Heilinn okkar vinnur merkilega vinnu. Hann heldur utan um það sem við skynjum með öllum okkar mögnuðu skilningarvitum, hann geymir minningar okkar, hann stjórnar líkama okkar, hann geymir persónuleika okkar. Hann er okkur allt.
Mér finnst áhugavert að velta því fyrir mér að ég upplifi heiminn á minn hátt og mun alltaf gera það. Enginn mun nokkurntíman sjá eins og ég sé, hugsa eins og ég hugsa, vera eins og ég er. Á sama hátt mun ég aldrei upplifa heiminn sem nokkur annar. Ég mun aldrei nokkurntíman vita hvernig þér líður. Ég mun aldrei skynja neitt með öðrum skilningarvitum nema mínum eigin.
Heimurinn eins og hann leggur sig, er inní hausnum á mér. Heilinn minn er eina tenging mín við umheiminn. Fyrir mér er það sem ég sé/upplifi/hugsa o.s.frv. það eina sem er til og mun nokkurtíman vera til. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á þetta nema kannski með hástöfum, það er EKKERT í heiminum nema mín hugsun.
Við fæðumst ein og við deyjum ein. Ætli það sé þetta sem er átt við þegar fólk segir það? Þetta eru kannski frekar einmannalegar pælingar hjá mér. Máski spruttu þær útfrá því að ég hef verið meira einn undanfarið en ég hef áður vanist. Ég er félagsvera og elska að vera innan um fólk, og nú bý ég einn í fyrsta sinn í lífi mínu. Ég er ekki einmanna og ég nýt þess að vera til, en maður fer að hugsa um allskonar undarlega hluti ef maður hefur ekki annað fólk nálægt sér.
***
Önnur stutt pæling í lokin. Ég hef verið að spila póker á netinu og stundum koma upp svekkjandi aðstæður. Ég hef vanið mig á að hugsa að ég stjórna því ekki hvað hinir gera og ég stjórna því ekki hvaða spil koma upp. Það þýðir því ekkert að svekkja sig á þeim hlutum leiksins. Það eina sem ég stjórna er það sem ég geri sjálfur og auðvitað geri ég mitt besta og reyni svo að læra af mistökum mínum.
Þú sérð kannski hvert ég er að fara með þetta. Þetta á ekki bara við um póker á netinu, heldur á þetta við um allt. Maður stjórnar því sem maður gerir (ef þá það, ekki samkvæmt "Ástæðum alls" sem ég skrifaði hér um árið en það er önnur saga) og því þýðir ekki að svekkja sig á utanaðkomandi aðstæðum. Auðvitað hefur maður áhrif á umhverfi sitt upp að vissu marki, en það er svo margt sem við einfaldlega ráðum ekkert um. Við þurfum bara að taka því sem kemur. Þetta er svipað og ég minntist á í færslunni um daginn, ömurlegur dagur. Við stjórnum ekki veðrinu og það ætti ekki að stjórna okkur. Við ættum ekki að láta allt það neikvæða sem gerist stjórna okkur á neinn hátt. Við eigum bara að taka hlutunum eins og þeir eru, lifa í núinu og hugsa ekki of mikið.
Ef þig langar að losna við hugsanirnar þínar í smá stund, lokaðu augunum og hugsaðu: Hver ætli næsta hugsun mín verði? Reyndu svo að hugsa um það (s.s. um ekkert) eins lengi og þú getur. :)
Maggi.
Halló heimur!
Fyrir 2 árum