gaman að eiga svona klára kærustu. ;)

En já allt gott að frétta. Leiðinlegt veður samt. Kuldinn fór, en við tók rigning. Hvað á það að þýða að skella á okkur leiðinlegasta vetri í manna minnum? Við erum í Californiu, það á að vera sól og hiti alla daga. Það er eins gott að apríl verði skárri svo maður hafi nú eitthvað til að monta sig af. :) En nóg af mér, hvað segið þið gott?
Maggi.
blog comments powered by Disqus