***
Það styttist í skólalok hjá mér! Ég tek eitt próf nú í bláendann á janúar og svo er ég hættur að mennta mig í bili. Það er skrítin tilhugsun og líka sú staðreynd að ég veit ekkert hvað tekur við. Einhvern veginn er ég samt orðinn vanur þeirri tilhugsun að vita afskaplega lítið hvað er framundan og því tek ég þessu öllu saman bara með stóískri ró. Kannski flyt ég til Íslands fljótlega og kannski verð ég aðeins lengur í Danaveldi. Kemur í ljós.
Ég átti frábært og viðburðaríkt jólafrí. Mig langar að telja upp eitthvað af því sem ég gerði eins og ég gerði í lok sumars. Á rúmum þremur vikum í jólafríinu mínu: fór ég á ferna tónleika, þar af þrjá þar sem ég þekkti flytjendurna. Tveir af þeim voru með klassískri tónlist og tveir örlítið poppaðri. Ég fór á tvenn litlujól með vinahópum mínum. Ég hélt gleðileg jól með fjölskyldunni með öllum tilheyrandi hefðunum og fór í jólaboð. Ég fór í frábæra skíðaferð með vinunum til Akureyrar og átti þar líka góðar stundir með fjölskyldunni minni þar. Ég hélt auðvitað uppá áramót og átti magnað ógleymanlegt móment sem slúttaði árinu á fullkominn hátt. Ég djammaði með vinum mínum oftar en einu sinni og oftar en þrisvar, þar á meðal á pub quiz á fimmtudögum, í gamlárs- og nýárspartýjum, á öðrum í jólum og aðra daga sem voru fallnir til þess í þremur mismunandi bæjum og borgum. Ég eyddi tíma með systrum, frænkum og frændum. Fór í bíó, fór í sund, hélt pókerkvöld, og eflaust sitthvað fleira sem ég er að gleyma. Þannig að það má sjá að ég sat ekki auðum höndum!
Annað má segja um janúar þar sem það eina sem ég hef fyrir stafni er að horfa á handboltann og undirbúa prófið mitt. Febrúar verður eflaust viðburðaríkari þar sem ég verð staddur á Íslandi mestallan mánuðinn.
Áfram Ísland! :D
Magnús.
